<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, janúar 30, 2004

Að klikka á Hannesi 

Ég tók snemma þá ákvörðun að standa í markinu í handboltanum og þar sem ég er nú alinn upp í Hafnarfirði var maður nótt sem nýtan dag í þessu frá barnæsku. Þeir völdu mig síðan í landsliðið rétt rúmlega tvítugan og þar hef ég verið síðan. Í 21 ár og rúmlega helming þess tíma sem aðalgaurinn. Auðvitað er ég búinn að spila á Spáni og í Þýskalandi megnið af ferlinum og nokkrum sinnum orðið meistari en aldrei náð lengra en í 2. eða 3. sæti á þessum stórmótum með landsliðinu.

Ástæða þess að við strákarnir féllum úr keppni svona snemma að þessu sinni var sú að mótið er haldið á miðri leiktíð og ef við hefðum farið í undanúrslit hefði ekki fengist neitt frí út úr þessu. Þetta var gert svona núna en næst eru það Ólympíuleikarnir og þá verður nú fínt að dandalast í sólinni í Aþenu, vera laus við familíuna og fullt af flottum stelpum til að kíkja á. Æ, svona er þetta bara.

NOT

Annars sá ég Sigfús í hádeginu - minnti meira á bílapartasala en atvinnulínumann (ég hef nú verið atvinnulínumaður líka - raflínumaður en ekki í Wichita). Kannski var hann að fara í foreldraviðtal sem hann hefði misst af væru piltarnir enn með í Slóveníu? Minn handboltaáhugi náði hámarki við 9-10 ára aldurinn þegar ég náði því markmiði mínu að koma við Geir Hallsteinsson þar sem hann var að mæta til leiks á utanhússmót í Austurbæjarskólaportinu.

Það væri gaman að kýla á þá hugmynd mína að koma á fót spurningakeppni gamalla handboltamanna og sýna í sjónvarpi. Menn eru dálítið að verða uppiskroppa með hugmyndir um eitthvað nýtt og IDOL er náttúrulega out, og hvern langar til að sjá Survivor XVI. Það er ég viss um að þjóðin fagnaði því að sjá þessa gömlu riffla spreyta sig í harðri fróðleikskeppni. Svo kæmu alls konar spin-off eins og keppni milli íþróttagreina. Landskeppni jafnvel, t.d. við Svía: Sjá menn fyrir sér Wislander, Faxa og Per Carlén gegn Alfreð, Kristjáni og Árna Indriða! Gestadómari gæti verið norska fitubollan Öyvind Bolnæs eða Sixten úr Kontrapunkti.

Menn eru svolítið að hamra járnið á Skjá I núna með Popppunktinn enda nýtur þátturinn mikilla vinsælda hjá mér. Borðspil í uppsiglingu og allt. Þarna gefst alls kyns náungum færi á að sýna á sér nýjar hliðar eða ekki. Verst að maður er nánast í útjaðri þess að geta verið liðtækur í þetta vegna aldurs! Samt - þótt ég þekki fátt sem er yngra en tíu ára er restin frekar traust.

Annars fór ég í spurningakeppni í Sjónvarpinu þegar ég var 11 ára. Mjög eftirminnilegt enda var farið á hamborgarastað í Glæsibæ (uppi) og þátttakendur spændu í sig hamborgara og frönskar á kostnað skólans. Alger nýlunda og gott ef þetta var ekki mín fyrsta skyndibitareynsla. Annar stjórnandi þáttarins var enginn annar en pabbi sjálfs Sveppa. Og við komumst áfram (önnur ferð - engir borgarar) en töpuðum í 8 liða úrslitum fyrir helberan klaufaskap. Djö. Ég klikkaði á fyrsta þjóðleikhússtjóra - ofmat spurninguna - og klikkaði svo á Hannesi. Sagði að Blessuð sólin elskar allt væri eftir Jónas! Merde. Þetta varð mér slíkt áfall að síðan hef ég ekki gefið kost á mér í spurningakeppni þótt sófafróður sé með afbrigðum.

Hins vegar mun ég ekki skorast undan þegar Popppunktur verður með þáttinn þar sem handbókahöfundar mæta forriturum í 11. röð syrpunnar - Andstæðingar mætast!

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Álitsgjafar 

Nei, nei ekki þessir í sjónvarpinu og blöðunum. Allir búnir að fá nóg af þeim.

Það er fólkið sem maður treystir fyrir að gefa sér góð ráð um sitthvað sem stendur manni of nærri eða það sem maður veit ekkert um. Reyndar bið ég helst ekki um góð ráð né leita aðstoðar annarra, enda tréhestur að eðlisfari. Þó er þetta heldur að skána í seinni tíð enda enn verið að ala mann upp.

Tengdapabba er afar margt til lista lagt og má krefja hann álits og fá aðstoð um nánast hvaðeina enda óvenju eðlisgreindur náungi. Hann var gerður út af örkinni til að skoða bíl sem mér leist sultuvel á að mörgu leyti en karlinn var snöggur að finna veikleika og notaði þá tóneyrað fyrst og fremst. Merkilegt nokk held ég að hann geti sameinað þetta tóneyra til að hlusta á, meta, stjórna og semja hefðbundna tónlist jafnt sem þá sem bílvél gefur frá sér. "Tja, það var í honum stimplahljóð," var úrskurðurinn og ekki meira um það að segja, en þetta fékk hann samt staðfest á einhverju verkstæði. Hefði bíllinn verið kór hefði karlinn e.t.v. sagt: "Einhver óhreinindi í sópraninum og vantaði alla dýnamík," og þá engin ástæða til að kaupa kórinn.

Svo færði sáli mér niðurstöður sérfræðimats á Snillingnum (5) sem sett var af stað til þess að athuga hvort ástæða væri til að gera ráðstafanir varðandi skólagöngu. Einhver fimm mismunandi matsgögn lögð til grundvallar, þar af þrjú mism. próf lögð fyrir drenginn og tveir spurningalistar sem við foreldrar og leikskóli fylltum út. Þetta kom engan veginn á óvart utan hvað verkleg greind kom betur út en sú munnlega og svo á hann að hafa lesið öll orðin á einhverju verkefnablaði. Ekki les nú kauði mikið heima hjá sér!

En þetta með verklega greind. Erfðir eru undarlegar, segi ekki meir. Það er reyndar ljóst að allt frá upphafi hefur hann haft áhuga á og gaman af alls kyns framkvæmdum, viðgerðum, smíðum og ekki má koma inn á heimilið IKEA mubla án þess að hann stjórni samsetningunni. Æ, hvað er svo sem að marka þetta?

Gleymum ekki að 12 ára gamall fékk ég einstakt hrós frá Kristjáni í Laxholti fyrir frábæra þekkingu á fjármörkum þegar ég dró fyrir hann hverja kindina á fætur annarri í Svignaskarðsrétt. Auðvitað voru þetta allt hyrndar ær með Laxholt kyrfilega brennimerkt í hornin. Svo dáðust karlarnir í áhaldahúsinu eilíflega að mér fyrir að halda sláttuvélum Borgarness gangandi þau sumur sem ég sló pleisið en ekki veit ég hvernig ég fór að því.

Hvað á maður svo að gera við mann sem er andlega og líkamlega tilbúinn í grunnskólaslaginn? Á annarri öxlinni situr einhver sem segir að maður eigi að leyfa honum að vera lítill gaur eins lengi og hægt er, en á hinni situr sá sem biður mann að leyfa honum að takast á við verkefni sem hæfa getu og þroska - annað væri beinlínis bremsa. Svo er hann janúarbarn og það skiptir máli. Vitanlega fær maður engu að ráða sem skitið foreldri, og almennt tekur víst kerfið ekki vel í flýtingu. Þetta kemur í ljós, en a.m.k. fékk ég staðfest að nafnbótin sem ég kaus að veita honum á þessum vettvangi er ekki út í loftið.

Nú er ég að lesa feikilega áhugaverða bók um Glenn Gould, einn af þessum furðufuglum tónlistarinnar. Vissuð þið til dæmis að hann varð fyrir því sem unglingur að þjónustustúlkan fór skyndilega að ryksuga með tilheyrandi hávaða þar sem hann sat og æfði sig á píanóið. Þar með heyrði hann ekki lengur hvað hann var að spila og varð að búa sér til innri heyrn og eftir þetta snerist öll hans spilamennska um að láta tónlistina sem fingurnir bjuggu til elta þá tónlist sem heilinn heyrði. Svo sagði hann að Mozart hefði getað verið ágætur ef hann bara hefði dáið yngri... Sannur Bach maður.

Raunar er Kanada um margt vanmetin og ekki alltaf að maður veit að þessi eða hin stjarnan er ekki Kani heldur Kanadamaður og á þessu tvennu er reginmunur sem kemur á óvart. Kíkið á fræga Kanadamenn hér.

mánudagur, janúar 26, 2004

Pólitík 

Stundum veltir maður fyrir sér hvort ævin endist til að verða vitni að einhverjum þeim ósköpum sem munu henda á þessum 3% landsins sem framkvæmdir við Kárahnúka snerta á einn eða annan hátt. Samkvæmt verndarsinnum eru ýmsir möguleikar - ég sagði oft við túristana mína að við hér uppi værum vel birg af náttúruhamfaramöguleikum sem gjarna líta verr út en þeir eru í raun gagnvart mannfólkinu. Sjálfsagt væri ég búinn að skipta út orðinu og setja inn mannskepnuskapsmöguleika - örugglega hægt að búa til eitthvað skemmtilegt þýskt orð um svoleiðis.

Auðvitað er búið að segja og skrifa allt um þessar framkvæmdir, með og á móti, en samt. Það er ennþá jafnótrúlegt að hugsa til þess að meirihlutinn vilji þetta. Alltaf eitthvað sem minnir mann reglulega á firringuna - nú seinast einhver módelmynd af sjálfu Álverinu í Mogganum og síðan tók ég nýjustu bók Guðmundar Ólafssonar á safninu um daginn.

Svo fara menn austur og lýsa fjálglega hrifningu sinni á framkvæmdunum. Það finnst mér ekki viðeigandi. Þetta eru sár og það vita allir og viðurkenna flestir - menn ættu helst að sleppa slíkum ferðum eða láta sér að öðrum kosti nægja að vitna í nútímaþjóðskáldin þegar blöðin biðja um tilvitnum - gæti verið texti eftir Sigurrós til dæmis.

Einu sinni tók ég að mér verkefni fyrir tilvonandi forsætisráðherra. Dagsferð eftir endilangri Suðurströnd með utanríkisráðuneytisfólk af Norðurlöndum með áningu í Vík og stuttum stans á helstu túristastöðum (utan Skaftafells). Fólkið var á leið á árlegan samráðsfund sem halda átti á Höfn - flestir Íslendingarnir flugu austur. Þetta var fín ferð og laun ekki skv. taxta leiðsögumanna, og á bakaleið um kvöldið var ég eini farþeginn í bílnum. Það tók Jóhannes fimm tíma slétta að bruna leiðina Höfn - Rauðarárstígur.

En hvað dró fólkið til Hafnar í Hornafirði? Var ráðuneytið e.t.v. búið að vera áður á helstu ráðstefnuhótelum víðs vegar um landið eða er eitthvað sérnorrænt og utanríkis við Höfn? Hver er frá Höfn? Æ, nú man ég.

Það er náunginn sem fannst heimsviðburður að finna ryðhrúgu í sandinum. Maður hélt fyrst að Het Wapen van Amsterdam væri loksins komið í leitirnar, slík voru lætin. Nú vill hann ekkert tjá sig um yfirlýsingar um að sennilega hafi aldrei verið gereyðingarvopn í Írak.

Verður hann orðinn forsætisráðherra þegar forseti Bandaríkjanna sver eið sinn í haust? Man ekki, veit ekki. Pólitíkin er komin af stað í USA og ég er nú vanur að velja mér einhvern til að halda með. Ekki held ég með Bush. Kannski Kerry, en það munar svo litlu að hann sér Kennedy nafnsins vegna að hann verður líklega annað hvort myrtur eða lendir í hneyksli áður en í hart fer. Það er nú eins og Hannesar þeirra repúblikana hafi þegar verið sendir á braut - a.m.k. ber fjarska lítið á Rumsfeld og Wolfowitz.

Annars átti þessi færsla að vera um vörumerki. Maður er búinn að skoða dálítið á útsölum og versla eilítið. Það fer að koma tími á endurnýjun aðalfjölskyldubíls og svona, og þá fer maður að hugsa um hvað hefur reynst vel gegnum tíðina af þessum varningi sem maður notar í hvunndeginum.

Mamma notar ennþá fyrstu tölvuna sem ég fékk mér fyrir 13 árum og ekki er hún búin að fara í viðgerð - tölva 2 er í fullkomnu lagi og notuð sem barnaleikjatölva. Hvort tveggja Mac... Auðvitað á maður að koma sér upp safni af nytjahlutum, vönduðum og vel hönnuðum. Það bara rímar ekki alltaf við efnahaginn eða hugsunina. Og svo eru góðu merkin einkar misjöfn. Porsche-inn minn er t.d. fínn, BMW-inn var hundleiðinlegur, SAAB-inn var ljómandi og líka Toyotan. Verst að sá fyrstnefndi er bara myndavél og þar að auki er bara útlitið á ábyrgð Porsche. Ég grét daginn sem Puma Maradona Hero fótboltaskórnir þurftu að fara í ruslið. Allir aðrir fótboltaskór lífs míns blikna í samanburðinum.

Þeir fengust á útsölu - merkilegt nokk. Vörulistaútsölu, eins og frábæru ítölsku jakkafötin mín, góðu Versace gallabuxurnar. Það einhvern veginn borgar sig að fara á útsölu með því hugarfari að vilja borga venjulegt verð sem er útsöluverð gæðavarningsins. Hver kannast ekki við að eiga/hafa átt flíkur eða djönk sem var svo assgoti billegt á útsölunni en lenti síðan beint uppi í hillu þegar heim kom og var þar meira og minna þar til því var hent. Hey - nú á ég þó peisu úr fatalínu Michael Schumacher - og geri aðrir formúlufjendur betur.

Heyrðu - hvíti hnífurinn er fundinn. Við höfðum af því áhyggjur um tíma hvað hefði orðið af aðaleldhúshníf heimilisins og -skærum. Hvort tveggja hvarf +/- jól sl. Skærin voru í skúffunni þar sem þau áttu að vera og hnífinn fann ég í frystikistunni í kvöld er ég tók þar skurk með ísöxinni og notaði tækifærið til að fara gegnum kjúklinga-/franskra-/fisk-/beyglu-/brauð-/ís-/ og ketsafnið. Alltaf gott að finna hnífa og búa til páss í kistunni... en í millitíðinni vorum við svosem búin að eignast miklu betri verkfæri þannig að ekki var til einskis týnt.

fimmtudagur, janúar 22, 2004

Knút og Jarl vantar miðvörð 

Gleymdi að segja að félagar mínir gamlir frá í Noregi óska eftir traustum varnarmanni til að leika með sér á komandi tíð. Þeir bjóða vinnu + húsnæði + fé til handa vænum fótboltadreng sem getur tæklað og skallað og tuddað frá marsbyrjun til október. Sendið umsóknir á BIRD.

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Organistar fá uppreisn æru 

Menn býsnast gjarna yfir málnotkun íþróttafréttamanna og ég líka. Fáa eiga þeir sína líka þegar kemur að klisjum og tískuorðum, einna helst að sérfræðingarnir sem stundum eru settir þeim við hlið nái sömu hæðum. Gaui Þórðar náði til dæmis að svipta heila kynslóð slíkra manna essinu í athyglisvert - hjá honum var allt athyglivert. Málfar íþróttaspekinga er raunar heilmikil stúdía og gerðar út síður erlendis sem fjalla um það.

Því nefni ég þetta nú að um daginn náði Gaupi að gleðja organistasoninn með því að nota frasann: "Hann hefur ekki stigið feilnótu í leiknum!" Menn gleyma því gjarna að alvöruorganistar þurfa að nota bífurnar heilmikið og mega ekki stíga feilnótur þegar á hólminn er komið. Vel til fundið að muna eftir organistum allra landa og blanda þeim inn í lýsinguna á þennan hógværa hátt.

Ég hafði af því dálitlar áhyggjur hvernig færi með afmælisveislu Snillingsins (5) nú um helgina. Afmælisgestir voru 12 en auðvitað komu fullorðnir með eins og gengur en þegar fólk er á þessu reki verður stundum að hafa mömmu með. Það sem ég óttaðist dálítið var plássleysi en allt leystist þetta vel og bláa Sprætið sem ég keypti óvart var vinsælasti drykkurinn og pizzurnar gerðu það einnig gott. Þegar allt kom til alls var þetta fín veisla en eins og venjulega gerðist það óvænta að skyndilega voru börnin sem eftir voru öll komin í leik inni í svefnherbergi sem átti einmitt að vera stikkfrí í partíinu. Aðeins tveir fóru að grenja, ein spýta brotnaði í kojunni (sú þríbrotna), enginn pissaði í brækurnar að þessu sinni og engin afmælisgjafanna varð ónýt áður en veislan var búin.

Fótboltavallarkakan sem afmælisbarnið óskaði sér í ár tókst betur en Spædermann frá fyrra ári - takk Betty - en mér fannst fyndið að einn gestanna tók ekki annað í mál en að fá að éta markmanninn. Ég snæddi hins vegar dómarann en Undrið (1) komst í varamannabekkinn og tróð upp í sig öllum varamönnum beggja liða. Þær krásir sem ég bar ekki ábyrgð á voru einnig hörkugóðar enda setti hvítlaukur mark sitt á þær að vissu leyti - þó ekki rjómamarenstertuna.

En þetta með pizzurnar. Í fyrsta sinn keypti ég tilbúið deig (frosið) og ætlaði að lýsa á það frati þegar illa gekk að fletja út. Hér er of lágt til lofts eða ég of hár til að stunda deigkast. Svo fékk ég ábendingu um að búa til minni einingar og gekk þá smjörvel. Einn gestanna fékk að taka með sér sneiðar heim handa stóra bróður og sjálfum sér og var það á við fjórar stjörnur (ekki Moggastjörnur) í kladdann. Deigið stóð fyrir sínu en hvers vegna get ég ekki búið til deig sem helst mjúkt (líka svonefnd skorpa) framyfir bakstur og neyslu? Svarið því. Er það hveitið, gerið, uppskriftin (nei)? Töfralausn óskast.

Hálfpartinn var ég að láta mig dreyma um að snjóhúsið góða sem útbúið var deginum fyrir veisluna yrði notað að einhverju leyti en vitanlega er svoleiðis ekki praktískt. Þetta var fyrsta snjóhús okkar feðga en nýttist ekki sem skyldi til íveru enda ekki tilgangurinn. Nú er hún feðgabúð bráðnuð og hugsanlega viðrar ekkert aftur til slíkra framkvæmda fyrr en næsta vetur.

Jú, maður er kominn í vorhug. Fyrst í dag varð ég var við lengingu dagsins á leið minni í Fjörðinn eftir vinnu. Bjart framyfir fimm! Sænska kvikindið sýndi ekki sínar bestu hliðar þegar ég söng vorlögin á leið minni suðureftir - hikstaði og gekk helst ekki nema með bensínið í botni og stundum ekki. Sá ég þá þann kost vænstan að fara á Bókasafnið og skilja kauða eftir í brekku langt frá. Það dugði og nú er hann ljúfur sem lamb á færibandi.

Ekki seinna vænna að fara að sá fyrir sumarblómum, ha! Taka til í gróðurhúsinu að minnsta kosti.


miðvikudagur, janúar 14, 2004

Bach 

Stundum velti ég fyrir mér hvað svona karlar eins og Bach væru að gera ef þeir væru uppi nú á tímum. Hann væri sennilega ekki í músík karlinn og maður getur prísað sig sælan yfir því að hann var uppi á réttum tíma og skilaði sínu.

Ég get svo sem einnig verið sáttur yfir því að Anna Magdalena var sú bók sem píanókennarinn minn lét mig spila hvað mest þegar á heildina er litið. Bach hefur verið vinur minn svo lengi sem ég man og enn þann dag í dag verður maður allt í einu barn þegar eitthvert löngu grafið Bach verk rekur á fjörurnar og snögglega rifjast upp að pabbi átti til að spila þetta í kirkjunni eða bara heima.

Bach fylgdi mér gegnum eymdarár menntaskólans á nótum og kassettum. Hann kom í brúðkaupið mitt og oft hef ég leitaði ég til karlsins í öngum mínum áður fyrr. Kannski skildi ég fyrst hvað hann er ótrúlegur þegar ég var með í Mattheusarpassíunni forðum.

Nú er semsagt veisla í aðsigi - Kantata BWV 4 æfð og flutt á næstu vikum og mánuðum. Eftir kóræfingu gærkvöldsins óttast ég helst að þetta gangi of vel og líði of fljótt. En Bach er með sérherbergi í heilanum og þar er enn pláss.

Svo fær maður líka að syngja á hebresku í fyrsta sinn á ævinni.

Getrauninni lauk í bili án þess að rétt svar bærist. Myndin var af Búðakirkju á Snæfellsnesi en nú er lokið prufutíma mínum á fv. myndþjóni og sá nýi býður ekki upp á svona tengingar á meðan maður er reynsluáskrifandi. Myndina má sjá með því að smella á Myndir/mínar hér til hægri og fara í experiments.

Svo fann ég spennandi stað í dag þar sem ég fæ e.t.v. útrás fyrir eitthvað af myndvinnsluáráttunni.

þriðjudagur, janúar 13, 2004

Íþróttatöskur 

Já, þær hafa komið og farið blessaðar og eru miseftirminnilegar. Þá fyrstu sem ekki var heimasaumaður léreftspoki eignaðist ég í Sportvöruverzlun Ingólfs Óskarssonar, fagra plasttuðru merkta Newcastle United.

Undanfarna tvo áratugi hef ég notast við töskur sem mér hafa áskotnast vegna íþrótta aðallega og eru margar enn á lífi, þótt flestar geymi nú barnaföt, gamla skó eða jafnvel golfkúlur. Ég á ein 22 kíló af golfkúlum og það er sama hvað ég reyni að týna þessu, alltaf skal ég tína aðrar í staðinn og þá fleiri en ég týni.

Ein merkasta taskan hefur lengi verið verkfærahirsla - nefnilega taskan sú sem FH lét mér í té 1989 vendilega merkta klúbbnum. Sá var galli á gjöf Njarðar að félagsmerkin voru illa límd á og þegar þau fljótlega duttu af kom í ljós áletrunin Lukkutríó og þótti þá klént, en er lýsandi dæmi um viðskiptasnilld Hensons sem menn gjarna rifja upp á góðum stundum.

Það eru að verða 20 ár síðan ég var vetrarmaður hjá RARIK og skilaði sú vist ýmsu mismerkilegu. Þarna unnu náttúrulega hörkutól upp til hópa sem fundu á öllu lausnir, en voru jafnframt almestu ljúflingar sem ég hef umgengist. Þó er mér minnisstæðast hvílíkir matmenn þetta voru. Meðan aðrir sem höfðu möguleika á dagpeningum nærðust einkum á pakkasúpuglundri og þvílíku var fyrsta hugsunin þegar verkefni dagsins lá fyrir hvar hægt væri að borða VEL.

Umdæminu var skipt upp eftir veitingastöðum, bóndabæjum og vinnuflokkum þar sem hægt var að fá keyptan almennilegan mat. Oft var unnið á nóttunni eða uppi á fjöllum en þá var nánast alltaf séð til þess að fengnir væru matarbakkar frá Hótelinu. Ekki voru þó félagar mínir að dröslast með aukakíló utan á sér. En dagpeningar - nei takk!

Maður vann yfirleitt mest í vitlausu veðri eða rétt að því loknu. Man ég eina 27 tíma törn eftir ísingaráhlaup nærri Bláfeldi í Staðarsveit þegar 12 stæður löskuðust. Við snæddum á Búðum að þessu loknu og var það í eina skiptið á ævinni sem mér hefur þótt sjávarréttasúpa hnossgæti. Ætli Rúnar hafi eldað hana?

Svo klúðraði ég öxlunum að einhverju leyti á þessari vinnu - mikið unnið uppfyrir sig gjarna með þungum verkfærum og oft klifur upp í staura með þverslár eða vír.

Svo fékk maður ágæt föt og ég bý enn að þessum 20 ára vetrargalla og kuldaskóm með stáltá.

Af einhverjum ástæðum fékk ég einnig öflugan útivistarfatnað og, jú, ágæta íþróttatösku þegar ég gerðist almannavarnarfulltrúi í Hafnarfirði fyrir 10 árum. Þetta er enn í fullri notkun alltsaman og Stekkjarstaur hefur gjarna kombinerað RARIK skó og Rauðakrossbrækur í hinu mjög svo sannfærandi gervi sínu. Þegar hann gefur út minningabrot sín síðarmeir mun þetta einmitt verða titillinn: RARIK skór og Rauðakrossbrækur.

Hlutverki mínu sem almannavarnafulltrúa er lokið - ég átti að opna skólann minn fyrir nauðstöddum Suðurnesjabúum í skólanum mínum, eftir eldgosið á Reykjanesskaga, og veita þeim hjartahlýju og djús til að byrja með. Sennilega var loforðið um fatnaðarbitlinga og tösku helber beita til að lokka menn á almannavarnafulltrúanámskeiðið. Ekki var haldið almannavarnafulltrúaframhaldsnámskeið.

En íþróttataskan já. Það er nefnilega kostuleg lýsing í Mogga í gær á eftirminnilegri ökuferð sem endaði með því að stúlkubarn eitt spýttist út úr móður sinni og beint oní íþróttatösku og það í bíl á Bústaðaveginum. "Þetta byrjaði bara hérna heima. Við vorum að horfa á Idol-ið þegar ég fæ rosalega verki... [hver kannast ekki við þessi áhrif Idol-sins] ...og við hringjum strax uppá spítala..." osfrv.

Barnið var síðan nefnt Karitas Dís sem er enn eitt dæmið um undarlega samsetningu hljóða í mannanöfnum. Sumir virðast ekki nenna að prófa að segja fyrirhuguð nöfn upphátt áður en teningnum er kastað.

Vísbending I: Kirkjan er byggð 1848 og endurnýjuð 1951. (Getraun lokið og svar í næstu færslu.)

laugardagur, janúar 10, 2004

Skýringin komin 

Og hvers vegna var svona fámennt hjá tengda á gamlárs? Síminn var bilaður í símstöð og tugir manna hættu við að láta sjá sig þar sem enginn svaraði. Þetta hlaut að vera. Menn í mínum gamla kunningjahópi eru enn að minnast fornra áramóta í tengdaranni - laglausir öðluðust tóneyra, grænmetisætur gæddu sér á heitri lifrarkæfu og ég veit ekki hvað á að hafa gerst.

Stundum gleymi ég því sem ég ætla að fjalla um. Sumu eflaust um eilífð en annað dúkkar upp í kollinum reglulega.

Eitt. Mér finnst ósmekklegt að heyra auglýsingar þar sem löngu látnir menn eru að bjóða mann velkominn ja, t.d. á Lækjarbrekku, eða spyrja hvort maður trúi á álfasögur. Ógleymanlegar raddir vissulega en virkar svona líka illa á mig.

Svo heyrði ég viðtal við Doddsson í vikunni þar sem Ingvi Hrafn nefbrúnn að vanda hrósaði viðmælandanum og Hannesi í hástert. Nú er ég á því að einhver félagsmálfræðingur ætti að rannsaka málnotkun leiðtogans mikla og bendi ég sérstaklega á notkun hans á "sá ágæti maður." Sá sem fær þann stimpil er samkvæmt minni kenningu óalandi og jafnvel mesti götustrákur í augum foringjans og merkir í raun: "sá helvítis asni." Takið eftir þessu næst.

Og alltaf kann ég vel við foreldra með nettan húmor. Sá nefnilega viðtal við mann nýlega og hét sá Einar H. Valsson, amk var seinni hluti nafnsins þessi. Því miður var hann ekki sérfræðingur hjá Hafró heldur þyrluflugmaður eða eitthvað álíka. Alltaf gaman þegar menn velja sér starfssvið eftir eigin nafni, sbr. Loga Eldon arinsmið, Sigurjón Bláfeld loðdýraráðunaut, og Vörð Traustason fv. löggu og núverandi forst.mann Hvítasunnusafnaðarins.

Afruglaður var ég um skeið yfir hátíðarnar og svo sem glaður líka. Fjölvarp og allt. Ekki varð þetta til þess að fjölskyldan sæti stjörf við varpið en Snillingurinn (4) var fljótur að læra hvar teiknimyndirnar voru sýndar. Svo safnaðist efni á einar þrjár spólur til viðbótar við þær 43 sem bíða þess að á þær verði horft. Þarna eru rómaðar myndir á borð við Pulp Fiction, Gladiator, Brother where art thou og 101 R., sem ég hef aldrei nennt að kíkja á, en svo hafna Blues Brothers og Midt om natten hins vegar reglulega í tækinu! Skrýtið.

Nú er maður kominn með DVD og þá verður gaman að rúlla gegnum safn svila og mágs eða hvað. Þeir eiga sitt af hverju og m.a. LOTR 1 & 2 í viðhafnarútgáfu en ég á nú eftir að sjá mig nenna að horfa á það. Brotin sem ég hef séð úr þeim hvetja ekki beinlínis til dáða. En fólk talar sig hást um þetta. Þessi spilari gagnast mér amk að því leyti að hann spilar heimaskrifaða músíkdiska sem fermingarsamstæðan er farin að hafna.

Annars er ég í Photoshopham þessa dagana og í þann mund að skipta um myndþjón fyrir netið. Vonandi get ég birt einhvern afrakstur tilrauna minna með myndvinnslu áður en langt um líður.

Getraunin er að þessu sinni ætluð þeim sem sjá mynd af kirkju efst í dálkinum hér til hægri eða bara hér að neðan. Hvaða kirkja er þetta? Nú er kirkjan farin.

þriðjudagur, janúar 06, 2004

Á heimavelli 

Eftir snjókomu, hláku og almennar umhleypingar undanfarið er mér skapi næst að taka aftur orð um unað þess að búa við götu sem hvorki er söltuð né rudd. Nú eru hér svellbunkar sem henda manni og farartækjum stjórnlaust hingað og þangað, og útséð með að nokkuð skáni um hríð.

Þetta var annars ágætt gamlárs og heldur rólegra hjá mínum en oftast áður. Pabbi sagðist meira að segja hafa sofið af sér áramótin og mín familía var komin í háttinn um hálf þrjú. Það var fámennt hjá tengda aldrei þessu vant og enginn gestagangur sem er fáheyrt. En maturinn var afbragð.

Það viðraði til harmonikkuleiks á gamlárs þrátt fyrir nokkurn kulda. Maður var freðinn á fingrum í blysförinni en þá vildi svo vel til að Gísli Eyjaflaututvíburi hafði tekið að sér undirspil á pikkolóflautuna sína og síðan hvarf hann þegar nálgaðist brennuna. Vonandi fór hann ekki í vitlausa átt... Nei, sennilega bara heim í sitt 44.5 milljón króna hús!

Ég hef safnast saman við þessa brennu síðan ´97-´98 og jafnan lent í svipuðum selskap með flokki söngelskra, jafnt þekktra sem óþekktra. RÚV var þarna á staðnum og birti frétt og sagði frá "dillandi harmonikkuleik" sem hefð við þessa brennu. Síðan komu myndir af liðinu, tengdapabbi kyrjandi "Kveikjum eld" og um leið og harmonikkan kom í mynd var klippt. (Kurr, kurr).

En þetta er falleg nikka þótt lítil sé. Skemmst er frá að segja að nú verður varla aftur snúið. Nú verð ég harmonikkuleikari Skerjafjarðar hvort sem mér líkar betur eða verr. Menn dáðust mjög að færni spilarans þótt hann væri yfirleitt bara dúndrandi hljómum eins og hver önnur vinnukona með gítar. Og maður saknaði bara ÞjóðminjaÞórs af fastagestunum. Ragnheiður Erla spurningakeppnisdómari birtist seint og um síðir og skammaði menn fyrir vankunnáttu í "Þegar hnígur húm að Þorra" en tók síðan treidmarkið sitt - öll 62 erindin í Ólafi Liljurós, en kvartaði síðan undan raddleysi eins og hver annar Ædolkeppandi.

Þá birtist Valgeir Stuðlausi skyndilega og tók undir með Thor og Gvendi Andra í góðri skátasyrpu - af einhverjum ástæðum var Thor alltaf dálítið á eftir hinum - en bestur var samt Baldur Kaldalónsfrændi þegar hann reif sig lausan og tók sænskt stúdentasóló. Og alltaf fylgdi dragspilið... Ekki varð ég var við nærveru ráðherra enda stóð ég lengst af oní djúpri holu meðan á fjöldasöng stóð. Þaðan neyddist ég til að færa mig þegar lá við að kviknaði í mér og hljóðfærinu þegar loks fór að loga í brennu.

Nú er hvunndagurinn kominn aftur og ákveðin sæld sem því fylgir. Að vísu var gærdagurinn heldur framkvæmdaglaður - sænska kvikindið loks komið á óleka barða, nýr skápur, hilla og ljós í híbýli Snillingsins (4) og undirskápsvinnuljós í eldhúsið. Spurning hvort þetta hreinlega toppar ekki allar framkvæmdir innanhúss á sl. ári.

Gleðilegt nýár annars og takk fyrir það gamla!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?