fimmtudagur, október 27, 2005
24.10.
að elda mat og sinna ungum.
Við komum seinna karlar saman
og klórum okkur í [ritskoðað].
þriðjudagur, október 25, 2005
Mannsins megin
Systkinin sýndu því virkan áhuga hvernig maður býr til bollur úr svona drasli sem kjötfars ku vera og Undrið fór líka í skápaskoðun og fann konfektmolaöskjur í pakka. Þar með var ekki aftur snúið með að lofa konfektgerð fyrir jólin og hlýt ég að efna það loforð þótt ég hafi aldrei staðið í slíku. Um sl. helgi fór ég gegnum þurrvöru- og dósaskáp heimilisins og henti flestöllum útrunnum vörum. Að þessu sinni var fannst ekkert sem rann út fyrir sl. aldamót og telst það nýjung. Við vörutalningu kom í ljós að eilítið þarf að fylla á lagerinn fyrir smákökuvertíðina sem fer í hönd.
Maður á sjálfur svo góðar minningar úr deigsmökkun og rúllun og öllu þessu nostri sem tilheyrir skammdeginu og fátt skemmtilegra en stússast í bakstri með ungunum. Ég hlakka til. Hér á bæ er lítið um hefðbundnar sortir en tilraunastarfsemi í hávegum höfð. Mrs. Fields er þó að verða sígild - linar súkkulaðibitakökur í amerískum stíl - en um þær sé ég ekki.
Í dag rakst ég á stúlkunafnið Kristel Nótt og tel víst að foreldrar stúlkunnar séu ekki sagnfræðingar, ja, nema barnið sé fætt 9. nóvember. Varla þó. Einu sinni þekkti ég þýska foreldra sem ætluðu að skíra barnið sitt Katja, en var bent á að hún hlyti þá fangamarkið KZ, sem í þeirra sögu stendur fyrir Konzentrationslager, fangabúðir nazistanna. Þau bættu snarlega inn millinafninu Marie. Þetta var fólk sem fætt var hátt í 30 árum eftir stríðslok.
Nýyrði
Svo er klárt að veðurguðirnir eru gyðjur, miðað við veðrið sem boðið var uppá í kvennafríi - fallegt veður en kalt.
Hvert á ég annars að fara til að sækja þessa tugi prósenta sem ég á inni í launamun frá því ég var karlkennari? Ég man þegar ég komst að því að 14 af 15 samkarlkennurum mínum á tilteknum vetri voru í einhvers konar aukavinnu - sá 15. kenndi óskaplega mikið. Ætli hann sé ekki líka sá eini okkar sem enn er við störf í gamla skólanum?
Það stefnir í bjartari tíma í sportinu. Í gær náði ég fyrstu æfingu frá í maí án þess að finna fyrir meiðslum að ráði.
mánudagur, október 24, 2005
Feginn
Sorrí Wolfgang!
Nú er liðin tíð að maður geti mikið sveigt hljóðlega framhjá hlutunum ef þeir eru í fjölmiðlum. Snillingur (6) heyrir, les og sér og spyr, og fylgist með auglýsingum líka. Hann sá til þess að við fórum út á flugvöll á þessa ömurlegu Latabæjarhátíð. Ég í svörtu gönguskónum, hálfskeggjaður, með Arnarhreiðurshúfuna svörtu, og í svörtu HellyHansen Microsoft úlpunni. Maður verður að vera svona andfélagslega útbúinn til að lifa af íslenska mannþröng þar sem málið er að troðast og frekjast og leggja bílnum einhvers staðar ólöglega. Þetta er jólainnkaupagallinn minn.
Fínt að vera stór og sterkur - ég náði þarna að loka fyrir útsýni a.m.k. 47 aðila fyrir aftan mig með því að troða mér nálægt sviðinu (sem var svo lágt að það var nánast niðurgrafið) og halda báðum börnunum hátt á lofti. Í þessari stöðu engdist ég alllengi undir skemmtiatriðinu Nælon. Svo þegar Strákarnir byrjuðu með samkeppni sjálfboðaliða sem fólst í að bora í annarra nef og maka hor á kinn... þá samdi ég við börnin um að fara út og hjóla heimleiðis. Þar með misstum við af Latabæjarfígúrunum á sviði og það var fínt.
Tónlistin í Latabæ, já. Hvílík hörmung. Af hverju þarf öll tónlist sem tengist íþróttum í sjónvarpi að vera svona vélræn og hörð. Takið eftir kynningarstefjum í Formúlu og öðrum íþróttaþáttum, næstum allsstaðar. Ég missti af kynningarstefi Sparks sem er keppinautur Latabæjar á föstudagskvöldum, en treysti því að það sé ljúft og huggulegt.
miðvikudagur, október 19, 2005
Frétt?
35 ára Lithái sem var ákærður fyrir að hafa smyglað um 250 grömmum af kókaíni til Íslands frá Kaupmannahöfn var í dag sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness.
Fram hefur komið í fjölmiðlum að maðurinn hefði verið handtekin með kókaín að andvirði 1,3 milljóna króna. Var efnið falið í skósóla mannsins. Maðurinn sagðist ekki hafa vitað af efninu í skóm sínum.
Dómurinn sýknaði manninn og er hann nú frjáls ferða sinna.
Litháinn ku hafa sagt við lögreglu að sér hefði verið lofað rúmum 10.000 kr., fyrir að flytja peninga í skónum til Íslands. Hann átti síðan að fara með féð upp í Grafarvog. Maðurinn hafði hinsvegar neitað öllum ásökunum þess efnis að hann hefði verið að flytja kókaín.
Þessu trúði dómstóllinn og grétu allir viðstaddir við uppkvaðningu dómsins.
Yeah, right!
þriðjudagur, október 18, 2005
Sveitapiltsins draumur
Moggi gærdagsins segir frá því að ungfótboltamenn landsins séu upp til hópa á leið til Norðurlanda til reynslu eftir frækilega frammistöðu. Fyrir um 20 árum gekk þetta öðruvísi fyrir sig. Menn voru ekki með umba á sínum snærum og lítið um að menn færu til reynslu held ég. Til gamans og upplýsingar rifja ég upp hvernig gekk fyrir sig að ég fór sem fótboltamaður til Noregs fyrir tæpum 20 árum.
Þá bar stundum við að erlend smálið, einkum norsk, birtu auglýsingar í dagblöðum þar sem falast var eftir fótboltamönnum. Ég svaraði einni slíkri síðla hausts 1985, búinn með nám, nýbúinn að klára besta tímabil Skallagríms í sögunni (besta sóknarlið 2. deildar skv. vali Þjóðviljans) og var opinn fyrir ýmsu. Þá var ég búinn að vera línumaður hjá RARIK nokkur misseri, sem var á við bestu úthalds- og styrkþjálfun. Þjálfari viðkomandi liðs boðaði mig í viðtal á Loftleiðum tiltekinn dag. (Ég á ennþá einhvers staðar kvittanir fyrir farinu með Akraborg og málsverði á Horninu þennan dag.) Geðugur maður, þjálfarinn, og nokkrum vikum seinna kom flugmiði í pósti. Þeir semsagt ákváðu að borga undir mig far án þess að hafa nokkrar sannanir fyrir því að ég gæti sparkað bolta aðrar en mín orð.
Mér er minnisstætt að ég var settur á Saga-class á útleiðinni - óvart - en þarna var ég að flytja til útlanda í minni þriðju utanlandsferð. Annar landi var í sömu vél og á leið í sama lið, en sá var bara 17 og hvarf heim eftir tæpar tvær vikur í Noregi. Hann var dálítið nafn í boltanum á þeim tíma og gerði það ágætt með fjölda liða hér heima.
Ekki minnist ég þess að hafa undirritað samning, en norsararnir stóðu við sitt. Ég fór ekki sem atvinnumaður, heldur skyldu þeir redda vinnu, leiguhúsnæði og afnotum af kaupleigubíl. Þjálfarinn tók á móti okkur á Fornebu og ók okkur norður. Þegar komið var að bæjarmörkum tilkynnti hann að héðan í frá yrði enska ekki töluð framar við okkur Íslendingana heldur norska/sænska (hann var sjálfur Svíi). Við vorum á hóteli fyrstu nóttina en svo tók við alvara lífsins. Ég fékk ágætt húsnæði miðsvæðis til leigu og búningavörður liðsins mætti fyrsta daginn minn þar á vörubíl með fullan pall af spýtnabraki. Sagði að ég þyrfti þetta, sem reyndist rétt. Kamínan í stofunni var svínkynt fram undir vor, en um sumarið uxu epli á trjánum í garðinum.
Það var heljarkuldi á Heiðmörk þennan vetur og skrýtið að mæta á æfingar í 19 stiga frosti, enda tapaði ég tánöglum skjótlega. Eftir tvær vikur hætti fólk í búðum að spyrja hvort ég væri danskur, svo auðvelt var að svissa yfir í norskuna. Það tók tvær vikur fyrir verkalýðsfélagið að samþykkja mig í vinnu í einingahúsaverksmiðju, og þær tvær vikur var ég atvinnumaður í fótbolta, enda búið að tala um að ég fengi vinnu strax. Maður fékk smáathygli út á að vera aðfenginn fótboltamaður en allt var það í hófi, enda liðið bara í C-deild, en þetta var vissulega smábær. Í lok apríl kom skyndilega sumar á einni viku.
Það tók mig hálft tímabil að verða fastamaður í liði þarna og smám saman fann ég aðra vinnu, annað húsnæði, og annan bíl. Fínt að æfa og spila á grasi eftir malartilveru í Nesinu, og æfingar kl. 17:30 í stað 19:30 á Íslandi. Sem sagt tími til annars en vinnu og bolta. Við féllum reyndar seinna árið mitt þarna, en þá var ég valinn leikmaður ársins og fannst eins og ég hefði loksins lært fótbolta. (Þarna var þó þjálfari Ísl.meistara FH búinn að þjálfa mig í þrjú ár!)
Það var fínt að búa í Noregi fyrir 20 árum. Meiri tími, betra kaup, auðvelt samfélag, náttúrufegurð og gott fólk. Maturinn var vondur og hrikalega takmarkaður sjóndeildarhringur í allri umræðu.
mánudagur, október 17, 2005
Lesvillingur
Í takt
Frábært líka að fá nýjan landsliðsþjálfara með frumlegar hugmyndir um fótbolta: „Ég legg áherslu á að allt liðið verjist þegar hinir eru með boltann og allir sæki þegar við erum með boltann!"
Aukagreinin mín í HÍ var Almenn bókmenntafræði. Mér er minnisstætt frá þeim vetri að sífellt var verið að spyrja mig hvort ekki væri allt vaðandi í dópi þarna í náminu. Svona spurningar þóttu mér alltaf fyndnar enda átti ég engin samskipti við samstúdentana og varð ekki var við neyslu í tímum. Þetta var hins vegar ímynd bókmenntafræði meðal fólks. Sá sem einna mest kvað að í hópnum var jaxl að norðan sem talaði skýrt og hátt, og líktist sjóara í atferli, Kristján Júlíusson. Hann tapaði um helgina. Lúðvík bæjarstjóri í Hafnarfirði var þarna líka. Af hverju er ég ekki bæjarstjóri? Það er hins vegar mýta í hugum sumra að bókmenntafræði hafi verið sérlega auðveld námsgrein.
Undrið (3) er búið að vera venju fremur upptrekkt undanfarna daga og í fyrrakvöld yfir kvöldmat sneri hún sér skyndilega að mér og sagði: „Pabbi, ég verð að knúsa þig. Ég ætla að giftast þér." Þegar henni var bent á að hún hefði gifst Kristínu vinkonu sinni skömmu áður, heimtaði hún ógildingu þeirrar vígslu, þannig að ég vann. Hehe.
Svo verð ég með kleinuhringsskegg þar til Stern John leikmaður Trinidad & Tobago / Derby er búinn að skora fyrir klúbbinn ellegar farinn frá honum. Við unnum um helgina en John var þreyttur og spilaði ekki enda búinn að standa sig afburðavel með landsliði sínu í nýliðinni hrinu landsleikja, þrátt fyrir slæma frammistöðu með sínu félagsliði. Ég heiti á karlinn með skeggsöfnun.
sunnudagur, október 16, 2005
Meðan ég man
Viðkomandi söngkona flutti síðar á afskekkta ey vestur á fjörðum og giftist inn í kunningjafjölskyldu móður minnar. Ég þóttist allviss um að ekki hefði hún dröslað með sér hljóðfærinu og lagðist í rannsóknavinnu. Þá kom í ljós að hún hafði arfleitt eina aðra söngkonu að afnotunum og sú síðan lánað vinkonu sinni gripinn þegar hún fór í framhaldsnám. Þetta hafði ég eftir móður seinni söngkonunnar. Vinkona seinni söngkonunnar gekk síðan í þjónustu hins opinbera (eða maðurinn hennar, man ekki) og tók píanóið mitt með sér til mið-Evrópu, því að hið opinbera spyr ekki um flutningskostnað.
Þarna var komið sögu fyrir allmörgum árum er ég síðast spurði tíðinda af píanóinu mínu. Nú er svo að systir seinni söngkonunnar les stundum þetta og því spyr ég út í loftið: Hvar er píanóið mitt í veröldinni? Ég gæti hugsað mér að endurnýja kynnin fyrr en síðar - upprunalega samninginn á ég enn á vísum stað... A.m.k. held ég að ég eigi það ennþá, en vissulega þekki ég ekki fyrningarákvæði eignarréttar versus hefðarréttar í lagalegum skilningi.
Af hverju hefur enginn af þessum djöfullegu 365 miðlum tekið upp hjá sér að gera tortryggilegt að Doddson er ennþá með gamla forsætisráðherrabílinn? Ég þykist nú viss um að karlinn hafi keypt þennan eðalvagn af Audi gerð á uppsprengdu verði, og verð að segja að mér finnst bara notalegt að sjá bíla hérna í hverfinu sem menn leyfa sér að halda tryggð við þótt eldri séu en tvævetur. Það er alltjent búið að skrapa skjaldarmerkið af númerinu...
laugardagur, október 15, 2005
Svitapollur
Í sambandi við Thelmusögu birtast manni nú gamlir samstarfsmenn og kunningjar í viðtölum fjölmiðla nánast á hverjum degi. Alltsaman einvalalið sem ekkert mátti aumt sjá og því illskiljanlegt hvernig svona brjálaðar hörmungar gátu átt sér stað. Ég var kynslóð seinna í Öldutúni.
Ég var aldrei bekkjarkennari og kynntist því aðstæðum nemenda ekki sérlega persónulegal. Á foreldradögum var ég upptekinn við að flokka og plasta bækur, eða eitthvað, og lenti ekki í erfiðum fjölskyldumálum sem kollegarnir sögðu mér stundum frá eftirá. Stundum lenti ég í því að biðja krakka um að hætta að reyna að koma heim til mín í heimsókn - sem þeim þótti eðlilegasta mál enda var ég vinur þeirra í skólanum. Ég fékk sérstakar leiðbeiningar frá mér reyndari mönnum þegar ég tók að mér að leiðbeina á ljósmyndanámskeiðum enda margt sem gæti misskilist í pínulitlu kolmyrkvuðu herbergi fullu af unglingsstúlkum. Svo halda sumir ennþá að það sé ekkert mál að vera kennari...
Pinter fékk Nóbelinn, en ég átti nú allt eins von á því að hann kæmi í dánarfregnum, karlinn. Einmitt þessa daga er ég að lesa góða bók þar sem Pinter er aukapersóna sem byrjar á því að fá krabba og er í stöðugri glímu við veikindin. Höfundur og Pinter eru sem sagt vinir sem fara gjarna út að borða saman. Ekki er ég búinn með bókina en þetta er hálfgert blogg hjá leikritaskáldinu Simon Gray, þar sem hann leyfir sér að fjalla um hversdagslegustu málefni, rifjar upp atriði úr bernsku og skrifar um hvað sem er, rétt eins og maður á að leyfa sér í bloggi.
miðvikudagur, október 12, 2005
Hljóð
Hljóðmynd heimilisins er í þann mund að breytast líka. Nú er Flakkarinn títtnefndi kominn í hús og fékk ég félaga minn til að hlaða gripinn efni sem áður var aðgengilegt í vinnunni minni. Að vísu vantaði það sem ég hefði e.t.v. helst kosið en úr því má vonandi bæta með því að tala við rétta menn. Svo ætlar Anna mín að ná í heimabíó úr fríhöfn við tækifæri og er þá allt til reiðu fyrir nýja tón- og myndveröld á heimilinu. Raunar var mitt fyrsta verk að taka afrit af gögnum af harða diskinum þegar Flakkari var kominn í hús enda heyrir maður of oft af fólki sem tapar ljósmyndum og öðru út af hruni harðra diska.
Það er ekki oft sem ég er fyrstur í vinnufélagahópnum með eitthvert svona tæknidót (hvað þá bíla) en þarna sló ég þá flesta út og verð krafinn um reynslusögur á næstunni. Þetta er svona tæki sem maður getur sett tónlistina sína á, kvikmyndir og ljósmyndir og spilað herlegheitin svo gegnum heimilisgræjurnar án þess að hafa tölvutengingu. Valmyndin kemur upp á sjónvarpsskjá og svo velur maður bara eins og í tölvunni nema með fjarstýringu (eða hnöppum á boxinu).
Ég spái því að Snillingur (6) verði kominn fram úr foreldrunum í notkun og öflun efnis á þetta innan tveggja ára. Að vísu verður þá kominn ca. 1500 GB diskur og hýsingin verður með sjálfstæðum valskjá ef fer sem horfir. Meginverkefni næstu daga verður að taka til á Flakkara til þess að búa til pláss, enda engin ástæða til að halda uppá margt af því sem á honum lenti við fyrstu hleðslu... Gott samt að fá aftur í eyrun Ninu Ramsby og Ane Brun. Ég saknaði þeirra.
mánudagur, október 10, 2005
=Þrjátíu og tveir eða svitalyktareyðir?

Ef Snillingur er leiður þarf ekki annað en bjóða honum upp á að leggja fyrir mann talnaþrautir til þess að hann öðlist gleðina á ný. Eins er nóg að bjóða Undrinu upp í dans til þess að veröldin brosi á ný, ef í harðbakkann slær. Ein létt jólasyrpa eða svo læknar öll hennar hjartasár. Auðvitað er helsta yndi beggja að taka virkan þátt í einhverju með mömmu eða pabba, eða báðum helst. Tími og athygli er náttúrulega verðmætast alls þess sem maður getur gefið öðrum og sennilega fá nú blessuð börnin ríflegastan skammt af tíma sem ég tími að gefa öðrum.
Nú er að hefjast nýtt fótboltaár og svo sem lítil spurning um hvort drengurinn héldi áfram að æfa. Ég spurði hann samt á leiðinni á æfingu í dag hvort þetta væri einlægur vilji því að nú er komið að því að borga gjöldin fyrir næsta ár. Auðvitað reyndi ég að sýnast hlutlaus, en svarið var ótvírætt: „Já - ég held áfram!" Þá hóf ég mikla ræðu um að þetta væri nú feikigóð ákvörðun og þarna væru félagarnir, frábærir þjálfarar, góð hreyfing og málaði þetta eins rósrautt og hægt var - hrósaði jafnvel fyrirbærinu KR eins og ekkert væri.
Að ræðu minni lokinni sagði Snillingur grafalvarlegur eins og hann einn getur verið: „Mamma er nú ekki alltaf sérstaklega hrifin af því að ég sé í fótbolta." Þetta þótti mér fyndið og líka henni (eina KR-ing fjölskyldunnar) þegar ég rakti þetta síðar í gær. Ég kynntist viðkomandi mömmu eftir að ég hætti í afreksíþróttum og hún hefur ALDREI séð mig spila alvöruknattspyrnu - og varð ég þó Íslandsmeistari seinast talsvert eftir að við urðum hjón. (Varð að koma þessu að).
laugardagur, október 08, 2005
Slysó

Um daginn var þýsk bíómynd á RUV sem gerði að hluta til út á landslagið á Íslandi. Það er lenska að skeyta ekki um að ferðalög séu landfræðilega í samhengi í svoleiðis myndum, en mér kom á óvart að sjá að sjá dalnum skyndilega bregða fyrir í myndinni innan um Bláa lón, Gullfoss og fleiri standarda. Að vísu var ekki nema fyrir vel kunnuga að þekkja staðinn, því að myndskeiðið var örstutt. Ef ég man rétt notaði Stella Blómkvist þennan ágæta dal í eitthvert uppgjör í einhverri bók, en það getur vel hafa verið einhver annar. Ég gleymi bókum.
Alltaf er ég nú hálfsmeykur við að vera á bersvæði í óbyggðum á skotveiðitíma þegar alls konar byssumenn eru á ferli, minnugur þess þegar lyfsalasonurinn skaut verðlaunakýr í misgripum fyrir gæs á Mýrum forðum daga. Í Slysadal er ekkert dýralíf, utan mófuglar rétt yfir sumarið, en ég hef séð þarna tófu á vappi. Víst má víða sjá þarna spor eftir jeppa og mótorhjól og bætist stöðugt við sárin þau. Talsvert virðist um að menn komi þarna til að skjóta leirdúfur. (Leirdúfur eru gagnlegar sem undirskálar undir litla blómapotta - ég hef hirt haug af óhittum dúfum í dalnum mínum.) Einu sinni var þarna hersing hestamanna að æja þegar ég hugðist munda mín afþreyingartól. Annars er lítið um mannaferðir að mér virðist.
Það var gott að anda að sér hausti og sjá litadýrð - skytteríið fólst í því að dúndra golfkúlum fram og til baka og ekki frásagnarvert, en ekki verri aðferð en hver önnur til að koma sér út úr skarkalanum.
Snillingur (6) missti fyrstu tönn í gær og fagnaði því innilega. Sennilega eru flestir bekkjarfélagarnir þegar komnir með vísi að fullorðinsstelli í góminn svo að þetta er léttir. Hann kippti mér bak við hús að æfa golf þegar ég kom úr sveitinni og er sérlega þolinmóður að láta mann leiðbeina sér. Seinna í kvöld duttum við svo inn í dagskrá Todmobile á RUV. Vitanlega vakti áhuga að Tod úr Todmobile átti íbúðina okkar forðum og ekki spillti fyrir þegar gaurinn sá að Kjartan spilaði á Roland, sama merki og við eigum! Snillingur heimtaði þegar í stað að fá leiðsögn í hljómborðsleik strax, og fékk. Vænti ég þess að Gamli Nói steinliggi í C og F ekki síðar en annað kvöld. (Það er honum altsvo ekki nóg að kunna þetta í einföldustu tóntegund, alltaf einhver tilraunastarfsemi í gangi - I love it - maður verður jú líka að geta skallað og sparkað með vinstri, ekki satt?)
BTW hvernig flakkara (harðan utanáliggjandi disk) á ég að kaupa mér sem vistarveru tónlistar og kvikmynda?
Merkilegt
föstudagur, október 07, 2005
Agna Rögn og Ómi Hreinn
Hér verður endurfluttur hugleir um mannanöfn frá í janúar á þessu ári að ósk dyggs lesanda:
Mér finnst gaman að velta fyrir mér nöfnum og skoða reglulega mannanafnaskrá. Þar bætist stöðugt við og gerist æ auðveldara fyrir fólk að velja sér skemmtilegar samsetningar í nöfn á börnin sín.
Nú er til dæmis hægt að setja saman fullt af íþróttastjörnum: Ríó Ferdinand, Edvin Móses, Martin Max, og Patrik Bergur, eða tónlistarhetjur á borði við Lars Ulrich, Þorra Amos og Marvin Geir. Ekki má gleyma kvikmyndastjörnum svo sem Richard Príor og Alexíus Baldwin. Fyrir matarspekinga vil ég benda á Parmes Andra, og drykkjumenn, Per Nóa. Allt nöfn úr mannanafnaskrá. Eitt af nýju nöfnunum er Elvin en það hlýtur að vera prentvilla og á örugglega að vera Elvis, kónginum til heiðurs sjötugum.
Atlas Tindur og Sigur Bogi eru nýjungar, en möguleikarnir eru endalausir og ekki lengur bundnir við Leif Arnar og Brand Ara. Ég nefni nokkur nöfn til hagræðis fyrir nýorðna og verðandi foreldra sveinbarna: Ögri Fólki og Þjálfi Víðar (hefði passað á Gauja Þórðar), Mars Ari (fyrir dansáhugamenn), Ölver Loki (fyrir bindindispostula), Beitir Vopni og Kaldi Karl (fyrir handrukkara), Hafnar Brimi (fyrir sjómenn), Haki Skafti (fyrir grafara), Dan Kort (fyrir verslunarmenn), Hjarnar Viðar og Saxi Lýtingur (fyrir lækna), Skefill Skeggi (fyrir rakara), Gerðar Dómald (fyrir samningamenn), Ómi Hreinn (fyrir tónlistarmenn), Hraunar Bolli (fyrir jarðfræðinga), Búi Engill (fyrir presta), Skíði Skúta (fyrir útivistarfólk), Neptúnus Geisli (fyrir stjörnufræðinga), Finn Ástvin (fyrir björgunarsveitarmenn), Stormur Austar (fyrir veðurfræðinga) Gutti Heimir (fyrir aðdáendur Stefáns Jónssonar) og loks Viðar Brestir (fyrir smiði). Löggild drengjanöfn alltsaman.
Oft hef ég varið stúlkunafnið Kría sem sumum finnst fáránlegt en mér alls ekki. Það er samt hægt að leika sér með þetta og búa til samsetningar að gamni sínu, en ekki rakst ég á kunnugleg nöfn úr erlendum íþróttum, menningu og listum við lauslega athugun á stúlknanöfnunum.
Menn þekkja núorðið fjölda dæma um skemmtilegar samsetningar, Líf Vera, Björt Nótt og þess háttar og því e.t.v. í bakkafullan læk að bera. En stundum virðist eins og heildarhljómur og merking samsetningarinnar gleymist: t.d. Von Dara, Agna Rögn, eða Odda Tala (fyrir stærðfræðinga), Mýra Borg, Brák Arey eða Snorra Þula (fyrir Borgfirðinga og Mýramenn), Vanda Málfríður (fyrir sálfræðinga), Munda Boga (fyrir veiðimenn), Birta Mörk (fyrir íþróttafréttamenn), Tea Sía, Sólbrún Bera, Karla Þrá, Gógó Mey, Sölva Tína, Selja Sigdóra, Rán Dýrborg, Ylja Rún, Njóla Þúfa. Nú er nóg komið en allt beint úr skránni.
Annars spurði mig Snillingurinn (6) eitt sinn hvort maður nokkur sem þá var í Kastljósi héti virkilega Illaugi, og hvort það stafaði af því að hann væri með ill augu. Ég sagði sem var að þetta væri bara hann Illugi Jökulsson, pabbi Ísleifs úr KR .
fimmtudagur, október 06, 2005
Sudoku
Hvað er þetta með háralit kvenfólks? Þessar stelpur í þættinum voru með litað hár upp til hópa, og sumar illa útleikið eftir efnahernað sýndist mér. Þeir segja að 90% fullorðinna kvenna á Íslandi sé með litað hárið enda, tilvalinn samkvæmisleikur þegar lítið er á seyði að láta karlmenn giska á raunverulegan háralit viðstaddra kvenna.. Ef maður sér konu á fimmtugsaldri með grátt/gránandi hár hér á landi má nánast bóka að viðkomandi er útlend, listamaður eða lífræn grænmetisæta.
Hingað til hefur maður séð mannanafnanefnd fara sínu fram og lúffa ekki þrátt fyrir pressu, þótt reyndar hafi rýmkað verulega um á nafnamarkaði undanfarin ár. Hvernig stendur svo á því að ráðuneytið skipar nánast nefndinni allt í einu að samþykkja eitthvað sem hún var búin að hafna oft? Hver þurfti að láta heita Eleonora? Afi yngstu Eleonoru sem mér er kunnugt um hér á landi er f. 1968.
Reyndar kannast ég við eina Eleonoru, fyrrum nemanda, sem ásamt stöllum sínum Fríðu og Huldu var sérlegur vildarvinur bókasafnsins þar sem ég réð ríkjum. Þær gáfu mér kaktus að skilnaðargjöf þegar þær kvöddu skólann sinn og lifir hann enn, þ.e.a.s. kaktusinn, en ég fregna lítið af skólanum.
Ég slepp alfarið við að fara í endurfundi eins og þá sem Gísli fjallaði um nýlega, enda ekki hefðbundinn bekkjarkennari þegar ég var og hét, en hef gaman af að sjá til og frétta af gömlum kunningjum úr skólanum... Hitti t.d. Einar FH-ing Jónsson nánast í hverri viku uppi í Framsal. Þökk sé gömlum nemanda held ég enn upprunalegu netfangi mínu og komið hefur fyrir að ég fengi sérvalda bita á skyndibitastöðum út á gömul kynni úr skólanum. Gaman af því.
Aðeins meira um nöfn. Samkv. skyndikönnun minni eru nú í MR 13 Jónar í námi (þar af enginn í 5. bekk) og styttist í að skipt verði út nafninu Jón Jónsson sem nafngervingi óþekkta mannsins, og Andri Andrason komi í staðinn, eða eitthvað svoleiðis.
Undanfarnar frístundir hef ég aðeins leikið mér í Sudo-ku, sem hvarvetna ríður húsum að mér er tjáð. Ég var eitthvað að nefna við Snilling (6) að besti tíminn minn væri kominn í 6 mín. og 5 sek. með auðveldustu útfærsluna þar sem við sátum og bárum saman bækur um afrek dagsins og þá sagði Anna mín: „Ertu nú búinn að breyta þessu líka í keppni"? Auðvitað er allt keppni. Það getur verið keppni að bæta tímann sem það tekur að prjóna sokk, eða láta þvott þorna, eða ja, nánast hvað sem er. Bara spurning um að finna veiðimanninn í sér og yfirfæra viðkomandi verkefni á hann. Maður getur spilað Sudoku hér með sjálfvirkri tímatöku...
sunnudagur, október 02, 2005
Tíu metra hár óvarinn brunnur
Um hádegisbil fórum við börnin á heimilinu í Sundhöllina, sem stendur alltaf fyrir sínu. Að vanda byrjuðum við í grunnu laug en að fengnum upplýsingum um tilgang og eðli djúpu laugarinnar heimtaði Undrið (3) að færa sig þangað því að hún þyrfti að æfa sig að synda eins og hitt fólkið. Ég varð við þessu þegar sundbrautirnar losnuðu og sú stutta kom á óvart með því að synda rösklega og hjálparlaust 50 m baksund.
Við foreldrar á heimilinu veltum stundum fyrir okkur hvort Snillingur (6) líði fyrir hvað systir hans býr yfir ríkulegum persónutöfrum. Þegar maður mætir einhvers staðar með þau bæði fellur hann nánast sjálfkrafa í skuggann eins og skot. Jú, hún er yngri, brosmildari, smágerð, með englahár niður á rass og ófeimnari í orðum og gjörðum, sísyngjandi og dansandi, og fær einfaldlega mun meiri athygli hjá flestum ættingjum sem vandalausum. Spurningin er hvort þetta geti hugsanlega valdið drengnum sálarkreppu og minnimáttarkennd?
Auðvitað sjá þeir fljótt sem ná sambandi við hann hvað í hann er spunnið til orðs og æðis, en maður fer ekkert sem foreldri að ota barninu sínu að fólki og segja: „Sjáiði hann! Hann er fallegur, klár og ljúfur!" Vissulega naut hann þeirra sérréttinda að vera einn um foreldra sína allra fyrstu árin, en hún á móti nýtur þess að eiga fyrirmynd, verndara og keppinaut. Æ, maður kannast nú við náunga í keðjunni þar sem hann er nýjasti hlekkur, sem kunna best við sig í eigin athyglisskuggaveröld...