<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, mars 29, 2006

Fáránlegt 

Ég var á kynningu í gærmorgun. Þar fengum við að vita allt um forrit sem má nota í verkefnastjórnun - allt frá því að skipuleggja sumarfríið í það að setja upp ritgerðir og skýrslur. Einhver spurði hvort ekki væri hægt að láta fyrirbærið reikna tölur og þá varð öðrum á orði að engar ritgerðir væru skrifaðar í heiminum sem ekki innihéldu einhvers konar tölulegan útreikning. Þá varð mér ljóst hvers konar fyrirtæki ég vinn hjá og hvaða bakgrunn samstarfsmenn mínir hafa. - Ég hef aldrei skilað ritgerð á ævinni þar sem útreikningur talna skiptir máli - einhverjar söguritgerðir mínar í menntó hafa eflaust birt ártöl en það er það næsta sem ég hef komist.

Undrinu (3) finnst ótækt að heita það sama og hún er kölluð, enda allir aðrir í fjölskyldunni kallaðir eitthvað annað en þeir heita. Hún ákvað því um síðustu helgi að hún héti í rauninni Björnsdóttir Englabarn en væri kölluð Hildur Kaldalóns. Þetta stenst ef litið er á staðreyndir. Svo er núna óneitanlegt að blessað barnið er farið að lesa einföld orð og ekki leiðinlegt að sjá svipinn sem kemur þegar hún sér árangur vinnunnar skila sér.

Vorboðinn ljúfi er kominn á stjá. Nefnilega símtöl þar sem ég er beðinn um að taka að mér erlenda ferðamenn: Nú síðast var ég beðinn um að lóðsa einhverja tugi stjórnenda hjá SAS í Gulla-Geysi.

Snillingur (7) hefur sett fram kenningu um ástæðu endalokanna hjá risaeðlum: því miður gleymdi ég henni jafnskjótt og ég heyrði hana en mun biðja um nánari skýringar til birtingar hér. Hann er á réttum aldri til að hafa áhuga á efninu.

Þrátt fyrir kulda og norðanbál hjóla ég dag hvern í vinnuna og hef ekki komist í hann krappan nema tvisvar:
A) Drap næstum hlaupara á göngustíg rétt hjá Veðurstofunni og hrein hending að ég var að beygja útaf þegar hann birtist óvænt.
B) Næstum keyrt á mig á leið minni niður Fossvogskirkjugarð, en þar ku ég iðulega rjúfa hljóðmúrinn á leiðinni heim síðdegis.

Hrútarnir sigruðu Crystal Palace með marki á síðustu mínútu - og Skallarnir möluðu ÍBK í körfubolta. Þetta tvennt réttlætir fyrirsögnina ef annað í þessum pistli dugir ekki til. Annars hefði ég gjarna fjallað um afrek og æfintýri forsetabræðra og/eða -frænda í Ameríku, en þeir sem muna eftir Billy Carter eða Roger Clinton ættu nú bara að vita að Marvin og Neil Bush toppa alltsaman. Það má sjá hér og hér og hér er líka litli Bush frændinn.



mánudagur, mars 20, 2006

Ekki ég 

Ég var ekki í gönguferð kl. 17.20 - 18.10, fimmtudaginn 16. mars. Alnafnar mínir eru allmargir. Ég þekki ráðherrann ekki en útbjó hins vegar í 12 ára bekk kort af Grikklandi með eiginmanni ráðherrans og þótti bekkjarfélögum okkar það bera vott um bilun eða nördshátt, enda Grikkland vogskorið og eyjar margar.

Ansi varð mér kalt á höndunum að hjóla í slyddunni í morgun. Það er lítt skemmtilegur sársauki sem verður til þegar dofnir fingur lifna við - hratt. Minnið mig á að gæta framvegis orðbragðsins - ég kom um daginn að Snillingi (7) glottandi við tölvuna og var hann þá að lesa þessi skrif.

Í næstu símaskrá setti ég nýtt starfsheiti - það sama og kunnasti alnafni minn bar.

föstudagur, mars 17, 2006

Drusla Beyglað Skran 

Í gær hjólaði ég í og úr vinnu í fyrsta sinn - og skutlaði drengnum í skólabílinn í morgunsárið. Það tók mig 20 mín. að komast heim en eitthvað lengur var ég uppeftir í morgun. Þá er sá ís brotinn. Hjólið er klassískt og talsvert eldra en Toyotugarmurinn sem ég fargaði í janúar. Sem sagt DBS árgerð ca. 1980, sem Sigríður matráðskona í skólanum gaf mér þegar hún var að taka til í skúrnum hjá sér. Afar gott hjól með hrútshornastýri og í fínu lagi, en erfitt að fá á það dekk í þessari fjallahjólafirringu sem nú ríkir.

Ég var of vel búinn og með úttroðinn stóran bakpoka þannig að tíminn getur bara batnað. Ég hjólaði á eins hjóli í vestur í Háskóla á sínum tíma. Þá var ég hjálmlaus en ekki nú. Bara strætó reyndi að drepa mig (sjálfsagt í hefndarskyni fyrir að svíkja þá um viðskipti).Þetta var dagur þriggja sturtuferða enda fótbolti í hádeginu. Eflaust kemur að því að ég tek sjósundsprett á leiðinni heim til að geta grobbað mig almennilega.

Undrið (3) er með lungnabólgu og því heima
þessa dagana með mömmu, sem á frímánuð. Sú stutta notar tímann skynsamlega og hefur ákveðið að læra að lesa og skrifa í veikindafríinu. Það gengur vel og hún æfir sig af kappi. Svo vildi hún læra að reikna á meðan Snillingur (7) lyki við kvöldmatinn. Það fór vel af stað - próf á morgun í samlagningu.

Seinast þegar ég gekk heim úr vinnunni áttaði ég mig skyndilega á því á hvað hann minnir mig arkitektúrinn sem blasir við þegar maður gengur suður Álftamýrina. Þar blasir við Hús verslunarinnar og blokkirnar sem eru á hægri hönd þegar ekið er norður Kringlumýrarbraut, milli Miklu- og Háaleitisbrauta. Þá kom þetta:

Vort líf er hlaup og langur sérhver metri
sem leiðir oss í átt að veröld betri
og bráðum kemur borgin undan vetri
með byggingar sem minna helst á Tetri
s

miðvikudagur, mars 15, 2006

Herferð - skór fyrir bjór 

Mest er ég hræddur um að einhverjir snillingar taki upp á því að stofna Íslenska herinn nú þegar hinn ætlar að yfirgefa okkur. Ég kæri mig ekkert um svoleiðis fyrir mig og mína. Þegar ég var í boltanum í Noregi kom einatt fyrir að ungir strákar úr liðinu þurftu að sinna herskyldunni (enn eitt kynjamisréttið) og alltaf var maður að lesa einhverjar fréttir af slysum og vandamálum í sambandi við þessa hermennsku. Svo kemur vitanlega ekki helmingurinn af ljótu sögunum upp á yfirborðið.

Er annars ekki rakið að nota nú eitthvað af því húsnæði sem losnar á vellinum fyrir alþjóðlegt fangelsi undir stjórn okkar góðu bandamanna. Sumir segja að fangaflugvélarnar lendi hvort sem er suðurfrá. Það er styttra að fara hingað en til flestra annarra úr hópi hinna viljugu og svo gæti þetta skapað störf suður með sjó. Afleidd eða afleit störf. Nei, annars þeir eru víst með álver í sigtinu sem víðar.

Mín viðskipti við herinn eru lítt merkileg en þó eru minningarnar fremur neikvæðar. Á menntaskólaárunum kom ég á Völlinn til að keppa í körfubolta með ÍR, en lenti þá í því ásamt nokkrum félögum mínum að íþróttaskónum okkar var stolið meðan við brugðum okkur í sturtu. Af einhverjum ástæðum var okkur hleypt inn á bar eftir leik og hef ég ekki fyrr né síðar séð menn burðast með jafnmikið af opnum bjórdósum innanklæða með sér inn í rútu, enda bannað að selja veigarnar nema opna dósina. Sennilega fékk ég hjá einhverjum minn fyrsta bjórsopa við þetta tækifæri en gamli sveitamaðurinn hafði vitanlega ekki haft rænu á að útvega dollara, eða yfirhöfuð pælt í því að svona ferðir snerust um það
fyrst og fremst að komast í bjór. Svo þurfti fjögur pissustopp á leiðinni í bæinn.

Seinna meir fór ég nokkrum sinnum með fólk af Vellinum í túristaferðir um Vesturland og oftast gekk það bærilega. Einhverju sinni varð mér á að renna niður í Englendingavík í Borgarnesi til þess að sýna fólkinu Bjössaróló og netta fjöru í húrrahrópandi veðurblíðu. Sem við spröngum þarna um heyrist skyndilega brothljóð og kom í ljós að pörupiltar úr hópnum höfðu í grjótkasti brotið framrúðu rútunnar. Sem betur fer var þetta skrjóður af Hino-gerð með tvískipta framrúðu og tjónið því óverulegt, en mikið varð ég úrillur út af þessu og vorkenndi móður drengjanna afskaplega, enda linnti ekki óhemjuganginum fyrr en Dala-Magnús bílstjóri hótaði að skilja þá eftir á miðjum Kaldadal.

Kaninn var nú líka undirleikur minnar kynslóðar. Stóra systir hafði Kanann í gangi á kvöldin handan við vegginn þegar ég var að sofna á því tímabili sem hún var unglingur og ég ekki. Svo lenti ég í því eitt sumar í sveitinni að deila herbergi með Brian Gudmundsson, hálfíslenskum Ameríkana, og hann hafði þetta stöðugt í gangi. Frá því sumri ´73 minnist ég þess að My love með Wings og Kodachrome með Paul Simon voru geipivinsæl.

mánudagur, mars 13, 2006

Re-morð 

  • bitnir
  • sorgbitnir
  • samanbitnir
  • frábitnir
  • fitnir
  • litnir
  • slitnir
  • óslitnir
  • álitnir
  • forvitnir
Hér sló ég upp þeim orðum sem ríma við Glitnir og upp komu orðin að ofan og nokkur fleiri sem enda á -eitnir. Mér sýnist vanta þarna „skitnir" en nóg er þó til þess að ég áttaði mig á því hvers vegna ég er ekkert hrifinn af nýja bankaheitinu.

Ég las hér að ein helsta ástæða breytingarinnar væri þörf fyrir að losna við broddstafina [sic] og þar hlýtur að vera átt við Í-ið í Íslandsbanka. Skemmtilegt. Ég á nefnilega búning þann sem við FHingar kepptum í fyrstu Evrópuleiki félagsins 1990 og það ár auglýsti Íslandsbanki á treyjum vorum. Henson gerði þá skyssu að láta broddinn á Í-inu standa uppúr restinni af orðinu. Þetta samþykkti UEFA ekki og því var límd hvít filtræma yfir svartan broddinn og önnur látin skera I-hlutann þannig að liti út fyrir að þetta væri Í.

Nú er þessi búningur orðinn sögulegar menjar og því geysiverðmætur. Sennilega fær þá Snillingur (7) ekki framar að skarta honum þegar við horfum á FH spila framvegis. Set
inn mynd af búningnum inn hér fljótlega, en í honum var skorað fyrsta mark og sjálfsmark FH í Evrópukeppni. Kannski þarna sé kominn ellilífeyririnn?

Löngum hélt ég að væru álög á mér að öll fyrirtæki sem ég hef tekið þátt í að auglýsa á búningi liðu undir lok skömmu eftir að þau hættu að styrkja lið mitt. En, nei. Staðreyndin er sú að enn lifa
Shell, Loftorka, KB (Kaupfélag Borgfirðinga) og Ora. Hins vegar eru Neshúsgögn, Útvegsbankinn, Börkur, Nýkaup, Íslandsbanki og DnC (Den norske Creditbank) í Noregi eru hætt eða hafa sameinast öðrum. Reyndar keppti ég aldrei í treyju merktri Berki en hef heyrt svo margar sögur af sumarvinnu félaga minna í því fyrirtæki að stundum er eins og ég hafi starfað þar.

Greiðslugeta þingmanna 

Svo skemmtilega vill til að tveir Alþingismenn (karlar úr D & S) eiga dætur sem stunda íþróttaskóla KR á sama tíma og Undrið (3) mitt. Það er eflaust hart fyrir þessa feður að geta ekki fylgt sínu fólki í sportið út af dagskrárhringli forseta Alþingis, en skóli þessi er starfræktur á laugardagsmorgnum. Að vísu hef ég bara séð annan tvisvar og hinn einu sinni, en ég hef raunar heldur ekki verið alltaf viðstaddur.

Hvað um það. Undrið er með þykkt hár sem nær niðrá læri, en þingmannadæturnar eru frekar þunnhærðar með hár niðrá herðar. Í öðru tilfellinu er um að ræða hrokkinkoll og vakti athygli mína að í bæði skiptin var þetta eina áberandi ógreidda barnið í salnum og í hróplegu ósamræmi við þingmanninn, föður sinn, sem hefur verið eins og á fermingarmynd frá því ég sá hann fyrst. Hin þingmannsdóttirin er með fremur viðráðanlegt ljósrautt hár og var það í ágætu lagi, slegið en ógreitt líka. Þetta varð mér tilefni til að efast um greiðslugetu þessara manna.

Nú er ég flugfreyjumaður og þarf því oft að sinna því ágæta morgunverki að greiða fyrir leikskólann, en hef þó sjaldnast tíma til að túbera, setja fastar fléttur, eða aðra tímafreka hluti - gamla taglið læt ég yfirleitt duga. Stundum hefur verið nefnt að ég stilli ekki endilega saman „réttu" fötunum þegar börnin fara frá mér á almannafæri - þótt þau hafi aldrei kvartað sjálf - en ógreitt fer Undrið aldrei úr húsi frá mér hvað sem öðru líður.

Hún hefur verið lasin að undanförnu, en stuðstuðullinn helst óbreyttur þrátt fyrir það. Um daginn fékk hún þau ummæli hjá kassadömu í Hagkaup að hún væri töff með sólgleraugu bróður síns. Það varð Undrinu tilefni til að syngja framlag okkar og Silvíu í Eurovision við ágætar undirtektir viðstaddra. Nú er hún farin að heimta sagðar sögur og þær helst sem ógurlegastar.

Bróðir hennar, Snillingur (7), kann þetta allsaman frá fornu fari og fær stundum að heyra líka. Hann er kominn á það stig að túlka efnið - síðast þegar Búkolla var á dagskrá þótti honum ástæða til að koma á framfæri þeirri skoðun sinni að litla skessan hefði í raun ekki verið vond, heldur aðeins þræll illu skessunnar stóru. Í sl. viku var hann sendur heim með Litlu gulu hænuna sem lestrarbók og gerir óspart grín að því hve textinn er barnalegur. Besti vinur hans á heima í húsinu þar sem þessi fornfræga lestrarbók varð sennilega til, hjá Steingrími Arasyni í Barnaskóla Skildinganess.

Um daginn var Snillingur að pæla í stjörnumerkjum fjölskyldunnar og varð þá að orði: „Er mamma ekki annars Skriðdreki?" Ég sprakk ekki, en mikið helvíti munaði litlu.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Meðalið fyrir meðallið 

Mea culpa.

Í síðustu viku var tap Flensborgara í Gettu betur mér að kenna. Þar voru á ferð auk Áddna Gauja Áddna, öðlingarnir Elmar og Kristján, fyrrum nemendur úr Öldutúnsskóla. Þar sem frammistaða í svona keppni nú um stundir byggist að verulegu leyti á þekkingu á teiknimyndabókum geri ég hér með þá játningu að hafa aldrei keypt inn slíkar bækur (nema dönsku goðheimasögurnar). Ég var einvaldur og innkaupastjóri Skólasafnsins í 12 ár - keypti bækur og gögn fyrir 4-5 millur - en teiknisögur aldrei. Stundum bárust svoleiðis bækur að gjöf frá velunnurum, en ég var aldrei æstur í að koma þeim í útlánshæft stand.

Hvers vegna? Þetta eru upp til hópa bækur sem fara illa í skólatösku, losna í bandinu og rifna gjarna. Mikil vinna að halda þessu gangandi. Svo var ég aldrei mikið fyrir svona bækur sjálfur.

Fyrirgefið mér strákar.

Ef einhver tapar eða klúðrar illa í dag eða á næstunni án þess að hafa afsökun þá er um að gera að kenna mér um. Ég er svo sáttur að mig munar ekkert um þetta. Samt gerði ég bara jafntefli í hádegisboltanum.

Einhverjum kann að þykja fyrirsögnin út í hött og ég er sammála því. Ég gat bara ekki sleppt því að nota hana fyrst hún flaug mér í hug í gær.

Sua cuique voluptas.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?