<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, maí 23, 2007

Lýðheilbrigðisálfur úr Skallagrími? 

Samtals fer ég sléttur út úr þessari stjórn - miðað við þá síðustu. Missi burt gamlan og góðan andstæðing úr boltanum, FH-inginn og Ólsarann Magga Stef og frú Steina Húmm hverfur á braut. EN - viti menn: nú eru Íþróttaálfurinn, forstjóri Lýðheilsustöðvar OG heilbrigðisráðherra allir uppvaxnir á sömu slóðum og ekki langt á milli þeirra í aldri. Einn var í mínum bekk í barnaskóla, annar ágætur leikfélagi sem ætlaði að verða arkitekt og sá þriðji alræmdur tuddi í fótbolta - það voru þrjú hús á milli okkar í götunni heima. Seinna urðum við tilvonandi tengdasynir í sömu fjölskyldu en ekki samtímis.

Gott annars að FH heldur sínum drjúga hlut í stjórninni...

mánudagur, maí 21, 2007

Hairdo 


Stundum rugla ég með orð og í þessu tilfelli breyttist Haarde í Hairdo. Við það varð nett útlitsbreyting á manninum. Þessi útgáfa af Geir minnir mig á einhvern en ég man ekki hver það er. (Þetta er ekki skopmynd og ég er ekki ungur framsóknarmaður).

sunnudagur, maí 20, 2007

Uppnefni 

Fyrst allir eru orðnir leiðir á Baugsmálum hefði formaður Framsóknar átt að nota tækifærið og finna frumlegra heiti á næstu ríkisstjórn. Hann hefði getað sagt:
- Þessi stjórn skal heita Geirlaug því það er það sem gerðist! Geir laug...

Áfram held ég að yfirfæra pólitík á fótbolta. Eftir rúma viku eigast við Derby (D) og WBA. Ef mynduð verður ríkisstjórn D&S í vikunni mun ég líta á það sem vísbendingu um að Derby vinni úrslitaleik umspils í 1. deild og spili í Úrvalsdeild næsta ár, en WBA er táknrænt fyrir stjórn vinstri flokka sem ekki varð úr að þessu sinni. Þetta segir þó ekkert um pólitískar skoðanir mínar...

laugardagur, maí 12, 2007

Vísbendingar 

Það má lesa ýmislegt út úr atburðum dagsins um væntanleg úrslit kosninganna. Ég fór allsnemma á knæpu að horfa á fótbolta og þar voru í boði S og D. Þar kaus ég D og hafði betur. Derby lagði Southampton í fjörugum leik. Framhaldskjörfundur í þeim slag verður á þriðjudag.
Svo fór ég í Bónus og keypti vörur fyrir 6666 krónur. Það er vísbending um djöfulleg úrslit í kosningunum eða eitthvað annað. Bónustalan er klárlega 6.
Á Skaganum tapaði mágur forsætisráðherra fyrir krötunum úr Hafnarfirði. Svo er veðrið búið að vera VG í dag - köld norðanátt.
Þetta túlki hver fyrir sig.

þriðjudagur, maí 08, 2007

Sporlaust 

Maður veit jú aldrei hvenær maður hverfur sporlaust. Ef það hendir mig á næstunni kann skýringin vera sú að ég á litla græna harmonikku og hef sést með hana á almannafæri nokkrum sinnum undanfarin ár.

Kjós 

Ég fór í sveitaferð með Snillingi (8) og skólafélögum hans. Sem ég tölti um svæðið helltust yfir minningar frá því ég fór í sveitaferðir sem kennari. Skemmtilegustu athugasemd gærdagsins átti þó einn kennarinn. Í dálítilli stíu var dropótt ær með lamb nýborið. Kennarinn skoðaði skepnurnar vandlega og sagði svo:
-Mikið er nú alltaf gaman að sjá kindur í ... sauðalitunum...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?