<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, mars 20, 2009

Fyrsti sláttur 

Eitt örskotsaugnablik fann ég í dag í vitum mér ilminn af nýslegnu grasi. Þá var ég inni heima hjá mér. Var þetta draumsýn um vor eða áhrif frá lögreglufréttum af kannabisræktun? Það kemur aldrei í ljós. En ég bar nú samt á í gær og stefni að vanda að því að vera fyrstur til að slá í minni sveit. Fyrsti krókusinn var kominn vel á skrið í morgun og einir þrír til viðbótar þegar ég kom heim úr vinnu. Vorjafndægur heyrði ég svo í fréttum... og lóa... og leit svo bak við hús og sá að nýi fótboltavöllur krakkanna var að breytast í það moldarsvað sem ég óttaðist að hann yrði þegar komin væru föst mörk og tilbúin grasflöt. Nú verð ég að birta hér kvæðið sem ég orti um þann ógurlega atburð sem átti sér stað í fyrra þegar móanum var slátrað. Birti það næst - stay tuned.

PS - bý ekki í Kollafirði eða nágrenni hans.

fimmtudagur, mars 12, 2009

Nýr hattur og góð saga 

Héðan í frá mun ég bera ábyrgð á því að setja upp og senda út skoðanakannanir á vegum vinnunnar. Líklega þarf enginn lesandi að hafa af því áhyggjur að lenda í úrtaki þar sem þetta varðar einungis námskeið, ráðstefnur og slíkt sem við höldum. Verst að hafa enga menntun úr aðferðafræði - en veit þó að ekki þarf að leita langt til að fá ráðgjöf. Tólið sem er notað er aðkeypt og túlkar niðurstöðurnar fyrir mann þannig að ekki þarf annað en taka ákvörðun út frá þeim - og það þarf ég sennilega ekki að gera.

Svo vil ég minnast á útvarpssöguna þessa daga - Sögur úr Síðunni eftir Böðvar Guðmundsson frá Kirkjubóli í Hvítársíðu - höfundur les. Ég hlýddi á 6 fyrstu lestrana í beit í gærkvöld á netinu, og á þá inni einn eða tvo. Já, ég er bara svona gömul sál. Þetta er reyndar skemmtiefni í hæsta máta, en ég velti fyrir mér hvort það helgast af því að ég þekki aðstæður og man vel eftir sumum bændunum úr Síðunni sem koma við sögu. Þeir voru sumir náfrændur mínir. Reyndar finnst mér óþarfi af Böðvari að dulbúa þessi minningabrot með því að endurnefna suma staði og sumar persónur. Þjóðkunn skáld fá að vera þau sjálf en óbreyttir sveitamenn eru dulbúnir. Allir sem vilja og geta finna út úr því um hvern er rætt hverju sinni. Ég mæli með þessu engu að síður og sakna þess dálítið að geta ekki rætt sögurnar við pabba...Hann hefði bætt einhverju við, án vafa.

Fyrir rúmum tveimur árum las ég lífssögu Guðmundar Böðvarssonar eftir Silju og hafði gaman af.

þriðjudagur, mars 10, 2009

3.09 tónlistarsmekkur? 


I'm Glad There Is You - Frank Sinatra
Money, Money, Money - Abba
Smokestack Lightnin' - Howlin' Wolf
Innocent when you dream - Tom Waits
Night_Shift - Bob Marley
Crucifixus - Gioachino Rossini
Rollin' Stone - Muddy Waters
Da sku' du sett'n - Alf Prøysen
Nebel - Rammstein
Myrkur, sjór og sandur - Bubbi
Over The Rainbow - Judy Garland
The Harder They Come - Jimmy Cliff
Livets gang - Alf Prøysen
The Godfather Waltz - Nino Rota
Moving - Kate Bush
Hasta Manana - Abba
Bell'star - Kim Larsen
Honeymoon Child - Emiliana Torrini
The Sound of Silence - Simon & Garfunkel
Minningar - Ellý Vilhjálms
Frostrósir - Haukur Morthens
That's Amore - Dean Martin
Black Is The Colour - Nina Simone
I Only Have Eyes For You - The Flamingos
Jezebel - Frankie Laine

Og hvað með þessi lög? 9. mars í gær og þá fóru í spilun lög sem eru 3 mín og 9 sek. Þetta var tilraun sem tókst vel. Þarna er hlutfallslega mikið af eldri dægurlögum þar sem þau eru styttri en nú tíðkast gjarna. The Sound of Silence af fyrstu plötu sem ég keypti, Marley lagið af Rastaman Vibrations, uppáhaldsverki sem skilið var eftir í snælduformi í kjallaranum hjá pabba og mömmu þegar þar var hætt að snitta rörbúta. Guðföðurvals spila ég stundum á nikku eða píanó. Og íslenska deildin vel mönnuð. Helst að maður sakni þess að ekki komst meiri klassík á listann, aðallega Bach, en búturinn eftir Rossini er þó úr stykkinu sem ég söng í útvarp fyrir Evrópu í frumraun með alvörukór fyrir 22 árum. Svo er þarna fyrsta lag á fyrstu plötu Kate Bush! Hún þroskaðist en ég ekki. Kate var fyrsta kona í Bretlandi sem kom sjálf eigin tónsmíð í efsta sæti vinsældarlista og var samstundis sett í þröngan bleikan íþróttabol, mynduð fyrir plakat og gerð að varningi.

sunnudagur, mars 08, 2009

Málarastörf auka skilning 

Um helgina greip ég í pensil og málaði m.a. gerekti (svo ég komi því skrýtna orði að). Á meðan hlustaði ég á útvarp. Eftir fjögurfréttir (á laugardag) auglýsti RÚV stöðu málfarsráðunauts lausa til umsóknar og ég skildi strax hvers vegna.* Í fréttatíma var greint frá ferð að miðju Íslands á 150 jeppum á vegum Umhverfisráðuneytis og Klúbbsins 4x4.
Daginn eftir kom fram að umhverfisráðherra** hefði ekki riðið feitum hesti úr forvali VG og ég skildi það. Ætli hún hafi ekið 4x4 jeppa úr forvalinu?

*RÚV var búið að leiðrétta auglýsinguna daginn eftir.
**Það er tilviljun að eldgamla færslan á undan og sú sem nú birtist fjalla um umhverfisráðherra. Í millitíðinni var skipt um ráðherra.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?