<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, júlí 24, 2003

Ég játa. Sænska kvikindið er búið að vera án stefnuljósa í­ einar þrjár vikur og án hraðamælis enn lengur. Ekki er mér vel við þá þrjóta sem láta helst aldrei vita um stefnubreytingu nema e.t.v. rétt í þann mund sem þeir rífa í­ stýrið og því­ hefur mér ekki liðið vel úti í umferðinni með þessa fötlun. Reyndar hef ég beinlí­nis valið mér leiðir með það í huga að þurfa ekki að beygja og leið mí­n til vinnu um þessar mundir er nánast eins bein og hugsast getur að blábyrjun slepptri - sem sagt Hringbraut-Miklabraut. Kvikindið er nú á verkstæði í einni alsherjaruppálöppun.

Heimasíða Lækers virðist vera dauð en þó vil ég síður tilkynna andlátið fyrr en það hefur fengist staðfest hjá mí­num fyrrum vinnufélögum. Leiðinlegt ef satt er því­ að hún var í­ stöðugri framför útlitslega. Það er spurning hvort maður fer af stað með nýja síðu og hvernig og hvar...?

Eitthvað velti ég fyrir mér hvort ég muni nokkuð úr mí­nu lífi frá því ég var 4. ára. Ég á tvær minningar frá Patró: annars vegar þegar ég fékk gat á hausinn við einhverjar æfingar á röravirki sem enduðu í­ fósturjörðinni, og hins vegar þegar ég ældi rauðmaganum útum allt eldhúsgólf. Síðan hef ég ekki etið rauðmaga, en götin á hausnum eru legíó. Þetta eru þó atburðir og auðvitað býr maður að því­ sem frætt var og rætt þótt það kallist ekki endurminningar enn um sinn. Svo er fullt af myndum sem eru til staðar og lifa gegnum sögur frá öðrum eða gömlu góðu slædsmyndirnar sem varpað var á vegg reglulega á æskuárunum. Þar eru skil í­myndunar og endurminninga Óljós. Áunnar endurminningar?

Nú er málið að taka frá daginn í sept. þegar FH mætir kr í undanúrslitum bikarsins í­ Laugardal. Sleppa svo frekar úrslitaleik FH og í­a sem verður leiðinlegur.

þriðjudagur, júlí 22, 2003

Það viðraði til málningarvinnu um helgina og nú búum við í Hvíta Húsinu - að vísu bara kominn grunnur en... Póstinum fannst þetta til bóta að því er hann tjáði frúnni.

Svo komum við á Þingvöll á laugardag í mikinn múg enda búinn að vera þar heitur pottur um hríð. Nonni hljóp niður Almannagjá með mömmu en við Hildur keyrðum á neðra bílastæðið. Við þurfum vissulega að koma aftur í­ haust í­ myndrænna veðri, haustlitum og hugsanlega berjum. Drengurinn er svampur á þjóðlegan fróðleik og krafðist þess í kvöld yfir fiskmáltíðinni að fá mikið að heyra um það þegar Skildinganes var eitt sex býla í­ Ví­kursókn, eða hvað það nú hét, og menn (Einar Ben, en ekki hver) sáu fyrir sér aðalhöfn Reykjavíkur hér við nesið, og þegar langafi Páll burðaðist ásamt félögum sínum með sexæring yfir Seltjarnarnesið yfir í Skerjafjörð til þess að koma honum á sjó þar sem allt var frosið aðnorðanverðu. Bakið hljóp í­ sinn árlega lás á föstudeginum og var ég því­ ekki til stórræða í Þingvallaferðinni en mæðginin skeiðuðu upp hálft Ármannsfell eftir lautarsnæðing og stóðu sig vel.

Það verður greinilega ágætt að fá nýja granna í húsið. Við Magnús áttum ágætt samstarf í málningarvinnunni um helgina og spjölluðum eitthvað saman um hitt og þetta, nágranna og fleira. Þetta fólk er líklega eins og við gátum best óskað okkur sambýlinga. Svo er að sjá hvenær tekst að ljúka við að mála. Tvær umferðir eftir og alltaf tínast til smáatriði, eins og veggurinn sem er jú eftir...

Litla barnið tekur heyranlegum framförum dag hvern í­ tali. Einhvern helgardagsmorguninn lágum við foreldrarnir í­ krampa eftir að hún beitti öllum brögðum til að plata okkur fram. Fyrst opnaði hún augun, reis upp og tilkynnti "lóló", og síðan fór hún hringinn í helstu sjarmabrellunum, tók eðluna, gamla "ha" karlinn, taldi upp að einum og kitlaði sjálfa sig, kyssti síðan sjálfa sig á meiddið, og klykkti út með því að þykjast hósta og halda fyrir munninn. Svo kom aftur beiðnin um "lóló". Á maður þetta skilið?

Mínir menn hafa staðið í stórræðum upp á síðkastið. Hrútarnir hefja sínar aðgerðir með stórtapi gegn Shrewsbury (who?) og FHingarnir skella Val í­ bikar. Gott að klára Valsaraskammirnar. Tólf ár síðan FH lék til úrslita gegn Val. Nú eru eintómar skammstafanir eftir: FH, í­a, ka, og kr. Best að fá ka næsta leik og síðan leggja kr í úrslitum.

föstudagur, júlí 18, 2003

Sennilega breytist þetta í óskiljanlegan texta þegar ég sendi og birti en ekki ergi ég mig á því nú.

Einhver maður kom hér í kvöld á sendibíl og hirti af efri hæðinni einhver húsgögn með þeim tengdasyni Þóru sem ekki er Magnús. Sendibílstjórinn lét sig hafa það að rannsaka plönturnar í beðinu og kveða upp þann dóm að þær væru lúsugar og þyrftu Permasect. Sko, menn koma ekkert hér og fara að tjá sig um blómin mín og hvað þau þurfa. Mig langaði helst að úða vatnsfælu á mannkertið.

En í staðinn úðaði ég á húsið og var lengi að þótt minn skerfur ætti bara að vera 23.74%. Lognið var einfaldlega svo heiftarlegt að ég varð að úða þessum fjanda og hætti um hálfþrjúleytið - farið að dimma svolítið á nóttunni en ég var kominn með góða tilfinningu fyrir úðunarhraða miðað við þörf svo að þetta var allt mjög vel gert.

Af þakinu kom í ljós Snæfellsjökull þannig að ég er ekkert að brjóta áralanga hefð fyrir því að hafa útsýn til jökulsins úr bústað mínum. Ég ætti að nefna við Magnús að fá að útbúa dálitla koníaksstofu á þakinu, t.d. í stíl við það sem Þorkell Sigurbjörnsson er með hjá sér. Þarna gætum við hist á kvöldin yfir tesopa, talað illa um Norðmenn og litið niður á grannana.

fimmtudagur, júlí 17, 2003

Þessi ferð á bókasafnið skilaði í hús annarri Bryson bók sem ég las snarlega. A Walk in the Woods, um göngu hans og félagans eftir Appalachian stígnum, en þó meira um mannlega og bandaríska náttúru. Þarna er margt að finna sem leiðsögumaður gæti tínt úr og notað til upplýsingar og samanburðar. Í einhverjum þjóðgarðinum var t.d. dælt út eitri í á eina til þess að búa regnbogasilungi skilyrði til að snúa þangað aftur (eflaust til að láta veiða sig), en niðurstaðan varð sú að menn útrýmdu 39 fisktegundum úr ánni og þar á meðal einni tegund sem aldrei hafði sést áður og var þarna útrýmt. Tveir fyrir einn: Uppgötva og útrýma í sömu aðgerð! Snilld.
Nú er ég að lesa Kanadíska bók sem lofar góðu. Af einhverjum völdum hef ég tekið vægu ástfóstri við austurfylki Kanada og menningu þaðan.

Svo fór ég á sunnudag í BYKO til þess að kaupa efni í sandkassa og kantspýtur. Sem betur fer benti náungi þar mér á að kaupa frekar tilsniðinn kassa sem síðan vakti þvílíka lukku á heimilinu eftir uppsetningu. Sennilega var þessi lausn ódýrari. Gaurinn sem afgreiddi mig var einn af þeim sem muna mig sem fótboltamann, og alltaf er jafnfyndið að hitta slíkt fólk. Maður þekkir það oftast ekkert en samt verða til einhver tengst sem tja, geta leitt af sér góða hluti eins og þarna gerðist. Í gærmorgun hitti ég síðan Jón nokkurn (fyrrum granna og Írisar, Ölmu og Einarspabba) hér í Skerjafjarðarblíðunni, á leið minni heim úr brauðleiðangri með börnunum. Mér fannst hann hálfforviða á því að ég gæti hugsanlega átt heima hér í þessu Bubbahverfi! Svo vorkenndi hann mér út af því að búa í þessu KR víti. Hann var að parketleggja eitt af nýju húsunum í hverfinu.

Eftir dágóða leit að upplýsingum um notkun Photoshop við myndvinnslu er ég nú loksins kominn að því að hagnýta upplýsingarnar. Undanfarin kvöld hef ég semsagt tekið mér fyrir hendur að búa til a.m.k. eina mynd með einhverri tækni sem ég þarf að læra. Mér finnst þetta verulega skemmtilegt og tek nú myndir með öðru hugarfari en áður þegar kann að vera að þær verði notaðar í einhverjar brellukúnstir. Verst hvað ég er lítill ferðamaður í mér.

Nú eru blómin mín farin að skarta sínu fegursta mörg hver og ævinlega spennandi að kíkja í gróðurhúsið og blómahornið á stéttinni eftir dagsfjarveru og gott veður. Sigurvegari í vinsældakeppni ræktunar hlýtur að vera "Blönduð sumarblóm", fræbréf sem hefur skilað af sér fádæmaskemmtilegum eintökum í blómstrun, og síðan koma flauelsblómin afar formfögur og farin að blómstra. Það verður athyglisvert að sjá hvað verður um það sem fór í beðið við stéttina. Vonandi nær það að blómstra. Blómahornið nýja er að ná fínum vinsældum - loksins tókst að finna verðugt verkefni fyrir hillurnar sem hófu líf sitt hangandi í keðjum í svefnkammersi mínu í Ölduslóð og voru upphaflega - jú, en ekki gróðrarstía fyrir margvísleg blóm og kaktusa sem ég tók uppá að rækta.

Hildur er hjálmvædd frá og með gærdeginum og verður þá ekki aftur snúið. Sennilega og örugglega verður krafan um hjólatúra mjög hávær héðan í frá. Börnin okkar blessuð eru einkennilega sólgin í hraða, príl og mannraunir, hvaðan sem þeir eiginleikar eru nú ættaðir... Nonni fékk síðan sinn fyrsta nothæfa flugdreka (í þriðju tilraun) og nú er bara að koma hjóli Önnu í stand, mála húsið, sprauta bílinn, koma sænska kvikindinu gegnum skoðun (sendi bara Önnu með hann;-) klæða heitavatnslagnirnar, setja niður kantspýturnar, fara í útilegu, (helst bústað líka, og fara utan og í Borgarnes) og leggjast síðan í leti. Ha!

föstudagur, júlí 11, 2003

Við notuðum tækifærið í dag, börnin og ég, að skreppa í­ Norræna og í Borgarbókasafn. Þessi þáttur í­ menningaruppeldinu er á mí­num snærum og einkar ljúfur og skyldur. Hingað til hefur Nonni einu sinni hafnað tilboði um bókasafnsferð og hefur hann þó farið með mér mánaðarlega síðan hann var ársgamall eða svo. Og nú er Hildur búin að koma með nokkrum sinnum. Aldrei nein vandræði eða uppákomur.

Fyrsta bókasafnið sem ég man eftir var lí­klega í­ kjallara Svarfhóls gamla í­ Borgarnesi. Síðan las ég megnið af bókasafni Barna- og miðskólans meðan ég lá brotinn á Skaganum. Mamma færðii mér þetta í sí­num tíðu heimsóknarferðum með Dodda í Dal á olí­ubílnum. Alvörusafnkúnni varð ég hins vegar hjá Bjarna Bach í þáverandi safnahúsi og mætti mjög oft til að skipta út hrúgunni. Sennilega hefur maður náð þremur umferðum gegnum Blyton seríurnar en Bob Moran, Tom Swift, Frank og Jói voru ekki eins góðir. Maður las nánast hvað sem var á þeim árum. Heilu kvöldin sat ég frammi í eldhúsi með stóru systur yfir bók, te og rist.

Þegar í­ bæinn kom var náttúrulega stutt að fara á­ Borgarbókasafnið í Þingholtunum, Esjuberg (síðar OZberg), en vitanlega fékk maður ýmislegt til gagns og gamans að láni í­ skólasöfnunum hverju sinni. Svo stundaði maður ddálítið fornbókasölur til að ná í ódýra reyfara og á þeim tíma voru þær a.m.k. sjö innan nokkur hundruð metra radíuss frá Lækjartorgi.

Þegar ég dvaldi í Toronto fékk ég mér snarlega skírteini á bókasafni borgarinnar og notaði drjúgt. Í Noregi sótti ég þrjú bókasöfn, nefnilega í heimabænum, vinnubænum og í Hamar, en þar var besta nótnasafn sem ég hef séð.

Í seinni tíð hef ég alltaf skráð mig í­ heimasafnið hverju sinni, en er nú á þrem stöðum. Held tryggð við Hafnarfjörðinn einkum vegna tónlistardeildarinnar þar.


miðvikudagur, júlí 09, 2003

Fórum á völlinn feðgarnir í gær: KR-FH 2-1. Nonni sýndi leiknum meiri áhuga nú en við sambærilega athöfn í fyrra. Sennilega náði hann ca. 15 mín. af leiknum annað fór í príl, athuganir og dund, en undir lokin hvarf hann lengst út á æfingagras og var skyndilega kominn inn í miðjan fótboltaleik! Hvort hann var með er svo önnur saga.

Í hálfleik stóðum við Arnar Gunnlaugs við rólu að fylgjast með sonunum og var mér skapi næst að tækla hann góðlátlega til að rifja upp gömul kynni. Svo mundi ég að hann spilaði á sínum tíma með Leice**er og velti þá fyrir mér að skalla hann, en ég nennti ekki að lenda í veseni með krakkagreyið hans svo að ég sleppti því. Arnar var allan tímann á vellinum, þ.e. róluvellinum meðan ég sá til...

þriðjudagur, júlí 08, 2003

Ég velti fyrir mér hvernig er að vera leiðsögumaður í Ástralí­u. Þetta virðist vera ýktasta land veraldar. 10 eitruðustu snákar og slöngur heims eru ástralskir, og í­ fimm öðrum hættukvikindaflokkum eiga Ástralir heimsmeistara: köngulóm, fiskum, marglyttum, skeljum og maurum. Svo eru náttúrulega krókódílar og hákarlar ef menn hætta sér nærri vætu. Ég man eftir tveimur ferðalöngum áströlskum sem með mér hafa ferðast, sjötugri frú í dagsferð og þrí­tugum tannlækni úr Laugavegstúrnum seinni. Afar þægilegt fólk og góðir ferðamenn.

Annars hefur ekkert gerst í jarðfræði Ástralíu seinustu 60 milljón árin, þannig að varla yrði mikið blaðrað um eldstöðvar. Saga frumbyggjanna er hins vegar athyglisverð. Þeir voru sennilega farnir að sigla um úthöf tugþúsundum ára á undan öðrum þjóðflokkum, eiga líklega elstu samhangandi menningarsöguna og hafa fádæmagóða aðlögunarhæfni. Þegar Evrópumenn birtust síðan á svæðinu voru frumbyggjar ýmist notaðir sem hundamatur, eða notaðir sem skotmark fyrir sportveiðimenn. Þó dóu margfalt fleiri þeirra úr sjúkdómum sem fylgdu aðkomumönnunum. Frumbyggjar voru fyrst taldir með í­ manntali 1967, rétt áður en aflétt var banni við innflutningi annarra en hví­tra manna. Þeirra saga er oftast innan sviga ef hennar er þá getið þegar fjallað er um sögu Ástralíu.

Nú fer að nálgast ár síðan við Anna fórum að taka eftir því­ hvað Nonni var farinn að heyra illa. Þetta lýsti sér þannig­ að hann hváði mikið og þurfti að hafa barnaefni á miklum hljóðstyrk til þess að geta fylgst með. Og aldrei kvartaði snáðinn. Hann var fljótur til að tala, með mjög góðan orðaforða svo að okkur grunaði ekkert, enda kvartaði greyið aldrei né var óvær. Við skoðun kom svo í­ ljós að miðeyrað var svo til óvirkt og í versta falli hefði þetta getað orsakað heyrnarleysi. Þetta var lagað með rörum (og jókst þá skyndilega matarlystin til muna) og nú er Hildur búin að fá rör fyrir allnokkru.

Enn eru þó að skila sér orð og hljóðarugl sem gætu stafað af bágri heyrn áður og fyrr. Við voru að ræða um Heiðmerkurferðir okkar í dag og þá sagðist hann hafa farið upp í­ eyðimörk að ná í­ jólatré með leikskólanum og fyrr um daginn kvaðst hann mundu verða niður sí­n ef mamma hans skoraði mark gegn honum í fótboltatölvuleik.

Dagurinn gat annars ekki orðið annað en góður eftir kveðjustundina sem Hildur setti á svið í morgun er ég var að leggja af stað til vinnu. Hún vaknaði, settist í­ rúminu, sá að ég var ferðbúinn og brá þá upp sparibrosi, vinkaði og sagði "BE"; sendi mér síðan fingurkoss og heimtaði koss frá mér. "Priceless" eins og þeir segja í­ auglýsingunum.

mánudagur, júlí 07, 2003

Ég er að lesa um Ástralí­u og hef komist að ýmsu merkilegu. Árið 1967 var þar forsætisráðherra Harold Holt. Gott og vel. 17. des það ár skellti hann sér í sjóinn til þess að synda, eins og svo oft áður, en sneri aldrei aftur. Gerðist lí­klega hluti af fæðukeðjunni. Í Melbourne er mannvirki sem ber nafn Harolds og er tileinkað minningu hans, nefnilega sundlaug ein mikil og glæsileg. Þetta er vel til fundið.

Ástralir eru búnir að flytja inn svo margar dýrategundir að kengúran sem eitt sinn var stærsta landspendýr þar er nú í­ 13. sæti yfir stærstu dýrin. Kettir eru á góðri leið með að útrýma ýmsum fágætustu dýrategundunum og þarna spranga um eyðimerkur 100 þús. villt kameldýr, afkomendur dýra sem voru flutt inn til þess að vinna við lagningu járnbrautar frá Adelaide til Alice Springs.

Sem betur fer er ég aðeins rétt hálfnaður með bókina.

Hildur er að ná því að ég er pabbi, en ekki mamma. Tí­mi til kominn, enda barnið farið að segja til þegar gera þarf stórt. Hún aðstoðaði við endurskipulagningu gróðurhússins í­ dag meðan mæðginin fóru í­ sund. Gróska blóma minna og barna er dágóð.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?