<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, ágúst 30, 2003

Ofurlöngun 

Þegar ég var í sveit forðum daga komst Sigga fóstra mín einhvern tíma svo að orði að hún léti eins og ólétt kélling og bara þyrfti að fá harðfisk strax. Seinna gladdist ég við sérhverja matarþörf minnar óléttu Önnu og bruggaði henni íshræru oftlega þegar Snillingurinn (4) var á leiðinni. Oft hefur mamma sent mér eitt og annað matarkyns á ferlinum, sultur, grænmeti og smákökur, en alltaf verð ég óðastur þegar berst harðfiskur í hús. Þá ét ég uns allt er búið. Samt kaupi ég mér örsjaldan harðfisk - einna helst í Kolaportinu en þangað fer ég næstum aldrei. Harðfiskur er annars ein löglegasta afsökun sem ég veit fyrir að éta hreint smér.

Undrið (1) er líka snarvitlaust í smér eitt og sér. Maður sér í henni eitt og annað sem minnir á langömmu hennar sálugu og nöfnu sem er besta mál.

föstudagur, ágúst 29, 2003

Um lævísi höfunda 

Sumar bækur láta mann lesa sig hálfar en síðan gerist eitthvað sem veldur því að maður dæsir og lokar og fer að huga að næstu bók. Oftar en ekki er þá málið að eitthvað yfirskilvitlegt á sér stað, látið fólk komið í annan líkama, forn álög grípa í taumana, draugagangur, blablabla. Þetta náttúrulega ergir mann. Og sama gerist í kvikmyndum. Látum vera þegar verið er að fjalla um tremma, geðveiki eða slíkt, en ekki í venjulegum sögum fyrir mig takk. Tvívegis á skömmum tíma hef ég látið blekkjast á þennan hátt. Einu sinni kláraði ég bók sem fór út í algera vitleysu, Midnight eftir Dean Koontz. En nú er ég að lesa danska bók og höfundurinn er svo huggulegur að ég held enn áfram.

Málun hússins lauk af minni hálfu í gær. Svo fór að lokum að málningin dugði nákvæmlega ekki. Nefnilega verður örlítill partur skilinn eftir af óviðráðanlegum orsökum og enginn annar en ég mun vita hver og hvar hann er. Lítum á það sem tilraun. Á táknrænan hátt lauk ég verkinu með klígju í hálsi og lagðist að því loknu ískaldur undir sæng og svaf 14 tíma sveittur og svalur. Enn er verk að vinna, gluggar eftir, en þeir fá að bíða næsta sumars. Nú þarf maður að taka til hendi innivið.

miðvikudagur, ágúst 20, 2003

Af afrekum 

Í því að ég bregð mér fram eftir eitt af þessum frægu sólóatriðum undursins (1) í gærkvöld heyri ég uml úr herbergi snillingins (4). Við nánari athugun kom í ljós að hann lá í æluhrúgu mikilli á svæflinum. Gott og vel. Fyrst maður tekur pakkann sem fylgir því að byrja á (nýjum) leikskóla er eins gott að gera það með stæl og ælu. Ekki vandamál að þrífa pilt og gera rúmið klárt. Svo sofnar hann en í því er ég bregð mér fram með útæld sængurfötin kemur ný gusa - mestmegnis vatn - en út um allt. Skipta um allt á ný. Í þriðju tilraun náðist mestallt í skál en síðan hellti ég því niður fyrir klaufaskap og þá voru lök uppurin og varð að grípa til annarra ráða. Að lokum þurfti að lesa sögu fyrir kappann til þess að hann tæki í mál að sofna og að því loknu upphófst þvottur mikill. Svona nætur eru skemmtileg tilbreyting.

Í kvöld kom þrenningin síðan heim úr afmælisveislu Unnar frænku (7) alþreytt en ánægð. Snillingurinn afþakkaði brauðneið og settist sem fastast yfir sjónvarpi þótt kominn væri háttatími. Eitthvað var hann framlágur. Þegar af var tekið skarið og gaurinn munstraður í náttföt og rifinn fram á bað var nóg komið. Drengurinn bókstaflega gaus þannig að afmælisveislan streymdi í fögrum boga oná klósettlokið og næsta nágrenni og síðan kom mamma og opnaði fyrir næstu gusu sem var engu kraftminni þannig að allir fletir innan skotgeira voru nú þaktir. Afar öflug magasprengja svo ekki sé meira sagt og afmælisveislan sem ég því miður missti af vegna málarastarfa kom til mín eins og til þess að leyfa mér að vera með.

Ég var eitthvað að hugsa um starfssvið sem ég taldi mig ekki hafa unnið gegn kaupi og datt þá í hug verslunarstörf. (Játa að ég hef aldrei verið á sjó, en þó þegið laun fyrir vinnu á sjó, nefnilega við viðgerð rafstrengs yfir Borgarfjörð.) Þá mundi ég skyndilega eftir því að eitt jólafríið vann ég við vörutalningu hjá Bifreiða- og trésmiðju Borgarness, BTB. Sennilega fékk ég starfann út á skáldgáfu í ættinni, enda veitti ekki af slíkri gáfu þarna niðri í kjallara úti í Brákarey þar sem ægði saman alls kyns varahlutum í 30 árganga af búvélum. Ekki þekkti ég margt af þessu en hafði gaman af því að upphugsa alls kyns nýyrði, enda lítið annað í stöðunni. Svo var allt skráð skilmerkilega í bleika þartilgerða bók, allt sem til var í sjoppunni, og ef einhver lumar á eintaki væri gaman að fá að kíkja á það.

Eitthvert vorið um svipað leyti vann ég síðan tvær nætur sem vigtarmaður í Brákarey. Þá var verið að skipa upp áburði eða fóðurbæti en einmitt þessar tvær nætur fór eitthvað úrskeiðis, krani bilaði eða eitthvað þannig að lítið var að gera. Ég hlustaði á Jethro Tull spólurnar mínar en játa nú miklu seinna að eitthvað blundaði ég þessar nætur tvær.

Þriðja starfið mitt í Brákarey, svo það dæmi sé klárað var allsérstætt og upprifjunarvert í ljósi frétta um úreldingu sláturhúsa vítt og breitt. Ég fékk nefnilega ekki vinnu nema út ágúst hjá Vegagerðinni fyrsta árið mitt í alvörusumarvinnu (þá 13) og þá var bara að skella sér í sláturhúsið eins og menn gerðu. Hlutskipti mitt varð að hengja upp gærur. Þegar gærurnar eru rifnar af skrokkunum eru þær heitar og þarf víst að kæla þær áður en þær eru saltaðar, en það var geymsluaðferðin fyrir fullvinnslu á þeim tíma. Þarna stóð ég dagana langa og hengdi upp gærur á þar til gerða króka á færiband sem gekk síðan út úr húsinu og tók það gærurnar um 20 mín. að kólna. Helsta gaman fláningsmannanna var að varpa öðru hverju eistum niður um rörið þar sem gærurnar komu og fólst fyndnin í því að á móti mér vann við þetta hugguleg stúlka af Akranesi sem Unnur heitir. Eistun sem lentu á minni vakt fóru hins vegar rakleiðis upp rörið aftur og öðlaðist ég allnokkra leikni í því að koma þeim upp um þetta rör. Ég ímynda mér að eistu fari álíka í hendi og handsprengjur og má því finna hér þá tengingu milli sumarvinnu og herskyldu sem menn hafa gjarna bent á. Líkega hefði ég orðið handsprengjukastari ef Ísland hefði haft her... Að gamni slepptu mun þessi íþrótt - eistnakast - vera með þeim sérstæðari sem ég hef stundað um ævina.

Talandi um íþróttir. Ekki má gleyma því að á unga aldri sótti ég danskennslu út í Brákarey. Dansskóli Hermanns Ragnars var nefnilega með námskeið í mötuneyti sláturhússins og gleymast aldrei ljúf spor sem þar voru stigin við sígild lög á borð við "Fyrst á réttunni," "Skósmíðadansinn" og sjálfan Jenkadansinn. Þetta var glæsilegt og stundum kom sjálf Miss Eitthvað International, Henný Hermanns, og kenndi manni, svo að líklega hefur þetta verið rétt um 1970.

laugardagur, ágúst 16, 2003

Reynslubankinn 

Í kvöld losnaði ryksugubarkinn í sundur einu sinni sem oftar og þá kom sér nú vel að hafa tekið golfíþróttina alvarlega á sínum tíma. Maður kippir með sér einu og öðru nýtilegu frá öllu sem maður baukar við í lífinu hvort sem er vinna eða annað. Þessir tveir hnútar sem lærðust í vegagerð og rafmagnsveitu ríkisins eru sígildir og alltaf í notkun. Löngum stundum sat maður forðum daga og saumaði leðurbolta þegar þeir fóru að gefa sig, eða þá að blaðran hafði snúist og framkvæma þurfti uppskurð. Þá var farið til Stebba skó og keyptur sterkur feitiborinn spotti og síðan seilst í nálasafn mömmu og oft þurfti maður að taka á þessu.Seinast um sl. helgi náði ég að nýta þá kunnáttu sem þar varð til þegar ég tók að mér að rimpa saumsprettu á júniformi frúarinnar. Og hvernig kemur svo golfið inn í þetta? Jú, þegar skipt er um gripgúmmí á golfkylfum er notuð ein af þessum sniðugu einföldu aðferðum sem allir ættu að kunna. Menn rífa náttúrulega það gamla af hver með sínum hætti en svo er það nýja mælt og síðan vefur maður teppalímbandi (með lími báðum megin) niður eftir skaftinu svo langt sem nýja gripið nær. Á þetta er síðan borið leysiefni (þynnir, terpentína, asetón) og nýja gripinu rennt uppá og það stillt af strax. Ekki líður á löngu þar til leysiefnið gufar upp og gripið steypist fast á kylfuna. Þetta má nota við ýmislegt og þar á meðal ryksugubarkaviðgerðir.

Svo lærir maður líka orð sem eru lítt gagnleg en sitja merkilega föst. Maður getur lítið slegið um sig með orðinu kúálklemmu til dæmis en eitt uppáhaldsorð sem ég lærði hjá Jóni fóstra í Hafnarfirði er gesteinskassi. Það orð hef ég gjarna notað í umræðu um fátíð orð og jafnan komið að tómum kofa. Hahaha.

föstudagur, ágúst 15, 2003

Það reddast... 

Hvort skyldi vera sterkara í mér þörfin fyrir að bjarga sér eða andúð á því að kalla á hjálp? Ekki spurning. Mér er meinilla við að biðja um hjálp og hef bæði lært mikið og eflaust misst mikið fyrir bragðið. Í dag harðneitaði sænska kvikindið að starta og ég staddur á bílastæði við Hagkaup í Skeifunni með börnin bæði og fullt af innkeyptu drasli og bókasafnsbókum. Hvað gerir maður? Reynir aftur, og aftur. Lyftir húddinu og snertir einhverja víra. (Auðvitað þurfti maður að vera í­ ljósustu buxum ever í dag.) Reynir aftur. Rífur hlífina af svissinum og kemur við víra þar. Ekkert. Opnar húddið aftur og skakar í viftureim, kertaþráðum og öllu sem maður þekkir með nafni. Nix. Við hverja tilraun lýsir snillingurinn (4) því yfir að hann sé nánast dauður úr hungri og spyrhvort maður sé með síma, segir að það þurfi að draga okkur heim og reynir að gera úr þessu svolítið ævintýri fyrirfram. Á meðan lætur undrið (1) lítið fyrir sér fara og fær eina kexköku með 4% fituinnihaldi og sykurlausa.

Sennilega tók það mig tíu mín. að afgreiða vandann með þvi að láta helvítið renna í gang. Tók áhættuna. Skeifan er ekki þekkt fyrir mishæótt landslag en ég átti því láni að fagna að hafa lagt upp við Hagkaup og þaðan er smáhæðarmunur niður á bílastæðið. Snillingurinn tók gleði sína afar snarlega og þótti vel gert en undrið söng "lída, lída, lída" sem er vissulega afmælissöngurinn. Við fórum á Borgarbóka til þess að fagna þessum tímamótasigri og lögðum í­ brekku (sogenannte) en auðvitað startaði sænskurinn eins og ekkert væri. Hvernig væri lífið ef ekki kæmu upp spennumóment eins og þetta...? (Fyrr um daginn var ég raunar búinn að redda afryðgaðri númersplötu að aftan á undraverðan hátt sem ekki verður lýst með öðrum orðum en: spýta + afgangsboltar úr einhverju sem ég smíðaði einu sinni.)

Svo var ég að velta fyrir mér hvað gæti enst manni lífið allt af þessum hvunndagshlutum sem alltaf eru í notkun. Sennilega er elsti einstaki hluturinn sem enn er í notkun hnífur einn sem gjarna er notaður sem smjörhnífur en flokkast annars undir stálhí­f í hnífaparasafninu. Hann fann ég á Þórólfsgötu sama kvöld og kötturinn Sponsa stökk á 3. meter upp á bílskúrsþak til að bjarga sér undan hundi. Þá var ég ca. 12. Síðan notast ég enn við fyrsta rakburstann sem ég eignaðist (ca. 17). Raunar á ég buxur sem enn nýtast ágætlega er ég keypti 17 ára gamall í Verzl. Ísbirninum! Smókinginn hans pabba sem ég erfði er nú miklu eldri en ég færi varla að nota hann nema í -30°C frosti á tónleikum eftir að ég eignaðist brullaupsfötin. Gatarinn minn er reyndar assgoti gamall líka.

fimmtudagur, ágúst 14, 2003

Líklega hef ég einu sinni farið af stað með nýju myndavélina til þess eins að reyna mig við alvöruljósmyndun. Í því tilviki var viðfangsefnið reyndar svo mikil klisja að ég nefni það ekki. Öðru vísi mér áður brá þegar hálfu dagarnir fóru í nokkuð dæmigerðar tilraunir til að ná snilldarmynd af ryðgaðri netakúlu, fjörulandslagi, stráum í vindi, skipum í höfn eða hvað þetta nú allt var þetta listræna. Nú eru myndir mínar heimildir um hamingju, gott veður, breytingar og fara ekki upp á vegg. Alvöruljósmyndarar nota víst ekki digital þannig að ég er í góðum málum. Þetta minnir mann á að alvörugolfarar bera pokann sinn. Ætli alvörubloggarar skeri sig ekki úr að einhverju leyti líka - séu ekki með kommentakerfi eða eitthvað.

Nú þegar ég er búinn að eignast rafknúna nefhárasláttuvél (fylgdi með snoðaranum sem ég keypti í Krónunni á slikk og sem borgaði sig þegar við fyrstu notkun) er ekki úr vegi að rifja upp ódauðleg ummæli Davíðs stórvinar míns Jónatans (þá 5) er honum varð litið upp í vinstri nös mína og varð að orði: "Heyrðu, það er könguló að skríða upp í nefið á þér!"

þriðjudagur, ágúst 12, 2003

Hjólað í skáld 

Afar barnanna minna eru skáld - tón og ljóð - annar tón, hinn ljóð og báðir agnarlítið hvorttveggja. Ekki þá að furða að snillingurinn (4) leiti í skáld meðvitað og ómeðvitað. Það rifjaðist upp fyrir mér í dag er ég sá að Einar Kárason og Þórarinn Eldjárn eiga að troða upp á Grettishátíð um helgina hvernig sá stutti hitti þá kumpána.

Í báðum tilfellum var sögusviðið göngustígur við Skerjafjörð. Þórarin hitti hann frekar illa, hjólaði beint í kálfann á honum og engum varð meint af. Þegar þarna var komið sögu var snillingurinn nýfarinn að hjóla á tvíhjóli með hjálpardekk.

Nokkrum mánuðum seinna var Einar Kárason með spúsu sinni á góðviðrisrölti er snillingurinn kom brunandi, nú orðinn kaldari og mun hraðari, og í þetta sinn hitti hann skáldið næstum fullkomlega. Einar fékk framhjólið milli lappanna og var í fátinu næstum floginn oní fjöru yfir háa steinhleðsluna en slapp með skrekkinn einungis vegna þess að hjólið var af alminnstu gerð tvíhjóla. Einar er nú ekki sá kloflengsti en reyndar vill til að hann er vanur því að menn hjóli í hann. Nú er maður farinn að hrópa varnaðarorð til skálda þegar þau eiga leið um stíginn samtímis snillingnum því að menn færu ekki heilir heim eftir náin kynni við gula vinninginn.

sunnudagur, ágúst 10, 2003

Dagur hóglífis 

Árleg afmælisferð í Café Flóruna til heiðurs tengdamömmu var bærilega heppnuð. Aðeins einn krakki datt í fiskatjörnina og sá var ekki á okkar vegum. Eins og venjulega í veislum fjölskyldunnar át ég mest (gildir ekki um tertuorgíur). Þegar hinir voru búnir að nærast en ég rétt að byrja upphófst talsverð geðshræring vegna geitunga sem gerðust sólgnir í sultu, ávexti og annað girnilegt. Á endanum lágu tveir í valnum og einn í lífstíðarfangelsi. Einn lést af sárum þeim sem Don Kaldó veitti honum við föngun, annan veiddi tengdamamma og Daddi drekkti honum í djús. Þann þriðja veiddi ég og sá fékk lífstíðarvist undir tómu glasi.

Í kvöldmatinn eldaði ég svo minn lítt kunna Grjóna- og grísarétt (fried rice) en upphaf hans má rekja til miðamerískrar kokkabókar sem nú er löngu horfin.

350 ml hrísgrjón
800 ml vatn
1-2 laukar
3-5 gulrætur
2-3 hvítlauksrif
3-6 sveppir
300-500 gr barið svínabuff

grænmetiskraftur (duft) 2 tsk
worcestershire sósa 3-5 msk
tabascosósa 10 dropar
svínaketskrydd
herbamaresalt
salt

Hrísgrjónin (ósoðin) eru fyrst brúnuð á pönnu í olíu og sett í eldfast fat/pott með loki þar sem vatnið tekur við þeim með snarki. Munið að taka lokið af fatinu/pottinu fyrir umhellingu. Í vatnið setur maður grænmetiskraftinn. Laukur, gulrætur og hvítlaukur er nú saxaður smátt og snöggsteikt í olíu/smjöri á sömu pönnu og því næst hellt út í vatnið þar sem hrísgrjónin lentu. Nú má hræra í fatinu/pottinum og setja á það/hann lokið og síðan inn í ofn sem stilltur er á 200°C. Þá eru sveppirnir sneiddir laglega og léttsteiktir í sméri á sömu pönnu. Sveppir síðan geymdir í góðu íláti. Nú er kjötið bitað í litla teninga og sett á þurra pönnu og safinn látinn koma út við allsnarpan hita - kryddið með svínakjötskyddi og salti. Veltið kjötteningunum í sífellu um pönnuna meðan á þessu stendur, eða þar til kjötsafinn er nánast gufaður upp en þá skellir maður Worcestershire sósunni á pönnuna með kjötinu og brúnast þá alltsaman. Bætið vatni á pönnuna þar til kjötið marar í hálfu kafi og skellið síðan Tabasco sósunni í gumsið. Látið það malla uns vökvinn er rétt að segja búinn. Hafi allt smollið saman eru nú grjónin tilbúin og þá er bara að henda sveppunum og kjötinu útí og sulla öllu þokkalega saman. Tilbúið - en samt við hæfi að bjöða þeim sem vilja að auka við kryddun með Herbamaresalti.

Ég tek fram að hlutföllin í réttinum miðast við tvær piparsveinsmáltíðir en oftast grípur mig slík græðgi er ég elda þetta að minna verður eftir til upphitunar daginn eftir en maður vonaði. Fjöldi eininga grænmetis er vitanlega háður smekk og stærð og svo má ugglaust breyta til og hafa annað með, sleppa kjöti eða nota annað en lykillinn að öllusaman er að forsteikja grjónin, passa að þau verði ekki of þurr né of blaut og nota sósurnar góðu. E.t.v. má sjóða grjónin á hellu en ég hef ekki prófað það. Málið er að ég á gamlan pott úr pottjárni sem er einvörðungu notaður í þennan rétt en ef hann fer frá mér einn daginn sé ég réttinn fyrir mér í digru, háu, glerjuðu, óskreyttu leirfati með loki. Ekki hef ég hingaðtil boðið upp á salat eða brauð með herlegheitunum og best veitist að drekka með þessu pilla.

Bætti í reynslusafnið í dag heldur betur er ég fékk það hlutverk að veiða kúk úr Árbæjarlauginni og nú erum við ekki að tala um einhvern leikmann Fylkis heldur ekta barnakúk. Eldri kona sagðist hafa séð kúk og fór að láta vita en starfsmennirnir töldu litlar líkur á að þetta væri satt. Frúin heyrði þau tala um þetta og eins og við manninn mælt sáum við lítinn og sætan manna liggja við botn. Ég var settur í málið þar sem ég er nógu langur til að ná niður á botn í svona veiðiferðir án þess að kafa. Þetta gekk mjög vel og fólk lét sér fátt um finnast hafi það tekið eftir þessu.

Í Europris var ég síðan ávarpaður sem starfsmaður. Einhver gamall karl spurði mig hvaða dagur væri í dag og var fullhranalegur fyrir minn smekk en ég lét sem ekkert væri og gaf kauða upplýsingarnar. Þegar hann sá mig síðan ganga að kerrunni þar sem snillingurinn sat og þóttist vera lítill bað karlinn mig hálfvegis afsökunar á því að hafa spurt, en hann hafi haldið að ég væri að vinna hér... Má annars ekki spyrja fólk á förnum vegi lengur hvað klukkan sé, eða hvaða mánaðardagur sé, án þess að það sé að vinna þarna?

Annars er þetta Europris einkennileg verslun þar sem öllu ægir saman og firnin öll af drasli má finna ef maður væri á þeim buxunum. Eitthvað svo norskt við það að sjá essensa fyrir heimabrugg uppí hillum svona verslana. Dálítið kaupfélagsleg búð.

Svo byrjuðu mínir menn sitt tímabil í dag á dæmigerðan hátt með stórtapi í fyrsta leik og eru neðstir í deildinni eftir eina umferð. Gott að geta ekki annað en bætt sig.

Rigningin sem dundi og buldi á bænum um miðjan dag gerði daginn sérstakan og hinsegin, enda langt síðan annað eins hefur sést.

laugardagur, ágúst 09, 2003

Jón hérí, Jón á horninu, Haukur hávaði, Ímat Úrmat, Kiddi í lofinu, Stebbi mold, Pilturinn, Leibbi skredd.

Þetta með Þórólf. Aldrei gæti ég fengið mig til að úthúða þeim manni fyrir samráð, enda fannst mér hann þrælgóður í fótbolta er hann 14-15 ára gamall lét ljós sitt skína á vellinum í þorpinu, sveitastrákur sem kom með pabba í bæinn að versla í Kaupfélaginu og hitta kunningja í leiðinni. Þá var ég passlega mikið yngri.

föstudagur, ágúst 08, 2003

Er ekki rétt að maður rifji upp viðurnefni þorparanna því þetta var nú lenska í smábænum fagra í æsku minni:
Siggi gúm, Hansi á löppinni, Haukur andskoti, Dóri á landi, Jonni hinsnef, Böggles, Toggi spariskór, Óli fíni, Doddi í Dal, Óli kauff, Kastrup, Ási ihihihihí, Rebbi, Geiri í skyrinu, Tungulækurinn, æ, þetta er afturvirkt einelti.

Kominn teljari og spurning hvort maður fer þá að segja einhverjum frá þessu?

Og Lækers dýrðarsíðan er risin upp frá dauðum mér að óvörum. Halelúja - Lúla.

Það sér fyrir endann á málningarmaraþoni sumarsins. Í kvöld klíndi ég á bláu á litla fleti og er þar með kominn svipur á húsið. Ítreka ég hér og nú að trén verða snyrt á róttækan en réttlátan hátt áður en vorar á ný og þá munu menn sjá muninn. Eftur þetta verður forgangur settur á klæðningu lagna og ekki seinna vænna að huga að hönnunarvinnu.

Ein kostuleg söfnunarsýki herjar á heimilisfólkið. Allt fullt af bókum, hillumunum, fötum, dóti, farartækjum, dósum, sælgæti, ljósmyndum, pennum og öðrum gögnum og hlutum. Ég á nú alltaf skrúfudolluna sem ég fékk að hirða hjá Moelven Brug á sínum tíma og dollan sú arna fær kosningarétt á næsta ári. Svo skánar ekki ástandi þegar foreldrasettin fara að tína í mann ólíklegustu hluti úr uppvextinum sem búið er að halda til haga gegnum eld og brennistein. Á maður oft eftir að skoða servíettubrotin sem Halldís kenndi manni í matreiðslu fyrir xx árum? Ég gæti nefnt dæmi um lævísi foreldrasettanna í þessum málum en fresta því í falskri von um betrun. Maður ætti að eiga geymslu úti í bæ sem fylla mætti á ársfresti og eftir árið síðan fjarlægja það sem ekki hefur verið saknað eða notað. Er maður ekki hvort sem er farinn að finna allt þetta drasl á netinu? Hræddur er ég um að ástandið lagist ekkert eða lítið nema upp verði teknar markvissar Sorpuferðir. Er nema furða að ein helsta hugdetta mín seinustu daga hefur verið að koma upp safnkassa fyrir húsið - það vantaði nefnilega bara að maður færi að safna gömlum kaffikorg, eggjaskurn, matarleifum og dauðum blómum.

fimmtudagur, ágúst 07, 2003

Eftir drjúga umhugsun hef ég komist að raun um að ég muni alls ekki eftir rigningarsumri í mínu lífi. Annað hvort voru regnfötin mín svona góð eða þá að ég var innivið þegar hann rigndi, nema mér sé svona skítsama um veður. Svo er óvíst nema minnið velji sér í sarpinn.

Veðrið í ár hefur nú verið snarvitlaust - blíða frá upphafi til enda. Þegar ég fór í dalinn græna sl. sunnudag og hugðist dunda við mitt golf að fornum sið reyndist svo vel sprottið að útilokað var að stunda dund. Til allrar hamingju var búið að beita duglega á hinum staðnum mínum svo að ástandið var þolanlegt. Svo eru trén í garðinum hér farin að skyggja á viðkvæma staði og ekkert annað í stöðunni en að höggva duglega í vetur. Það verður hvort sem er að leyfa nýmáluðu húsinu að njóta sín.

"Hvers vegna lét Guð brodd á hunangsflugur?" spurði snillingurinn í dag og varð fátt um svör. Ég fangaði tvær slíkar í­ krukku í­ dag eftir að þær höfðu gert sig sekar um ósiðsamlega hegðun í garði mínum. Og nú eru þær vonandi dauðar - karlinn lét lífið fljótlega enda kraftar þrotnir eftir fyrrnefnda hegðun. Svo fundum við dauða mús á engi og snillingurinn vildi endilega drösla henni heim en lét sig þegar ég hótaði að hafa hana í kvöldmatinn. Hins vegar lét hann glaður skerða hár sitt niður í 3mm rétt fyrir svefninn og var það vígsluathöfn nýju klippimaskínunnar sem ég keypti í Krónunni á spottprí­s. Venjulega virka svona ódýr tól alls ekki en öllum að óvörum var þessi hárskurður eitt gleðiverk.

miðvikudagur, ágúst 06, 2003

Gaman hve ánægður ég er með búskap okkar hér í Skerjafirði. Hverfið hefur sannað sig rækilega í mínum huga sem þó var óvenjuopinn þegar við fluttum hingað. Kostir fyrir fólk eins og mig eru margir. Veðrið á mínum stað er eitthvert það besta í Rvk. samkvæmt Veðurstofu, oftast hvað lygnast hér á öllu svæðinu og norðangarrinn sem ég óttaðist fyrirfram er annað hvort vestar í vesturbæ eða þá að hann þýtur yfir okkur. Reyndar er mjög heppilegur trjálundur á bakvið hús og svo snúa herlegheitin meira eða minna í sólarátt. Liðið hér í grenndinni er vel stætt upp til hópa og lætur lítið fyrir sér fara þanni að læti eru í lágmarki, og návist ýmissa toppa tryggir þokkalega viðveru löggunnar. Besta mál. Svo er stutt í sjóinn og tilheyrandi lykt og fugla. Umferð er frekar lítil nema um helgar þegar fólk á rúnti, ýmist gangandi eða á bílum á hér leið um til þess að kynna sér hvar séra Jón býr. Ég velti stundum fyrir mér hvort ekki væri ráð að selja kort sem sýnir hvar máttarstólparnir búa eða hreinlega bjóða uppá leiðsögn um helgar.

Krakkar á óknyttaaldri eru svo vel upp aldir að maður þarf að hvetja til rabarbarastuldar og rifsberjaþjófnaðar sem eru klassísk atriði úr vel heppnuðum og eftirminnilegum uppvexti.

Gallar eru þeir m.a. að hér eru röng íþróttafélög, engin önnur þjónusta en Skerjaver, sem þó bjargar ýmsu og kemur á óvart. (Hver vill t.d. ekki geta leigt sér hoppkastala fyrirvaralaust í sínu hverfi?) Strætóinn er nr. 5 sem er mitt gamla númer úr úrvalsdeild. Svo er nottlega fínt að hafa stórfjölskyldu konunnar í næstu götu - þá getur maður rambað dauðadrukkinn heim úr matarboðum eða látið aka sér í hjólbörum. Jú, maður hverfur snarlega að kostunum. Og hér eru götuheiti kjarngóð og sæmilega normal. Skildinganes er náttúrúlega eitt af upprunalegu býlunum í Víkursókn. Fjandakornið að ég vildi búa við Gvendargeisla, Jöldugróf, Lómasali (ha ertu blómasali? nei ég bý við Lómasali)eða Mururima (ha, hvað segirðu Harakiri?)... En fasteignaverðið maður minn, hehe, það er hrottalegt! Í fasteignablaði um daginn sá ég til sölu tilþrifalítið timburhús að vísu á góðum stað á 44.5 millur sem gerir 240kall á m2. Hátt í helmingi hærra verð en víðast hvar.

þriðjudagur, ágúst 05, 2003

Sló lífs míns lengstu golfhögg um helgina við prófanir á nýrri kylfu sem verður framvegis í pokanum fyrir fimmkall.

Það er svo skrýtið með þessa bifreiðaskoðunarmenn að sumir bara brosa og líma í miða - takk fyrir og bless! Er málið að mæta með tvö ungbörn á staðinn og reyna að líta út fyrir að fá taugaáfall ef miðinn verður grænn? Er e.t.v. snjallt að mæta á fös. fyrir verslunarmannahelgi? Vissulega var/er kvikindið sænska í lagi en Aðalskoðun veit samt ekkert um það enda fór gripurinn ekkert gegnum brautina hjá þeim.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?