<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, október 30, 2003

Tvö hrekkjusvín og Trabbi 

Já, hrekkjusvínin ógnuðu Snillingnum (4) svo ákaflega í draumi að hann vaknaði og leitaði til gamla mannsins. Þessar martraðir eru nú sem betur fer sjaldgæfar og allt læknast ef menn fá að skríða uppí. Sem minnir á gamla daga drengsins þegar Einar Áskell var í uppáhaldi, einkum bókin þar sem hann les hryllingssögur fyrir smábarnið. Þá kom iðulega fyrir að Snillingurinn (þá 2) vaknaði og taldi andarunga einn ásækja sig, en meðal lesefnis þá um tíð var 'Ungi litli', ein afar sakleysisleg bók.

Hálkan kom meðan Hafnarfjarðarmafían iðkaði sínar æfingar. Nú verður sænska kvikindið naglalaust í vetur og fróðlegt að sjá hvernig það gengur, þurfandi að sækja vinnu upp í hálendi borgarinnar. Félagi minn úr Mafíunni var rétt lentur utaní smábíl við Fjarðargötuhringtorgið, einn bíll var á hliðinni við Fífuna og svo var nýja akreinaskiltið við Skerjaversgatnamótin ekið niður, tveggja daga gamalt eða svo. Hálkan sem kemur hér er oft svo ógurleg þegar lofthiti og veghiti eru sitt hvorum megin við 0°C.

Gleymi ekki þegar ég brunaði framhjá þúsund bíla strönduðum lestum á Hringbrautinni fyrir rúmum tuttugu árum á græna Trabbanum og hló og hló. Ef maður festi Trabba var fljótlegast að drífa sig út og henda bílnum úr fyrirstöðunni. Annars er fyrsta minningin úr Trabba frá Kjalarnesinu, fjölskyldan á leið í bæinn, ca. ´69 í hrikalegri rigningu með bilaðar þurrkur.

Munaði annars litlu að ég væri búinn að finna lausn á svefnvandamálum Undursins (1) um daginn. Hún á það til að vakna eldhress uppúr miðnætti og vilja helst syngja og sprella, en þarna vildi til að Guðni Ágústsson var að ræða fiskeldi í endurteknu Kastljósi og sá ég mér til furðu að þegar hann tók til máls var sem allur vindur færi úr þeirri smáu. Svefninn var að ná á henni tökum þegar umræðan var úti, feministaspjall tók við og hún tók gleði sína á ný. Mátti ég þá syngja Línu langsokk og Í leikskóla fram á rauðanótt. Kannski Halldór virki sem svefnmeðal á þessa heimsins gleðisprautu - kanna það ef hann einhvern tíma sér ástæðu til að vera á Íslandi nógu lengi til að lenda í viðtali.

Svo má ég til að kvarta undan hljóðhönnun Orkuboltans. Maður væri fljótur að játa ofbeldi og yfirgang ef þeir beittu þessari helvítistónlist við yfirheyrslurnar. Máni Svavars hefði betur hætt þegar að lokinni rauðu fjöðrinni og Cosa Nostra. Æ, ég þoli þennan Orkubolta hálfilla yfirhöfuð. Svona peningamaskína kringum svokallað hugsjónastarf er ekki mér að skapi. Hugsanlega talar hér fyrrverandi gikkur á hollan mat sem kennir í brjósti um blessuð börnin sem nú pína í sig gulrótum og slíku þar til þau æla eins og ein mamman lýsti svo stolt í blöðunum um daginn. Ég sá aldrei ástæðu til að fara um garða á mínum yngri árum rænandi rófum og rabbarbara eins og sumir gerðu. Að láta sér detta í hug að éta þetta!

miðvikudagur, október 29, 2003

Þúsund kassa af kók 

Nú er ég að mestu hættur að hlusta á dægurútvarp enda úr alltof mörgu að velja en samt finnst mér Bubbi vera búinn að týna plottinu. Öll þessi nýju lög eru svo gömul og allt sem hann hefur að segja er hann búinn að segja þúsund sinnum. Hvers vegna ekki bara að hella sér beint í auglýsingarnar og syngja ofangreindan bloggtitil fyrir Vífilfell, eða 'Þúsund fossa fljótt' fyrir Landsvirkjun, eða 'Þúsund hrossa mót' fyrir Vindheimamela?

Það er snjallræði að geta unnið í tölvunni í vinnunni en samt verið heima hjá sér. Mörg minna verkefna eru þannig að slík tilhögun gengur prýðilega. Nú get ég sannarlega skilað mínum tímum þótt ég stundum þurfi að mæta seint eða fara snemma til að bjarga börnunum úr klóm stofnana, hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Bókin góða, HUGLEIÐIR, er komin í hús og almenn ánægja með hana. Verkið er hvergi til sölu, utan hvað hugsanlega má kría út eintök hjá höfundi og sjálfsagt líður honum best meðan svo er. Vonandi tekst að kría út Moggadóm... Höfundur fær þó alltjent ekki þá krítík sem ég held hvað mest uppá frá mínum ferli: 'Allt liðið var lélegt, en Bird spilaði sinn venjulega leik.'

mánudagur, október 27, 2003

Eng. Dept. 

Í dag sem oftar varð mér hjólað framhjá Aragötunni þar sem áður nam ég ensku en nú er Hagfræðistofnun. Sjálfsagt hefur Enskan fengið inni í Odda og húsið þarmeð orðið vettvangur heppilegrar skýrslugerðar eða þannig. Þetta var annars ágætisstaður til náms held ég og ansi heimilislegt, stundum fóru m.a.s. deildarpartí þarna fram! Sumir sem hófu enskunámið á sama tíma hurfu fljótt til annarrar iðju, s.s. frkv.stjóri Tóbaksvarnaráðs og þjálfari HK í handbolta

Einu munnlegu prófi man ég eftir vorið '81 á laugardegi og ljóst að drægist að ég kæmi upp en þar sem ég var þá þegar fyrirhyggjusamt ungmenni mætti ég til leiks með JVC gamla og eyddi biðtímanum í að hlusta á bikarúrslitaleikinn á Englandi ásamt Ma' Regal sem var eldheitur Spursmaður og kennari minn við deildina. Þarna sátum við í eiturgrænum Trabant í slydduveðri úti á bílastæði og heyrðum Ricky Villa skora eitt laglegasta mark sem gert var á Wembley.

Það kom í ljós í dag að Snillingurinn (4) er þrautseigur. Ég var búinn að vara hann við stormi og súld en samt vildi hann hjóla niður í Hljómskálagarð með okkur Undrinu (1). Gott og vel - ekki kvartaði hann undan mótvindi á bakaleið en þrautseigjan fólst einkum í því að hann röflaði yfir því að ég hefði valið ranga leið í bæinn frá því að sá valkostur kom upp og allt þar til heim var komið. Ekki þarf að taka fram að HANN valdi leiðina. Hvað um það - ég er ánægður með að hann nennir þessu hvoru tveggja - hjólreiðum og röfli í stormi og súld. Svo lét hann sig hafa það að fara og spyrja eftir Auði grannkonu vorri þegar komið var í ljós að skylduliðið var upptekið og þar hélt hann sig lungann úr deginum. Hann virðist kominn með það á hreint að pabbi er ekki þessi heimsóknartýpa.

Nú er komin út ljóðabók. Já - sennilega nefnist verkið HUGLEIÐIR og er þar kominn titillinn sem ég stal fyrir þetta blogg og breytti til móts við nútímaframburð. Þessi ljóðabók verður væntanlega gefin að mestu en lítið seld ef ég þekki höfundinn rétt. Enn hef ég ekki fengið eintak í hendurnar en fyrst höfundurinn er sáttur er ég það líka. Dæmi:

Gullbrúðkaup

Fimmtíu ár eru fjarska mikið,
en frúin er hress í nýja kjólnum,
svo fallegum og fínum.
Hún fetar sig hægt að bónda sínum
sem dottar í djúpa stólnum
og dustar af honum rykið.

Birt með fyrirvara um breytingar og í óleyfi.
Alltjent er mjög ánægjulegt að feður mínir báðir eru í útgáfuhugleiðingum. Annar í orði og hinn í tónum, eins og þeirra var von og vísa, og ekkert þá eftir annað en að þeir sameini krafta sína. Það verður næst.

föstudagur, október 24, 2003

Lífsháskalisti 3. sæti 

Það eru blóm útí beði
sem bíða enn.
Kemur ei sól og sumar
senn.

Maður vorkennir þessum vesalings sólblómum sem gerðu sitt besta og sum náðu m.a.s. að koma sér upp blómi án þess að blómstra almennilega. Og enn glyttir í gult. Þetta eru sólblóm send upphaflega sem fræ frá ABC barnahjálp út af syninum í S-Ameríku, Franco Matamala.

Einu sinni vann ég á úllíngaheimili í Noregi og þar var mér sýnt tilræði sem er í þriðja sæti yfir mesta lífsháska ferilsins. Úllíngarnir gerðu nefnilega uppreisn og þá þótti gömlu kristnu frúnum sem stjórnuðu við hæfi að kalla á unga Íslendinginn. Nýkomnum úr fríi í Þýskalandi var mér falið að dvelja meður fjórum biluðum einstaklingum nokkra sólarhringa eftir að þeir höfðu hrakið aðra starfsmenn á brott með ýmsum ráðum og sumum viðbjóðslegum.

Hvað gat maður gert - ekkert! Mitt hlutverk var að sjá um að enginn færi sér alvarlega að voða og að kofinn yrði ekki brenndur til ösku. Seinna kom svo löggan í spilið og önnur meiriháttar yfirvöld. Þetta var einkennilegt tímabil. Ekki gat maður hjólað í þetta lið og það var ekki í normal ástandi á neinn hátt.

Eina nóttina sat ég niðri í kjallara með hópnum þegar einum datt skyndilega í hug að dúndra glasi í hausinn á mér í mesta bróðerni. Sem betur fer var viðkomandi ekki í jafnvægi og því lenti glasið eina 3 cm ofan við skallann á gamla Skallagrímsmanninum og engum varð meint af.

Seinna fjalla ég um lífsháska 1-2.

Nóttin leið og sú næsta líka og síðan var genginu splundrað á ýmsa staði til vistunar og heimilinu lokað. Mánuðirnir í framhaldinu voru býsna góðir. Maður mætti í vinnuna á úllíngaheimilinu - engir úllingar - bara kéllingar og þurfti útsjónarsemi á hæsta stigi til að finna sér eitthvað að gera. Ég fór út í að innrétta herbergi sem smíðakompu, spilaði borðtennis við praktikantinn, hana Liss Uhlen fótboltastelpu, og dundaði við krossgátur þess á milli yfir kokekaffe. Síðan fór ég til Íslands aftur rétt áður en heimilið var opnað að nýju...

Hef verið veikur fyrir norskum krossgátum síðan og kaupi reglulega Norsk Ukeblad til að detta ekki úr æfingu.

Það er annars ljúft að vera Nojari - ekki spurning. Bara ekki eins skemmtilegt eins og að vera Íslendingur.

Ath. handarháski #1 átti sér stað í Noregi og fær sína umfjöllun einnig við tækifæri.

fimmtudagur, október 23, 2003

Leirinn lagði Mbl lið 

Þá er enn einn miðillinn farinn að reiða sig á bloggheima til að fá hugmyndir og fylgjast með atburðum líðandi stundar. Mogginn sá ástæðu til að fylgja eftir ummælum mínum um norðurljós þegar í næsta blaði eftir að þau birtust.

Við eldsnöggt rennsli gegnum listann yfir 100 merkustu skáldsögur allra tíma komst ég að því að þær sem ég hafði lesið las ég flestar þegar í æsku eða á unglingsárum. Einnig kom í ljós að á listanum er slatti bóka sem ég er löngu búinn að kaupa en hef ekki komið í verk eða þorað að lesa. Þannig er mál með vexti að ég býst fastlega við að rita mína skáldsögu þegar þar að kemur - og hvað væri þá verra en að hafa lesið Laxness og Dickens gervalla (auk hins sem ég nefndi) og enginn tæki mark á manni því maður væri að stæla... Mistök mín fólust í því að sitja samviskusamlega í bókmenntafræði heilan vetur meðan Gyrðir lét nægja að mæta einu sinni, vera einhvern veginn þannig að maður tók eftir honum í þetta eina skipti og hverfa síðan. Þetta lítur einhvern veginn svo skemmtilega út á CV frá skáldi:
Einn dagur í bókmenntafræði...
En hvað veit ég - kannski fór Gyrðir seinna í þetta. Alltjent eru þeir sem maður man eftir frá þessu ári ýmist bæjarstjórar nú eða blaðamenn. Mér er annars minnisstætt að margur spurði þegar í ljós kom að ég var í bókmenntafræði: "Hva, er ekki allt vaðandi í dópi þarna?" Eftir á að hyggja hefði e.t.v. í sumum tilfellum betur fylgt dóp með sumu því sem maður mátti þræla gegnum þann veturinn. Eiginlega er mér minnisstæðast að í einhverjum frímínútunum þennan bókmenntafræðivetur frétti ég á kaffistofunni að Brésnef væri dauður og einhver Andropov tekinn við...

Áætlanir mínar um þátttöku í kór eru búnar að vera í uppnámi nú á haustmánuðum og ekki bættu nýjustu tíðindi á vinnumarkaði fjölskyldunnar þar stöðuna. 150 manna Messías hefði verið skemmtilegt dæmi og eflaust Hjörturinn með Voxinu líka, en hugsanlega nær maður jólasöng eða eitthvað. Messías, Mattheus og Gloría eru það innlegg mitt í kórbankanum sem er á hæstum vöxtum í heilanum en svosem margt annað minnisstætt - eiginlega allt hvað á sinn hátt.

Þetta er annars svo hrikalega líkt fótbolta - tónleikarnir dálítið eins og úrslitaleikur: Maður æfir eins og vitleysingur mánuðum saman, gjarna með tilheyrandi æfingabúðum, fer síðan eitthvert og hitar upp, fer í búninginn og spilar leikinn. Fjöldi áheyrenda/áhorfenda er undir hælinn lagður, þjálfarinn yfirleitt stressaður, pabbi og mamma á pöllunum, dómarinn svona lala, tap eða sigur eftir atvikum, og einhvers staðar í framhaldinu er partí. Eitthvað af þessum æfingum öllum og uppákomum verður síðan eftir í skrokknum á manni til seinni tíma notkunar, ýmist líkamlega eða andlega. Skemmtilegast er að hafa komið við í sem flestum deildum - fjórða deild er eins göfug í minningunni og úrvalsdeildin. Skrýtin tilviljun að ég hef verið í vörninni jafnt í kór sem í fótbolta...

miðvikudagur, október 22, 2003

Ein báran ekki stök 

Sama dag gerist tvennt stórvægilegt sem getur haft úrslitaáhrif á líf mitt. Annars vegar sameinast vinnuveitandi minn sínum helsta keppinauti og hins vegar koma einhverjir náungar og kaupa Derby County. Þakka mínum sæla að þetta atvikaðist svona en ekki hinsegin. Sennilega væru hundruð þúsunda, ef ekki milljónir í öngum sínum ef Derby County hefði sameinast N******ham F****t. Að líkindum verður hinn atburðurinn einungis til þess að ég fæ meira að gera en áður ef eitthvað er.

Sagan segir að ónefndir peningamenn séu bak við náungana sem keyptu klúbbinn og kæmi mér ekki á óvart að Björgúlfur karlinn leyndist þarna einhvers staðar. Hann vill jú alltaf vera flottari en hinir og þeir keyptu bara St**e, hahahaha! Þar með væru auðæfi úr Rússlandi komin til sögu í tveimur af helstu knattspyrnuliðum Bretlandseyja.

Ég furða mig á norðurljósasprelli sem birtist á miðnæturhimni kvöld eftir kvöld. Oft hin laglegustu ljós og mesta furða hvað maður sér þetta vel héðan. Mín besta sýning af þessu tæi átti sér stað snemmvetrar 1984 er við Siggi Björns vorum á leið í Nesið úr Hólminum á Lödu Sport seint um kvöld eftir línuvinnu í Kolgrafafirði. Lætin voru slík nálægt Brúarlandi á Mýrum að við treystum okkur ekki til að halda áfram að keyra og dvöldum dágóða stund í vegarkantinum, albúnir því að á hverri stundu kæmi geimvera og spyrði til vegar. Siggi hefði sannarlega kjaftað sig út úr slíkri sitúasjón...

Þoli ekki hvað þetta lið í sjónvarpinu getur ekki spjallað við Skandinava öðruvísi en á ensku. Í fyrradag rakst ég á sænskan kokk sem var látinn tuða á ensku (Undrið (1) hélt því fram að það hefði verið Oddsson) og síðan seinna um kvöldið finnska konu. Ekki getur maður fullyrt neitt með þá finnsku og hennar skandinavisku, en dæmi um þetta eru á hverju strái. Svo bera íþróttalýsendur gjarna nöfn Skandinava fram á enska mátann. Æ.


laugardagur, október 18, 2003

Uggvænlegt haust 

Eitthvað undarlegt er á seyði. Við götu eina hér í hverfi hefur staðið ógnarstór skúta nokkra daga, vinnuflokkur hefur rifið upp malbik á helstu gatnamótum hverfisins og jarðýtur standa í ströngu í útjaðri þess.

Skútan er eins og afleiðing stormviðris, brottnám malbiksins gefur til kynna að nú sé í vændum einhvers konar hleðsludjobb á gatnamótunum og efnisflutningar bera því vitni að KR mafían sé að hasla sér enn frekari völl í grenndinni. Ég held að Oddodd hafi verið grár og gugginn út af þessu öllu saman í kvöldfréttunum frekar en út af einhverjum hæstaréttardómi. Undrið (1) mátti vart mæla af fögnuði yfir því að sjá loks goð sitt í sjónvarpi en Oddodd mátti það enda stórsigur unninn og allir ættu að skammast sín. Jú, ég er búinn að skammast mín heilmikið.

Það er annars merkilegt hvernig menn hafa komist af án upphlaðinna gatnamóta gegnum tíðina. Það er ég viss um að hátt í 30 ársverk fara í slíkar framkvæmdir í Borginni nú um stundir (með steinum og demparaskiptum og öllu) og þessu fylgja alls konar þrengingar og merkingar svo að á endanum fattar liðið að rútur eru hættar að komast um götur vestan Elliðaáa. Þá koma svona 15 ár með 45 ársverkum í að rífa þetta burt.

miðvikudagur, október 15, 2003

Það var um haustið ´93 

...eða eitthvað svoleiðis sem framsýnir menn í kennaraliði gamla skólans komu fyrstu vélinni í samband. Þá var ég grænjaxl í tölvuheimum en þarna gafst færi á að komast yfir einhverjar upplýsingar um mína menn í útlandinu. Ekki man ég margt frá þessum tíma en sambandið var ógnarlélegt, Netið alger frumskógur og erfitt að komast áfram að gagni. En maður lét sig hafa það.

Ætli mín kynslóð sé ekki sú sem fékk að upplifa upplýsingabombuna á svipaðan hátt og afi og amma urðu lentu í lífsgæðastökkinu mikla. Foreldrakynslóðin heldur einhvern veginn í endann á hvoru tveggja.

Það eru ekkert svo mörg ár síðan maður var strengjandi vír tugi metra milli heimahússins og vatnsgeymisins uppi á hæðinni til þess að eiga möguleika á BBC World Service, til þess að ná úrslitum og fréttum af boltanum - strax! Fyrsta útvarpið mitt hengdi ég um hálsinn á mér og hlustaði á Vesturfarana lesna sem miðdegissögu, í vegavinnu í Skorradal '75. Þetta var rússneskt VEGA smátæki með úttaki fyrir eyrnatól og ég man ekki betur en einhverjir hafi verið að laumast með svonalagað í skólanum, sjálfsagt til að missa nú ekki af Valdimar og morgunleikfiminni...

Svo átti Bjössi vinur minn Sinclair Spectrum, svo maður fékk nú að sjá og prófa svoleiðis. Nú eru félagar mínir í vinnunni að fá sér slíka forngripi til að rifja upp gamlar góðar minningar.

Heyrðu - ég minnist þess að hafa ritað lærða ritgerð um notkun tölvu við kennslu þegar árið 1984! Þarf að grafa hana upp og jafnvel birta glefsur...

laugardagur, október 11, 2003

Stórafmæli 

Innan skamms verða liðin tíu ár síðan Gulli í Laufási seldi mér Toyotuna góðu og jafnframt tuttugu síðan Skallagrímur bakaði Tindastól í úrslitum um meistaratitil í 3. deild eftir málaferlin mestu í íslenskum bolta.

Talandi um bolta þá spái ég 6-0 fyrir Þjóðverja á eftir í stórskemmtilegum leik þar sem 1-2 fá rautt spjald. Var svolítið að velta fyrir mér 6-1 en það er óraunhæft. Það verður gaman að hirða pottinn í vinnustaðarveðmálinu og allir fara að hugsa - Hva, hélt hann ekki með strákunum okkar? En - Geiri og Logi sleppa þá alltjent við kossaflens frá Samúel. Þegar ég skrifa strákabók kemur vel til greina að nota Geira og Loga sem aðalnöfnin, sbr. Frank og Jói, Steini og Danni.

Geiri og Logi eru líka feðgar í FH.


fimmtudagur, október 09, 2003

La bete suedoise 

Nú er ein af spennustundum daga minna úr sögu - hvort sænska kvikindið fer í gang eður ei. Það fór í startaraviðgerð og meðan Siggi bílabróðir tölvaði fram reikning fræddi hann mig. Sænska kvikindið er nefnilega hálffranskt eftir allt saman. Revolvo eða Volnault?

Þetta minnir á erfiðu dagana eftir að maður uppgötvaði að Enid Blyton væri kona! Þarna var maður búinn að lifa í þeirri lygi að Enid karlinn hefði nú heldur betur migið í saltan sjó og elst við bófa og ræningja áður en hann fór að punkta hjá sér minningabrotin sem urðu svo að Fimm-, Dularfullu- og Ævintýrabókunum. Megnið af þessu las maður á Sjúkrahúsi Akraness og man ég enn hvílíkur fengur var í að fá lánaða alla Ævintýraseríuna hjá Dúddí. Heyrðu - svo var Enid gömul kéllíng, og vond við börnin sín (allegedly).

Nú er ég búinn að aka um götur árum saman í þeirri trú að sænska kvikindið sé SÆNSKT með húð og hári, að vísu grunaði mann að DAF í Hollandi hefði eitthvað verið með puttana þarna. Svo er vélin frönsk og kemur þá skýring á blöndungsbrunanum mikla! Þetta gat ekki komið fyrir sænska vél auðvitað.

mánudagur, október 06, 2003

Vængjahurð í Nóatún West - Bílddælir missa prest... 

Elísabet Jökulsdóttir var í Nóatúni í kveldmatartraffíkinni að reyna að selja fólki nýjustu bókina sína: Vængjahurð. Ég setti undir mig hausinn og óð neitandi framhjá henni á leiðinni inn, enda með erfitt verkefni á herðunum - að finna niðursoðnar mandarínur. Sem minnir mig á að ég keypti rúgbrauð og lifrarkæfu sem ég ætla að hólka í mig síðar í kvöld er ég held áfram lestri sænsku bókarinnar Fallet G.

Nú ég var að hugsa um þessi systkin og móður þeirra meðan ég ráfaði stefnufastur um víðáttur Nóatúns. Ég keypti nokkrum sinnum af Elísabetu bækur á bókavarðartímanum og verður að segjast að hún er einörð en sanngjörn í sinni sölumennsku. Jóhanna mamma hennar hefur reynt að selja eldgamla bók eftir sjálfa sig til styrktar arabískunámi. Hrafn er að selja skák eins og brjálæðingur og Illugi selur spjallið úr sér hingað og þangað, en mest í útvarp. Ég hafði mætur á Illuga meðan hann var með Helgar-Tímann ásamt Agli Helgasyni á sínum yngri árum en svo var líka svolítið flott af honum að hætta í MR þegar honum var hafnað sem ritstjóra skólablaðsins.

Sem ég er að fara út í vindbeljandann sem er alltaf, ALLTAF, þarna við Hringbrautarendann hóar Elísabet í mig og býður mér að skoða bókina. Titillinn "Vængjahurð" kallaði beint á þá spurningu hvort hún væri að yrkja um KR vörnina, en hún kvað svo ekki vera en sagðist eiga son í téðri vörn, sem ég auðvitað vissi. Svo snerist spjallið að fótbolta og ég sagðist vera FH-ingur og það var skýringin á því að ég nennti að stoppa þarna, enda sagðist ég hættur að kaupa bækur og væri á leið heim úr bókasafninu með einar 12 skruddur.

Í kvöldfréttum kom síðan fram að Bílddælir væru að missa prestsembættið úr byggðinni. Þeim til hughreystingar vil ég nefna að engan höfum við Skerfirðingar prest en þó býr hér skólasystir mín, prestur, og er oft á vappi með hund sinn þannig að við ættum ekki að fara alveg á mis við heilagan anda.

föstudagur, október 03, 2003

I wish I was in Bíldudal 

Þeir segja að Bílddælir séu illa staddir þessa dagana. Það eru Skerfirðingar ekki miðað við allt. Samt hellist þessi löngun yfir mann öðru hverju að maður hefði hér sumt af því sem Bílddælir hafa: Nýtt íþróttahús, trúbadúratónleika, fjöll, bryggju. Æ, eitthvað.

Þrennt má nefna sem þjónustu við fólkið á staðnum:
a) Skerjaver sem er menningarpúnkturinn með sína hoppkastala- og vídeóleigu að ógleymdum alls kyns skemmtilegheitum sem þau nenna að standa fyrir.
b) Skerjagarð - einkarekinn leikskóla
c) Bókabílinn á mán. 18:00-19:00
Síðan er vitaskuld annað sem miðar að því að færa fólki eitthvað aðfengið eða koma því á staði þar sem það er þjónustað. (Skólabíll, kirkjurúta, aðsendur matur f. aldraða)
Sennilega er fólk sem hér býr ekki þess fýsandi að hafa aðgang að skóla, stórverslun, pöbb eða kaffihúsi, heilsugæslu, íþróttahúsi eða slíku enda varla grundvöllur fyrir því, fyrir nú utan að það yrði ugglaust til þess eins að lækka fasteignaverð.

Öldin var nú önnur forðum tíð þegar Jónas útvarps Jónasson var að alast hér upp. Þá bjuggu hér aðilar á borð við Gömlu-Gunnu, Skratta og litla-Skratta og Óla fjósamann á Reynistað. Í þá daga var líka hægt að láta skip stranda með því að benda á þau. (Sjá: "Polli, ég og allir hinir" sem er kvöldlestur þessa dagana). Í minni æsku var búið að yfirfæra þetta á flugvélar - ekki mætti benda á þær því að þá héldu flugmennirnir að maður væri að skjóta á þær og allt færi hjá þeim í kerfi. Svo mátti reyndar ekki borða of mikinn lakkrís (eða var það ostur) því þá yrði tippið á manni lítið og stutt. Og þetta með garnaflækjuna. Hver kannast ekki við einhvern Pétur eða Pál sem lá hálfa æskuna á spítala með garnaflækju af því að hann var alltaf að rúlla sér niður brekku? Ha! Enginn? Spurning með að fara að nota þetta þegar maður verður þreyttur á að tína strá og mosa úr flíspeisum barnanna.

Undrið (1) lærði nýtt orð þegar við feðgin vorum að lesa blöðin í morgun: "Dottott." Vísbending--> Hér er rætt um persónu. Svo var hún nánast fullan dag á leikskóla í fyrsta sinn, aðlögunarlaus, og leit vart við mér þegar ég sótti þau systkin eftir 6 tíma vistun. Bara fryd og gammen hjá kerlu að sögn allra sem komu nærri. Lýsi hér með yfir því að ég sætti mig við að þetta barn er ekki háð foreldrunum (að sinni) og fagna jafnframt því hve góða fyrirmynd hún á í Snillingnum (4).

Svo er Derby-West Ham á Sky á morgun! Stórmál það.

fimmtudagur, október 02, 2003

Bjúgu 

Matur er endalaus uppspretta hugleiðinga. Við félagarnir vorum fyrstir í mat í dag og gátum því fylgst með viðbrögðum allra hinna þegar þeir mættu. Í matinn voru bjúgu með kartöflum, uppstúfi, rauðkáli og baunum.

Áður en lengra er haldið afgreiði ég umræðuna um bjúgu/sperðla og uppstúf/uppstúfur með því að lýsa yfir votti af samúð með þeim sem aldir eru upp við síðarnefnda heitið en lítinn hef ég skilning á þeirra krossi.

Í mat á mínum vinnustað eru ca. 35-40 að jafnaði og meðalaldurinn er svipaður fjöldanum. Eitthvað eru strákar fleiri en stelpur, en ríkir þó jafnrétti (til að það sé líka afgreitt). Í samræðum fyrstu manna til að ausa sér á diska kom fljótt í ljós að flestir búa við þá hörmung að fá ekki bjúgu heima hjá sér. "Konan segir bara að svona matur verði ekki hafður hér á heimilinu!" sagði t.d. einn geðugur norðanmaður, "og ég má ekki einu sinni elda hann fyrir sjálfan mig." Mátti greina vætu í hvörmum af söknuði yfir skilnaði þessara drengja við bjúgnamáltíðir en jafnframt sannri gleði yfir því að fá þó þessi bjúgu.

Annar ungur piltur að norðan kvaðst hafa imprað á því í nýhafinni sambúð að langt væri nú síðan hann hefði bragðað bjúgu. "Svoleiðis verður ekki á boðstólum hjá okkur," á tilvonandi frú að hafa sagt.

Nú fóru menn að streyma í mat og varð margur pilturinn ofsakátur að sjá þennan klassíska rétt á diskum okkar sem sestir vorum að snæðingi. Ein og ein daman lét sig hafa að fá sér endatutlu með smáuppstúfi og kartöflum en þær voru í meirihluta sem óðu beint í jógúrtið og brauðið nánast í fússi og með formælingum.

Hvað er þetta með bjúgu og konur í blóma lífsins?

miðvikudagur, október 01, 2003

Spámaður 

Ritað 24. júlí:
Nú er málið að taka frá daginn í sept. þegar FH mætir kr í undanúrslitum bikarsins í­ Laugardal. Sleppa svo frekar úrslitaleik FH og í­a sem verður leiðinlegur.

Þetta rættist heldur betur! En við feðgar steðjuðum á úrslitaleik hafandi misst af undanúrslitum. Þarf að ræða það meir? Maður hitti alltjent ótal kunningja á stuttum tíma. Svo er að sjá hvernig Snillingurinn (4) vinnur úr þessu - hann kom á óvart með öflugum hrópum til stuðnings okkar mönnum og sat sáttur allan leikinn. Ég man enn fyrsta stórleikinn minn, 1968 Valur - Benfica, á háhesti, 18 þúsund og eitthvað manns á vellinum.

Man líka að ég fékk að fara á einvígið ´72, Fischer - Spassky og þorði ekki að biðja Geller og Larissu Spasskayu um eiginhandaráritun. Ekki varð ég skákmaður enda var fótboltaleikurinn góði á undan. Hins vegar hef ég ekki tapað skák í 25 ár!

Man líka fyrstu vísuna:

Það er byrjað að skefla
á kaldan mel.
Pabbi er að tefla
við Áskel.
Taflið er mjög spunnið
báðir gætu unnið
en þá fær pabbi í sig afl
og vinnur með öflugt endatafl.

Þarna er snjöll vísun í stórbókmenntir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?