<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, nóvember 29, 2003

Til Amsterdam með Arnarflugi 

Maður tók þátt í ýmsu skondnu á fótboltatímanum til þess að reyna að afla fjár til ferðalaga eða reksturs knattspyrnudeilda. Þegar Wembley var og hét á milli Þórólfs- og Böðvarsgötu var þar sjoppa í niðurníddu fjárhúsi þar sem selt var popp með meiru. Sýslumannssonurinn var í hinu fótboltaliði bæjarins, eða var öllu heldur á valdi þess, og fékk því framgengt að lögbann var sett á þennan rekstur! Við vorum þá á aldrinum 9-12 ára flestir.

Hvað var til ráða? Samþykkt var einróma á aðalfundi að hagnaðurinn yrði tekinn, steðjað upp á Essó og keypt gotterí, eins og nammi hét í þá daga. Safnaðist síðan hópurinn saman í kjallaranum heima hjá Jónka og Ella Fíu og gommaði í sig mikilli sælgætishrúgu, en hét því jafnframt að tapa aldrei fyrir þessum helvítum í neðra. Það stóðst. Þeir þurftu lögregluaðgerð til þess að vinna sinn eina sigur. Seinna var síðan reynt að klína á okkur fótboltastuldi og lögreglan sett í málið. Við náttúrulega vorum saklausir enda engin ástæða til að stela svona lélegri tuðru. Að mig minnir sprengdum við gripinn og grófum í jörð.

Seinna meir var iðulega fjáröflun fólgin í dyravörslu og miðasölu og borðaþrifum á sveitaböllum í Nesinu; alls konar áheitum safnað, en í Noregi lenti ég í kartöflutínslu sem fjáröflun og var það eitthvað það erfiðasta sem maður hefur lent í á knattspyrnuferlinum. Í FH bárum við einn veturinn nokkur tonn af milliveggjasteinum upp á fjórðu hæð í nýbyggingu og eitthvað rámar mig í að hafa eytt nokkrum hríðarbylskvöldum í að rífa timbur utan af húsi í Grafarvogi.

Það fyndnasta var hins vegar þegar átti að fara að selja peningaskápa og m.a.s. haldið námskeið fyrir okkur væntanlega sölumenn. Ég nenni ekki að tala um frosnar rækjur, happdrætti og klósettpappír í þessu samhengi.

Eitt sinn héldu hins vegar Skallarnir bingó á fjáröflunardansleik á Hótelinu. Einn vinningur í boði - ferð til Amsterdam með Arnarflugi. Ég var annar tveggja bingómiðasalanna og vildi svo skemmtilega til að ég hreppti þennan vinning á miðann minn. Strax kom upp góðlátlegur kvittur um að ég hefði svindlað.

Nú áratugum seinna get ég lýst því yfir að svo var ekki. Hins vegar var þetta á einhverjum þeim tíma sem ég var afar upptekinn og dróst um marga mánuði að ég gæti nýtt miðann. Heyrðu - fer ekki Arnarflug á hausinn! Síðan þetta gerðist hef ég verið tregur til að kaupa happdrættis-/eða bingómiða ef það yrði nú til þess að þeir sem gefa vinningana færu á hausinn. Síðar fór ég margoft til Amsterdam í boltaferðir og fannst borgin alltaf heldur óspennandi.

Frúin benti mér á frétt á forsíðu Fréttablaðsins: "Heimili rænt um hábjartan dag" þar sem m.a. kom fram að amerískum sælgætispoka hefði verið bísað. Dóttirin á heimilinu kom á mynd heldur döpur yfir því. Hún heitir Andrea RÁN! Sumt fólk veit ekki hvað það kallar yfir sig.

Mér finnst líka broslegt að "Viltu vinna milljón" sé í boði Búnaðarbankans. A.m.k. sýndist mér það um daginn er ég rambaði á einhverja ruglaða kynningu þáttarins. Maður ætti að reyna að komast að til að hjálpa Doddodd við að minnka sjóði þar á bæ. Hey, nú þegar Jónas R. er orðinn umsjónarmaður hlýtur að vera í lagi að horfa á þetta ruglað. Ruglað rugl ætti að koma út rétt eða er ég ruglaður?

fimmtudagur, nóvember 27, 2003

Pröysen og Vazelina Bilopphöggers 

Á Heiðmerkurárum mí­num ytra kynntist ég e.t.v. þessum ofangreindu menningarfyrirbærum hvað best. Pröysen rithöfundur og alþýðutónlistarmaður sem sá um barnatímann í útvarpinu þeirra áratugum saman en kemst ekki almennilega til skila í þýðingum því að hann skrifar og syngur á mállýskunni sem er erkisveitamállýska Norðmanna.

Tónlistin hans er í sama sveitanorræna andanum. Stundum hef ég velt fyrir mér að koma einhverju af þessu á framfæri hér en jafnharðan látið málið niður falla. Þetta gengi vart í ungdóminn, ja, það er að segja foreldra nútímans, því að foreldrarnir stjórna jú menningunni sem matreidd er oní börnin. Þetta er fólkið sem margt er búið að sjá 100 kvikmyndir fyrir hverja lesna bók. Kynslóðin sem brjálaðist yfir því að þurfa að eiga von á að fylgjast með Malcom í miðið á íslensku!

Vazelina var annar handleggur. Gamaldags poppsveit sem gerði út á slagara af gamla skólanum, ekki verra ef það voru lög frá Elvis tímanum með nýjum norskum textum. She´s not you varð þannig að Lada´n tel Hönefoss, og Don´t varð að Dumt og fjallaði um manninn sem varð fyrir því að læsa lyklana inni í bílnum í hörkufrosti.

Maður hélt að þetta væri liðin tíð hér á Fróni en svo dúkkar (skv. plötudómi) Sigga Beinteins upp með einhverja uppsuðu á nýju plötunni þar sem tekið er sígilt lag úr poppgeira og settur á það texti á íslensku sem fjallar um eitthvað allt annað en sá upprunalegi. Sigga Beinteins og söngskóli er eitthvað sem ekki rímar.

Einu sinni var ég í fótboltaliði með poppara og sá spurði mig eitt sinn hvort ég gæti reynt að kýla saman texta við lög á plötu sem annar poppari var að fara að senda frá sér. Eilíflega skal ég iðrast þess að hafa ekki slegið til. Þá héti Glímt við þjóðveginn eitthvað allt annað en það heitir. Annars hafa textarnir mínir þrír allir slegið í gegn...

Í fyrrakvöld sá ég fálka svífa tignarlega yfir götunni minni og hverfa yfir húsið hér. Þá er ég búinn að sjá ref og fálka álíka oft, en einu sinni fann ég dauðan fálka sem flogið hafði á raflínu nærri Fossatúni þar sem nú er poppbúgarður. Ég hirti nú af honum kló og lét þar við sitja.

Vinnufélagi minn einn gengur alltaf með eina slíka fálkakló um hálsinn, sennilega til marks um sigur mannfólksins á dýrunum, enda heitir maðurinn Þröstur og er ávalt kallaður Spörri.

þriðjudagur, nóvember 25, 2003

Þrautin leyst? 

Mér varð svo mikið um þegar granni minn manaði fólk til að hugsa sitt mál varðandi Kaupþingbúnaðinn að ég var fór næstum niður í einn af þessum þingbönkum til að stofna reikning bara til að geta tekið fé mitt út. Hann hefði sennilega lánað mér, karlinn, ef ég hefði nennt að rölta yfir. Þetta er nú einu sinni fjölskylduvinur, a.m.k. er Undrið (1) ennþá á því stigi að leita dauðaleit að Doddodd í blöðunum á morgnana þegar við setjumst að grautaráti.

Svo datt ég niður á þjóðráð og er nú búinn að taka út tugi þúsunda úr Búnaðarþingsbankanum. Sko, maður á bara einhvern aur inni á reikningi í bankanum sínum, tekur það út úr Búnaðarhraðbanka, hleypur í næsta banka og leggur inn á reikning sinn og fer svo út í Búnaðarhraðbanka og svo koll af kolli. Passa sig bara á öllum þessum ræningjum. Ég er að hugsa um að hætta ekki fyrr en ég búinn að ná kaupaukanum af þessum köllum. Svo ætla ég næst að upphugsa snilldarráð til að ná þingfararkaupaukanum af hinum köllunum, þessum sem alltaf bætist við þegar fólk er í kosningaþynnkunni. Enginn skyldi vanmeta mitt fjármálavit enda gjaldkeri matarfélags kennara í 11 ár.

Loksins er ég aftur kominn af stað í kórnum góða. Þótt ekki hafi allir verið mættir á minni fyrstu æfingu sýnist mér mannskapurinn í fínu formi, mannabreytingar vel innan skekkjumarka og prógrammið harla viðunandi. Auðvitað verður magnað að kyrja jólalögin enn á ný, að þessu sinni í Neskirkju, svo að ekki þarf ég út fyrir sóknina. Í framhaldinu er síðan Kantata 4, eftir Bach, og Chichester sálmarnir eftir Bernstein auk einhvers sem eflaust bætist við. Sumir kórar eru vinir manns og maður er þar félagi hvort sem verið er að syngja með eða ekki.

Hvernig verða jólakortin í ár? Fyrri ára form er gengið sér til húðar og ekki til eftirbreytni að maður haldi sig við sama föndur ár eftir ár, þótt vissulega sé kostur að þurfa ekki að hugsa og eiga jafnvel afganga. Aldrei var ég bekkjarkennari og þjáist því ekki af svonefndu föndurheilkenni eins og sumir sem ég þekki. Væntanlega verður engin stórvægileg breyting en föndrið, hvert sem það verður, breytist þó. Ekki mun ég ljóstra upp neinu að sinni en fyrstu prótótýpur voru framleiddar í gærkvöld og þá er að sjá hvað dómnefndin segir.

laugardagur, nóvember 22, 2003

Að stytta list 

Allir eru að röfla um Messías þessa dagana - "hva, fórstu ekki?" Æ, þau hafa örugglega ekki nennt að syngja hann allan frekar en venjulega. Þetta tíðkast nú á bestu bæjum að stytta listina til hægðarauka. Til dæmis nær Undrið (1) þegar í upphafi söngferilsins góðum tökum á þessu og útsetur ósjálfrátt og viðstöðulaust perlur söngbókmenntanna með tilheyrandi styttingum:

Afi Jón og amma mín
fyrir utan gluggann
sækja bæði sykur og brauð
í ofurlitla fötu.

Þarna er búið að skeyta saman fjórum vísum sem gjarna eru sungnar í einhvers konar halarófu en mynda þannig ekkert samhengi. Nú í nýrri útsetningu er komin saga í verkið og það myndar heild. Kýs ég að nefna formið Samskeytlu.

Svo er Undrið söngelskt að stundum breytist það sem hún er að segja í eitthvert lag sem er í uppáhaldi þá og þá stundina. Hún er að rífast eitthvað við mann: "ekki" -jú- "nei, ekki sofa" -jú, leggstu nú niður- "ekki gauli garnirnar!"

Nú er ég búinn að stækka brot af þessu myndefni sem var framkallað um daginn og kemur á óvart hvað þar er margt skemmtilegt. A.m.k. ein mynd sem nær í toppflokkinn og þá mynd tók ég með upp í vinnu í gær. Ein samstarfskvenna minna fór að gráta þegar hún sá myndina.

Annars er maður nýr og ferskur eftir sálfræðipepp á Þingvöllum með Jóhanni Inga. "Death by PowerPoint" kallaði einn svonalagað, en sá gamli kann að mala og segja nógu margar dæmisögur af frægu fólki og brjóta alltsaman upp á hæfilegan hátt, svo að athyglin helst vakandi.

Það er kominn sá tími að Giljagaur gæti farið að hringja og spyrja hvort ég geti verið með í giggi bráðum. Ekki er maður nú oft að þvælast í íslensku mollunum en þeir jólasveinar sem þar hafa látið ljós sitt skína að mér viðstöddum hafa flestir verið ósannfærandi unglingar sem gera út á læti, eða einhverjir tónlistarvonnabíar með girðingu kringum skemmtarana sína. Er ekki öllum sama um hvort sólóið hjá Stúfi í Kringlunni í gær hafi verið gott eður ei. Yngstu börnin eru enn ekki viss hvort þau eru hrædd eða spennt eða hrifin, og hamagangssveinar geta skemmt eða eyðilagt til frambúðar þennan þátt jóla hjá krílunum.

Svo er ég allt eins farinn að búast við upphringingu frá Jóni Ólafs í sjónvarpinu því nú er hann búinn með alla sem: a) nenna b) hafa eitthvað fram að færa c) eru þess virði að hlusta og horfa á (nema Megas). 6-7 ára hljómsveitarstjórn í hinni vinsælu hljómsveit Húnum og Birni, margir fjölsóttir tónleikar með dúettinum Þórðargleði & Bjarnargreiðar (a.k.a. Staurarnir), svo eitthvað sé upp talið, ætti nú að duga miðað við allt.

Nei, ætli Steini spil [sic] fari ekki að birtast hvað úr hverju í þessum þáttum. Það var annars iðja ungra drengja á mínum uppvaxtarárum að safnast saman fyrir utan ballstaðINN í bænum og hlusta dálitla stund. Síðan ef hljómsveitin var ekki nógu góð var einfaldlega hleypt úr öllum dekkjunum á hljómsveitarbílnum til þess að einelta viðkomandi sveit úr plássinu að eilífu. Þetta gilti um aðkomusveitir - okkar menn í Nafninu, Sandroki og Chaplin fengu frið enda bestir.

þriðjudagur, nóvember 18, 2003

Sex filmur 

Langt síðan ég hef staðið í jafnströngu við framköllun. Afrakstur kvöldsins eru sex filmur, ekki sexfilmur, og sennilega ein 80% af því myndir af blessuðum börnunum og sumt sem ég mundi hreint ekki eftir. Við stækkun kemur vonandi í ljós hvaða minningar þær geyma. Auðvitað er þetta allt upp á gamla mátann og sumar myndirnar (95%) ekkert sérstakar en hin 5% eru 100% árangur. Ergo ætti ég að fá út úr þessu svona 8-10 þokkalegar myndir og þar af verður ein jólakort ársins í ár.

Maður kemst í sérstakt ástand við þessa iðju. Framköllunin sjálf er svo sem ekkert spes - þótt alltaf sé gaman að sjá að eitthvað er á filmunni og sumt þokkalega skýrt, en stækkunin er fýla og gult ljós (rautt í bíómyndunum) og leikur að ljósi og filterum og allskonar tilraunir. Svo þegar fólk sér þetta segir það: "Já, assgoti er gaman að þessum GAMLA stíl." Svart/hvítt, Ilford, vökvablöndur, tilraunir, fýla og myrkur - það er ljósmyndun, segja kunnugir, en mér finnst líka gaman að leika mér að stafrænu og Photoshop og öllu því. Það er bara allt annar handleggur.

Gleymi ekki þegar ég var að kenna þetta. Oftast bara stelpur í hópunum og maður einn með 8-10 gelgjum í herbergi sem var 3,5 m2 og svartamyrkur, en meistari Haukur var búinn að leggja lífsreglurnar þannig að aldrei kom neitt vafasamt uppá. Í myrkrinu gleymdist smám saman að til staðar væri leiðbeinandi og þá fékk maður að heyra margar sögurnar.

Yfirleitt gekk vel en einu sinni í framköllunartíma þegar dömurnar voru í þann mund að klára að vefja uppá keflin tók ein uppá því að kveikja ljósið í herberginu þannig að á sekúndu eyðilögðust 360 myndir. Þá var grátið í annað skiptið á mínum kennaraferli - því einhverjar höfðu tekið myndir af tunglmyrkva eða einhverju álíka sem á sér stað á x ára fresti. Hitt skiptið var þegar ég reynslulítill lagði of erfitt orðabókarverkefni fyrir afskaplega metnaðarfullan hóp og þá grét ung stúlka sem nú er orðin læknir að ég held.

Annars bíð ég spenntur eftir því að einhver nemenda minna fyrrverandi verði heimsfrægur því að á tímabili var ég harla duglegur að taka myndir og á því allgott filmusafn frá drjúgu tímabili kennsluferilsins.


laugardagur, nóvember 15, 2003

Innbrot í geymsluna 

Einhvers staðar í manni er hólf sem geymir fortíðarminningar. Ekki heilu sögurnar eða dagana heldur ákveðnar aðstæður og stundum mjög stuttar stuttmyndir. Svo veit maður aldrei hvað er sýnt og hvenær.

Allt í einu er kannski kominn vetur í Dalhallanum og ég að reyna að standa upp með brotinn lærlegg og Bói á Borg að reyna að hjálpa mér en ekkert gengur, löppin bara snýst og hann nógu mikið eldri til að vita að eitthvað er að. Ég sé ekki hvort ég er grenjandi...

Vísvitandi innbrot í geymsluna skila oftast ekki sama árangri og gjarna næst þegar maður óvart og skyndilega dettur þar inn. Auðvitað er fullt af minningum sem maður er búinn að setja á harða diskinn og getur bara spilað að vild en hinar eru bara meira spennandi að mörgu leyti og stundum alveg órökréttar. Hvers vegna man ég mig uppi á hól bak við hús hjá Grönfeldt með félögunum ræðandi stoltur um að nú sé mamma að eignast barn, en svo man ég ekkert eftir því þegar þær nýbökuðu mæðgur komu heim?

Svo er nottla einhver innri ritskoðun í gangi líka. Þannig gæti ég rakið aðdraganda og gjörð fyrsta marks FH í Evrópukeppni, sýnt hægt og afturábak en man nánast ekkert eftir fyrsta sjálfsmarki sama klúbbs í sama leik. Er ekki einu sinni viss um að það hafi verið til staðar, hvað þá að sami maður hafi átt í hlut.

Og varðandi kennslu í grunnskóla sem nú tíðkast að ræða. Auðvitað á maður ekkert að geta munað allt og allt en ég man það helst úr stærðfræðikennslu þegar Guðm. Sig var að reyna að fá okkur til að finna blinda blettinn í auganu. Svo man ég að Björg í Einarsnesi las Ódysseifskviðu fyrir okkur en man ekki hvað hún kenndi okkur í 1.bekk gaggó. Hún mundi reyndar hvorugt þegar ég hitti hana um daginn. Úr enskukennslu man ég eilíft stríð tengdaföður Tenórsins við eiginmann núv. umhverfisráðherra og það Gilsberg-gengi allt. Ekki pólitískt stríð, tek það fram. Svona mætti lengi telja.

Sprengfyndin frétt um daginn, talandi um Gilsberg. Þar kom fram að Borgnesingar ætluðu að fara að huga að verndun minja í Englendingavík þar sem væri vagga verslunar staðarins. Svo var sýnt hvar börn og menn voru í óðaönn að rífa niður hús sem tengdust Gamla Kaupfélaginu, þar sem Gilsberg einmitt var með höfuðstöðvar.

Skyldi þetta annars ekki vera kallað eldgamla Kaupfélagið, nú þegar Kaupfélag Bernskunnar er orðið að íbúðum og núverandi KB er þar sem Áhaldahúsið var og þar áður Rörasteypan sem breyttist í LoftOrku, og þar sem ég talaði frönsku í fyrsta og eina skiptið.

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Kvikindið klesst 

Ónei, þeir sem héldu að dagar sænska kvikindisins væru taldir við áreksturinn í­ gær ættu að endurskoða sinn hug. Ef eitthvað er það nú komið með sexí afturenda eins og er í tísku meðal bílaframleiðenda nú. Annars hafði ég ekki lent í óhappi sjálfur síðan á öðrum degi ökuskírteinisins þegar ég festi Pólska Fíat á þvottaplani með því að keyra framaf kanti.

Þetta var svona dæmigert allt saman: röð við umferðarljós, einn bíllinn búinn að búa sér til bil, brunar af stað, en næsti á undan ekki, bilmaðurinn hemlar, ég hemla en sá þriðji ekki. Maður beið bara eftir högginu. Nú, öllum á óvart varð nánast fagnaðarfundur góðkunningja þarna á slysstað þegar málsaðilar ruku út úr ökutækjum sínum: "Nei, blessaður vinur, hvað segirðu gott? Allt gott að frétta, ha?" Ég sem bjóst allt eins við því að þarna væri KA bölvunin enn einu sinni á ferð og þetta hlyti að vera Þorvaldur Örlygs eða Erlingur Kristjáns. Kemur þá í ljós að náunginn er stakasti FHingur og prýðispiltur, og ég hefði vart getað óskað mér indælli mann að klessa á kvikindið. Ekki nóg með það. Ég var á leið heim úr körfu og að öllu jöfnu á þessi maður að vera í hópnum sem mætir í salinn á eftir mínum hópi, en þetta kvöld þurfti hann semsagt að hitta útlending í bænum. Gat nú verið - allt útlendingum að kenna.

Nú er ég kominn með útsýni í vinnunni - já, ef þessi Akrafjallsklessa væri ekki fyrir sæi maður meira að segja stofugluggafjallgarð æskunnar. Svo sé ég líka fyrstu og einu vetnisstöð landsins í nokkru návígi. Hey, ef þar verður sprenging, get ég orðið vitni að vetnissprengingu.

Tólf urðu árin hjá ríki og bæ í skólanum og á þeim tíma flutti ég mig tvívegis um set. Á innan við þremur árum hinum megin er ég fimm sinnum búinn að skipta um staðsetningu.

Talandi um skóla. Nei, um stærðfræði. Ahh - best að sleppa því.

Vandi minn er ljúfsár. Tónleikar næstu tvö kvöld og ég verð með börnunum heima: Vox og Rúss í kvöld, og Tod og Sinfó annað kvöld. Ég færi hundrað sinnum heldur á þá fyrri ef ég mætti ráða, en ég verð að viðurkenna þennan veikleika sem gildir jafnt um kóra mína sem íþróttalið: ef ég get ekki verið með finnst mér hörmulegt að horfa á eða hlusta. Þess vegna var ég svo sjaldan á bekknum í boltanum. Þegar hljómsveitir svo eru farnar að spila með Sinfó er sjálfkrafa kominn einhver mygla í dæmið, er ekki svo? Todmobile er þó mín popp/rokksveit enn sem fyrr og þegar ég sel íbúðina verður í textanum: "Í íbúðinni urðu til helstu stórvirki Todmobile (satt) sem allir viðurkenna nú að eru sígild." Nokkrar millur fyrir það...

Eitt er það með reyfara sem angrar mig. Æ oftar rek ég mig á ágætisbækur sem fjalla um löggur og bófa þar sem úrlausn fléttu skiptir alltof litlu máli. Deus ex machina á seinustu 10 bls. býr til fáránlega atburðarás og morðingja úr lélegri aukapersónu. Hvimleitt. Nú ætla ég að lesa Mýrina (Nordermoor) eftir Arnold von Einritter, á þýsku:"Wer ist der tote alte Mann in der Souterrainwohnung, in Nordermoor?" Maður kemst snarlega í gamlan Derrickfílíng. Og þýðandinn er kona gamla þýskukennarans sem átti sveitaprestsdrauminn.

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Feng soginn fastur 

Svo hélt ég mig a.m.k. vera. Fyrir rúmri viku breytti ég hjá mér í vinnunni og taldi mig að því loknu vera búinn að Feng Shua mig í átt að óskastöðu og allt fór þetta vel af stað. Nú eru hins vegar enn innanhússflutningar á döfinni og færa þeir mig fjær KAFFIVÉLINNI og svo er að komast að því hvort það er af hinu góða eða ekki. Sú vél heitir raunar Saeco en er ekki Killer, held ég. Fátt er friðsælla en að vinna innanum forritara - maður heyrir í mesta lagi bölv stöku sinnum þegar kóðinn gerir uppreisn eða snarpa hláturhviðu þegar eitthvað fyndið rekur á netfjörur þeirra.


mánudagur, nóvember 10, 2003

Fótalaus um fertugt 

Já, maður fékk að heyra það frá umhyggjusömum ættingjum á sínum tíma þegar hvað mest var æft og spilað í boltanum. Og vissulega slitnaði og tognaði og rifnaði og þrútnaði og krumpaðist eitt og annað. Ekki vissi maður alltaf hvað var í sprautunni hjá doktorunum sem áttu að kippa málum í lag fyrir næsta leik. Einn veturinn át ég kynstrin öll af mjólkurafurð sem hét Ýmir í því skyni að bæta utan á mig vöðvum. Hafði lesið að kraftakarlar hámuðu í sig Ými daginn út og inn.

Aldrei náði ég þó að verða sérlega kraftalegur. Aðalmeiðslin mín í lífinu tengjast meðfæddum aulaskap eða sumarvinnu miklu fremur en boltasparki. En alltaf voru það svo norðanmenn sem meiddu mig mest í boltanum, einkum KA fantaskrattar. Ein hrukka á enninu er meira að segja bein afleiðing þess að einn þeirra skallaði í hausinn á mér sumarið '95. (Ójú- þetta er eina hrukkan enn sem komið er...)

Heyrðu - svo fór ég að lesa viðtal við unga hreystikonu í blöðunum. Mjög einkennileg íþrótt, hreysti, sem virðist ganga út á að pynta sjálfan sig ýmist með ofáti, ofdrykkju vatns, skipulegri vannæringu, fæðubótarefnum og almennri vitleysu. Svo eru étnar súkkulaðirúsínur og drukkið rauðvín rétt fyrir mót. Hreysti - vúha!

Og ekki má gleyma tilheyrandi ljósalampagrillun, rakstri og smurningi ýmiss konar þótt viðkomandi hafi ekkert minnst á þetta. Og af þessu missti maður gersamlega ... en alltaf er von með börnin svo þau hætti ekki á að verða fótalaus um fertugt af fótboltasparki.

Annars náðum við Snillingurinn (4) merkum áfanga um helgina. Vorum í fyrsta sinn samanlagt meira en 100 kíló skv. vigtun í sundlaug Grafarvogs. Þessi sundlaug var reyndar ósköp svona grafarvogs og því veit ég ekki hvort maður á að trúa vigtinni. Ekki fylgir sögunni hvor okkar feðga hafði bætt á sig því sem til þurfti.

Attenborough sá svo til þess að búa til sjónvarpsmóment vikunnar með því að eldast skyndilega og sýnilega um 15 ár við það eitt að fá spurningu um hvað það hefði gert honum að missa konuna sína.

Mér fannst ég sjá Alex Ferguson í Rúmfatalagernum á laugardaginn og það getur svo sem passað því að United var ekki að spila fyrr en á sunnudag. Týpiskur skoti - farinn að munda pennann til að skrifa undir 2. milljarða samning en hikar þó ekki við að kaupa sér sokka og nærbuxur í Rúmfatalagernum.

fimmtudagur, nóvember 06, 2003

JP Morgan biður að heilsa 

Skildi ekki fyrst hvað maðurinn var að fara með að bjóða mér að fjárfesta í amerískum hlutabréfum. Eins og ég sé einhver fjalaköttur í Kauphöllinni. Enda varð kauði klumsa þegar ég kvað fátt um fína varðandi hlutabréfaeign mína eða ekkert. Svo yfir uppvaskinu dró ég þá ályktun að maðurinn væri að hringja á heimilisföng frekar en fólk og búseta mín í bubbagötu lægi þarna að baki. (Ekki átt við Bubba). Hefði annars átt að lýsa yfir áhuga mínum á nokkrum sneplum í Haliburton... Alltjent er JP Morgan kominn á stúfana í þessari hringingahringekju sem fer í gang þegar maður er að gefa á garðann eða lesa/segja svefnsögurnar (já, sögur í ft.)

Gunnar Hersveinn er með ágætis pistil í Mogga um ólíka nálgun kynjanna á notkun frítíma og eitt og annað varðandi kynjamál á jafnréttistímum. Auðvitað býr hann sér til stereótýpur eins og við er að búast enda flest miðað við þær. Karlinn horfir á fótbolta og drekkur bjór, skýtur villt dýr og drekkur meiri bjór, meðan konan horfir á ... ja, þátt um eldamennsku (les Jóa Fel hahaha) og fer á námskeið, er í klúbb og fer í menningarferð.

Svo velti ég fyrir mér hvað menn borða í þessum karlaklúbbum. Skyldu Rotary- og Lionsmenn vítt og breitt t.d. vera að gæða sér á nýjustu grænmetisréttunum? Er í gangi einhver beikon- og steikarorgía þessi kvöld sem þeir kjósa samkarlast til að láta gott af sér leiða? Ég held ekki. Annars var ég einu sinni í góðu karlrembufélagi sem fundaði innan um mikinn kvennafans (bókstaflega), og þegar fundarefnið var þorramatur, viskí eða eitthvað álíka þjóðlegt og karlmannlegt var ekki laust við að fiðringur kæmi í fansinn.

Stundum þurfti ég í gömlu vinnunni að hengja upp óvinsælar auglýsingar (rukkanir) og lenti einatt í því að enginn tók eftir þeim. Eftir drjúga umhugsun komst ég að þeirri niðurstöðu að best væri að birta mynd af alsberri konu með auglýsingunni til að garantera að kvenfólkið tæki eftir henni. Til að karlarnir tækju við sér væri nóg að setja fyrirsögnina FRÍR BJÓR! Lendingin var að ná athygli allra með því að setja stóra og feita stafsetningarvillu á áberandi stað og þá var ekki um annað rætt næstu daga. Jú, þetta var í skóla...

miðvikudagur, nóvember 05, 2003

Langanir 

Stundum hrópar eitthvað í mér á skrýtnustu fyrirbæri. Allt í einu langaði mig til dæmis fyrr í haust að vera á göngustígnum við gervigígana á Skútustöðum. Oftar en ekki langar mig skyndilega í tiltekinn mat eða þá að ég hugsa með mér að ég verði að heyra tiltekinn kór úr Mattheusarpassíunni. Einu sinni var ég líka viss um að besti kosturinn í stöðunni væri að vera prestur. Oftast tekur veruleikinn þessa óra hálstaki og snýr þá í leðjuna af offorsi.

Þýskukennarinn minn í menntaskóla átti sér sveitaprestsdraum og viðurkenndi það fúslega.

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Lexía 

"Hvað ertu að gera kella (1)?"
"Fikta." Stórt og prakkaralegt glott.
"Viltu hætta að fikta og setja símann á hilluna!
"Já."
Aðdáunarsvipur frá pabba og ákaft kollkink.
"Mjö duuuuuleg."

Þetta er málið. Ef aðrir eru ekki nógu snöggir að hrósa er bara að gera það sjálfur.

"Heyrðu gaur (4) viltu koma þér niður úr trénu. Þú ert kominn of hátt."
"En ég þarf að komast í betra útsýni."
"Þetta er hættulegt og ég vil ekki eiga brotinn gaur."
"Ég er alveg að komast nógu hátt."
Lítur upp og síðan niður. Vonlaust...
"Pabbi, hvernig komst ég svona hátt? Geturðu komið og bjargað mér."

Mikilvægt að vera gúl gaur en geta beðið um aðstoð þegar við á.

sunnudagur, nóvember 02, 2003

Mig vantar fjall (hól til vara) 

Á sumum stöðum er útilokað að búa án þess að hafa fjall einhvers staðar í útsýninu en því er ekki að heilsa hér. Það vantar meira að segja hól, varla þúfu að hafa. Þetta angrar mig ekki ósegjanlega en Snillingurinn (4) leitaði lengi að sæmilegri brekku til að renna sér þegar hvítnaði jörð um daginn en sneri heim vonsvikinn. Reyndar vantaði mig nálæga brekku um daginn þegar sænska kvikindið var með bilaðan startara.

Kosturinn við götuna hér er þó yndislegt söltunarleysi á vetrum. Vonandi fær maður að búa við það ástand sem lengst.

Þeir söltuðu ekki í Nesinu í gamla daga nema helst gærur og skíðasleðinn var eitt helsta leiktæki vetrarins, já sumum nánast samgöngutæki. Þó var slík notkun bundin við krakka en þegar ég seinna bjó í Noregi var algengt að sjá eldri konur í búðarsleðaferðum. Það vantar ekki brekkurnar í Nesið. Ingimundur Grétars átti alltaf flottasta sleðann.

Hann var hljómsveitarstjóri í fyrsta bandinu mínu sem var stofnað í ruslageymslunni heima hjá honum og ég lék þar á ísskápsgrind. Það þótti líkjast mest hljómborði af því drasli sem leikið var á og pabbi spilar á allt svoleiðis og því hlaut ég þetta hlutverk. Seinna var ég svo kjörinn formaður skákklúbbs af því að pabbi er svo öflugur skákmaður. Svo var ég jólasveinn, nei best að láta hér gott heita.

Mikið er annars gleðilegt að Sinéad O´Connor er hætt. Vonandi bannar hún allan flutning hugverka sinna frá og með nóvember '03. Einu sinni keypti ég plötuna þar sem lagið Mandinka er að finna og upp frá því var hún í niðráhaldi hjá mér. Aðallagið hennar (og Prince) og það leiðinlegasta var í gangi á Jamaíka 1990 þegar ég heyrði ódauðlegu setninguna á barnum: 'Do I kvitt here?' þegar barþjónninn rétti fram reikninginn til undirritunar og þótti honum ávarpið einkennilegt.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?