<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, desember 31, 2003

Bara að hann snjói... 

Maður er á uppleið í þorpinu handan vallar. Nú er staða brennuharmonikkuleikara mín opinberlega og búið að gefa út 6 bls. söngbók til notkunar við fjöldasöng í kvöld. Þar af er reyndar Gilsbakkaþula heil blaðsíða og vænti ég þess að hún verði varla sungin þótt mér renni hálfvegis blóðið til skyldunnar sem Gilsbakkamanni. Ekki kann ég öll lögin í heftinu en það gerir ekkert til því að hann fer vissulega að snjóa eða rigna áður en flautað verður til leiks og því ótækt að fara út með nikkuna grænu. Alltjent má vona.

Annars væri gaman að koma á fót Færeyskum dansi við blessaða brennuna. Aldrei hef ég verið í eins magnaðri gleði eins og þegar dansur glumdi í höll á lokakvöldi kóramótsins forðum í Tórshavn. Um þrjúleytið var skyndilega hætt að spila og dansa og maður hélt að þá væri tími til kominn að halda heim. Ekki aldeilis! Þá komu Færeyingarnir með súpu í gríðarlegum potti og helltu í mannskapinn til að orkan væri næg í frekari gleðskap.

Þetta dragspilsdæmi hlýtur að teljast eins konar uppbót fyrir skort á jólasveinshlutverkum í ár, eftir hátt í tíu ára farsælan Stekkjarstaursferil hér og þar. Giljagaur karlinn er orðinn eitthvað lélegur til heilsunnar og sennilega því um að kenna að hann leitaði ekkert til mín í ár.

Kórinn minn lét taka upp jólatónleikana og ég er nokkuð sáttur við útkomuna miðað við aðstæður og undirbúning. Það gekk ekki sérlega vel að æfa og mér fannst ekki réttur hljómur í okkur en svo endaði þetta svona þokkalega. Þá á maður upptökur frá Gloríutónleikunum og þetta jólaprógramm til seinni tíma áheyrnar og yndis - besta mál. Ekki síst út af því að nú fyrir jólin var ég eins konar tebassi - tók iðulega undir með tenór þegar bassi var í fríi enda dálítið fámennt hjá þeim piltum.

Ein af einkennilegustu áráttum mínum er að þurfa helst alltaf að búa til snjókarl um leið að hráefni til þess er til staðar. Ásamt poppkornsfíkninni er þetta nokkuð sem hefur fylgt mér frá unglingsárum. Hann snjóaði í fyrradag hér og um tíma var snjórinn hnoðhæfur. Ekki dugir að búa til einhvern einn karl lengur heldur þarf fjölskylduna alla eins og eðlilegt hlýtur að teljast. Það tók um hálftíma að rúlla þessar 12 kúlur sem til þurfti og nóg efni til staðar í garðinum.

Því miður var hláka næstu tíma á eftir og ekki nógu vel vandað til verksins. Fyrst fór höfuðið af mömmunni og því næst pabbinn allur ofan fóta. Lengi vel var staðan þessi að börnin hölluðu sér skælbrosandi að fótum föður og höfuðlausri móður sitt hvorum megin. Síðan hrundi höfuð stráksins oná pabbann og lúrir þar friðsamlega. Stelpan er enn uppistandandi og brosandi að vanda, en hallar sér makindalega að mömmunni. Vonandi gefst á morgun tækifæri til að koma þessari fjölskyldu hér í garðinum á rétt ról.

sunnudagur, desember 28, 2003

Jólagjafir 

Allt í lagi að viðurkenna að það vorum við feðgarnir sem stóðum fyrir flugsýningu við Norræna húsið í dag. Eflaust hafa einhverjir skemmt sér og rekið upp stór augu en við skemmtum okkur best. Leikföng nútímans eru svo mögnuð.

Flygildið er þrýstiloftsknúið og gefur frá sér sannfærandi relluhljóð og flýgur stundum. Maður þarf að pumpa í það með þar til gerðri pumpu og ýta hreyflinum af stað. Þegar vel tekst til fer þetta 25-30 metra upp í loft og svífur stjórnlaust á annað hundrað metra. Fyrsta flugferðin var hér á bak við hús en þegar vélin hvarf yfir húsaröðina og stefndi á haf út varð þegar ljóst að finna þurfti stærra svæði.

Pumpan brotnaði nokkuð fljótt og brátt tóku vængir og stél að láta á sjá en við héldum ótrauðir áfram í á þriðja tíma og hlógum mikið. Snillingnum (4) fannst mest gaman þegar stélið losnaði af í háloftunum og gripurinn hrapaði á sannfærandi hátt til jarðar. Einhver góðhjörtuð kona bauð okkur á jólaball í Háskólanum "með jólasveinum og allt", en við létum þó ekki freistast og héldum okkar striki þrátt fyrir kulda. Að vísu datt þeim stutta í hug að gaman gæti verið að sjá Háskólajólasveina, en ég sagðist kannast við nokkra slíka og þeir væru nú ekki allir merkilegir gaurar.

Sennilega er þetta orðin dýrmæt minning. Fyrstu flugtilraunir Snillingsins (4) í Vatnsmýrinni með einni jólagjöfinni sem afi og amma gáfu en mamma keypti.

Æskujólagjöf allra tíma í mínum huga er leðurboltinn sem Haraldur Blöndal keypti en pabbi og mamma gáfu mér þegar ég hef verið 12 ára eða svo. Þá voru leðurboltar ekki fylgihlutir með pylsupökkum og kókkippum svo að maður lét sig hafa það að snapa sprungna bolta, spretta upp saumnum, gera við gúmmítuðruna og sauma saman aftur með spotta sem mamma útvegaði hjá Stebba skó. Maður náði góðri tækni í þessum saumaskap með tímanum en það gekk nokkuð á sláturnálar heimilisins ef ég man rétt.

Blöndalsboltinn var hins vegar sérstakur að því leyti að gúmmítuðran var óvenjutraust og leðrið var límt utaná hana í sexhyrndum einingum. Boltinn entist það vel að leðrið hreinlega eyddist upp.

Það snjóaði fallega þegar boltinn var dreginn úr pakka og auðvitað fór ég beint út með gripinn og skallaði í vegg svo lengi sem mér var stætt á að vera úti það kvöld.

þriðjudagur, desember 23, 2003

Survivor IV 

Eða - Hvernig lifa skal af jólainnkaup.

A) Ekki skal raka sig í ca. 3 daga
B) Farið í svört föt - mikilvægt að vera í öflugum skóm (stáltá) og með fasistalega derhúfu.
C) Fáið lánaða litla druslu til að keyra milli staða (eftir þörfum).
D) Éta eitthvað með hvítlauk áður en haldið er af stað.
E) Vera með eyrnatappa eða þungarokk í heddfóni.

Svona aðferðir ímynda ég mér að gætu virkað fyrir þá sem ekki þola að spranga um Kringlur og Lindir á þessum tí­ma ársins. Ekki kemur til þess að ég muni beita þeim þar sem innkaup eru afstaðin - takk - án þess að ég kæmi nærri. Þegar maður er nærri 1.90 og svolítið ógnvænlegur til fara er leikur einn að ryðjast gegnum mannhafið í fjallgönguskóm og svolítið fjarrænn til augnanna.

Það er verra með umferðina en drusluelementið gerir það að verkum að fólk vanmetur mann og því ekkert mál að skjótast inn í raðir hér og hvar, svína nett, og ekki spillir að kvikindið er beyglað eftir hremmingar síðustu vikna. Börn og gamlar konur sjá að vísu gegnum þetta gervi en þessir hópar eru ekki með í leikritinu og því síður kettir en sá þjóðfélagshópur er að vísu kominn úr favourites í mínum lífsvafra - get ekki skilgreint hvers vegna.

Jólagjöfin í vinnunni lækkaði um einhver 15% peningalega séð, en á móti kemur hálfur dagur í frí eftir áramót í jólagjöf og ávísun á nudd og huggulegheit til að nýta viðkomandi dag. Mér líst dável á þetta og verð víst að nýta það sjálfur þar sem þetta er stílað á nafn. Ég er ekki þessi nuddtýpa. Maður tengir þetta ósjálfrátt við einhver meiðsl sem boðuðu á sínum tíma meðferð hjá nuddara eða sjúkraþjálfara, gjarna með einhverjum óþægindum inniföldum.

Merkilegt með suma náunga sem verða gamlir... Tvö gömul stirni hafa birst manni í varpinu að undanförnu í gervi Guðbrandssonar - Tom Jones og Pavarotti! Af hverju skilja mennirnir ekki að það er flott að eldast og breytast - skyndilega er t.d. hægt að safna skeggi í nýjum lit eins og dæmin sanna og verða töff á alveg nýjan hátt. Mitt skegg er svo gróft því miður að það fer ekki við þetta drengslega, fíngerða andlit, en öðru hverju læt ég samt vaða og safna, og nú er þetta orðið hæfilega litförótt að auki.

Annars er þetta jólastúss meira og minna litað af börnunum. Maður á ekki að standa í of miklum hreingerningum og vitleysu meðan þau eru á réttum aldri til að njóta jólanna á þann sanna hátt sem við fullorðnir oft gleymum.

Undrið (1) kyrjar jólastemmur á sinn frumlega hátt af ótrúlegum dug - á það til að bresta á með "Adam átti syni sjö", eða "Andrés stóð þar utan gátta" þegar minnst varir, þannig að nærstaddir fara skyndilega að sá og rugga sér í lendum.

Snillingurinn (4) er hins vegar óbilandi í sínu jafnaðargeði. Gleðst yfir hverju því sem sveinkum dettur í hug að troða í skó og veltir ýmsum tiktúrum þeirra mikið fyrir sér, enda margs vísari um þær úr kvæði Jóhannesar úr Kötlum sem hann er langt kominn með að læra. Ef svo vill til að sælgæti lendir í skónum fer það beinustu leið upp í skáp til seinni tíma neyslu.



laugardagur, desember 20, 2003

Jökla spök 

Þeir ögra stundum góðlátlega á Mogganum. Fyrirsögnin: "Jökla rann spök í sinn nýja farveg" er létt áminning um að nú sé mannshöndin búin að temja náttúruna villtu.

Ekki hef ég komið á svæðið sem lendir í þessum virkjanahremmingum en eitthvert hugboð segir mér að ekki sé kálið sopið enn. Hugmyndafræðin að baki þessari framkvæmd er svo rugluð að maður er orðlaus. Samt fór ég aldrei að mótmæla.

Og einu sinni sótti ég um vinnu hjá ÍSAL - og reyndar var ég öðru sinni nærri búinn að fá vinnu hjá sendiráði USA. Það var áður en núverandi stjórnvöld komu til sögu þar. Það er þrátt fyrir allt býsna mikilvægt að hafa á tilfinningunni að maður sé að vinna góðum málstað brautargengi og það hef ég hingað til getað sagt með góðri samvisku í mínum störfum.

Ansi var bókin um KK sem Einar Kárason ritaði í fyrra þunnur þrettándi. Dr. Gunni er tíu sinnum betri penni ef maður færi að dæma einungis eftir þessum tveimur bókum nýlesnum. Svo gleymdi ég að minnast á Mýrina sem ég las á þýsku án þess að taka eftir því. Það segir mér það eitt að Arnaldur sé sögumaður en ekkert sérstakur rithöfundur. Mér finnst alltaf að það þurfi að vera einhver safi í textanum sama hve góð sagan er.

fimmtudagur, desember 18, 2003

Spýtur og skyttur 

Ég er ekki www.frettir.com enda eru þær dauðar. Hins vegar rakst ég á grein á mbl.is um daginn, sennilega dagbók lögreglunnar eftir sl. helgi og kom þar fram að kviknað hefði í húsi við einhvern vog út af því að tréspýtur voru lagðar á glóandi eldavélarhellu. Þetta er gott orð, tréspýtur, þá veit maður að þetta voru amk ekki eldspýtur, eða hvað? Hvað væri sambærilegt orð: e.t.v grjótsteinar? Svona málfræðifyrirbæri heita örugglega eitthvað skemmtilegt.

Svo kom fram í dómsmálafregnum um daginn að gaurinn sem skaut á hundana sem áreittu kanínurnar var í fullum rétti og þar sem þetta er nágranni mun ég nú brýna fyrir mínu fólki að fara vel að viðkomandi manni, enda man ég ekki betur en að Snillingurinn (4) hafi á tímabili verið iðinn við að færa þeim kanínum illgresi og gulrætur sem viðkomandi hundar voru að ergja. Ekki gott að vita af granna sem grípur til skotvopna þegar allt fer í hundana.

Nú er ég skv. nýjustu talningu með ein 12 virk netföng þar af flest í vinnunni. Það besta er nýjast og hefur endinguna @last.is

Tek ég gjarna við hugmyndum um hvað passar best þarna fyrir framan @. Admin er nefnilega búinn að lofa að gefa okkur netfang að eigin vali í jólagjöf (sennilega bara djók) en single, married, gone, here, safe og lost verða ekki tekin gild sem tillögur.

Eitt netfangið veit enginn um nema ég (o.k. nú fleiri) og berst vitanlega enginn póstur þangað. Svo gáði ég um daginn hvort ég myndi ennþá hvernig maður nálgast póst þarna og var þá ekki nærri ársgamalt bréf með ítarlegum upplýsingum um verðlag og skilmála á ketmarkaðnum í Reykjavík. Svo var reyndar annað bréf, sent þremur mínútum seinna: ''úbbs, vitlaust netfang, fyrirgefðu."

miðvikudagur, desember 17, 2003

Einbeldi 

Dyggir lesendur muna eflaust hvernig ég blés á gaurinn sem kallaði mig tölvu í gúmmískóm en eitthvað hefur þetta setið í manni fyrst maður nennir að muna. Í eina skiptið sem ég fór á bíó í Keflavík var einhver að stríða mér út af eyrunum en það var nú bara Keflavík sem mér fannst löngum ljótasti bær á landinu, í harðri samkeppni við Akranes.

Einu sinni átti ég fótum fjör að launa undan gaur sem móðgaðist eitthvað við mig þegar ég otaði að honum vasahníf í sjálfsvörn gegn einhverju böggi í 101 þegar ég var 15. Sá átti nú aldrei von um að ná mér en gerði heiðarlega tilraun til að mölva rúðu í útidyrunum hjá afa og ömmu þar sem ég þá bjó.

Ég beitti nú ofbeldi tvívegis á knattspyrnuvellinum - gaf einhverjum leiðindaskörfum olnbogaskot vísvitandi og komst upp með það. Eru þar með líkamlegar útistöður mínar nánast upp taldar. (Ekki skal ég þó útiloka að einhvern tíma muni ég tala vestfirsku við KA mann, lendi ég enn einu sinni í ofbeldi frá þeim skrýtna bálki.)

Því minnist ég þessa að nú er Undrið (1) blátt og marið eftir bitóðan leikskólafélaga sinn, öðru sinni á nokkrum vikum. Þegar menn eru á hennar aldri er fátt til ráða trúi ég hafi þeir þetta í sér - að bíta af engu tilefni og vera annars ósköp venjulegir smándar. Hitt er svo annað mál að ég skil mömmu bítarans sem fór hreinlega að gráta yfir þessu framferði sonarins þegar hún frétti af því. Vonandi þarf ég aldrei að fara í hennar spor.

Þótt ekki sé grín að þessu gerandi er ég með þá kenningu að í gangi sé plott á ungbarnadeild leikskólans sem felst í því að þvinga Undrið til að gera í brækurnar til þess að falla betur inn í hópinn.

- Sko, þú ert minnst og átt ekkert með að vera farin að tala og pissa (oftast) í klósett. Nú bít ég þig og framvegis bullar þú síðan og gengur um með bleiu eins og við hin. Ella skaltu hafa verra af. Fyrsta bit var aðvörun - nú bít ég til blóðs og næst er það eyrað eða nefið, kella mín!

E.t.v. voru skilaboðin einhvern veginn svona.

þriðjudagur, desember 16, 2003

Myndir... 

Var að gera tilraun (ritlaun) með hýsingu mynda á vef og hér eru fyrstu sýnishornin komin.

Mitt fólk og e.t.v. fleira.

sunnudagur, desember 14, 2003

Aðför að kvikindi 

Ekki nóg með að góðkunningi minn hafi þrykkt sér aftan á sænska kvikindið um daginn á ljósum í Garðabæ - nú lenti greyið í hittandrönn dæmi hér í vorri friðsælu götu.

Lengi höfum við gantast með að sennilega færu nágrannarnir að sjá sína sæng upp reidda með að slá saman í bíl(a) handa heimilinu í von um að losna við bláu druslurnar úr þeirri fullkomnu götumynd sem eflaust alla dreymir. En að bakka á blásaklausan 17 ára Volvo og stinga af er meira en ég get sætt mig við.

Þarna var ég sáttur frammi í eldhúsi að hólka í mig pylsu eftir dágóðan tónleikadag er ég heyri hörkuskell úti og skil strax hvað er um að vera. Rýk út og sé þann seka aka í makindum sínum á brott. Sem betur fer náði ég númerinu, tegund bíls og kyni bílstjóra og veit svosem að ekki þyrfti ég lengi að spyrjast fyrir til að vita hver í hlut átti en það er ekki málið.

Þótt kvikindið sænska sé gamalt og lítils virði má ekki gera svona svo að ég kallaði á pólitíið og þurfti bara að bíða í ca. 20 mín. Annað en þegar ég hringdi á lögguna í hitt skiptið á ævinni og tjáði þeim að unglingar væru að ógna smábörnum með búrhníf á leikvelli í Hlíðunum. Sennilega voru allir viðkomandi búnir að éta, fara í bað og sofnaðir þegar löggan birtist tveimur tímum síðar vettvangi.

En tónleikarnir gengu dável. Á síðustu stundu breyttist uppstilling á þann veg að Tenórinn kom upp að hlið mér og var það vel til fundið. Karlinn söng eins og vel smurð seiðaskilja og við þessa einföldu hrókeringu breyttist allt og varð gott það sem áður horfði til vandræða.

Kirkjan var nú ekki full en sæmileg mæting þó. Neskirkja verður seint talin til meistaraverka sem Guðshús - minnir svolítið á mötuneyti í norskum framhaldsskóla frá því snemma á 7. áratug. Organistinn fór á sínum rómuðu kostum og áttu margir fullt í fangi með að kæfa hláturinn þegar sem mest gekk á í spunanum.

Áður en ég gleymi einu sinni enn er rétt að auglýsa eftir góðum og frumlegum Spoonerismum, en þeim hef ég safnað án þess að skrá í um 30 ár. Þarna er átt við hljóðavíxl á borð við Hagar - Sund/ Sagar - Hund, dauð rolla/rauð dolla, (þennan með litla kók), ræður ríkjum/ríður rækjum. Svo bættist um daginn við nýr er ég heyrði einhverja segja í vinnunni: "Assgoti er ég þreytt og svöng""

laugardagur, desember 13, 2003

Hallbjörn hundleiðinlegi 

Maður hélt að karlinn gæti verið áhugaverður sem kynlegur kvistur eða original en svo virtist nú ekki vera miðað við þann helming af spjallinu sem ég sá í gær.

Nú er ég að lesa Dr. Gunna og sagnfræði hans um rokkið. Mér finnst gaman að fletta í þessu og hef haft gaman af kappanum sem penna og maður sér þarna slúður og sannleika sem kemur á óvart.

Samt. Það vantar stórsveitina Chaplin í bókina - íslensku Madness sveitina - og þeir gáfu út, svo að ekki vantar það. Þarna voru ágætir spilarar inn á milli og á ballprógramminu fullt af Madness, Talking Heads og Dire Straits.

föstudagur, desember 12, 2003

Stjórnmálamenn eru eins og bleiur. Þarf að skipta reglulega og í báðum tilfellum er ástæðan sú sama.

Halló pabbi! 

Fátt er yndislegra þegar maður mætir til svefns en að fá móttökurnar sem boðið hefur verið uppá seinustu nætur. "Pabbi, pabbi minn, halló pabbi minn - já fá banana - vatnþyrst - dúda." Allt reynt til þess að halda uppi fjörinu og helst sem lengst frameftir. Ja, lengst til svona að verða fjegur. Og skapið alltaf einstaklega ljúft. Nótt eftir nótt, stuð.

Undrið (1 1/2) fékk semsagt lungnabólgu en er nú kominn til heilsu á ný að því talið er og er nú í gangi vinna við að snúa aftur sólarhringnum á rétt ról. Bannsettur RS vírusinn sem hún fékk fyrir tæpu ári ætlar að gera hana viðkvæmari en fólk flest er fyrir slæmsku í öndunarfærum.

Svo hefur Snillingurinn (4) verið hjá sálfræðingi í sérlegum prófunum til þess að athuga hvort hann eigi erindi í skóla ári fyrr en ella. Gaurinn er jú fæddur í janúar og er ágætlega úr garði gerður til hugar og handar og því ekkert að því að kanna þessi mál. Prófunum lauk í dag - ég kalla snáðann góðan að hafa setið fyrir svörum tímunum saman og svo vel gekk að sáli ákvað að ljúka verkefninu. Svo er að sjá hver niðurstaðan verður.

Æ, þetta er vitanlega flókið mál og sjálfur hljóp ég yfir bekk á sínum tíma og varð því á fullorðinsárum að flytja til Skandinavíu til að tileinka mér fræðin um Norðurlönd sem kennd eru í 11 ára bekk. Aðalmálið var á þeim tíma hvort maður spilaði með gamla bekknum eða þeim nýja í bekkjarmótum, því að mínir jafnaldrar af kk voru fámennir en fínt lið í næsta árgangi fyrir ofan. Seinna meir hef ég svo meira hugsað um að líklega voru sætari stelpur í þeim jafnaldraárganginum...

Ekki man ég eftir að hafa liðið fyrir að hafa verið minnstur á vissu tímabili. Í mínu smáa æskusamfélagi skipti ár til eða frá ekki meginmáli. Félagsþroskinn var auðvitað á því stigi að ég svindlaði mér út af skólaböllum frekar en hitt og þótt pabbi væri kennari var aldrei nein pressa um að standa sig í skólanum. Eineltið sem ég lenti í fólst í því að einu sinni reyndi einhver asni að kalla mig tölvu á gúmmískóm til að stríða mér en þá var bara svarað með því að vinna fíflið í fótbolta enda gat hann aldrei neitt. Einhvern veginn er sjálfhverfa mín á svo háu stigi að mig skiptir engu máli hvað aðrir hugsa eða segja um svonalagað.

Lenti í því að aka samhliða öðrum þríburabróður sænska kvikindisins, þeim er enn lifa, niður ­Miklubraut um daginn. Þetta var góð tilfinning enda hefur kvikindið verið í fínu formi að undanförnu að því frátöldu að ég reif af því hurðarhandfang í morgunfrera á þriðjudag.

Áðan fór ég í miðbæinn og varð næstum innlyksa út af skrambans framkvæmdum. Þetta Aðalstrætishótel er nú heimska aldarinnar og ekki bara af því að það raskar umferð meðan á byggingu stendur. Er ég e.t.v. orðinn of þýskur í hugsun eftir áralanga umgengni við ferðamenn af því þjóðerni? Kannski langar sumt fólk að vera á hóteli þar sem ekki er svefnfriður fyrir djammi, engin normal rúta kemst að til að sækja mann og svo framvegis. Ah, annars hefur mig vissulega alltaf dreymt um að dvelja á hóteli þar sem eru fornleifar í kjallaranum.

Svo var ég næstum búinn að keyra Tuma kórstjóra minn niður þar sem hann arkaði einbeittur út úr Melabúðinni, eflaust með nýmjólk í grjónagraut kvöldsins. Ef ég hefði metnað til kórstjórnar hefði ég sært kappann og síðan boðist til að stjórna jólatönleikunum á laugardag. Og það frítt! Nei annars - ekki Tuma. Hann er fínn stjórnandi og náungi, auk þess að það skapar sjálfkrafa vissan hlýhug hjá manni að vita til þess að einhver heitir Hákon og er kallaður Tumi.

Búinn að vera býsna duglegur undangengna 5 daga (fyrir utan fjölskylduannir).Tvær misgóðar kóræfingar - þrjár fót- og/eða körfuboltaæfingar - tvær bókasafnsferðir - 60 jólakort tilbúin undir ritverk.

Lendi ég svo ekki í því í gærkvöld þegar ég er að fara út með ruslið að ég heyri einhvern rymja undir garðveggnum. Mér heyrðist viðkomandi vera eitthvað að formæla öryggjum eða rafvirkjum, en það kann að hafa verið misheyrn. Ég vatt mér á vettvang og þá kom í ljós að þarna var á ferðinni nágranni minn ágætur sem sagðist hafa hrasað og ekki í fyrsta skipti þann daginn.

"Helvítis erfiðisvinnan er að gera út af við mann", stundi karlinn og kvaðst hafa af því áhyggjur að hann ætti nú ekki of mörg ár eftir miðað við meðalaldur forfeðranna, en herti svo upp hugann og sagði að Kári væri að vinna í málinu. Svo, hins vegar, hefði hann verið búinn að græja þetta fína samkomulag við sjálfan sig um nokkur góð ár án rex og pex, og með þokkalegum lífeyri, hefði skyndilega allt farið í bál og brand.

Ég sagðist kannast við þetta. Það hefði jú alltaf verið best að vinna í skóla þegar nemendurnir voru í fríi og sama gilti eflaust um stjórnmál. Þessir kjósendakjánar eða þjóðfélagsþegnar væru óttalegir dragbítar á helstu framfaramál. Fróðir menn segja mér að svipað sé uppá tening í fyrirtækjum - fínt að reka þau ef ekki væri fyrir fjandans hluthafana.

"Hvaða máli skipta nokkrar millur til eða frá þegar maður er að höndla með milljarða daginn út og inn?" Greinilegt að karlinn var vel pirraður á þessari afskiptasemi. Ég skildi þetta auðvitað alveg og bað hann að koma með mér í næsta launaviðtal og útskýra málin fyrir mínum stjórum. Þá sagði granninn mér að hunzkast leiftursnöggt á brott og troða mínu rusli í tunnuna, og ekki var laust við að þarna heyrði maður zetuna. Raunar var ég hálffeginn að ekki var reglustika innan seilingar.

Svona er lífið stundum undarlegt í Skerjafirðinum.

fimmtudagur, desember 04, 2003

Að tolla úr tísku 

Alveg hefur mér tekist að láta fantasíumenningu nútímans fram hjá mér fara. Er nú svo illa komið að ég get vart sest að kaffitímaspjalli án þess að vera óviðræðuhæfur um málefnin sem verið er að ræða - nefnilega nýjasta Potterinn eða árans Hringadróttinssögu. Verst er að ég hef engan áhuga á að kynna mér þetta...

Ekki fer ég að svíkja stjörnumerkið eða hvað. Er ekki Meyjan jarðbundin og raunsæ, jafnvel svo til vandræða getur orðið? Þetta var bara ekki lesið í mínu ungdæmi. Tom Swift er sennilega það sem næst því kemst að ég hafi lesið vísindaskáldsögur og aldrei hef ég orðið svo frægur að fylgjast með geimverustríðsmynd frá upphafi til enda.

Maður verður settur út í horn á elliheimilinu þegar allir hópast kringum risaskjáinn og horfa á Star Wars XXIV og ekki fær maður að vera með í Potterleshringnum. Hvernig skyldu þeir annars ná að mjólka meira úr þessu efni eftir Tolkien - er ekki söngleikurinn eftir?

Samt. Ég hef fyrst að ráði orðið var við þennan fantasíuáhuga á allra seinustu árum, eftir að ég hætti að kenna og fór að vinna með raungreinafólki og hætti að vera einn sá yngsti á vinnustaðnum. Má vera að þetta sé skýringin.

Það er svo sem ekkert verra að uppáhaldsin manns hafi ekki verið sérstaklega vinsæl almennt. Elvis Costello, sá gamli jeppi, er ennþá að og ennþá svolítið til hliðar við allt. Anne Tyler og John Irving og svoleiðis melló höfundar gefa alltaf út öðru hverju án þess að heimurinn farist. Derby County verður alltaf stórlið hvað sem tautar og raular, og raunar mikil blessun að maður sé ekki bundinn yfir sjónvarpinu oft í mánuði vegna þess að liðið manns sé að spila í beinni.

Ég náði þó diskótímabilinu og geri aðrir betur!

mánudagur, desember 01, 2003

Ofboð 

Feðgar fóru að útrétta og í lok ferðar átti að finna brekku til að renna sér. Leiðin lá inn með Elliðavogi, inn í dal og fannst þar loks Brekka með stóru. Þar tókst mér að setja markið heldur hátt í annað sinn á ævi Snillingsins (4).

Ég viðurkenni að ekki hefði ég þorað að sigla þarna niður á skíðum en sá stutti lét vaða af efstu brún í trausti þess að pabbi hefði vit. Fyrsta ferð gekk áfallalaust þrátt fyrir afar bugðóttan rennslisferil. Í annarri ferð valt snáðinn og vangaði fósturjörðina og var þá ljóst að brekkan var of brött/löng/sleip. Eins og ekki sé nóg komið af óhöppum karlleggsins í familíunni við iðkan vetraríþrótta. Þetta var sem betur fer aðeins hálfrar mínútu snökts virði og roði í kinn það sem eftir var dags, en lexía samt. Byrja ekki of skart og muna hver á að hafa vit. Þarna var pilti ofboðið og fór afgangur ferðarinnar í ýmsar rennslistilraunir úr neðri hluta brekkunnar.

Raunar kom hann mér á óvart í gær með því að ná að falla heldur óþægilega af klósettinu þegar einhver rembingur var í gangi. Ég kom að drengnum hálfvönkuðum og kjökrandi, liggjandi á gólfinu: "Pabbi ég datt á hausinn þegar ég var að kúka." - Þögn. "En ég er búinn." Mér tókst sem betur fer að skella ekki uppúr en honum þótti ekki sérlega fyndið þegar ég stakk upp á því að hafa hjálm handbæran inni á baði til vonar og vara næst þegar eitthvað stæði til.

Mér var síðan ofboðið í gær þegar Undrið (1) fann upp á nýjum leik. Að taka geisladiskana úr hulstrinu til að láta mig setja þá í. Hún er búin að tæma þær hillur sem hún nær til nokkuð oft (277 sinnum) og eftir liggja nokkur brotin hulstur. Verst hvað hún er stríðin, blessunin, og enginn skilur hvaðan hún gæti haft það. Skynsemin er hins vegar slík að hún skammar sjálfa sig allhastarlega við ítrekuð afbrot og látum við það gott heita, enda yfirleitt ósjálfbjarga af hlátri yfir tilþrifunum.

Kannast lesendur við orðið gervitt, sem rímar við erfitt. Tveir strákar (4) að leik notuðu orðið margsinnis um bílabrautaruppstillingar sínar í dag: t.d. "gervitt gúl svona". Reyndar hef ég séð orðið stafsett á ýmsan hátt - djet, gegt, djegt o.s.frv.

Eflaust hefði ég getað horft á fótbolta hátt í sólarhring þessa helgi hefði ég tíma í það og afruglun. Maður er farinn að eldast í þessum bransa en lætur þó varpið mala þegar ekki eru aðrir að nota tækið eða eitthvað í gangi. Alltaf gaman að fylgjast með nýjustu straumum í lýsendaklisjum. Enginn skýtur lengur hátt yfir - bara himinhátt. Enginn gerir nokkuð aftur - einungis enn og aftur, ekkert er lélegt lengur, bara slakt.

Gargandi snilld er hins vegar á útleið. Æ, má ég þá biðja um Hugh Johns sem eflaust kenndi fleiri strákum betri ensku á sínum tíma en nokkur þorir að viðurkenna. (Ath. konur fylgdust ekki með boltanum þá.) Maður varð bara að skilja blessaðan enska þulinn til að geta fylgst með og ekkert er betri gulrót til náms en gamla innri þörfin.

Mér tjáði kennari af Skaganum að Tvíburarnir hefðu löngum sýnt stærðfræðinni lítinn áhuga þar til hann fann upp á því að breyta öllum dæmum í eitthvað tengt fótbolta fyrir þá. Þá gekk allt eins og í sögu. Nú eru Tvíburarnir bara í KR og Keili en litli bróðir er Hr. Ísland og skoraði sigurmarkið í bikarúrslitaleiknum.

Mér skilst að hann taki þátt í Eurovision fyrir Íslands hönd á næsta ári, geri síðan samning við Real Madrid, giftist Miss World eða Britney eftir æsispennandi uppgjör í Bachelor, og verði síðan kosinn forseti Íslands á sérstakri undanþágu. Í nóvember 2004 mun hann síðan kaupa Kringluna og koma á fót fríum ferðum milli Reykjavíkur og Akraness með nýrri 200 bíla Akraborg. (Ath. ferðirnar taka aðeins 10 mín með nýrri tækni sem hann finnur upp.)


This page is powered by Blogger. Isn't yours?