<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, febrúar 28, 2004

How do you like Iceland? 

Brátt verða liðin tíu ár síðan ég settist á skólabekk í Kópavogi til að læra til leiðsögumanns. Maður þurfti að fara í eitthvert inntökupróf og ég fékk að vita hjá fyrrum nemanda um hvað væri helst spurt þar og flaug svosem inn sem tilvonandi Fremdenführer og guide. Það var eitthvert uppátæki í mér að vilja taka prófið á þýsku, auk ensku, enda fór svo að vetrinum eyddi ég meira eða minna í þýskuspekúlasjónir.

Mér varð á í ferð sem ég fór sem áheyrnargæd skömmu fyrir lokapróf að taka spjall við roskinn Norðmann í morgunstoppinu í Eden og fann þá út að ég ætti auðvitað að taka prófið á norsku líka. Ég vildi geta sagst hafa brillerað á þessum blessuðu prófum en æ - þetta gekk bærilega.

Námið sjálft var geysiáhugavert og eins og sniðið til þess að opna augu fólks fyrir því hve margt er merkilegt, flott, og sérstakt hér á landi. Verst að þetta týndist svolítið í glímunni við þýskuna. Svo var þarna margt mjög skemmtilegt fólk samferða manni og fínir fyrirlesarar.

Sjálfur hafði ég aldrei ferðast undir leiðsögn þannig að ég vissi ekkert hvað beið og kveið ég helst því að þetta yrði leiðinlegt út af miklum rútusetum. Ég var ekkert mikill rútuferðalangur þá.

Þegar til kom reyndist meira en nóg að gera fyrir mann. Fyrsta sumarið var ég til dæmis 40 daga í röð í ferðum og náði 51 ferð á þeim tíma - mest þremur ferðum sama dag, en þá reiknar maður bæjarferð og transfer á/frá flugstöð sem ferð. Assgoti var maður annars heppinn að hafa þrautgóða og reynda bílstjóra sér til halds og trausts þessa fyrstu túra ferilsins.

Fyrir fyrstu ferðina gat ég ekkert sofið minnir mig. Sem betur fer var stuttur aðdragandi, annars hefði ég ekki sofið í viku. Venjulegur Gulli/Geysir og farþegarnir voru 16 þýskir orrustuflugmenn sem voru við æfingar hér vegna þess að umferðin um himinninn yfir Evrópu er það mikil að menn geta lítið æft. Allt gaurar eins og klipptir út úr Dressmann auglýsingu og meira að segja einn grásprengdur til skrauts. Verst að við fórum í rútukálfi þannig að maður gat lítið laumast í að kíkja í bækur.

Betri ferðahóp hefði ég ekki getað fundið í jómfrúrferðina enda piltarnir afslappaðir og svalir, veðrið fagurt, en sjálfsagt hefðu þeir heldur viljað sjá einhverja dísanna úr kollegahópnum með sér. Í næstu ferð fór ég því brattur. Tveggja mála, níu daga hótelferð um suður- vestur og norðurland. Það reyndist eldskírnin. Þetta voru alls konar þýskumælandi túristar, auk dana, svía og tveggja norskra systra á áttræðisaldri.

Aldrei gleymi við fórum að smala saman hópnum fyrsta daginn á ýmsum gististöðum bæjarins. Fyrstar komu norsku systurnar en síðan hver Þjóðverjinn á fætur öðrum. Þegar langt var liðið á smölun og allt að fyllast af Germönum kom önnur systirin frammí og spurði hvít í framan og skjálfandi: Ertu viss um að við séum í réttri rútu? Þá fékk maður aðeins hugmynd um hvað seinni heimsstyrjöldin var stór póstur í lífi þessarar kynslóðar Evrópubúa. Þetta sansaðist ágætlega enda Svíinn og Daninn sem bættust við í restina einstakt heiðursfólk. Svo varð maður að passa sig að byrja til skiptis á norsku og á þýsku að segja frá og einhverju sinni kom einhver Þjóðverjinn til mín og kvartaði undan því að ég segði lengur frá þegar ég talaði norsku...

Seinna um sumarið fór ég síðan með einn af þessum ógleymanlegu A-Þjóðverjahópum í vikuprógramm um s- og vesturland eins og var algengast hjá mér. Þeir voru margir að upplifa æskudrauminn, loksins að sjá Ísland eftir langa innilokun og helsi. Sumir vissu allt um allt og voru búnir að lesa og læra heima eins og Þjóðverjar gera flestir. Einn kom að máli við mig upp á Valahnúk og spurði hvort ég þekkti nokkuð bókina eftir hann Wiktorin. Ég var á fjalli þannig að ekki gat ég komið af þeim en varð hlessa og spurði hvernig honum hefði dottið það í hug. Jú, eitthvað fannst honum frásagnir mínar litaðar af texta í bók eftir þennan náunga. Þegar ég kom heim fór ég í bókahilluna og sjá: þar var greinilega bók eftir Wiktorin sem ég hafði stuðst við í þýskubaslinu um veturinn!

Mest var ég rassgæd meðan ferillinn blómstraði samhliða kennarastarfi og fjölskylduleysi. Rassgædar fara ekki í gönguferðir og sitja löngum í rútu og blaðra í míkrófón. Enn tekur maður ferð og ferð þegar vel er boðið eða um kunningsskap að ræða, en djobbið er afleitlega borgað og búið að auglýsa út yfir allan þjófabálk að Íslendingar verði snarmóðgaðir ef boðið er þjórfé fyrir vel unnin störf. Þetta gat verið þriðjungur launanna þegar vel gaf á sínum tíma.

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Myndageggjun framundan 

Allir sem vita hvað ég hef verið duglegur að taka myndir við margvísleg tækifæri þar sem fyrirmyndarhópar þjóðfélagsins koma saman og sletta úr klaufunum geta nú farið að svitna. Konan mín færði mér skanna og hann er að komast í notkun, og einnig er búið að tryggja vistun heilmikils myndefnis hér næsta árið þannig að: vei þeim er einhvern tíma hagaði sér óviðurkvæmilega fyrir framan linsur vorar. (Tek fram að skanninn er með sérstöku hólfi fyrir slæður (slides) þannig að enginn er óhultur - Kristinn, ekki þú heldur :-)

Ég tek hins vegar við framlögum frá þeim sem vilja kaupa frið og mun ég gefa upp reikningsnúmer o.s.frv. um leið og menn hringja. Kíkið á Undrið (1) hér til hægri. Hún ældi skömmu eftir að ég lauk við færsluna að neðan og var þá búin að halda uppi fjöri til kl. 03.45 ásamt bróður sínum sem enn eina ferðina atti kappi við geitunga í draumum sínum. Getur einhver gefið mér góð rök fyrir því að Guð hafi endilega þurft að skapa geitunga. Snillingnum (5) finnst hún hafa farið offari við að búa til þessar ófreskjur.


þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Böll 

Um daginn var verið að reyna að freista Snillingsins (5) til að drífa sig á leikskólann með því að þar ætti að halda ball eins og tíðkast allgjarna. Hann brást við með því að lýsa frati á böll - karlmenn dansa jú ekki. Þessu trúði ég líka þar til Travolta birtist mér eins og frelsandi engill og síðan hef ég kunnað ágætlega við mig á dansgólfinu í réttu samhengi.

Annars var ég um margt annað seinþroska líka - fór fyrst til útlanda 23 ára, eignaðist fyrst bíl 25 ára, og missti vandlega af metingi félaganna í gaggó um Stones, Dylan og Bowie. Einhverju sinni fékk ég blóðnasir í íslenskutíma í 1. bekk gaggó og vissi ekkert hvað var verið að tala um þegar stelpurnar spurðu hvort ég væri kominn á túr...

En lengi býr að fyrstu gerð. Mér er alltíðrætt um Simon og Garfunkel hér og fyrsta platan sem ég keypti var Greatest Hits platan þeirra þar sem Simon heldur um eggjabikarinn á umslaginu, kyndugur á svipinn. Ég hélt a.m.k. lengi vel að þetta væri eggjabikar og velti táknrænni þýðingu þess mikið fyrir mér, en svo varð ég að viðurkenna að þetta væri í rauninni hnúður á einhverju handriði.

Þessu mæta dúói kynntist ég fyrst í sveitinni, á Ferjubakka II, eins og svo mörgu. Þar voru heimasæturnar á miklum djammaldri og keyptu plötur hægri vinstri sem við sumarkrakkarnir fengum að nota að vild. Mér leist alltaf best á S&G. Þetta gekk svo langt að ég faldi Top of the Pops 12 sem var líka til og vinsæl meðal hinna, til þess að heyra meira. Þegar ég kom í heimahús haustið ´73 fór ég niður í KB, sem þá var kaupfélagið og er enn, og keypti safnplötuna sem reyndar hafði ekki verið til í sveitinni. E.t.v. var það haustið eftir - alltjent sólundaði ég ekki fyrsta sumarkaupinu í þessa músík því að kaupið var trékassi fullur af silungi og hananú.

Í sveitinni lærði ég líka fyrstu gítargripin - (takk Anna góða Guðjónsdóttir hvar sem þú ert.) Gat spilað Á Sprengisandi í þrígripi eftir veruna á Miðbæ. Löngu, löngu, löngu seinna bættist við gripagetuna og þá eignaðist ég fljótlega S&G Greatest Hits í bók. Enn lenda þeir kappar í spilara hjá mér oftlega og þótt ekki eigi ég mikið af plötum þeirra á ég nóg. Líka hef ég haft gaman af lestri bóka um þá. Eiginlega er undarlegast að ég beitti aldrei áhrifum mínum til að bandið mitt léki sönglög félaganna við dýran kveðskap hirðskáldsins grandvara, en aldrei skal þó segja aldrei...

mánudagur, febrúar 23, 2004

Óperan og óratórían 

Það var með naumindum að ég náði að skella í vöfflur áður en konan hélt af landi brott í atvinnuskyni á sjálfan konudaginn. Þetta var vígsluathöfn nýja Bónusvöfflujárnsins og tókst bærilega. Snillingurinn (5) var raunar margbúinn að rukka um þetta.

Bloggarar eru misiðnir við að tala um spúsur sínar og karla, og hingað til hefur e.t.v. virst sem ég búi einn með börnunum sem fá vissulega sína umfjöllun. Svo er alls ekki og þeir sem vel fylgjast með hafa t.o.m. getað skoðað mynd þar sem vel kemur fram hve glæsilega giftur ég er. Hinir sem til þekkja vita þetta auðvitað og líka að innri maður minnar heittelskuðu er ekki síðri. Konan mín er bara ekkert sérlega mikið fyrir að ég tali um hana á þessum vettvangi en samt læt ég það sem vind um eyrun þjóta eins og flest sem hún segir.

Það var náttúrulega mitt mesta lán að krækja í konuna góðu. Stundum höfum við harmað að hafa ekki kynnst fyrr en enginn stjórnar atburðarás í svona ævintýrum. Fyrir utan tónlist erum við ekkert sérlega mikið samferða hvað varðar áhugamál enda kom í ljós þegar við rugluðum saman reytum að eina bók áttum við sameiginlega fyrir utan e-í orðabókina og einn geisladisk.
Hvorugt er lýsandi fyrir smekk okkar.

Það er ágætt að vera ekki eins og mikið þakka ég t.d. fyrir að mínir foreldrar eru ekki eins persónur. Mín kona er ópera en ég er óratóría, ég er Simon en hún er Garfunkel, hún er Ameríka en ég Evrópa, hún er Jagger en ég Keith, hún er te en ég kaffi, hún er kaka en ég er brauð. Hvorugt okkar er Lennon né McCartney, eða Halli eða Laddi. Börnin sjá um þann pakka.

Svo bakaði ég bollur meðan börnin voru í baði. Ætli maður neyðist ekki til að njóta þeirra sjálfur, ja nema Undrið (1) skelli nokkrum í sig á morgun...

föstudagur, febrúar 20, 2004

Bílaþjófur frá litlu þorpi... 

... í Litháen. Fréttirnar hafa notað ofangreinda lýsingu á vesalingnum sem fannst í höfninni á Neskó um daginn og afhjúpa þar með enn einu sinni undirliggjandi rasisma sem hér er ríkjandi. Hefðu menn notað þetta orðalag ef maðurinn hefði verið innfæddur. Varla... Allt í lagi að tala svona um lýðinn sem álpast hingað í von um fé eða betra líf

Hvað ertu að gera? 

Góð spurning. Þegar maður er í einhverju djobbi sem ekki er hefðbundið er erfitt að svara henni í stuttu máli. Það er ekki einu sinni til íslenskur titill fyrir það sem ég sinni og margir í gangi á ensku, enda starfið sjálfsagt ólíkt frá einu fyrirtæki til annars.

Þeir sem ráða féllust á að kalla mig Technical Editor, en algengur titill er Technical Writer eða Information Engineer. Gjarna tek ég á móti góðum tillögum að íslenskum titli frá þeim sem nenna að lesa framhaldið.

Þegar búin eru til tölvuforrit eru ýmsar reglur og hefðir varðandi skjöl sem þurfa að fylgja í pakkanum þegar verið er að gefa út nýjar útgáfur eða koma einhverju á framfæri og upphaflega var ég ráðinn til þess að hjálpa til við slíka skjölun. Nú er ég eiginlega kominn á dálítið annan vettvang en ég var ráðinn til. Án þess að ég fengi miklu um það ráðið hafnaði ég í núverandi starfi þegar gamla fyrirtækinu var skipt upp í tvennt og sá sem hafði séð um þetta hjá "hinum" hætti um svipað leyti.

Við búum sem sagt til kerfi fyrir verslanir. Í fjárhagsbókhaldi er Microsoft Navision einn af risunum víða um lönd og við búum til viðbót við móðurkerfið sem gerir fyrirtækjum kleift að tengja saman verslanir, ja, allt niður í einstaka kassa þannig að upplýsingarnar berast beint inn í aðalkerfið og menn sem sitja á aðalskrifstofunni geta þannig séð í sviphendingu hvað er að gerast í hverri verslun eða á hverjum kassa. Þeir geta breytt verði í verslunum, búið til tilboð og séð birgðastöðu o.s.frv. með þessu kerfi. Síðan eru komnar ýmsar sérútfærslur fyrir mismunandi tegundir verslana og fyrirtækja - einkum beinum við sjónum að veitingageiranum, tískuverslunum og matvörunni. Öflugur gagnaflutningur er meðal þess sem gerir okkar kerfi afar söluvænt og síðan eru ýmsir fídusar sem ég nenni ekki að telja upp.

Þeir sem versla í t.d. Debenhams, Nóatúni, Europris, Pizza Hut, Bláa lóninu eða Hard Rock hér á landi geta kíkt á kassann næst og séð hvernig kerfið rokkar (reyndar tvö mismunandi en sambærileg kerfi síðan Landsteinar sameinuðust Streng fyrir stuttu). Síðan er þetta í notkun víða um 132 lönd enda er útflutningur meginstoðin hjá okkur. IKEA notar kerfið víða um lönd, Levi's búðir í Evrópu, gríðarleg apótekakeðja í Bretlandi, minjagripaverslanir vegna ÓL í Aþenu og svo mætti lengi telja. Nýjasta heita svæðið er S-Afríka - þar er allt að gerast þessa dagana.

Alltaf þarf að gera svona kerfi betra og betra eins og gengur og sífellt þurfa menn að vera tilbúnir að laga það að mismunandi þörfum. Alls erum við 16-18 í bili sem störfum við deildina sem sér um þróun á kerfunum. Og hvað geri ég?

Meginhlutverkið er sennilega að sjá um að allur texti sem frá okkur kemur sé í lagi. Þar er átt við texta sem birtist í markaðsefni, á heimasíðu og síðast en ekki síst það sem fylgir kerfunum; nefnilega notendaefnið. Við gefum út hjálparefni sem líkist því sem menn geta yfirleitt náð í með því að smella á Help (t.d. í Internet Explorer og þessu týpisku MS forritum). Þá er hægt að fræðast um kerfið almennt, sjá hvað er í einstökum reitum á hinum ýmsu formum allt með því að ýta á F1, og þetta þarf að tengja við hjálpina sem kemur frá Microsoft Navision. Stundum eru búnar til sjálfstæðar hjálparskrár.

Ég er semsagt ábyrgur fyrir því að þetta allt sé til staðar þegar út kemur ný útgáfa. Síðan er fólk almennt búið að læra að ég sé textalöggan - þ.e. þegar senda þarf út dreifibréf, búa til kynningar, gefa út kynningarefni og þess háttar fæ ég textann til yfirlestrar og samþykkis. Megnið af þessu er á ensku. Síðan þarf náttúrulega að þýða kerfið á íslensku og stundum kemur eitthvað á öðrum tungumálum sem þarf að skilja eða þýða og þá fæ ég verkefni.

Capice? Ég er semsagt í hálfgerðu kennarahlutverki... Þarf að koma frá mér efni sem skýrir hvernig hlutirnir eru, fer yfir texta og kem í nothæft ástand og er um þessar mundir m.a.s. með málstefnu fyrirtækisins í smíðum auk annars. Svo er náttúrulega ágætt að skilja nokkurn veginn blessað kerfið sem við erum að búa til og einnig er/var ekkert einfalt að læra á allt draslið sem maður þarf að nota við að koma þessu heim og saman þannig að allt virki þegar ýtt er á Help eða F1.

Æ mér líður betur nú þegar ég veit hvað ég geri. Samt veit ég ekkert hvað bíður mín í fyrramálið annað en að það verður nóg að gera - þó ekki við að reima, snýta, sálusorga, og skeina... Nú er sá pakki hluti af því sem er ekki í vinnunni og þess vegna hið besta mál.

mánudagur, febrúar 16, 2004

Höfuð, herðar, hné og Axel 

Þeir eru víst að fá nýja flugstöð á Bakka fyrir Vestmannaeyjatraffíkina. Þegar ég las um þetta rifjasðist upp einn ljúfasti vinnudagur sumarsins 2002. Þá ferðaðist ég um Suðurland með hópi ungmeyja frá einkaskóla í London og kennurum þeirra í nokkra daga. Skólinn var víst fyrir dætur ríka og fræga fólksins en ekki varð maður þess var á nokkurn neikvæðan hátt. Dóttir Formúlukóngsins Bernie Ecclestone ku hafa verið í bekk með nokkrum þeirra sem komu og lítið höfðu þær ferðast um heimalandið þar sem foreldrarnir áttu flestir villu á Rívíerunni eða í Karabíska þar sem þær dvöldu í leyfum. Hópurinn var meira að segja með fjárveitingu í bjór með matnum handa leiðsögumanninum og bílstjóra!

Einn daginn í umræddri ferð fór hópurinn til Eyja og ekki reyndist pláss fyrir gædinn í rellu svo að hann mátti hanga í landi og varð að velja um að eyða deginum í Bakkaflugstöð eða gera eitthvað annað. Svo fór að mér leist ekki á flugstöðina - þar sat einn við tæki og inn komu öðru hvoru menn með pakka, stöku ferðamenn og þeir hópar sem komu stöldruðu ekki lengi við - fóru jú inn til þess að skrásetja sig.

Nema hvað. Ég var með nesti og kaffi á brúsa og rölti mér gegnum sandöldur og eyrar Markarfljóts niður að sjó og horfði á hafið í 3-4 tíma. Ekkert nema brim, fuglar í æti og svartur sandur. Ekki gott veður og ekki vont. Eins gott að ekki hófst eldgos í Eyjafjallajökli við þetta tækifæri, en skelfing var þetta notalegt.

Undrið (1) tók sér góðan tíma í að sofna enda leyfði ég henni að sofa í dag, e.t.v. óþarflega lengi, með það í huga að hún væri að skríða saman eftir slæm veikindi. Þegar Undrið ætlar ekki að sofna finnur hún uppá ýmsu. Fyrst fer drjúg stund í að stríða stórabróður sem oftast sofnar þó næsta snarlega. Síðan heimtar hún ýmist banana, brauð, vatn eða eitthvað annað í gogginn. Þegar vissu þreytustigi er náð upphafst söngur og grín. Gjarna blandast þá saman brot af því besta sem hún kann (og það er margt) eins og ég hef áður nefnt.

Í kvöld tók hún hálftíma í Fagran fisk úr sjó; tíu mínútur í að taka nefið af sjálfri sér, mér og stórabróður og víxla þeim á margvíslegan hátt; fimm mínútur fóru í að gefa fæv; síðan rifjaði hún upp orðrétt nokkur uppáhaldsbrot úr Stubbaþáttum sem hún sá í dag og að endingu tók hún söngblöndu kvöldsins sem er merki þess að styttist í svefninn. Að þessu sinni var grunnstefið: "Höfuð, herðar, hné og Axel." Hún kann vissulega textann en þetta var útgáfa kvöldsins og Axel þessi er langtífrá miðpunktur í hennar lífi - unglingsfrændi sem tvisvar hefur passað þau systkinin og langt síðan síðast.

laugardagur, febrúar 14, 2004

Þá hefði... 

Ef Vilhjálmur Silfur Einarsson hefði bara eignast stelpur í staðinn fyrir stráka hefði ég sigrað í öllum greinum míns aldursflokks nema kúluvarpi á nokkrum Borgarfjarðarmótum barna í frjálsum...

Ef Ævar Rafns hefði ekki látið mig segja bingó forðum daga hefði ég kannski unnið reiðhjólið...

Ef Popppunktur væri ekki svona vinsæll hefði Skjárinn aldrei sett í gang þessa hörmung sem kallast Landsins snjallasti...

Ef ég hefði ekki tognað á seinustu æfingu fyrir unglingalandsliðsæfingu...

Ef við værum hjátrúarfull hefði konan ekki skellt sér í bílakaup í gær, föstudaginn 13...

Ef ég hefði farið eftir því sem ég ákvað að kvöldi stúdentsútskriftardagsins væri ég prestur núna...

Ef Pétur Cargolux hefði ekki verið að spila golf rétt á eftir mér 12.8.93 kl. 09.13 væri óstaðfest að ég hefði farið holu í höggi.

Ef ég hefði verið í Simon & Garfunkel hefði ég verið Simon...

Ef ég hefði ekki verið að hlusta á Vivaldi þarna um kvöldið ætti ég varla konuna og börnin sem ég á...

miðvikudagur, febrúar 11, 2004

Hænan eða eikin 

Stórfenglegt framhaldsstríð í uppsiglingu þegar eigast við í fegrunarkeppni aldarinnar mæðgurnar Ríkey og Rut. Maður á fá orð en gleðst yfir því að horfa lítið á sjónvarp. Verst hvað fólk talar mikið um svona lágkúru - en þá er nú skárra að vera óviðræðuhæfur. Ósmekkleysið er ótrúlegt eins og maðurinn sagði.

Þetta er lítill heimur og tilviljanir margar. Bókin sem ég er að byrja að lesa hefst eins og síðasta færsla hér endar: á stjórnlítilli ferð niður bratta skriðu. Bókina sótti ég í Norræna í dag og aðra til eftir Gunnar Staalesen en sá hefur einmitt skrifað bók með Skagen (ekki var mér kunnugt um það þá). Svo er farið að fjalla um fótboltaleik þar sem Arason nokkur kemur mikið við sögu en þá er hann búinn að vera einn helsti sportfréttamatur undanfarinnar viku!

Snillingurinn (5) fer í grunnskóla í haust. Hratt flýr stund. Vonandi verður jafngaman hjá honum og er hjá mér í Melaskóla.

mánudagur, febrúar 09, 2004

Lífsháski 2. sæti 

Ætli Snillingurinn (5) sé ekki kominn aftur með stíflu í eyrun. Til marks um það tek ég misheyrn hans frá í gærkvöld þegar verið var að sýna frá bikarúrslitum í karlaflokki og hann spurði mig hvort ég héldi með Jarðvík eða Djöflavík. (Reyndar spurði hann með hvoru liðinu við ættum að halda, enda vel upp alinn í sinni FH- og Derbyaðdáun.) Samkvæmt fréttum héldu einhverjir upp á sigurinn með því að saxa andlit einnar hetjunnar í spað þannig að spurning er hvort síðarnefnda staðarheitið sé ekki betra en það rétta.

Á námsárunum í höfuðborginni bjó ég eina sex vetur í Blindraheimilinu í leiguherbergi og leið þar mjög vel eftir vissa byrjunarörðugleika sem reyndar vörðu í hálft annað ár. Í nánasta umhverfinu voru flestir sjáandi en eitthvað kynntist ég blindu íbúunum smám saman og naut þar góðs af kynnum þeirra af afa mínum og alnafna sem starfaði fyrir blinda um tíma. Maður hafði aðgang að ýmsum gæðum á borð við dálítinn æfingasal, gufubað, þvottahús, píanó og reiðhjólageymslu. Þótt herbergið væri gegnt Fjölbraut við Suðurver lét ég mig hafa það að hjóla í MR eða taka strætó þá tvo menntaskólavetur sem ég var þarna.

Einn háskólaveturinn hjólaði ég í skólann alla daga og svo tók ég nú framhaldsskólahluta æfingakennslunnar í skólanum á móti, en grunnskólahlutann heima í Nesi í einhvers konar forföllum að hluta til og kenndi m.a. gömlum bekkjarfélögum þar. (Seinna langaði mig alltaf að ljúga því sem leiðsögumaður að ég hefði kennt Björk ensku en það munaði reyndar litlu.)

Fólkið í Blindraheimilinu var mér afar gott og m.a. kynntist ég fullorðnum náunga sem lánaði mér alltaf ryksugu þegar ég þurfti á að halda. Við urðum ágætir mátar og þar kom að hann ákvað að lána mér Trabantinn sinn sem hann náttúrulega gat ekki notað, gegn því að ég skutlaði honum stöku sinnum á fund kunningja sinna. Stundum fann ég á honum að ættingjarnir voru ekkert hrifnir af því að ég væri með lyklavöldin að arfinum. Þetta var einn af þessum öskurgrænu Tröbbum og reyndist mér vel. Hann átti til að stoppa á ljósum en þá var ég snöggur að koma mér upp tækni sem fólst í því að opna húddið og berja á vissan stað, og ég missti aldrei af ljósum sakir þessa. Trabbinn var léttur með abbbrigðum að aftan og nær útilokað að festa sig - maður henti þá helvítinu 180° ef svo bar undir. Einu sinni man ég eftir að hafa rennt mér framhjá hundruðum bíla á Hringbrautinni sem spóluðu þar eins og hálfvitar í brjálaðri hálku meðan sá græni hafði þungann á réttum stað og lét sér fátt um finnast.

Eitt vorið lét ég eftir mér að fara á gripnum á heimaslóðirnar milli páska og prófa og lenti þá í lífsháska 2. Látum vera að einhver asni (sennilega Skagamaður) braut hliðarrúðu í þeim græna þar sem hann stóð fyrir utan ballstaðINN í Nesinu, en daginn eftir leist mér á að fara í fjallgöngu. Ekki man ég hvort ég lét vita af fyrirætlan minni en ég fór að rótum Hafnarfjallsins, lagði þar og gekk síðan eftir egginni upp á topp. Ekkert mál, snjólaust en dálítill klaki hér og þar sem maður þurfti að flengja sér yfir á ferð.

Á þessum tíma átti ég ekki gönguskó og var náttúrulega ekki búinn til afreka á fjöllum enda sá ekki tilgangurinn. Á leiðinni niður, ofarlega, hrasaði ég síðan á einum klakabunkanum og rann af stað. Skriðan innan við eggina er ekki eins brött og sú sem snýr að þjóðvegi 1 en nógu brött samt og brátt náði ég sæmilegri ferð. Sem betur fer komst ég á fjóra fætur með andlitið uppíloft og náði því að meta lífsháskann allvel. Sá hængur var á svellinu að uppúr því stóðu hvassir steinar víðs vegar og fljótlega missti ég annan vettlinginn og gerðist sár á vinstri lófa.

Þegar ég var búinn að renna einar fimm sekúndur og ca. 15 metra sá ég útundan mér grjóthrúgu sem stóð uppúr ísnum og tókst að stýra mér þangað og stöðva þar með þetta feigðarbrun. Ekki dvaldi ég lengi í hrúgunni, en miðaði út leið yfir í ófreðna skriðu og hljóp þangað snarlega. Gekk ég síðan fáein örugg skref áður en ég sneri mér við til að líta yfir sviðið.

Enn má líta merki eftir þessa hraðferð í vinstri lófa og leifarnar af vettlingnum liggja einhvers staðar í þröngu gili milli Hafnarfjalls og Klausturtungna ef að líkum lætur. Hitt get ég aldrei skilið hvernig stendur á því að þegar ég leit til baka sá ég hvergi grjóthrúguna góðu...

laugardagur, febrúar 07, 2004

Bíó 

Hér í borg eru nokkur bíóhús sem ég hef enn ekki séð að innanverðu. Það líður orðið langt á milli bíóferða og raunar hafa allflestar slíkar seinni árin verið í fylgd Snillingsins (5). Ekki get ég sagst hafa engan áhuga á kvikmyndum en hann er frekar lítill. Bíóáhugi minn hefur átt þrjú blómaskeið eða hugsanlega bara tvö.

Reyndar er eitt af því fáa sem ég man frá Patró ferð í bíó hvort sem það er ímyndun eða ekki. Svo á unglingsárunum fór maður í bíó þessi 2-3 kvöld í viku þegar var bíó. Ekki skipti máli hvaða mynd var verið að sýna - þetta var það eina. Að vísu var alltaf miklu skemmtilegra þegar Hansi Egils var í bíó sem var reyndar oftast. Kappinn sá brást við nákvæmlega á sama hátt hvort sem um var að ræða eldheita rómantík, fyndni eða argasta hrylling: sem sagt með því að bresta í hlátur sem var engu líkur. Gott ef bíóið hafði ekki aukasýningar á Blazing Saddles til þess að fólk gæti komið og upplifað viðbrögð Hansa við Varðeldsbaunaprumpsatriðinu.

Þetta tímabil hélt á vissan hátt áfram þegar í bæinn var komið og öll helstu bíóhús landsins í göngufæri. Á tímabili safnaði ég m.a.s. prógrömmum og hvaðeina en á þeim tíma var víst lítið blómaskeið í kvikmyndasögunni. Alltjent stendur ekkert uppúr í minningu fyrstaársnema í MR.

1984 var ég síðan eina þrjá mánuði í Toronto að gera ekkert. Þá fór ég á bíó þau kvöld sem ég ekki var að horfa á körfubolta. Þannig var að ein sjö bíóhús tilheyrðu einhvers konar klúbbi sem bauð til kvikmyndaveislu þar sem maður gat séð tvær klassískar myndir á kvöldi fyrir smáaura og sennilega hef ég séð þarna einar 30-40 myndir og étið nokkur kíló af poppi. African Queen, A Clockwork Orange, Alfie, og síðan slatti af Hitchcock og fleira nammigott. Því nefni ég þetta að RÚV er að boða Hitchcock syrpu um næstu helgi. Spurningin er hvort heilsa barnanna leyfir manni að fylgjast með þessu. Kannski nenni ég ekki hvort sem er...

Undrið (1) fór á spítala í dag gersamlega máttfarið en braggaðist svo snarlega að undir kvöld komu þær mæðgur heim, vonandi til að vera, en samt á að kanna málið á morgun. Snillingurinn var í vafstri með afa sínum daglangt og eftir heimsókn okkar feðga á spítalann í kvöld var svo ærlega úr honum allur vindur að allt sem í hann hafði farið síðdegis lak út á koddann í einni gusu.

Við hjónin áttum árdegisfund með yfirvaldi Melaskóla varðandi framtíðarmál þess stutta og tókst okkur feikivel að koma á framfæri hve menningarleg, framsýn, ábyrg, meðvituð, reynd og hógvær við værum - einkum mér. Þarna geipaði ég út í eitt um skólamál og fleira og læddi inn kennslureynslu minni, kórstarfi, leiðsögumennsku og ég veit ekki hvað. Hvað gerir maður ekki til að fylla upp í þögnina. Skýrslur og vitnisburðir vandalausra verða látnir gilda um drenginn og hefði verið í lófa lagið að afgreiða málið á 5 mín.

Allt er þetta undirbúningur að því að maður verður umboðsmaður gaursins að reyna að selja hann til Inter Milan... Það kemur að því vissulega og þá kemur sér vel að mamman er ítölskumælandi. Annars þykir sjaldnast til framdráttar að nefna fótboltamennsku á ferilskránni, en það er nú ágætt að geta bent á að tveir af toppmönnum landsins í boltanum í seinni tíð eru með prófskírteini frá lagadeild HÍ.

föstudagur, febrúar 06, 2004

Aftur kemur vetur 

Maður var farinn að heyra í farfuglum að maður hélt en allt var það blekking. Nú snjóar hann bara í þriðja sinn eins og ekkert sé og vorhugurinn fyrir bí.

Undrið (1) er aftur komið með lungnabólgu og vökva í eyra - sem staðfestist við læknisskoðun og myndatökur í dag. Ömurlegt að horfa upp á barnið í þessu eymdarástandi og geta lítið aðhafst. Alltaf heldur hún þó góðri lund hvað sem á hana herjar.

Svefnvenjur fjölskyldunnar raskast óneitanlega þegar svona stendur á og þá lærist að reyna að sofa sem hraðast og mest meðan sú stutta sefur. Því kemur ósjaldan fyrir að maður er glaðvakandi um miðjar nætur eftir væran kvöldsvefn. Í gærnótt renndum við feðgin gegnum brúðkaupsmyndasafnið góða og rifjuðum upp ógleymanlegan dag þar sem allt gekk upp. Þótt ég sé lítið fyrir fundi og mannfagnaði er ómetanlegt að eiga svonalagað í minningunni.

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Hratt eða hægt 

Munið þið hvað Slóvenarnir voru sniðugir í þjóðsöngvaflutningnum á handboltamótinu. Þeir gáfu sér einfaldlega vissan tíma í hvern þjóðsöng, ca. 2 mínútur, þannig að oftast var endirinn mjög óvæntur og skyndilegur. Okkar náði ekki einu sinni inn í eilífðarsmáblómið.

Hvað hefði Glenn Gould gert við þjóðsönginn? Gould spilaði það sem hann sá ástæðu til að flytja á sínum hraða, ýmist hraðar eða hægar en allir hinir og hefðin. Hann varð fyrir því á unglingsaldri að vinnukonan fór að ryksjúga kringum píanóið þar sem hann sat og æfði sig. Einhver hefur hávaðinn í tækinu verið því að hann heyrði skyndilega ekki lengur hvernig hann spilaði. Í staðinn fyrir að þagga niður í hávaðanum eða hverfa frá hélt hann áfram og komst að því að hann heyrði tónlistina innra með sér.

Þarna náðist sem sagt einhvers konar innri tónskynjun og seinna notaði hann þessa aðferð iðulega við æfingar, einkum ef lá á að æfa eitthvað til flutnings. Þá var bara að setjast og æfa sig með ærandi hávaða í kringum sig. Og alltaf notaði hann sama stólgarminn sem pabbi hans hafði smíðað. Gould harðneitaði að sitja á öðru við hljóðfærið og þegar yfir lauk var sessan náttúrulega gersamlega ónýt en karlinn sat þá bara á rammanum. Snillingur.

Umfjöllun um Skagann er ekki búin þrátt fyrir maraþonpistil hér á undan. Ég er náttúrulega ekki búinn að móta þetta verkefni en ætlunin er ekki að vera Vegahandbókin heldur láta atburði, minningar og tilfinningar endurspegla viðhorf mitt til staðarins.

Það kemur seinna því að nú er Undrið (1) vaknað og þarf að komast í tölvuna.

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Skaginn 

Nú er ég búinn að vera í Voxinu rúmt ár og þekki enn ekki alla. Við erum að æfa Bach og Bernstein og í kvöld bættist við nýtt verk eftir Báru Grímsdóttur sem verður frumflutt í vor. Háskólakórinn er með okkur í þessu verkefni og mér hálfbrá þegar þessir ungu gaurar kyrjuðu nýja stykkið af þokkalegri kunnáttu og Bernstein öllu betur en ég. Svo kom í ljós að þau eru búin að hafa verkið í tvö ár og æfa öðru hvoru, og að auki nýkomin úr æfingabúðum þar sem hamast var á Lenny karlinum. Mér leið betur þegar ég frétti þetta.

Að öllu meðtöldu er þetta fimmti kórinn minn en í tveimur þeirra var ég skamman tíma og nánast til að fylla uppí. Fyrsti kórinn, Móðir jörð, var óneitanlega sérstæður kapítuli í tónlistarsögu minni: hálfgerður stelpukór með örfáum en þónokkuðöflugum drengjum. Við sungum gospel og vorum í litríkum búningum og héldum góða tónleika. Þá bestu e.t.v. í Dómkirkjunni seint á laugardagskvöldi. Mikið stuð, hljómsveit og læti. Þarna kom við sögu tenórinn JF Valdimarsson sem nú er orðinn prófessjónal óperugaur. Ekki leyndi sér raddorka piltsins á þeim tíma, en þá starfaði hann sem fasteignasali og oftar en ekki hringdi gemsinn hjá honum rétt í þann mund sem kórinn var að ná tengingu við almættið í einhverjum indjánapælingum.

Þetta var gaman og ekki spillti fyrir að litla systir var þarna líka - kom mér eiginlega af stað. Þegar ég komst í stjórn var eitt mitt fyrsta verk að reka sjálfan mig úr kórnum og allan karlpening jafnframt enda fullreynt með að halda þessu úti sem blönduðum kór. Svo lognaðist starfsemin útaf endanlega vorið eftir en ég var kominn í Langholtskirkju.

Móðir jörð hélt tónleika í Njarðvík (7 mættu), í Hveragerði (4 mættu), og á Akranesi fyrir utan uppákomur í höfuðborginni.

Hefst þar með úttekt mín á þéttbýlisstöðum landsins þar sem ég hef komið oftar en einu sinni eða gist.

Ég var náttlega á Akranesi þegar Armstrong steig fæti sínum á tunglið. Átta ára, kominn á spítalann aftur eftir lærbrot vetrarins. Þeir voru að taka naglann úr beininu. Þarna lá maður seint um kvöld með spítalaútvarpið á koddanum, sálufélagann trygga og hlýddi á heimsviðburðinn alls óvitandi að á sama tíma var konan mín tilvonandi á ferðalagi um landið með foreldrunum. Fer ekki nánar út í það...

Upplifun mín af Akranesi einkennist dálítið af því að þar mátti ég húka á spítala vikum saman með brotið læri, bara lítill stráklingur. Samt voru allir góðir við mig og mamma kom ótrúlega oft, fékk far með Dodda í Dal á olíubílnum, og allir reyndu að hugsa um að mér liði vel. Meðal stofufélaga minna í fyrstu umferð þarna var sá sem bjargaði þeim eina sem komst lífs af í Pouquoi Pas? slysinu, afabróðir 200000 Naglbítabræðranna.

Einn sonur kunningja pabba, Bragi Hauks, kom með allar Gríms grallarabækurnar sínar og lánaði mér. Sundkennarinn Helga kom því til leiðar að ég fékk allar Ævintýrabækur dóttur hennar lánaðar og svo las ég bókasafn Barna- og miðskóla Borgarness meira og minna. (Mig minnir að ég hafi farið illa með margar af þessum bókum.)

Engu að síður stendur þessi helvítis Sementsstrompur mér skýrast fyrir sjónum í endurminningunni dag og nótt utanvið gluggann.

Seinna lá leið mín gjarna um Skagann þegar ég námsmaðurinn tók Bogguna á leið í Nesið. Oftast fór ég bara af stað án áætlunar og hugðist fara á puttanum. Ekki hafði ég þó í mér manndóm til að húkka far með bílum neðan frá höfn heldur arkaði gegnum pleisið, hugsandi strompfjandanum þegjandi þörfina, undrandi á því hvað húsin þarna voru ljót. Svo var náttúrulega umferðin öll meira og minna búin þegar ég kom út á þjóðveg og reyndar var ég lítið fyrir að rétta út puttann en skálmaði ótrauður áfram þar til einhver sá á mér aumur og kippti mér áleiðis.

Ég fattaði alltof seint að það er passlegur hjólatúr frá Akranesi til Borgarness í meðvindi. Rúmlega hálftímadjobb. En maður stólar reyndar ekki á meðvind undir Hafnarfjalli eða hvað?

Félagar mínir áttu gjarna leið á Skagann til að kíkja á stelpurnar, enda öllum kunnugt að Akranes var með glæsilegar stúlkur en Borgarnes laglegustu piltana. Eitthvað kom fyrir að ég álpaðist með í slíka leiðangra en alltaf var ég hlédrægur og gjarna bílstjóri. Reyndar var talað um Akranes og kartöflur í einhverju samhengi áður fyrr (stundum fótbolta líka) en ég hef enga reynslu af því.

Fyrir utan spítalavistina er brennimerkt í mig stutt dvöl á Skaganum sem sumarvinnumaður hjá Vegagerðinni. Það var sem sagt ekki nóg að ég mældi götur þarna sem puttalingur á veturnar heldur var ég sendur með mælingamönnum til að mæla fyrir nýja þjóðveginum norður frá Akranesi eitt sumarið í sumarleyfi vegavinnuflokksins míns. Þarna hljóp ég um mýrar og holt með rauðhvíta stiku meðan kappar tveir sögðu annað hvort: "Nær Geira" eða "nær Inga" í labbrabbið. Svo átu þeir kex og súpu af því að þeir voru á dagpeningum og gistu í bílnum af sömu ástæðu, en um þetta plan fékk ég ekkert að vita fyrr en of seint þannig að ég át ekkert og gisti á einangrunarplasti í áhaldahúsi Vegagerðarinnar á Akranesi. Gott ef ég fékk ekki strigapoka til að breiða ofan á mig. Djö.

Mikinn og góðan mat átti ég seinna eftir að snæða þarna sem starfsmaður RARIK. Við vorum jú með háspennulínurnar kringum bæinn á okkar svæði og létum iðulega passa inn í vinnudaginn að borða á Stillholti. Frábær kokkur og veislukostur þarna.

mánudagur, febrúar 02, 2004

Saumaklúbburinn 

Fyrir átta árum eða svo tókum við gamlir fótboltafélagar upp á því að hittast vikulega. Upphaflega var planið að stunda skallatennis en áður en fyrsti tími var úti varð ljóst að karfa væri málið. Allir sem komið hafa við sögu eiga sameiginlegt að hafa verið í fótbolta í FH en sumir eiga annan feril merkari, t.d. sem handboltamenn eða körfuboltamenn. Þetta er saumaklúbburinn minn og heitir Lækers þar sem íþrótt vora stundum við í Lækjarskóla. Meðlimirnir eru þar af leiðandi Lækmenn.

Margir drengjanna hafa þekkst frá barnæsku og gengið hlið við hlið gleðigötur og villigötur eins og gengur, en nú er eins og allt sé að koma heim og saman. Á góðum stundum lýsir því hver sem betur getur yfir að þetta sé albesti félagsskapur sem hugsast getur. Ekki spillir fyrir að einn Lækmanna er í fyrirsvari fyrir innflutningsfyrirtæki og notar stundum á þessum góðu stundum Lækfélagana til þess að smakka nýjar vörur. Menn mega giska á hvað hann flytur inn...

Ég er mjög útúr kú í þessum hópi að því leyti að ég er ekki Hafnfirðingur og ekki búsettur þar lengur. Sem betur fer er ég þó stofnfélagi og því lífstíðarlækmaður því að það er ekki heiglum hent að komast inn í hópinn. Fjölmargir hafa sótt um en einungis tveir bæst við frá upphafi - hvort tveggja gamlir landsliðsmenn í sinni íþrótt. Eiginlega get ég engu bætt við því að þá færi ég annað hvort að monta mig eða eitthvað.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?