<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, mars 31, 2004

Stundum og stundum ekki 

Veturinn 77-78 iðkaði ég badminton einu sinni í viku í TBR í frjálsum tímum sem MR átti þar. Mótspilarinn var Lárus nokkur fyrrum bekkjarfélagi. Í dag fór ég í badminton með nokkrum vinnufélögum með sama spaða og forðum, og hef öllu gleymt. Það er bara ekkert gaman að vera lélegastur en samt var gaman. Væntanlega verður sitjandinn stífur á morgun fyrir bragðið og öxlin er eitthvað undarleg hvort sem það skrifast á badmintonið, nótnalyftingar eða annað.

Oftar en ekki hef ég gengið af velli, sviði, úr rútu, skólastofu eða öðrum vettvangi stoltur af framlagi mínu. Sem betur fer hef ég ekki oft þurft að skammast mín illilega fyrir frammistöðuna, en þó. Í landsprófi var myndaður sönghópur sem átti að syngja jólasálminn góðkunna á Litlu jólum fyrir yngri börnin við undirleik einnar bekkjarsysturinnar. Eitthvað var undirbúningi ábótavant og svo fór að söngurinn fjaraði herfilega út þegar annað erindi átti að hefjast. Þá leið mér ekki vel. Einu sinni tók ég þátt í að sýna línudans á einhverri árshátíð Söngsmiðjunnar og það var ekki fallegt. Einu sinni tapaði ég með félögunum 1-8 fyrir Val í lokaumferð Íslandsmótsins. Ekki gaman það.

Í dag verður hins vegar gaman. Þá munu Bach og Bernstein dúndrast yfir Langholtið þvert og endilangt. Þetta kostar víst rúma milljón allt saman en hver fæst um það. Sex í slagverki! Svo er sólistinn svo ágætur, 11 ára gutti sem kann þetta alltsaman og á eftir að bræða margt hjartað. Einu áhyggjur mínar felast í því að nágrannabassi minn uppgötvaði skyndilega á lokaæfingu að hann getur látið röddina víbra mikið sem er sérlega ókórvænt og þar að auki kann hann ekkert of vel. Sem betur fer stöndum við aftast þannig að ég get tæklað hann afturfyrir pallana ef stefnir í óefni.

Börnin eru farin að borða svo mikið að maður á ekki orð. Þau skiptu á milli sín í kvöldmatinn 300gr. pönnupizzu, fengu síðan soyajógúrt oná það og enduðu með vænni skyrslettu. Undrið (1) hafði þarna vinninginn á Snillinginn (5) með naumindum þar sem hún graðkaði í sig meira skyri og hafði þar að auki rjóma á sem hann sleppti að vanda. Kalt mat á hennar máltíð: 550gr. +/- 50, en samt engin ósköp af kaloríum. Heyrðu - hún er mjög smávaxin, en mikið er samt skemmtilegt að upplifa svona góða lyst hjá fólkinu sínu.

Svo fór pilturinn einarðlega fram á að fara í golf eftir leikskóla í dag, sama dag og fregnir bárust af því að Tiger Woods væri tekjuhæsti íþróttamaður í heimi. Það sem meira var - eftir miklar jarðvegsframkvæmdir með kylfunni áttaði hann sig loksins á því að golf er ekki kraftasport og komu nokkur dágóð högg undir lokin. Grannar góðir - rúður ykkar eru vonandi tryggðar.

þriðjudagur, mars 30, 2004

Skúbbídú 

DV kaus að kynna sig hér á heimilinu í seinustu viku, einmitt þegar mesta dúndur seinni tíma birtist í blaðinu - nefnilega skýrslurnar frá yfirheyrslum vegna Morðfjarðarmálsins. Ég las megnið af þeim enda góðkunningi lögreglunnar sjálfur frá því fyrir nokkrum árum er ég gerðist óvænt yfirheyrslutúlkur.

Það vantaði sem sagt norskumælandi mann í skyndingu til þess að túlka eftir hálftíma yfirheyrslur yfir Norðmanni sem grunaður var um hnupl víðsvegar um landið. Grundólginn getum við kallað Mohammed enda var hann upprunninn í N-Afríku en með norskt ríkisfang og góðkunningi löggunnar í Noregi. Mig minnir að hann hafi aðallega átt að hafa nappað fötum, skóm og skartgripum, en eitthvað var erfitt að sanna á hann þrátt fyrir framburð vitna, myndir úr öryggiskerfum og hvaðeina. Ekkert af því sem hafði horfið fannst nefnilega í fórum kappans.

Þetta var virkilega eins og að horfa á lélegan lögguþátt, nema hvað oftast eru glæpirnir þar stórvægilegri. Allar helstu týpurnar voru til staðar, nema kvenlöggan var ekki. Þarna var stóra löggan, litla löggan, lögguparið utan af landi, kaldhæðna löggan og skilningsríka löggan. Allar voru löggurnar venjulegt fólk sýndist mér en með eindæmum lengi að slá inn í tölvuna. Þess ber að geta að þetta voru ein 3-4 skipti sem ég mætti. Og alltaf var gamli góði lögfræðingurinn til staðar, yfirverjandi Íslands um langt skeið og fyrrverandi tugþrautarkappi.

Ekki var nú alltaf auðvelt að skilja þann grunaða en það hafðist þó. Hann kvaðst vera meiddur langhlaupari sem sæi fyrir sér með því að veðja á hesta og væri hingað kominn til þess að kanna kosti þess að setjast hér að eftir skilnað og leiðindi í Noregi. Jú, hann ætti kunningja hér enda hefði hann gjarna farið með þeim í bíltúra víðsvegar og sennilega komið m.a. í flestar ef ekki allar þessar búðir sem löggan væri að nefna. Ekki vildi hann þó meina að hann hefði stolið loftpressu hér, gullhring þar, Nike-skóm þarna eða geislaspilara hérna. Þar hlytu kunningjarnir hafa verið að verki.

Auðvitað var búið að yfirheyra kunningjana sem bentu alltaf á okkar mann. Á vissum tímapunkti í hverri yfirheyrslu fór hann síðan að röfla um einelti og rasisma og endaði jafnan á því að biðja hálfvælandi um lögregluvernd því að víst væri að kunningjarnir kæmu um hæl og káluðu honum fyrir að kjafta frá.

Löggan vissi af því að Mummi hafði sent stóran pappakassa úr landi frá Akureyri og spurði mikið um innihald hans. Ekki stóð á svörum, en síðan barst kassinn niður á stöð og maður þurfti náttúrulega að túlka þegar hann skyldi opnaður. Ekki vantaði spennuna í laganna verði þegar allt kæmist upp en innihaldið reyndist vera nákvæmlega það sem um hafði verið talað. Að vísu erfitt að skilja hvað maður á tjaldferðalagi hefði við þrjú pör af blánkskóm að gera, sex glæný leðurbelti, tvo örþunna leðurjakka og ýmsan varning sem greinilega var góss en Mummi átti skýringar á öllu. Og ekki var hægt að tengja neitt af þessu beint við það sem hann var grunaður um.

Málalokin urðu þau á þessu kostulega máli að lögreglan kvaðst ekki geta tryggt öryggi eins né neins fyrir ímynduðum mafíum og hann væri frjáls ferða sinna. Að vísu væri búið að ræða við norska sendiráðið um að honum yrði hjálpað með að útvega flugmiða úr landi ef hann óttaðist um hag sinn og líftóru á Íslandi. Jú, þessu var tekið og Mummi sprangaði rösklega út í sólskinið úr löggustöðinni í ljósbláu jakkafötunum, göngulagið minnti dálítið á Travolta í Saturday Night Fever, nema hvað okkar maður var stöðugt að líta um öxl. En mikið var lögreglan fegin að kveðja kappann þótt hann hefði sloppið billega.

Seinna túlkaði ég síðan dálítið varðandi dópsendingu en Norðmaðurinn sem því tengdist var bara stráklingur sem tengdist málinu bersýnilega ekki neitt.

mánudagur, mars 29, 2004

Senn kemur vor... 

Anna kom frá Ameríku með hátt á fjórða hundrað mynda og ég er ekki alveg sáttur við þær. Allt mér að kenna fyrir að minnka þær heldur mikið og margar þeirra eru greinilega ofsjoppaðar. Þetta var sem betur fer ekki of dýr lexía enda kostnaður tæpur þriðjungur af því sem hefði verið við hefðbundna aðferð.

Maður bjóst ekkert við hvítri jörð og næturfrosti meir enda falla nú snemmsáðar plöntur í kalda gróðurhúsinu og krókusar krókna. Einn vorboðinn felst í því að ferðaskrifstofur fara að hringja og falast eftir leiðsögumanni og það gerðist tvívegis í síðustu viku. Annar vorboði er vorkonsert Voxins og Háskólakórsins. Eftir æfingu í dag er ljóst að tónleikarnir n.k. miðvikudag munu sæta tíðindum. Það er ekki á hverjum degi sem flutt eru svona spennandi verk á svæðinu. Það small saman þegar Ísak einsöngvari 11 ára hóf upp raust sína í 2. kafla Bernstein verksins. Hann er skolli góður.

Merkileg tilviljun að í síðustu viku kom til starfa hjá okkur náungi sem heitir Bjarnsteinn og svo syngjum við Bernstein á miðvikudag.


þriðjudagur, mars 23, 2004

Hvergi annars staðar 

Svo greinir Moggi frá:

"Einum fremsta heilaskurðlækni Bretlands hefur verið vikið úr starfi vegna deilu um súpudisk.
Reutersfréttastofan hefur eftir heimildarmönnum á sjúkrahúsinu í Nottingham, að lækninum hefði verið vikið frá störfum eftir að hann var sakaður um að setja tvíbökumola í súpuna sína án þess að greiða fyrir í mötuneyti sjúkrahússins.

Í yfirlýsingu frá sjúkrahúsinu segir, að lækni hafi verið vikið frá störfum vegna ásakana sem snéru að hegðun hans utan starfsins. Læknirinn hafi átt að skera þrjá sjúklinga upp í gær en aðgerðunum hafi verið frestað.

Læknirinn hafði starfað sem taukaskurðlæknir í Nottinghan í 18 ár og var sérfræðingur í skurðaðgerðum vegna áverka á heila."


Í No**ingham verða menn sem sagt sérfræðingar vegna áverka á heila.

mánudagur, mars 22, 2004

Tempus fugit 

Einu sinni var ég svo vitlaus að hafa veifu frá Nottingham Forest hangandi uppi á vegg hjá mér einn vetur eða tvo. Nú veit ég betur. Þetta var ca. 77-78 þegar skógarskrímslin höfðu nappað öllum bestu leikmönnum Hrútanna og framkvæmdastjóranum að auki. Um helgina unnum við Derbymenn Fo**st á sannfærandi hátt og skyndilega er framtíðin björt þrátt fyrir bakslag í vorveðráttu. Það sem best var í sambandi við þetta allt saman er að fjúkandi plastglas varð til þess að markmaður Trjánna hitti ekki boltann sem barst til eins af guðspjallamönnunum sem skoraði örugglega.

Þeir Jóhannes, Páll og Markús gerðu semsagt mörk minna manna um helgina og lýsi ég hér með eftir Lúkasi. Nú eru tæp tíu ár síðan ég komst á tölvupóstlista stuðningsmanna Derby og geri aðrir betur í netheimum. Einn náunga af listanum hef ég hitt er hann kom hingað '97. Eftirminnilegustu augnablikin voru þegar ég var viðstaddur beina útsendingu á irkinu þegar piltarnir komust upp í úrvalsdeildina. Þetta eru svona 20-50 skeyti á dag á þessum lista og engar líkur til þess að ég hverfi af honum í bráð.

Tíminn flýgur og nú eru tæp tuttugu ár síðan Marvin Gaye kvaddi þennan heim. Hver man eftir honum? Ég var að glugga í bók eftir rokkskríbentinn Mikal Gilmore (jú, hann er bróðir Garys heitins fjöldamorðingja) og rakst þá á dánardægur Marvins. Svo verða náttúrulega 30 ár frá 1100 ára hátíðahöldunum á þessu ári og þar með eitthvað að gera fyrir Júlíus Hafstein hlýtur að vera.

Hugsanlega eru brátt 40 ár frá því að sá atburður sem ég man fyrstan í mínu lífi átti sér stað - nefnilega flóttinn frá Ingu í Sigurðarhúsinu á Patreksfirði ásamt systur minni um miðja sumarnótt. Þó er það ólíklegt - sennilega var ég annað hvort eldri eða þá að alltsaman var draumur.

Snillingurinn (5) átti að fá að fara með mömmu sinni til Ameríku í dag en svo reyndist ekki vera öruggt pláss í vélinni þannig að það datt uppfyrir. Það styttist í að gaurinn fari í skóla og þá verður nú ekkert sjálfgefið að hverfa til útlanda hvenær sem er. Hann settist í fyrsta sinn óbeðinn við matarborðið (þótt barnaefnið væri í gangi) og fór fram á að fá mat, og síðan hvarf hakkið og spaghettíið alltsaman í þau systkinin eins og um samantekin ráð hafi verið að ræða að svipta föðurinn kveldskattinum. Faðirinn má við því.

Mamman fór til Ameríku með ógrynni af myndum. Lauslega áætlað á fjölskyldan nú um 1400 myndir í tölvunni og á diskum og enn er ekki farið að setja þær skipulega á pappír. Seinustu vikur var ég sem sagt að dunda mér við þetta - velja og snurfusa til stækkunar á pappír og niðurstaðan fram að síðustu jólum eru 350 myndir sem lenda á blaði. Allt í allt verða þetta um 500 myndir frá ágústlokum 2002 til nútíma. Eitthvað af þessu kemur inn á myndasíðuna sem er í stöðugri vinnslu. Fróðlegt verður að sjá hvernig vinnst úr þessu öllu saman á blað - og mun ég nýta lærdóminn til þess að gera betur og vinna meira með myndirnar.

miðvikudagur, mars 17, 2004

Klippingar 

Í vinnunni minni góðu er vitanlega mikilvægt að skila hagnaði svo að vinnan haldi áfram að vera til. Auðvitað leggur maður sitt af mörkum til þess að fyrirtækið sé frambærilegt á sínu sviði en samt er varla hægt að segja að ég búi beinlínis til arð.

Þetta var sama sagan í skólanum. Ég var ekki bekkjarkennari og fékk því aldrei hrós á kennarafundum.

Skólastjórinn: - "Nú er Svanfinnur með erfiðan bekk eins og allir vita og hann er kominn með hátt í 20 útskuldaða tíma síðustu vikuna. Þetta hafa verið foreldrasímtöl á kvöldin, fundir með lögreglu og barnaverndarnefnd síðdegis og einnig hefur hann talsvert náð inn í sundlauginni. Menn skyldu gæta að því að skrá öll samtöl við kúnnana (nemendur) sem fara fram á opinberum stöðum á borð við sundstaði og stórmarkaði. Með einkavæðingunni er liðin tíð að þið kennarar látið bjóða ykkur stöðugt áreiti nemenda sem halda að þeir geti abbast upp á ykkur hvar og hvenær sem er. Einnig er mér sönn ánægja að tilkynna að sveitarfélagasamlagið hefur ákveðið að hækka álagsprósentuna fyrir þá sem búa í sínu skólahverfi og þurfa þar með að gera sér að góðu að gefa dót á hverja einustu tombólu, láta frá sér flösku- og dósabirgðir fjölskyldunnar, kaupa happdrættismiða og verða fyrir bjölluati eða öðrum grikkjum, og geta aukinheldur ekki látið sjá sig í ÁTVR eða á öðrum vafasömum stöðum án hauspoka. Þetta álag verður framvegis 4.5%. Gefum Svanfinni gott klapp fyrir gott útskuldunarhlutfall og ættu allir að taka sér hann til fyrirmyndar."

Þeir voru búnir að teikna mig inn á skipulagið á nýja vinnustaðnum en komið hefur í ljós að ekki er allt sem skyldi. Sennilega er ég í fyrsta lagi með of stórt skrifborð og í öðru lagi með alltof mikið rými. Það vantaði nefnilega eitt herbergið sem var á teikningunni þannig að sú sem er við hliðina á mér fór þangað sem herbergið átti að vera og þar með lítur út fyrir að ég sé einhver mógúll á alltof mörgum fermetrum. Sem betur fer er ég ekki í horni - þá væri eflaust neyðarástand. Fyndnast er að ég get ekki fært mig á rétta staðinn og minnkað við mig plássið þótt ég feginn vildi. Það vantar nefnilega alla tengla á rétta staðinn! Ekki eru uppi áætlanir um að nýta fermetrana í nokkurn skapaðan hlut, þá sem ég sölsaði undir mig.

Um daginn klippti ég Snillinginn (5) eins og lengi hafði staðið til. Þessi aðgerð hefur ekki farið framhjá fólki og keppast nú aðdáendur hans um að hrósa honum fyrir hvað hann sé fínn! Ég sé náttúrulega ekkert nema skakkar línur, skallabletti og mistök þegar ég lít á verksummerkin. Þetta var reyndar unnið við bágar aðstæður: komið rökkur og lýsing afleit, hann önnum kafinn við að horfa á barnaefni og Undrið (1) heldur önugt yfir því að fá of litla athygli. Hún fer létt með að kalla á athygli með ýmsum uppátækjum þegar því er að skipta. Svo er reyndar rúsínan í þessu öllu saman hvernig sá stutti svarar hárgullhömrunum: Já, pabbi klippti mig einu sinni þegar mamma var ekki heima!" Af einhverjum ástæðum rangtúlkar fólk þetta með mömmuna gersamlega - hún er sallaánægð með klippinguna, þótt mig gruni að hluti ánægjunnar felist í gleði yfir því að ég rakaði ekki af drengnum allt hárið eins og í fyrrasumar. Nú verður ekki aftur snúið - næst verður verkið skipulagt betur og áður en nokkur veit verð ég kominn með kúnnahóp.

Svo fórum við Magnús granni í að klára að klippa trén sem ramma inn garðinn góða. Þetta gekk mætavel enda var hann búinn með drjúgan hluta áður. Auðvitað var kappinn búinn að verða sér úti um almennilega græju í verkið og við höfum sneitt á annan meter ofan af björkunum að jafnaði. Gaman verður að vita hvernig trén bregðast við þessu, hvort þau ná að þétta sig með auknu plássi o.s.frv. - það fossar úr öllum bjarkasárunum næstu dagana enda gróður kominn vel af stað þrátt fyrir næturfrost sl. nætur. Nú verður alltjent ekki eins mikill skuggi í garðinum eins og í fyrra.

þriðjudagur, mars 16, 2004

Ofbeldi 

Undrið (1) kom vælandi innan úr stofu seinnipartinn í dag þar sem hún hafði verið að endurraða geisladiskum eins og svo oft áður. Málið var að einn diskurinn (tvöfaldur) hafði lent oná tánni á henni og það er sárt og á slíkt þarf að kyssa. Einhvern veginn kom mér ekki á óvart að þetta var James Brown, Anthology. Hann er margbúinn að vera í fréttum karlfauskurinn fyrir ofbeldi gagnvart konum...

Það mun heldur ekki koma mér á óvart þegar Björn Bjarnason verður settur í stól utanríkisráðherra gegn því að sleppa öllum draumum um frekari frama innan Flokksins. Þetta er borðleggjandi. Menn vilja ekki tapa öllu fylgi, Björn þarf einhverja snuddu og getur þarna valsað um víðan völl og fengið af sér myndir með helstu forkólfunum - stefnuna getur hann svo fengið með í tölvupósti því hann er svo duglegur á netinu. Meginatriðið sem flestir gleyma er hins vegar að það er viss sparnaður að hafa Björn sem utanríkisráðherra, hann er einn fárra eða sá eini af alþingismönnunum sem getur farið gangandi upp í Perlu þegar þarf að halda Kínverjum veislu. Og þetta gerir Björn. Ég hef séð hann prúðbúinn sæta færis að skjóta sér yfir Bústaðaveginn síðdegis á leið í eitthvert gilli. Kannski þetta kalli á göng?

Vikan sem leið var talsvert viðburðarík. Ég spilaði í Víkingalottó og vann ekkert en þann sama dag vann ég pottinn í vinnunni. Sl. föstudag fluttist síðan vinnustaðurinn um set niður í Ármúla í höfuðstöðvarnar - styttra að fara, en bílastæðablús á hverjum morgni. Ég missti af kóræfingu og körfu þar sem Anna var skyndilega send til Orlando enn eina ferðina. Síðan slapp ég við barnaafmæli á laugardag þar sem stjórnandi kórsins hennar fékk skyndilega höfuðverk og Derby vann. Og á sunnudag spændi fjölskyldan í bíltúr niður í fjöruna góðu við Óseyrarbrú og dálítinn hring í framhaldinu. Bar helst til tíðinda að Undrið (1) pissaði ekkert í 7 klst.

Þessi ferðatilhögun, Þrengsli-Selfoss-Hellisheiði, var svo sem ekki fyrirfram ákveðin en oftast reyni ég nú að koma við í þessari fjöru með ferðalanga þegar leiðin liggur austur með ströndinni til þess að búa til smátilbreytingu. Svartur sandur er jú stórmerkilegt fyrirbæri. Fjaran varð náttúrulega fjölskyldufjara hér með en leiðin lá vitaskuld um Eden. Merkilegt hvað sá staður heldur sínum sessi sem skyldustopp á fjölskyldubíltúrum.

Maður skammast sín sem gæd að koma þarna með fólk, enda sér margur hvílík ferðamannagildra þetta er. Allt rándýrt, ekki hægt að fara á snyrtingu með börnin án þess að fara gegnum spilakassasalinn og allt troðfullt af kitsch. Sjálfur á maður einhverja minningu um ísát þarna sem barn í brennheitri eftirmiðdagssól í þessum torfhúsabásum. Ameríkönum finnst þetta fínt - Þjóðverjar vilja heldur fá aukahálftíma til að glápa á foss en Eden. Snillingnum (5) fannst auðvitað gaman í Eden en hefur þó ekki minnst á að fara þangað aftur. Hins vegar er hann æstur í að fara í fjölskyldufjöruna strax aftur - núna.

Eitthvað hefur fjölgað myndum og galleríum í netalbúminu mínu en aðalvinnan hjá mér þessa dagana er hins vegar að vinna myndir sem hugmyndin er að setja á pappír í næstu ameríkuferð Önnu - prófa það. Maður er svolítið í klemmu með þetta. Hve langt á maður að ganga við að laga, breyta og snurfusa tækifærismyndir? Það hefur safnast fyrir býsna mikið af myndum sem við viljum eiga á pappír og með tilkomu skannans eru ýmis önnur tækifæri í stöðunni varðandi gömlu myndirnar. Sem stendur er ég sem sagt að snurfusa myndir frá í fyrrahaust en skyggnusafnið er enn í bið og sömuleiðis alls kyns efni sem verður skannað inn. En mikið er nú gaman að dunda við þetta.

fimmtudagur, mars 11, 2004

Lifi þýskan! 

Schweinsteiger ---> Steinschweiger

Þetta á vel við eftir úrslit kvöldsins í meistaradeild - njöh, njöh.
Fyrir Germanistana má bæta við að þeir sögðu gjarna Þjóðverjarnir mínir þegar maður ók um svæði þar sem greinilega var nýbúið að fara um grundir með skítadreifara: "Ach, riecht nach Bayern." Bæverjar teljast sem sagt ekki með þegar þýskir eru að hugsa um sjálfa sig sem þjóð.

miðvikudagur, mars 10, 2004

Hvaða listahátíð? 

Sennilega hef ég einu sinni sótt viðburð á listahátíð - ever. Einhver kvartett spilaði í Gamla bíói og það var ágætt en ekkert meira. Mér varð á að álpast inn á heimasíðu listahátíðar sem nú stendur fyrir dyrum og fann ekkert sem heillaði nema e.t.v. einhverja ljósmyndasýningu. Ég er afar ómenningarlegur að þessu leyti. Samt finnst mér oftast ágætt þegar einhver dregur mig af stað. Reyndar fer ég ekki heldur mikið á íþróttakappleiki. Það er bara svo miklu skemmtilega að vera á sviðinu eða á vellinum - allir hljóta að sjá það.

Kannski maður verði duglegri að fara á mannamót þegar börnin verða orðin eilítið stærri og komin með úthald í þessháttar. Maður man nú eftir þessum stórviðburðum sem við pabbi fórum að upplifa í den. Jú, ég var á vellinum þegar áhorfendametið var sett - Valur - Benfica. Við fórum í Laugardalshöllina 72 og fylgdumst með 11. skákinni. Keflavík 1 - Tottenham 6; Ísland 2 - A.Þýzkaland 1. Svo fórum við út í flóa að tína svartbaksegg og stundum í Sundhöllina ef við vorum báðir í Reykjavík samtímis. Og við fórum í kynngimagnaða veiðitúra en fengum oftast lítið sem ekkert.

Albesti veiðitúrinn sem ég man eftir var farinn í vötnin á Borgarhreppshálendinu og er eftirminnilegur fyrir það að við fundum aldrei vatnið sem hugmyndin var að veiða í. Gott ef íþróttaálfurinn og karl faðir hans voru ekki með í ferð. Það skipti engu máli þetta með veiði eða egg. Aðalatriðið var að koma sér út, helst ganga vel og lengi og njóta friðarins. Einu sinni gleymdum við meira að segja eggjunum sem við vorum búnir að tína einhverja vornóttina! Ég hef sameinað veiði og eggjatínslu í golfinu - annars vegar er þar sveifla og hins vegar þyki ég frámunalega slyngur að finna kúlur. Nú fer að líða að því að maður geti farið að skjótast dagpart út í dalinn græna til að viðra settið.

Snillingurinn (5) kom nú með á bikarúrslitaleikinn sl. haust og stóð sig vel. Börnin eru - þrátt fyrir eineltisógnina sem vofir yfir hér í Vesturbæ - einkar harðir FHingar og kyrjuðu hvatningarsöngva í baðinu í kvöld. Við erum komnir í Emstrur í Laugavegsferð vorri fyrir svefn og boðaði ég lokadag ferðar á morgun. Sá stutti ákvað þá að við myndum framlengja ferðina og bæta a.m.k. einum degi við og þá er spurning hvort maður tekur Fimmvörðuháls (sem ég þekki ekki) eða greatest hits um göngustíga Þórsmerkur eins og var raunar gert þegar ég fór þetta fyrst. Ég spurði hann hvort ekki væri inni í myndinni að skreppa þetta einhvern tíma í alvöru þegar á hann væru komnar aðeins sterkari lappir og taka hugsanlega Undrið (1) og mömmu með. Jú - það var bærileg hugmynd, en hann færi þá með trússrútunni á milli næturstaða, takk.

Annars er eftirminnileg kvöldmáltíðin í bæði skiptin sem ég hef verið í Langadal eftir Laugavegsferð. Þannig er að þetta hafa verið ferðamannaferðir á vegum ferðaskrifstofu náttúrulega og til að halda uppá afrekið er grillað lambalæri með öllu í kvöldmat að lokinni ferð. Vissulega verðugur endahnútur. En maður er búinn að standa þarna yfir ketinu tvívegis með mergð af pakkasúpusjóðandi bakpokavesalingum sem bókstaflega hefur étið ilminn af lærunum og það er erfitt. Skánar ekkert þegar við bætast bakaðar kartöflur, salat og fleira gúmmelað. Já, takk ég er orðinn svangur líka - best að hætta...


þriðjudagur, mars 09, 2004

Tilraunir og aðrar raunir 

Stundum held ég að flestar tilraunir til nýbreytni í eldamennsku hjá mér miðist að því helst að finna nýjar aðferðir til að koma beikoni einhvern veginn á matseðilinn. Hér á heimilinu er eldamennskan í tiltölulega sjálfvirku jafnvægi: sá eldar sem fyrr kemur heim eða er heima þann daginn og ég tek síðan gjarna helgarnar því að þá er ég meira heimavið. Við eigum síðan okkar sérrétti, t.d. er lasagna hennar en pizza er mín o.s.frv.

Mér finnst gaman að dunda við pizzugerð á laugardögum og heimatilbúna pizzan er reyndar vinsælli en sú aðkeypta. Maður er búinn að auglýsa eftir góðum ráðum og heyra sitt af hverju og prófa, en þetta vill einhvern veginn verða misjafnt sama hvað maður reynir að gera hlutina eins.

Um síðustu helgi þótti framleiðslan með þvílíkum ágætum að annað eins hafði ekki komið inn fyrir varir. "Pabbi, skorpan er frábær," var það komment sem manni þótti hvað vænst um að heyra. Nú er svo að ég gerði dálítil mistök eins og gengur. Þegar maður er með hugann við margt er stundum erfitt að einbeita sér. Það var veður í börnunum þennan dag eins og þeir þekkja sem hafa starfað í skóla. Áður en lægðin skellur á manni hleypur óeirð í börn - það er staðreynd.

Mistökin fólust í því að þegar ég var að blanda sósu og deig (sem fer fram samtímis í blandara og hrærivél sambyggðri) varð ég fyrir því að hella óvart úr annarri tómatadósinni í þurrefnin sem biðu í skálinni. Ég reyndi sem best ég gat að bjarga málum með því að veiða þá og vökvann uppúr en tvennt gerðist. Eitthvað varð eftir í hveitinu og eitthvað af hveitinu fór í sósuna. Niðurstaðan: Besta pizza ever!

Í gær fór ég síðan út í að búa til fylltar pönnukökur að gamni mínu - auðvitað með nokkurs konar grænmetis- eggja- og beikonfyllingu fyrir alla nema Snillinginn. Í hans kökum voru hrísgrjón og eggjahræra. Þetta gekk allvel upp nema hvað sá stutti var ekki hrifinn. E.t.v. helgast það af því að í hans huga eru pönnukökur toppurinn á tilverunni, með rjóma, sírópi, sykri eða sultu eða einhverri samsetningu þessa. Pönnukökur eru Ölduslóð 34 í kaffi hjá Jóni og Sigrúnu, þær eru morgunstundir á sunnudögum þegar mamma er að vakna, og þær eru afi og amma og allir hinir. Sem sagt ekki kvöldmatur með hrísgrjónafyllingu.

Oft verður mér reikað um Laugaveginn þegar borgin fer að þrengja að eða skýin þrykkja mér hálfum oní jörðina. Ég hef gengið hann tvívegis og var heppinn með veður í bæði skiptin. ´97 fór ég sem aðstoðarleiðsögumaður en ´00 var ég aðal, en fyrri hópurinn var nú öllu skemmtilegri. Nú erum við feðgar að ganga þetta í huganum fyrir svefninn og það er ágætt markmið að stefna á Laugavegsferð með fjölskyldunni þegar allir verða komnir með fætur í þetta ef ekki verður búið að sökkva þessu undir lón. Vissulega hef ég engan áhuga á að keyra um óbyggðir vítt og breitt en það er ágætt að ganga þarna, sérstaklega í góðu veðri.

Hvernig mér tókst að halda í allan dag að það væri mánudagur er óskiljanlegt. Þetta varð til þess að mér láðist að afboða mig á kóræfingu. Konan var send til Flórída nokkuð óvænt og því erfitt með að bregða sér af heimilinu. Maður er stundum að hugsa til gömlu daganna þegar fótboltinn var og hét í lífi manns. Þá voru iðulega æfingar 4-5 sinnum í viku, auk leikja funda og ferða. Og félagarnir voru meira og minna komnir með konu og börn! Ekki velti maður mikið fyrir sér þá hverju þeir voru annars vegar að missa af og hins vegar hvað þeir voru að leggja á aðra.

Annars sagði ég við konuna að ég yrði þá bara rekinn úr kór fyrir skróp með sama áframhaldi en hún gat að vanda svipt mig þeim áhyggjum snarlega: "Karlar eru ekki reknir úr kór."

föstudagur, mars 05, 2004

Lifi danskan 

Madbord <=> Badmord

Sé alltaf eftir því að hafa látið frá mér dýrgripinn Íslensk kjötsúpa. (Áritað og tölusett eintak). "Ég er matargaaat, matargaaat." "Ó, elsku besta Ingibjörg, hafðu ketsúpu í kvööld." Þungafönk um átvagl. Gerist ekki betra. Ætti ég plöturnar (Double Album) enn væri ég til með að eignast spilara til þess að börnin fengju að njóta snilldarinnar.

Maður bíður í ofvæni eftir því að Siggi súpa dúkki upp í þættinum hjá Jóni góða, og þá ekki síður Siggi Karls sá skemmtilegi trommari. Óljúgfróðir menn hafa sagt mér að Siggi sé nú virkur Vottur Jehova og starfi við gluggaþvott. Ég mundi heimta eitt lítið sóló með sköfu og kústi á rúðuna ef hann birtist einn daginn fyrir utan gluggann.

Í sama pakkanum lét ég frá mér eitthvert tvöfalt albúm með Iron Maiden og mér er sama um það. Þetta er allt svo hverfult og fljótt að verða úrelt. Maður þarf ekkert að eyða hilluplássi lengur undir tónlist frekar en maður kýs - hægt að hafa draslið í tölvunni og velja þaðan og ná í og allt. Samt tímir maður nú ekki að láta þessar vinylskífur sem enn eru í tveimur eplakössum á vísum stað.

Já, Erlendur minn, gleymum ekki því hvað maður hafði sjálfur mikið yndi af því að spila gömlu 78 snúninga skífurnar foreldranna á sínum yngri. Þar kenndi sko ýmissa grasa: Gene Krupa trommugeðveiki, Nora Brockstedt:Tango for to, Guðrún Á Símonar með Banvæna ást, Istanbul was Constantinopel og sitthvað fleira. Þetta er vissulega alltsaman ennþá til. Sumar voru brotnar en maður lét það ekki stöðva sig svo fremi að þær væru ekki hreinlega í sundur. Spilað í þessum klassíska Radionette - sem var örugglega mubla ársins 1962; sambyggt útvarp og plötuspilari. Seinna fékk ég það hlutverk að leita uppi nál í spilarann góða sem búið var að jaska gersamlega út. Ég man að ég fór m.a. til Jóns Sen fiðlarans góðkunna sem jafnframt starfaði sem radíóvirki og smíðaði sjónvarpstæki fyrir innanlandsmarkað um tíma. Þegar Sen játaði sig sigraðan varð ég að gera það líka og Radionette er þar með búið að vera í 26 ára pásu.

fimmtudagur, mars 04, 2004

Oftast fer ég Vatnsendaleiðina úr vinnu í Hafnarfjörð þegar ég fer að hitta félagana í körfunni. Ágætt að koma öðru hvoru út fyrir allra mesta skarkalann og sjá austuryfir. Eða þannig var þessi leið áður. Nú er í fyrsta lagi búið að breyta leiðinni þannig að maður fer ekki lengur yfir litlu trébrúna rétt við stífluna á Elliðavatni heldur þarf að beygja inn á nýja leið sunnar á Breiðholtsbrautinni. Liggur þar leiðin gegnum nýjasta hverfi Kópavogs. Mikið vorkenni ég fólkinu sem hefur unað þarna rétt utan við ys og þys um langa tíð að vera komið með framkvæmdir, blokkir, mold og drullu á herðarnar næstu árin ef ekki lengur.

Uppúr 1980 skutlaði ég Einari (sem lánaði mér Trabbann) nokkrum sinnum þarna uppeftir að hitta vinkonu hans sem átti sumarbústað í hlíðinni ofan við Elliðahvamm. Þetta var unaðsreitur margra og sumir þá löngu farnir að búa allt árið á svæðinu. Það er bara svo trist þegar fólk tapar fyrir einhverri óumflýjanlegri þróun.

Leiðin þarna er náttúrulega ekki þessi týpiska hraðbraut og raunar alls konar umferð á henni. Fullt af hesthúsum þarna og nú er einhver jarðvegstippur nærri Rjúpnahæð þannig að maður mætir iðulega 3-4 vörubílum á fleygiferð. Oftast eru líka hestamenn að viðra sig og jálkana, og gjarna lendir maður á eftir liði sem er að stúdera útreiðahópana úr bílnum sínum.

Í dag munaði ekki miklu að ég yrði þarna vitni að slysi þegar einn hestamaðurinn var í útreiðatúr á jeppanum sínum. Hann fór hægt og var útum allan veg þannig að mér þótti ráðlegt að bíða þess að hann annað hvort hleypti mér framúr eða færi af veginum út í hesthúsahverfið sitt. Sá sem var á eftir mér nennti ekki hangsinu og ákvað að skella sér framúr okkur báðum einmitt þegar var að koma trukkur á móti og rétt við vegamótin út í hesthúsahverfið. Til allrar hamingju náðist þetta rétt með naumindum en jeppagaur var reyndar í símanum og með hundinn sinn hálfan út um gluggann farþegamegin. Gott ef hundurinn var ekki líka í símanum. Þetta er íslensk umferðarmenning. Svo kom í ljós að frammúrfarinn var á sömu leið og ég og lenti á öllum þeim ljósum sem ég lenti á þar til hann hvarf lengst inni í myrkviðum Hafnarfjarðar.

miðvikudagur, mars 03, 2004

Þessi Jökulsbörn 

Maður veit ekki stundum hvaðan á sig stendur veðrið með afkvæmi Jökuls Jakobssonar. Ekki þekki ég neitt þeirra en hef eitthvað spjallað við Elísabetu, og náttúrulega ekki komist hjá því að heyra í bræðrunum Illuga og Hrafni og lesa eftir þá pistla og bækur. Elísabet er einhver harðasti bóksölumaður sem ég hef lent í - enda mætti hún rakleiðis í bókasafnið til mín þegar út kom eitthvert kver eftir hana sjálfa og leikritasafn Jökuls seldi hún líka. Eflaust hefur hún farið í alla skóla og stofnanir sem hugsanlega hefðu aura til að kaupa af henni bók. Svona sjálfsbjargarviðleitni kann ég ágætlega að meta - en ekki er ég nú sérlega hrifinn af kveðskap hennar.

Einhverjir gamlir menn muna e.t.v. eftir því þegar Illugi og Egill Helgason sáu í sameiningu um Helgarblað Tímans eitthvað fyrir 1980, kornungir menn. Þetta var mikil lesning og spennandi fyrir þáverandi lesþyrsta netleysingja. Framhaldssagan um Arf Kelta eftir þá félaga gleymist seint. Illugi var í MR á svipuðum tíma og ég en hvarf frá námi þegar hann tapaði kosningu í ritstjóraembætti Skólablaðsins eflaust fyrir einhverjum Heimdallsdindli. Svona var sagan sögð þá. Ætli hafi hlakkað í karlinum þegar hann settist síðar í ritstjórastólinn hans Óla Björns.

Einhvern tíma las ég skáldsögu eftir Illuga sem mér þótti leiðinleg. Svo las ég nú um daginn bók Hrafns bróður hans, Miklu meira en mest, og það var nú ljóta hörmungin. Sennilega hef ég ekkert lesið bitastætt eftir þessa fjölskyldu síðan Arfur Kelta var og hét í Helgarblaði Tímans.

Heyrðu svo hringdi mamman einu sinni eða sendi tépóst til þess að spyrja hvort við fjölskyldan værum ekki til í að styrkja hana til náms í Arabískum fræðum á Sýrlandi! "Gleðilegt sumar þar", sagði ég nú bara og afþakkaði þetta góða boð.

Æ - þau eru kr-ingar greyin.

þriðjudagur, mars 02, 2004

Hvað varð um Scott? 

Ástæða til að óska Snæfelli til hamingju með deildarmeistaratitil í körfu. Sjaldan hefur annað eins rugl viðgengist í nokkurri íþrótt hér á landi eins og í vetur í körfunni. Sennilega er einn heimamaður í byrjunarliði Snæfells og tveir til viðbótar hafa komið við sögu að einhverju umtalsverðu leyti. Þrír eru erlendir, tveir úr Borgarnesi og einn úr bænum af þeim sjö sem eru með 97% af spiluðum mínútum. Húrra, einn heimamaður. Skelfiskurinn búinn og þá er best að gera það gott í boltanum.

En. Tónninn í þessu er ansi íslenskur. Ef þessir aðkomumenn hefðu ekki komið væri enginn Hólmari íslandsmeistari - nú er bærinn hress og kátur með sína menn því að þegar vel gengur verða aðkomumenn oftast undraskjótt að heimamönnum. Skítt með það þótt þrír kanar hangi yfir tölvuleikjum dagana langa milli æfinga og leikja - hvort sem er ekkert að gera í skelinni. Þeir fá engin ráðherralaun þessir gaurar lengur.

Ég hef nú verið aðkomumaður sjálfur í sportinu en var lítið látinn finna fyrir því. Jú, man eftir einu lesendabréfi í Ringsaker Blad um það leyti sem ég var að fara frá Noregi þar sem Önugur á Leiti reifst yfir því að allt væri í kaldakoli í boltanum í Brumunddal eftir að Íslendingarnir skildu eftir sig sviðna grund og tóma sjóði og hvað veit ég. (Ég var Íslendingarnir.) Þeir væru fleiri glaðir gjaldkerarnir og minna gráhærðir í íþróttafélögunum ef allir hefðu sótt í sjóði þeirra jafnmikið og ég...

Hins vegar er tóm þvæla þetta með erlendu leikmennina. Hvað hefur bær eins og Þorlákshöfn burði til að halda uppi mörgum atvinnuíþróttamönnum að því meðtöldu að þurfa að skipta út reglulega, eflaust með tilheyrandi kostnaði? Með fullri virðingu fyrir Þorlákshöfn. Æ, svo eru mínir menn komnir aftur upp í Úrvalsdeild, Skallagrímur - dududu! Er einhver heimamaður þar?

Það var saga til næsta bæjar þegar fyrstu erlendu leikmennirnir komu. Trukkurinn, Curtis Carter, og Jimmy Rogers. Trukkurinn kom með KR liðinu í Borgarnes ca. '75 og lék í gamla leikfimisalnum (20m2) við heimamenn. Ef menn fóru of geist í hraðaupphlaupi þar varð að skrapa þá af veggnum með sköfu því að endalínan var veggurinn. Þeir hrukku nokkrir upp í rimla af Trukknum, og við þetta tækifæri héngu áhorfendur bókstaflega í loftinu og hvar sem hægt var.

Nokkur fyrstu árin reyndu íþróttafréttamenn að finna viðurnefni á þessa gaura en hættu fljótlega. Ég spilaði nú með nokkrum og kynntist best Andy nokkrum Fleming sem þjálfaði og lék með ÍR 1980-81, síðasta alvöruveturinn minn í þessu. Hann var úr Yale University og þótti traustur náungi.

Einhvern tíma um veturinn kom fjölskylda hans í heimsókn. Pabbinn var, man ég einhver yfirmaður í stálveri og alger jaxl. Svo var þarna mamma, yngri bróðir og systir. Tilefnið var eflaust að kynna íslensku kærustuna fyrir fjölskyldunni því að þetta var fólk sem gerði hlutina rétt og kaus eflaust Reagan. Ég lenti í þessu leikriti því að systirin var á aldur við mig og fékk að sækja með mér tíma í ensku í Háskólanum sér til fróðleiks og skemmtunar. Í þakklætisskyni var mér boðið í mikinn dinner á Naustinu og sennilega hef ég verið deitið hennar Becky eftirá að hyggja.

Þetta var svosem nokkuð hefðbundinn dinner að flestu leyti. Tilvonandi tengdamamman var þarna ásamt yngri bróður unnustunnar íslensku og heilmikið smáspjall í gangi. Einhver pantaði Chicken in the Basket og varð ég undrandi á því að hinn rómaði þorramatarstaður Naust byði upp á svo kúltíveraðan mat. Guðmundur Ingólfsson fór þarna hamförum á píanóið, fyrsta og eina skiptið sem ég sá hann og heyrði. Bróðirinn í fjölskyldunni hafði orð á því hvað þetta væri assgoti flínkur spilari og fylgdist vel með atganginum við nótnaborðið, eiginlega svo að matarborðið gleymdist. Ég tók eftir því að foreldrarnir horfðu á með lítilli velþóknun.

Svo þegar dinnermúsíkantinn fór í pásu rauk bróðirinn (látum hann heita Scott það passar vel) til og spurði þjóninn hvort hann mætti glamra á meðan! Ekki málið... Undir stirðnuðum fésum foreldranna lék síðan Scott Fleming sínar 10-15 mínútur þetta vetrarkvöld á Naustinu og allt í einu varð hlýtt og Chicken dansaði í Basketinu og mér leið eins og ég væri í útlöndum sem ég þekkti ekki þá. Þetta var jazz. Einhver óvæntasti tónlistarviðburður lífs míns. Svo kom Scott aftur að borðinu og fékk þvílíka yfirhalningu frá pabbanum að annað eins hef ég ekki upplifað. Scott var þá 22-23 ára.

Andy fór eins og þessir körfugaurar gera nú flestir en ég orti limru sem rituð var í einhverja landkynningarbók sem leikmenn afhentu honum í kveðjupartíinu. Að svo stöddu kýs ég að muna ekki limruna. Becky skrifað mér nokkrum sinnum en þau samskipti gufuðu upp eins og við var að búast. En hvað skyldi hafa orðið um Scott?

mánudagur, mars 01, 2004

Garðar 

Maður hefði sennilega átt að nota tækifærið og sneiða af trjágróðrinum utanum garðinn um helgina en af því varð ekki vegna fjarveru sameigandans. Það var reyndar stór þáttur í því að ég kom hingað hve garðurinn er mátulegur að ógleymdu gróðurhúsinu. Þetta er lítill garður og einfaldur en hann er að stofni til útsýni manns og drjúgum hluta verustaður á sumrin.

Svo bý ég svo skemmtilega að fólkið uppi sem á þetta pleis að rúmlega 3/4 hefur engan áhuga á snöfli kringum gróður og sýnir gróðurhúsinu þann áhuga helstan að vilja rífa það og fjarlægja en kann ekki við að beita sér í málinu, sennilega af kurteisi.

Hægt er að ganga beint úr stofu út á stétt og þaðan í gróðurhúsið eða garðinn eftir þörfum. Þegar gott er veður og hásumar er sólin komin á heppilegan stað um 10.45 og hverfur um 18.00. Milli garðs og götu er birki sem er orðið sæmilega hátt og þarf bæði að lækka og grisja, því nefni ég klippingar nú.

Um síðustu helgi sáði ég fyrir fyrstu sumarblómunum og er þegar farið að spíra vel í öllum sex döllunum. Svo eru náttúrulega laukablóm af ýmsu tæi farin að skjótast í dagsljósið. Þetta verður besta sumarið í ræktinni til þessa enda hef ég aldrei farið svo snemma af stað og bý að reynslu fyrri ára. Þessi ræktunarárátta hófst 18. júlí 1994 en þá keypti ég fræ í Blómavali á leið minni til litlu systur að óska henni til hamingju með afmælið.

Tveir kaktusar lifa enn af því sem fór í mold það kvöldið en þrátt fyrir aldurinn eru þeir báðir smávaxnir mjög og fá litla athygli. Hangir e.t.v. saman. Um tíma voru vel á 2. hundrað blóm í gangi í íbúðinni gömlu og alls konar sérhannaðar hillur og vesen en nú er ágætt að beina þessum áhuga að garðinum. Gróðurhúsið er reyndar ekki upphitað þannig að maður stundar frumræktina að mestu í stofugluggakistu.

Þetta er mesti sumarblíðustaður enda hefur familían nokkrum sinnum brennt sig á því að ætla léttklædd á aðrar slóðir eftir snarpheitan formiddag í garðinum heima og lent í hrakningum. Ekki þarf einu sinni að fara langt til þess að komast í hann krappan að þessu leytinu.

Myndir streyma nú unnvörpum inn í tölvuna gegnum skannann góða og styttist í að eitthvað nýtt fari að birtast hér.

Að lokum syngjum við að gamalli hefð afmælissönginn sem hljómaði jafnan hátt og snjallt um kennarastofuna i den tid: Hann á afmæli [...] bjórinn - hann á afmæli í dag. Kvöldið sem lokaatkvæðagreiðslan um bjórmálið fór fram á Alþingi skutlaði einn þáverandi þingmaður mér heim af fótboltaæfingu og spurði mig álits, (sá var þá að æfa með okkur í FH). Ég sagði að afi Björn hefði sennilega aldrei smakkað bjór og væri á móti honum, en ég hefði búið við þennan fjanda þá þegar um tveggja ára skeið í Noregi og ekki orðið meint af. "Þú verður bara að taka af skarið sjálfur, félagi, og ákveða þig." Hann fór létt með enda fyrirtækið hans eflaust með nokkur góð umboð uppi í erminni. Nokkrum árum seinna hvarf maðurinn af Alþingi og hefur síðan verið allvirkur í rekstri þjórhúsa og veitingastaða.

Þarf að tjá mig um bók eða bækur fljótlega - það er mín hugmynd og vonandi hjálpar mér einhver að láta hana gerast.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?