<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, apríl 30, 2004

Játningar 

Ég var í skemmtilegu afmælisboði í gær þar sem gestir gátu ómögulega komið sér saman um hvaða nafn ætti að setja inn í afmælissönginn, S***i eða D***i, og því hvort tveggja sungið í einu. Undrið (2) leysti málið með því að setja bara sitt eigið nafn í staðinn og vildi síðan sína köku og ekkert kjaftæði. Afmælisveisla er samheiti yfir köku og því nokkur vonbrigði fyrir tveggja ára kökufan að lenda í skyndifæðuorgíu með allri fjölskyldunni. Ég borðaði langmest allra. Rétturinn hét Humongous-borgari eða eitthvað álíka á seðlinum og fékk ég að honum loknum að graðka í mig leifum hjá nærstöddum.

Þetta skýri ég með íþróttaiðkun fjóra daga í röð - sem hefur varla gerst síðan ég var atvinnugolfari og fótboltamaður sumarið '94.

Löngum hef ég verið mikill lúði og af mörgu að taka þegar rifjaður er upp lúðaskapur. Í fyrstu keppnisferð mína í fótbolta fór ég 10 ára og leiðin lá í Garðabæ. Helmingnum af liðinu var troðið í LandRover hjá Frey Bjartmarz nokkrum og síðan farið um Dragann í bæinn. Á þessum árum var fyrsta og síðasta hugsunin í svona ferðalögum, kannski eina hugsunin, hve oft væri stoppað í sjoppum og hvað maður hefði mikinn aur til að eyða. Við erum að tala um rúmlega þriggja tíma ferð frá Borgarnesi í bæinn - engin brú, malbik, göng og soleis. Þegar nálgaðist Ferstikla upphófust kröfur um stopp enda þar fyrsti sjoppumöguleiki að undanskildum Hvítárvallaskála sem var nú of nálægt Nesinu. Heyrðu - í þann mund sem Hvalfjörðurinn birtist blár og stóriðjulaus dregur þá Birdinn ekki upp banana og fer að kjamsa á honum ferðafélögunum til ómældrar skemmtunar. Þegar hláturrokur lægir í LandRovernum eftir drjúga stund var Freyserinn snöggur að kveða upp úr með að þetta væri nú lagið: heilsusamlegt og gott nesti væri það sem gilti á íþróttaferðalögum og menn ættu að taka Birdinn sér til fyrirmyndar - og að þeim orðum mæltum brenndi hann framhjá Ferstiklu og Hvalstöðinni og Botnsskála - þeim háborgum söluskálamenningar þess tíma. Ég bakaði mér engar sérstakar vinsældir í þessari ferð og hugsaði mömmu gott til glóðar fyrir að byrla mér þetta nesti.

Nokkrum árum seinna fór ég um vetur í körfuboltaferð í bæinn. Nokkrum aldursflokkum skellt saman í rútu og einhverjir síðunglingar þjálfarar og fararstjórar. Gott ef ég sá ekki Pétur Guðmundsson í þessari ferð í fyrsta skipti og náði honum í nafla eða svo. Á bakaleiðinni tók einhver upp á því að kaupa Tiparillopakka og áttu síðan allir að reykja eins og alvörumenn í rútunni til að sýna manndóm og dug. Ég tók við vindli eins og aðrir en svo tók einhver eftir því að ég kveikti ekki í og sagðist ætla að gefa pabba vindilinn þegar ég var rukkaður um reykingar. Þetta vakti þvílíkan aðhlátur að menn hættu við að reykja og einbeittu sér að því að hæðast að þessu pabbastráksfífli næstu mínútur eða þar til Pálmi Guðmunds bað mér vægðar. Vindillinn góði brotnaði síðan í vasa mínum og hafnaði í næsta snjóskafli strax þegar úr rútunni var stigið í Nesinu. Varð þar karl faðir minn af góðum smók.

Einn af hápunktum lúðaferilsins náðist á menntaskólaárunum eitthvert það sinnið er ég gerði mína árlegu úttekt á skemmtistöðum bæjarins. Þá fór ég í Sigtún á gömlu hjóldruslunni minni og passaði mig á að parkera henni á afviknum stað. Þetta var á þeim árum þegar Jón Axel spilaði Fjólublátt ljós við barinn á efri hæðinni og Björn Thoroddsen tók sólóið í Hotel California við gríðarlegar undirtektir og betur en Eagles á þeirri neðri. Mér til furðu og skelfingar lenti ég á spjalli við stelpu sem hafði verið á sveitaballi nokkrum mánuðum áður í Samkomuhúsinu í Nesinu, sauðdrukkin og fönguleg, með einhverju liði úr bænum. Þar hafði ég verið starfsmaður að vanda og eitthvað átt við hana orð. Á þessum árum kom ennþá fyrir að hann snjóaði á veturna og lítið um leigubíla oftast eða aur fyrir leigubíl, en alltjent fór svo að stelpan bað mig að fylgja sér heim. Hún bjó í Fossvogi og ég neitaði henni ekki um þetta enda ég herramaður og hálka úti. Varð mér þó mikið hugsað til hjólsins en gat náttúrulega ekki á það minnst því töffarar hjóla ekki á böll. Hún komst heim heilu og höldnu, bauð mér inn í kjallara til sín og alltaf var ég að hugsa um hjólhelvítið. Sennilega fékk ég kókglas (risakók í gleri) og fór svo út í hríðina skömmu síðar þegar stelpugreyið var búið að sjá hvað ég var annars hugar og lélegt kvennagull. Hann snjóaði mikið þessa nótt og fjandi var leiðin til baka löng og erfitt að hjóla. Samt hef ég nokkrum sinnum síðan hjólað á ball.

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Óskiljanlegt 

Stundum stendur maður á stóru gati yfir því hvað gerist í þessu jarðlífi í kringum mann. Hvað veðrið getur verið gott, börn fyndin og fullorðnir vitlausir til dæmis. Og náttúrulega furða ég mig stanslaust á því hvers vegna golfheimurinn er ekki löngu búinn að bjóða mér að hætta að vinna til þess að stunda golf, öllum til ánægjuauka.

Ég ætla að reyna að drífa mig að blogga sem mest áður en einhver fattar að ég vinn hjá fyrirtæki sem er með markaðsráðandi stöðu á heimsvísu í sínum geira. Þegar þar við bætist að ég hlustaði á BBC á 8. og 9. áratug sl. aldar, styð lið sem leika í hvítum treyjum og svörtum brókum og ek um á Skuttoyotum er eins víst að ég fari að ná einhverri lagalegri rangstöðu og fái þar með þriðja gula spjaldið á ferlinum.

Annars er ljóst að ráðamenn þjóðarinnar hafa virkilega rétt fyrir sér um þá vá sem steðjar að og kallar á lög. Þarf annað en að kíkja á niðurstöður ýmissa kannana sem sýna að fólk er upp til hópa fífl með kolvitlausa skoðun? Af hverju er þetta lið að kvarta yfir því að borga úr ríkissjóði fyrir flutning hollenskra herþyrlna til Afganistan? Einhverjir bjánar eru fúlir yfir því að skattfé sé notað til að borga skaðabætur til aula sem RÍKIÐ ákveður að vaða yfir. Halló! Eða þessi endemis væmni út af hálendinu. Blablabla. Hlustumekkáetta. Þetta er allt Norðurljósum að kenna. Burt með draslið svo að fólk geti farið að hugsa eins og á að hugsa. Svo er enski boltinn hvort sem er kominn á Sýn! Ha.

Ég er að velta fyrir mér að ræða hvort ekki sé rétt að segja upp Mogganum og fá sér áskrift að einhverju hjá Norðurljósum í mótmælaskyni, ja til dæmis Sýn. Ef þeir gætu asnast til að koma sér upp minningagreinaþætti fyndi maður engan mun. Samt ekki svona fyrirfram minningagreinaþátt eins og Maður er nefndur. Reyndar er orðið fátítt að finna bitastæðar minningagreinar. Set Moggamálið í nefnd.

Fyrsta launavinnan mín var sennilega Moggaútburður er ég var 9-10 ára. Þá kom Hörður lögga með bunkann og skellti á þvottavélina í ganginum eitthvað uppúr fimm á daginn og maður bar út á veturna í síðdegissvartamyrkri. Í sveitinni sá maður síðan og upplifði Tímann. Ekki var Mogginn samferða mér gegnum námsárin - helst að maður sæi Þjóðviljann hjá afa og ömmu. Einhvern veginn tókst mér að lifa af árin tvö erlendis án Mogga og þá las ég helst Hamar Arbeiderblad. Sumar vikur les ég hvort sem er ekki stafkrók í þessu blaðafargani...

Jú, alveg rétt. Ég fór í vinnustaðargolfmót í dag og spilaði glettilega vel. Níu yfir pari á níu holum og fimm þessarra yfirhögga komu á sömu holunni. Náði fugli og þremur góðum pörum. Nú þarf ég að passa mig á því að fara ekki að æfa ef þetta er niðurstaðan þegar maður mætir á teig án þess að hafa snert kylfur í sjö mánuði.

föstudagur, apríl 23, 2004

Sumardagurinn sanni? 

Ég tók allan pakkann í gær og hugsanlega vel það. Biðraðir í hoppkastala og kandífloss. Pönnukökuveislu fyrir viðstadda með brúnni tötu í kaupbæti. Grill. Bónaði bílinn ber að ofan. Tveir skammtar í þvottavél með fullt af grasgrænu. Ryksugaði slóð eftir sandkassagengi um alla íbúð. Ef þetta er ekki allt íslenskt sumar í hnotskurn þá veit ég ekkert.

Besta kommentið var samt frá Auði nágrannavinkonu sem lýsti því yfir að pönnukökuátið gerði útslagið með að þetta væri skemmtilegur dagur. Og pönnukökurnar voru á diski með bláu blómamynstri ef það segir einhverjum eitthvað.

Undrið (2) byrjaði daginn með einhver hitaeinkenni en steinsofnaði snarlega í kvöld við lestur bókarinnar um Berg Trausta, japanska súmóglímukappann sem lenti í þjálfun hjá þremur sterkum konum. Ég veit að þessi árátta að ná sífellt í norrænar bækur og lesþýða fyrir mitt fólk á eftir að skapa þeim reynsluheim sem slær út þann venjulega. Þetta er vissulega einkar skemmtilegt verkefni fyrir mig, en stundum má vart á milli sjá hver sofnar fyrst, lesandinn eða áheyrendurnir.

Undrið (2) var sem sagt með í öllu saman og blés á veikindaeinkennin eftir góðan lúr um hádegi. Maður getur orðið gáttaður á þolinmæði barna, t.d. í biðröðum. Ekkert mál að hanga í rúman hálftíma í biðröð eftir sykurbráð á stöng. Ég lenti á undan einum dálkahöfundi Fréttablaðsins í téðri röð og get svo sem ímyndað mér hvað hann mun fjalla um í næsta dálki ef ekkert gerist merkilegt í pólitíkinni.

Undarlegt hvað ég man annars lítið eftir Sumardeginum fyrsta úr eigin æsku. Jú, skátamessa og örugglega einhver skrúðganga en ekki man ég hvert leiðin lá. Skalló var jú ekki opnaður fyrr en 17. júní og það er ekki pláss fyrir skrúðgöngu milli kirkjunnar og samkomuhússins í Nesinu enda bara yfir götu að fara. Kannski var bara marsérað í kirkjuna í staðinn... Fyrsti maí var meira minn dagur enda forseti ASÍ enginn annar en Björn Jónsson á mínum uppvaxtarárum sem olli raunar skemmtilegum misskilningi hjá núverandi framkv.stjóra þingflokks Framsóknar og fjölmiðlanefndarmanni þegar ég fjallaði um ritið Uppreisn alþýðu í einhverjum bókmenntafyrirlestri í MR.

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Gvendur þó 

Dálkurinn á baksíðu Fréttablaðsins minnir dálítið á bloggfærslur og þar ritar á föstudögum Guðmundur Steingrímsson. Hann notaði líka þetta með Björn síns tíma, eins og eflaust margur sem um hefur fjallað. Vildi bara koma á hreint að ég var á undan.

Sænska kvikindið er á bak og brott, það hvarf í veg í fyrrakvöld eins og segir í textanum. Ég tók einn lokahring á því um hverfið í kveðjuskyni og átti allt eins von á að það spryngi í loft upp af harmi. Fyrsti bíllinn minn tók upp á því að farga í sér kúplingunni þegar ég var búinn að selja hann og átti bara eftir að koma honum til kaupandans. Þetta stóð svo glöggt að enginn tími var til að láta gera við og þá kom sér vel að svona SAABar eru með fídus sem gerir manni kleift að skipta um gír án þess að beita kúplingu (hugsanlega átti þetta ekki að virka svona en who cares...). Aðalmálið var að maður mátti ekki stoppa því að ekki var hægt að taka af stað með þessum hætti heldur varð að byrja í brekku. Ég lét kaupandann reyndar vita af biluninni og sló af verðinu fyrir vikið en þetta var skemmtilegur bíll og grænn, með mótorhitara og rassvermi. Keypti hann á 7500 norskar og skildi hann eftir í brekku í Noregi.

Fjölskyldan vaknaði í gærmorgun við að heilt hafnarboltalið yfirgaf morgunpartíí nágrannahúsi. Það eru víst 24 ár síðan ég var í sambærilegu samkvæmi við sömu strönd aðeins vestar en við vorum fornir Rómverjar í tógaklæðnaði á þeim dimissiondegi. Eftir athöfnina við skólann fór minn bekkur síðan á Bessastaði í samkvæmi. Þessi útskriftar-úr-menntaskóla-prósess er mér annars ekki minnisstæður enda var ég fádæma lélegur samkvæmismaður einkum undir lok þessa tíma og hef kannski jafnvel versnað síðan. Mér finnst miklu skemmtilegast að rifja upp með sjálfum mér munnlegu stúdentsprófin á lokaári enda hef ég sjaldan verið í öðrum eins ham og þá.

Kom upp í "Brámáni skein brúna" og "Ferðalok" í íslensku, fyrsta kafla Gallastríðs í Latínu, um það þegar Sesar marseraði til Helvítis, og "Bubble bubble toil and trouble" í Makbeð í ensku, og hákarlakaflanum í þýsku. Kunni þetta allt og bjargaði þar með þriggja ára slugsi fyrir horn. Fyrsta hálfa árið og það seinasta hálfa var sem sagt í fínu lagi.

Nú þarf ég að fara að taka fleiri myndir því að undanfarið hef ég sankað að mér spennandi vinnsluaðferðum í PS. Er reyndar búinn að prófa eitt og annað en á eftir að koma því í vefalbúmið. Bæti þar við bráðum. Annars er alltaf óvíst hvaðan gott kemur. Tilraunin með gítarmanninn Matta var t.d. upphaflega gömul svarthvít úr safninu sem ég skannaði og lék mér síðan með.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Stubbarnir 

Muniði eftir þeim? Teletubbies sem ekki eru lengur til sýnis í barnaefninu... Við eigum nokkra þætti á bandi frá því Snillingurinn (5) var ungur og stundum fær Undrið (1) að horfa á þetta. Eitt vinsælasta atriðið hjá henni hefur verið þegar björn nokkur birtist í mynd og fer í feluleik við Ljónakónginn. Björn þessi er staðlaður og á hjólum en endurtekur í sífellu:

-Ég er Björn og ég er klár, með brúnt og fallegt hár!

Ég hef stundum notað þessa línu þegar komið er að þeim púnkti í rökræðunni að það er bara þannig að ég ræð. Svo komst ég að því að fleiri nafnar hafa náð á þetta stig rökfræðinnar þegar ég horfði á Björn síns tíma skýra í Kastljósi sín viðhorf gagnvart úrskurði kærunefndar jafnréttismála.

Hvað gerir maður þegar/ef kemur að því að maður lendir í löggunni fyrir of hraðan akstur eða eitthvað? "Iss, þessar hraðatakmarkanir eru nú barn síns tíma," segir maður og keyrir burt enn hraðar. Æ en maður þarf víst í því tilfelli sjálfur að borga sektina - það þarf ekki Björn síns tíma og heldur bara áfram að vera klár með brúnt og fallegt hár.

Það sem verst er að karlinn er með góðan púnkt varðandi val þess hæfasta hverju sinni - ég hef verið meritókrati frá unga aldri - en rökin hans gilda einfaldlega ekki í þessu máli. Hver þekkir ekki tilfelli þar sem kona með fullt af námskeiðum og rannsóknum og ritum hefur sótt um stöðu til að krækja í skaðabætur, vitandi að heimamenn eða viðkomandi stofnun var búin að velja fyrirfram... Leitt en satt.

Annars er konan á spítala og nóg að gera.

miðvikudagur, apríl 07, 2004

Eitthvað kunnuglegt 

Snillingurinn (5) : Veistu að það er frí á morgun í leikskólanum?
Pabbi: Já - af hverju skyldi það nú vera?
Sn: Það er Skírdagur.
P: Og hvað gerðist nú þá?
Sn: Jesús þvoði sér á lærunum með tánum...

Og síðar í dag fórum við svo á bókasafnið og völdum 12 góðar. Þar sáum við 2 Jóna, þann góða og Jón Egil fyrrum besta leikmann KR í 4. fl. í körfu. Ætli standi til að taka upp þráðinn með bókavörðum í "Af fingrum fram" nú þegar löngu er búið að ausa úr brunni áhugaverðra tónlistarmanna? Mér þætti nú skemmtilegra að fá spjallseríuna "Að fótum fram" með fv. knattspyrnuhetjum þar sem reifaður væri ferillinn í máli og myndum og að lokum fengi Jón góði að kljást við viðkomandi í varnar- eða sóknarhlutverki eftir atvikum. Það er náttúrulega alltof lítið af íþróttum í varpinu.

Við náðum í lestrarbók þar sem því hefur verið haldið fram lengi að Snillingurinn (5) kynni að lesa en nennti ekki að beita því. Engin pressa svo sem í þeim málum. Hann las í fyrrakvöld að baðkarið á heimilinu héti ARISTON og þá ákvað ég að kíkja eftir heppilegu lesefni í næstu ferð. Svo settumst við í korter inn í stofu og hann las af kappi og notaði prýðisaðferð sem gagnaðist vel. Þá liggur fyrir að kenna piltinum að reima svo að hann sé hæfur í skóla. Eða eins og sagt var þegar ég var að byrja í námi:

Reikna, hlusta og reima skó
ræða mál í friði og ró,
skrifa, lesa, og skeina sér,
skólinn hefst í september.

Maður er alltaf að taka eftir einhverju litlu í umhverfinu. T.d. var Björk með litlu stelpuna Ísadóru í kerru strunsandi eftir Ægisíðunni í gær þegar ég rúllaði heim úr vinnu, það var smyrill á ljósastaur í Vatnsmýrinni í fyrradag og peran í útiljósi fréttagrannans er farin að blikka ískyggilega mikið. Undrið (1) tók eftir því að DOddsson hafði laumað sér inn á mynd af stórfjölskyldunni - reyndar smámisskilningur sem færi létt með að kæta þann sem sakaður var um að vera DOddsson.

Einu sinni deildi ég við jarðfræðikennarann minn í MR um bragðgæði vatns og sagði Seleyrarsopann miklu betri en Gvendarbrunnaglundrið. Hvað sem því líður er engu líkara en eitthvað hafi verið rétt gert í gamla Borgarnesi á árunum þegar fólk fætt ca. milli ´57 og ´67 var að vaxa þar úr grasi. Þetta lið er út um allt áberandi eða áhrifaríkt, og sjálfsagt margur dugandi þegninn í hópnum sem maður heyrir minnst af en er sómi síns héraðs: Addi Propp (bókmenntafræðiprófessor), Steini Gilsberg Húm (umhverfisráðherramaðurinn), öll kauff-systkinin Ingi, Óli, Anna Elísabet ofl.(konrektor Ví, S-hópstjórinn og forstj. Lýðheilsustofnunar), Siggi apó (forstj. Lánasýslu ríkisins), Maggi Eyjólfs (Íþróttaálfurinn), Ingvar á póstinum (leikari Íslands) og svo mætti eflaust fleiri finna. Ég man bara eftir einni á þingi úr þessum árgöngum, stóru systur, og svo var nú borgarstjóri ekki langt undan. Einn félagi minn úr hópnum vill nú m.a.s. halda því fram að hann hafi eitthvað með landsliðsval í knattspyrnu að sýsla en það er vísast karlagrobb.

Pabbi hefur sjálfsagt kennt öllu þessu liði, en einhvern tíma ræddum við málin og þá var hann á því að þrír klárustu náungar sem hann hefði kennt væru allir frá Patreksfjarðartímanum. Metorðin eru náttúrulega enginn mælikvarði á greind og skerpu...

Mig vantar heiti á nýja verslunarhugbúnaðinn okkar sem líta mun dagsins ljós á næstu misserum og mun sigra heiminn. Eitthvað snjallt og alþjóðlegt. Vísbendingar: núverandi kerfi sem eru í gangi kallast a)Landsteinar Retail b) InfoStore og c) POSIS. Þar sem ég á eflaust eftir að rita mikið um viðkomandi hugbúnað legg ég ríka áherslu á að fá gott og gilt heiti á þetta og eru því tillögur vel þegnar, takk.

mánudagur, apríl 05, 2004

Að sakna hins óþekkta 

Þeir voru að finna eitthvert áður óþekkt Bach-verk í Japan og höfðu saknað þess í 80 ár. Iss, hvað er svona merkilegt við það? Ég er á hverjum degi að finna nýja óþekkt í börnunum mínum sem ég hafði saknað síðan ég hætti að kenna. Not.

Tónleikarnir okkar voru fjölsóttir og þar sá ég Vigdísi Finnboga og Jóhannes í Bónus (nei, ekkert þannig) og síðan stal Ísak senunni með sínu drengilega fallega sólói. Söngurinn var ekki sá allra besti en það var ágætt trukk í þessu. Mér fannst Tumi stjórnandi falla í þá óvæntu gryfju að hægja á þessu gegnumsneitt og það er dálítið erfitt að breyta frá því sem búið er að æfa. Í Bernstein II er t.d. kafli þar sem sópran syngur tvískiptur bergmálskafla og tókst þá öllum að vera ósamtaka, stjórnanda, hljómsveit og sópran I & II. Svo er erfitt fyrir ungan bassa að hanga langtímum saman niðri á E og ég furða mig á því hvers vegna gaurinn lét ekki hækka þetta á völdum stöðum um áttund eins og tíðkast a.m.k. á sumum upptökum. Gaman verður að heyra hvernig þetta kemur út á CD.

Vorsáningin er í dálitlu klúðri hjá mér vegna kuldakaflans að undanförnu. Það er náttúrulega ekki útséð með næturfrost en þá er bara að fara aftur af stað - nóg er til af fræjunum. Reyndar er að koma í ljós að kryddjurtafræin mín eru ónýt meira og minna enda löngu útrunnin.

Svo er ég skrambi ánægður með gang mála í vinnunni. Ég er búinn að taka upp nýtt vinnulag varðandi vissa hluti og ganga þeir nú betur en fyrr - of langt mál að fara nánar út í það. Það stefnir í útgáfu bráðlega og þá verður törn hjá mér en ekkert hrikaleg trúi ég.

Annars komst ein stórverslunin á svarta listann hjá mér um helgina. Ég fór þangað og keypti m.a. tómata í dós. Sá svo þegar ég var kominn heim að dósirnar voru útrunnar og ákvað að hringja til að þeir gætu fjarlægt restina úr hillunum. Þá segir viðmælandinn að þeir hafi vitað af þessu, varan væri vel nothæf og á góðu verði en ég fengi þetta svo sem bætt næst þegar ég kæmi. What! Mæðrastyrksnefnd hvað?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?