<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, maí 19, 2004

Undirvagnavangaveltur, hnit og harðfiskur  

Í gær var badminton í hádeginu og hvorki Doddson né forsetinn á svæðinu. Þarna eru þó greinilega ýmsir mætir menn að sprikla, t.d. eru á einum vellinum organistar og prestar og á öðrum samstarfsmenn á gamla DV. Ég er alltaf svo snöggur í sturtu að ég missi eflaust af helstu umræðum. Enn sem fyrr er ég lélegur í þessu. Skyldi maður eiga eftir að rifja upp opinberlega þegar við Lárus stunduðum badmindon á síðunglingsárum? Síðast hitti ég Lárus fyrir tæpum tíu árum á Mývatni og þá var hann leiðsögumaður eins og ég. Í vetur sá ég að hann er kominn til starfa hjá einhverju hugbúnaðarfyrirtæki - eins og ég. Hann var utanveltumaður í MR - eins og ég.

Alveg skil ég að menn hafi hafnað hniti sem nýyrði fyrir badminton. Orð sem byrja á hn og hr finnast mér mörg ljót og leiðinleg - sum hræðileg.

Það er búið að vera óvenjumikið um fréttir af ránum (banka- og mann- t.d.) undanfarna daga en ætli sá sem rændi harðfisknum hafi ekki verið klókari en margur:

Innlent | 18.5.2004 | 17:28

Stálu 100 kg af harðfiski
Tilkynnt var á sunnudag um þjófnað á um 100 kílóum af harðfiski sem hengu uppi í hjalli í Breiðadal í Önundarfirði.

Ég gáði á nammi.is að útsöluverði harðfisks og komst að því að ránsfengurinn mundi leggja sig á tæpar 700 þús.

Snillingurinn (5) var reyndar að leggja til að við færum að búa okkur til harðfisk til heimilisnota. Hann fór í skólann í gær í prufuferð nýliða. Það gekk ekki alveg táralaust.

Djö. Í fyrradag fór ég með Tótu gömlu í skoðun og haldiði að helvítin hafi ekki sprengt bremsurör þannig að ég fékk að koma mér heim á handbremsunni og mátti sætta mig við enn eitt viðgerðarverkefnið sem nú er rúmlega hálfnað. Sem sagt búið að rífa gömlu rörin undan og fá ný en ekki búið að púsla þeim undir. En að djöflast svona á bremsunni - æ, kannski betra að þetta gerðist þarna frekar en á leið niður Hvalfjarðargöngin eða slökkvistöðvarbrekkuna. Samt - maður er dálítið útlimalangur og handstór til að vera að baksa í svona undirbílsstússi þar sem hönnuðirnir virðast hafa haft að markmiði að þvæla rörunum í eins konar völundarhúsmynstri um þrengstu afkima undirvagnsins.

sunnudagur, maí 16, 2004

Mogginn og hænan og FH 

Þeir voru með grein í Lesbók Moggans um HC Andersen um daginn sem ég virðist þurfa að lesa. HC skrifaði um fjöðrina sem varð að fimm hænum og Mogginn birti samtal útvarpsmanna á FM sem hittust við vaktaskipti.

Gott og vel - menn gaspra ekki um geðveiki og skotvopn og forsætisráðherra, og svo sem ekki um sitthvað annað sem hefur heyrst í viðtækjunum undanfarin misseri. Þarna tókst Mogga þó að klúðra málum þannig að hann víxlaði nöfnum í samtalinu. Ef menn lesa útskriftina af samtalinu (og hvaðan skyldi beiðnin um útskriftina hafa borist?) sést að öðrum er eitthvað heitt í hamsi og hinn kveikir ekki strax á því hvað er í gangi, en endar þó á því að þagga niður þetta gálausa hjal.

Og hvað? Einhverjar útvarpsdjókfígúrur stimplaðar og spyrtar saman sem dæmi um bjánana á Norðurljósum. Í stríði er víst ekki pælt í því hver er saklaus eða sekur þegar hægt er að koma höggi á andstæðinginn og skiptir engu þótt heilu fjölskyldurnar fái vart sofið fyrir vanlíðan út af svonalöguðu. Sem betur fer sjá þó æ fleiri í gegnum svona aðferðafræði, enda hlaðast dæmin upp. - Og það á báða bóga - því miður.

Ólafur Ragnar óhæfur af því að dóttir hans vinnur hjá Baugi.
Davíð óhæfur af því að sonur hans vinnur hjá Stjórnarráðinu.
Hver er munurinn? Come on - á nú að fara að draga vandamenn inn í málin. Ég segi eins og Magnús föstudagsfélagi sagði gjarna:

HALLÓ!

Þetta er löngu, löngu, löngu komið út yfir þjófabálk þetta leikhús fáránleikans sem viðgengst í æðstu stofnunum hjá okkur. Allt í einu er orðið öðru mikilvægara að stunda einhver kóngabrúðkaup! Hey, Óli af hverju fórstu ekki á Eurovision? Þú hefðir getað halað okkur upp í 17. sætið. (Jafnvel með því að syngja sjálfur ;-)

Þetta var annars góður dagur í gær og hófst á útskrift Snillingsins (5) úr leikskóla með veitingum og tilheyrandi hoppköstulum. Vildi ég gjarna sjá sama vitnisburð það sem af er skólaferilsins: ÞÚ ERT FRÁBÆR, Jón Kaldalóns! Og hananú.

Síðan hélt ég á bókasöfnin og útvegaði hefðbundnar 18 bækur fyrir mánuðinn. Var einn á ferð aldrei þessu vant.

Samkvæmt hefð lá síðan leiðin á KR-völl að fylgjast með KR-FH og þaðan riðum við feðgar feitum hjólhestum út í Skerjafjörð. Þetta þarf ekkert að vera 7-0 alltaf! Sem við hjóluðum brosmildir eftir Ægisíðu heimleiðis fór hjá strætó nokkur og upp um þaklúgu blakti risastór FH-fáni og þá leið okkur vel. Þarna eignuðumst við augnablik í eilífðinni - feðgar í fjöru með FH við hún.

Assgoti var ég svo snöggur að hypja mig úr Söngvakeppnisfagnaði fjölskyldunnar og dreif í því að gera við minijeppa heimilisins - þann sem Snillingurinn vann í happdrætti á fyrsta ári og hefur verið FARARTÆKIÐ sem allir vildu átt hafa í Skerjafirði seinustu tvö ár eða svo, hvað sem líður öllum Porsche Cayenne og öðrum eðalvögnum... Við viðgerðina þurfti ég að beita rafeindafræðilegu innsæi en náði þó að fylgjast með Popppunkti jafnframt og er ánægður með niðurstöðuna.

miðvikudagur, maí 12, 2004

Vogun 

Prófið að fara inn á www.google.com og slá inn: weapons of mass destruction án gæsalappa og smella síðan á vogun vinnur, vogun tapar...

Ég er langrækinn um sumt og styð því ekki forsetann. Fyrsta kennsluveturinn minn fór ég í langt verkfall sem á endanum skilaði þokkalegum samningi. Þann samning þurrkaði þáverandi fjármálaráðherra út skömmu síðar og þar með álit mitt á sjálfum sér, hafi það eitthvert verið. Þá eins og nú var kjarabarátta kennara lágt skrifuð og þessi gjörningur hið besta mál í almenningsálitinu.

Einu sinni lenti ég í boði hjá kappanum. Var með norska Lionsmenn og fylgdi með í hálftíma loftbóluvínsboð inni á Bessastöðum. Það var ágætt - en ég tók eftir því að eftir korter var Ólafur kominn á eitthvert spjall við aðalgaurinn, helmingur hópsins var upptekinn af sjálfum sér eða einhverjum ljósmyndum á flygli og restin hafði safnast kringum Guðrúnu Katrínu.

Nú kemur forsetinn askvaðandi heim og hefur skyndilega skyldum að gegna. Hey - spjöld sögunnar, hvað?

Ég tók eftir því áðan að þeir eru búnir að parkera varðskipi í miðjum Skerjafirði. Mætti halda að menn óttuðust grjótkast milli Álftnesinga og Skerfirðinga... Það er lítið meira en steinsnar á milli. Í gærkvöld sá ég að frú Ástríður var að reyta illgresi frammi í lóð hjá sér. Helvíti víða þetta illgresi sem losna þarf við.

Uggur og Sleggja 

Hverjir verða fyrstir til að stökkva fyrir borð frumvarpsskútunnar með Sleggjunni? Hver óttast kjörþokkatap meira en yfirvaldið? Dagný hlýtur að hafa dottið...

Breyttir tímar 

Mamma er með sama mat hvern föstudag - kjúkling og franskar held ég. Alltjent kjúkling. Ég smakkaði fyrst kjúkling í veislu hjá Deddu frænku þegar Valur var að útskrifast úr einhverju. Þá var ég sennilega a.m.k. 10 ára. Ég man að það þótti blettur á annars fágætlega prúðum og ágætum manni sem tengdist inn í fjölskylduna þegar ég var lítill gaur að hann var vitlaus í kjúkling og sögur hermdu að hann eldaði kvikindin stundum sjálfur!

Ég var sjálfur matvandur krakki og þótti illt að þurfa að borða fisk. Ekki var ég heldur sólginn í svið. Þetta var annars fínn matur hjá mömmu - einfaldlega kjöt eða fiskur, nema þegar var allskonarmatur í hádegi á laugardögum. Hryggur eða læri og grautur á eftir á sunnudögum - oftast sveskjugrautur. Sumt af þessu er maður hættur að fá - ár og öld síðan ég smakkaði soðningu með sméri eða skræðum til dæmis. Svo voru alltaf tvær - þrjár kökur í kaffinu: brún, jóla og hjónabandssæla.

Sjálfsagt hefur þetta verið nokkuð hefðbundinn pakki þess tíma: soðin/steikt ýsa eða lúða, kjötbollur, kindahakk, saltfiskur, lifur, slátur, saltkjöt og mikið um grauta: berja-, rabarbara- og grjóna. Og sumarlaunin eftir fyrsta árið í sveitinni voru kassi af silungi! Ætli börnin eigi eftir að rita pistla eftir 40 ár þar sem þau minnast æskumatarins með nostalgískum gleraugum. Það er annar matur á borðum núna og hvað verður þá komið til sögu?

þriðjudagur, maí 11, 2004

Tvær berar Barbie og Jameson 

Vek athygli á smáauglýsingu í Fréttablaði frá sl. sunnudegi þar sem lýst er eftir málverki sem málað er eftir uppstillingu af því sem bloggtitill dagsins lýsir. Þessar auglýsingar hafa farið fram hjá mér virðist vera, því að gullkorn eru þarna ýmisleg. Veiðiportið er með eina snilldina - fáklædda stúlku í veiðivesti helstu fata - verið að auglýsa kastnámskeið og fleira. Síðan auglýsir Véltækni eftir hörkulegum steypubílstjóra! Ætli þýði ekkert að hafa einhverja gúddí gæja í þessum bissness?

Eftirfarandi slær þó flest af þessu út: "Er með flott hornbaðkar 140x140 (án nudds) fullt af enskum pocketbókum (spennu og sakamálasögur) nýlegar eftir góða höfunda, lesnar eftir eina manneskju." Þetta er héðan. Er ekki draumur margra að skella sér í bókabað? Eða er verið að láta að því liggja að karið sé kjörið sem bókahirsla?

Ekki tókst mér að verða fyrstur í hverfinu til að slá. Forstjórinn á 48 var á undan bara vegna þess að stelpurnar mínar voru sofandi og því ekki hægt að vera með hávaða. Ég sló þó á laugardag og garðurinn var til í tuskið fyrir afmælisveislu Undursins (2)á sunnudag. Sú var nú búin að vinna sér inn fyrir veislu með stanslausum afmælissöng frá því í mars ef ekki lengur.

Á föstudag fór ég síðan á herrakvöld Fimleikafélagsins og náði þar einum 4-5 góðum samtölum og borðaði einhver kynstur. Þetta eru magnaðar samkomur þar sem allt gengur út á að plokka fé af bremsulausum karlmönnum, sem greiða náttúrulega offjár í aðgangseyri, borga stórfé í eitthvert happdrætti og fara síðan að bjóða í lög með Bo Hall hver um annan þveran. Ekkert þarf að spá í dans eða dufl því að svoleiðis er ekki með. Oftast eru nú skemmtiatriðin ófyndin, Jóhannes eftirherma, Hemmi Gunn og þarna var einnig heill karlakór auk annara ýmist karllægra eða karlægra atriða sem ég nennti ekki að fylgjast með. Svo verður einhverjir friðarspillar fúlir út af löngu liðnum erjum og fara að rífast og þá koma friðarstillar og allt fellur í ljúfa löð - ja, sennilega þar til næsti kortareikningur kemur.

Alveg er mér fyrirmunað að hneykslast almennilega á seinustu tíðindum frá Írak. Þegar maður er búinn að fylgjast með í rúmt ár er ekkert sem kemur á óvart. Þetta með fangelsispyntingarnar virkar meira eins og rykský til að fela miklu verri glæpi sem framdir eru á hverjum degi. Við hérna í litla úthverfinu erum með í að sprengja í loft upp eða skjóta fullt af litlum börnum í hverri viku. Börnum sem fengu að fara út að leika, eða fóru í bíltúr rétt eins og hérna í rólega hverfinu þar sem aldrei gerist ekki neitt. Og Dóri er steinhissa! Æðstu menn keppast við að biðjast afsökunar en það er sennilega út af því að mennirnir voru hafðir naktir -en pyntingarnar, tja er þetta ekki eitthvað sem fylgir?

Þeir sem vilja vita hvernig fjölmiðlar eiga að haga sér til þess að ekki verði smellt á þá frumvörpum ættu að lesa þetta hér.

fimmtudagur, maí 06, 2004

Af götuheitum, nöfnum og Hrútum 

Dómarinn fjallaði um daginn dálítið um götuheiti í sunnanverðum Vesturbæ og í gær fór ég að velta fyrir mér hvers vegna enginn hefði dregið fram þá staðreynd að DOddson færi á hverjum degi um götu sem nefnist Bauganes á leið sinni í og úr vinnu. Vissulega er inni í mynd hjá karlinum að velja sér lengri leiðina um Einarsnes en allir vita að hann fer ekki krókaleiðir af tilfinningasemi og ég hef oft mætt honum í Bauganesinu. Gamlir Skerfirðingar og áhugamenn um götuheiti hljóta að vita að Bauganes hét áður Baugsvegur! Verður ekki að gera eitthvað í málinu? Og svo er spurningin hvort karlinn verður ekki að fá sér nýjan bíl eða einkanúmer eftir 15. sept. Hann er nefnilega með bílnúmer sem hefst á bókstöfunum PM...

Mínir menn tryggðu sæti sitt í deildinni um helgina á sannfærandi hátt. Maður sat stjarfur á knæpu og fylgdist með þessu og þrír aðrir dyggir á staðnum. Ekki efa ég að mörg hundruð staðfastir Derbymenn hafi setið á hinum tveimur fótboltabúllunum í bænum og skari víða um land. Hvern varðar um Meistaradeild og Evrópusæti þegar maður á þess kost að styðja lið sem reglulega klúðrar fjármálunum, þarf að selja byrjunarliðið á einu bretti fyrir hálfgert slikk, en er samt alltaf með 20-25 þús. manns á hverjum heimaleik og alltaf með menn í yngri landsliðum Englands. Tvímælalaust stórlið með ríka hefð og þekkt um allan heim.

Alltaf eru að byrja ný börn á leikskólanum og maður verður að reyna að fylgjast með á þeim vettvangi til þess að vera viðræðuhæfur þegar farið er yfir atburði dagsins: hver ældi hvar, hver klóraði/beit hvern og hver átti afmæli og þess háttar. Þessi börn heita nú sjaldnast Óli, Siggi, Dísa eða Gunna eins og tíðkaðist í mínu ungdæmi. Algengara er að börnin heiti Úa, Aþena, Nökkvi, Ýmir, eða Hrafntinna svo dæmi séu nefnd af handahófi. Í framhaldinu datt mér í hug ágætis drengsnafn sem maður á eflaust eftir að rekast á fyrr eða síðar: Erlendur Hreimur.

Síðasta sönnun um heljartök þau sem Photoshop hefur náð á mér er mappa í tölvunni sem nú inniheldur 219 mismunandi útgáfur af sömu mynd. Málið er að maður er búinn að skoða fjölda síðna á neti um aðferðir til þess að breyta, laga og vinna stafrænar myndir og svo er sem sagt hægt að láta ýmislegt gerast á hálfsjálfvirkan hátt með til þess ætluðum aðgerðum, (actions). Enn er sjálfsagt margt óreynt af því sem finna má - en dæmi munu birtast innan tíðar í albúminu mínu.

Í gær eignaðist ég litla frænku sem var svo tillitssöm að mæta í heiminn daginn sem mamma hennar varð þrítug. Má maður segja: flott tæming eða þannig :-) Til hamingju með það. Ég missti af mikilli þrítugsafmælisveislu um daginn og komst því ekki í S&H að þessu sinni, en það rifjaðist upp fyrir mér hvað ég var að basla þegar ég varð þrítugur. Málið er að ég komst einu sinni í bikarúrslit á ævinni - en spilaði samt einn bikarúrslitaleik 29 ára og annan 30 ára.

Loksins er ég kominn með tenginguna við vinnutölvuna í lag á ný og get því sest í vinnustólinn minn hér heima þegar þannig liggur á mér. Enginn gerði ekkert til þess að laga þetta held ég en ég sat drjúga stund með tæknimönnum í vinnunni þar sem fundin var mikil krókaleið til að tryggja mér þetta samband. M.a. átti ég að setja upp eitthvert forrit í heimavélina til að koma á sambandi og sendi heim, en póstsía Skýrr henti því út og dæmdi hættulegt þannig að ég álpaðist til að prófa einföldu leiðina. Og hún virkaði -olé!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?