<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 30, 2004

Frændi minn er lögga og Grýla er í gróðurhúsinu. 

Menn grípa til ótrúlegustu hundakúnsta til að túlka mál sér í vil. Nú er rifist um hvort forsetinn var kosinn glæsilega eða hörmulega og ýmsar aðferðir dregnar fram til að túlka tölfræðina. Ég er búinn að vera á móti Ólafi í 15 ár og þurfti engan Mogga til að segja mér hvað ég ætti að gera í málinu. Af einhverjum völdum átti ég oft leið framhjá kjörstað þennan kosningadag og aldrei hvarflaði að mér að taka þátt.

Svo er rifist um hve marga þarf til að hafna í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Menn geta ekki einu sinni sæst á hvort verið er að kjósa um lög eða frumvarp. Er nú ekki síðasta sort að ætla allt í einu að ákveða nánast eftirá að flækja hlutina þannig að einhver möguleiki sé til að þetta falli stjórninni í vil.

Kannski rétt að rifja upp hve marga þurfti til að samþykkja þátttöku okkar Íslendinga í bandalagi hinna viljugu. Hve margir voru þeir - tveir? Eða var þetta bara ákveðið fyrir okkur? Fróðlegt verður að sjá Fahrenheit 9/11 enda ku Ísland fá verðuga landkynningu í þeirri ágætu mynd samkvæmt óljúgfróðum bloggara.

Allt í einu vaknaði Snillingurinn (5) upp við þann vonda draum að hann var með mömmu í gróðurhúsi og þau urðu að ná einhverri bók því annars kæmi Grýla og tæki þau.

laugardagur, júní 26, 2004

England út í hafsauga 

Aldrei hef ég stutt enska fótboltaliðið og varð því fegnastur að þeir hrundu út enn eina ferðina. Já, ég fagnaði því meir en ég syrgði brotthvarf Þjóðverja sem voru svo lélegir að maður skammaðist sín.

Ekki skil ég hvað menn rembast við að finna ljósa punkta við þetta enska lið. Þeir mega eiga að þeir nýttu vel færin framanaf keppni, en fótboltinn sem þeir bjóða manni uppá er bara skandall. Allt svo sem skynsamlegt og örugglega æðislegt ef maður héldi með þeim en ömurlegt að horfa á. Svo er verið að kenna um allt frá dómgæslu til Victoríu Beckham að enska liðið komst ekki áfram. Grikkir komust áfram á svipaðri taktík og eru með betra lið, en Frakkarnir eiga ekkert betra skilið. Ég veit ekkert hverjir vinna og með hverjum ég held.

Það var einkar góð tilbreyting að komast nokkrum sinnum í golf úti í Florida. Maður borgaði helminginn af því sem nú kostar að spila á íslenskum völlum fyrir 100 sinnum betri aðstæður. Þessi golfsprenging síðustu 10 árin á Íslandi er svo fyndin að maður grætur. Að vísu er ekkert sérlega dýrt að vera í golfi ef maður er virkilega í golfi af lífi og sál, er meðlimur í klúbbi og spilar nokkrum sinnum í viku. En þá þarf maður að bóka sig langt fram í tímann til að komast að, eða vera í klúbbi sem er einhverja tugi km frá höfuðborgarsvæðinu. Maður er feginn að hafa átt þess kost að upplifa gamla tímann í þessu þegar maður fór bara í golf sisona þegar þannig bar undir.

Sennilega fengi ég meira út úr því sem golfari að fara öðru hverju út með einhverjum félaga til að spila á fínum völlum nokkra góða hringi en taka þátt í þessari tískuvitleysu sem viðgengst hér. Eða þá bara vera meðlimur á Flúðum eða eitthvað og skjótast öðru hverju austur yfir helgi. Flúðir eru orðnar heilagur staður í huga fjölskyldunnar eftir einkar vel heppnuð frí undanfarin ár.

fimmtudagur, júní 24, 2004

QuickStrep 

Ég sem ætlaði að kryfja EM á faglegan en fjörlegan hátt á hverju kvöldi. Æ, maður fer ekki í veislu til að efnagreina kökurnar heldur til að éta þær.

Annars settu Streptókokkar svip sinn á síðustu viku - eyðilögðu fyrir mér nokkra leiki, 17. júní og fullt af góðu veðri. Með dyggri aðstoð tókst að heimasjúkdómsgreina og hefja meðferð án læknisaðstoðar, en samt hélt ég á vit heilbrigðiskerfisins góða og komst þá að því að ég fæ ekki að koma í skoðun þar sem ég á skráðan heimilislækni því að þangað hef ég aldrei komið. Vítahringur. Svona er að vera lítið veikur. Læknirinn sem skoðaði mig ekki en lét mig hafa Pensið sagði að ég væri ekki nógu góður kúnni.

Þeir hefðu nú farið létt með þetta í Ameríku. Þar lentum við í heilbrigðiskerfi með Undrið (2) sem fékk sýkingu í munn með tilheyrandi hita og leiðindum. Ekki um annað að ræða en fara á ER í Orlando og það var svolítið eins og í sjónvarpinu er mér sagt. Að vísu sá maður aðallega biðstofuna en þar var mannvalið eins og ku gerast í læknaþáttunum. Einn sundurskorinn svertingi sem hafði allt á hornum sér í hjólastólnum, ein útúrfull eða dópuð frauka um miðjan aldur og fullt af hálfdúbíus liði og yfir öllu gnæfði lögga í fullum skrúða.

Auðvitað fór mest púður í skriffinsku og bið. Þegar loks var komið að því að læknir skoðaði barnið tók það 3 mínútur og hann sá strax hvað var á seyði og gaf sín ráð. 25 kall, takk.

mánudagur, júní 14, 2004

Hljóðmynd 

Það var gaman að setjast niður stundarkorn í lok hvers dags niðri á Flórida með bók í hönd og lesa og hlusta. Þarna eru jú alls konar önnur kvikindi á sveimi og vappi, eða bara kyrrstæð og síðan var heilmikill Interstatevegur steinsnar frá með umferð allan sólarhringinn. Stundum á kvöldin sá maður fólk trimma nokkrar ferðir hlaupandi eða á línuskautum þegar hitinn loksins var orðinn bærilegur. Eitt kvöldið þegar aðrir voru farnir að sofa komu 3 löggubílar, sjúkrabíll og slökkvibíll inn í þetta rólegheitasveitahverfi, en fóru skömmu síðar þannig að líklega var ekkert á seyði.

Hiti 23°C - myrkur - hitabeltispödduhljómsveitin með tónleika. Maður hefði átt að vera með sjúskaðan hatt, í ruggustól, með gamla gítarinn í fanginu kyrjandi blús þarna í myrkrinu. Nógu dökkur var ég orðinn þarna undir lokin.

PS - ég lá í sólbaði samtals 9,5 mínútur í Flórida.

ZZ 

Eftir leiki dagsins ætti að vera ljóst að tími er kominn til að fella niður zetuna úr enskri tungu - Sinedine Sidane lítur ekki eins vel út og Zinedine Zidane. Hann væri kallaður Sissó ef hann væri á Íslandi.

Maður trompaðist náttúrulega úr leiðindum yfir fyrri leiknum og fann sér ástæðu til að fara út í gróðurhús til að umpotta af brýnni nauðsyn frekar en að sjá kafla úr þessu helvíti um miðjan leik þegar svefninn var farinn að sækja á.

OK Króatía var með spennandi lið um tíma og fín Derby tengsl meðan Stimac og Asanovic voru í þessum liðum, og Prosinecki og Suker og fleiri til uppfyllingar, en nú vantar þarna fólk frá alvöruliðum til að þetta geti verið spennandi. Enn loðir við þessa karla tilhneigingin til olnbogaskota og leikaraskaps, en í dag náði leikurinn aldrei flugi. Króatía á þó eftir að stríða einhverjum, frekar Englendingum en Frökkum, þannig að ég spái þeim óvæntu gengi eftir þessa hörmung í dag.

Stephane Chapuissat - útbrunninn hjá Dortmund fyrir 5-6 árum eða hvað? Og enn í svissneska landsliðinu! Þarf að segja meir. Markmaðurinn Stiel er samt dálítið fyndinn.

Ég dáðist allnokkuð að leik Englendinga framan af og fannst þeir einfaldlega betri og beittari en lengi má maður leita að færum og alvörutilþrifum í leiknum. Þetta var stöðubarátta frá upphafi og Englendingar einfaldlega ákveðnari og þéttari þótt eflaust væru þeir minna með boltann. Makalele og Gallas veikja franska liðið framávið. Vieira var náttúrulega bestur.

Rooney kom mér á óvart með góðum tilþrifum og dirfsku og síðan sá maður lítið bíta á ensku vörnina yfirhöfuð í leiknum. Það voru náttúrulega mistök Liverpoolmannanna sem björguðu deginum fyrir mann og mikið helvíti var ZZ öruggur í vítinu. Hvernig vinna Englendingarnir svo úr þessu áfalli?

Það er dálítið eins og Englendingar fái aðra meðferð í sínum leikjum en hin liðin frá dómurum. Ef ég væri Þorsteinn J væri upplagt að bera saman brot úr KRÓ-SVI leiknum og ENG-FRA leiknum og skoða hvenær var spjaldað. Englendingar fengu 2-3 sjensa áður en spjaldi var veifað þegar Vieira var klipptur niður á einhverju miðjugegnumhlaupi meðan í hinum leikjum til þessa hefur spjaldið nánast verið sítengt við flautuna hjá þessum blásurum.

sunnudagur, júní 13, 2004

Helvítis Hringbrautin 

Það er nú ljóst að framkvæmdir vegna færslu Hringbrautar munu setja feitt og ljótt strik í akstursleiðir fjölskyldunnar næstu misserin og því er ég grautfúll. Það er afleitt að missa Vatnsmýrarveginn út úr leiðakerfinu og tefur vissulega fyrir því að komast í vinnu og annað sem maður þarf að komast endrum og eins. Merde.

Ameríka 

Loksins tókst familíunni að fara í útlandafrí saman og vissulega var ævintýrið skemmtilegt. Samtals 14 manns á ferð og mið-Flórída áfangastaðurinn. Í prógramminu ferðir í Magic Kingdom hjá Disney, Busch Gardens, Wet 'n Wild, og Sea World en því síðastnefnda sleppti minn armur fjölskyldunnar. Síðan steðjaði liðið á Cocoa Beach baðströndina á sjálfum Memorial Day, 31. maí, en síðar kom í ljós að þetta var heitasti 31. maí í héraðinu frá upphafi mælinga.

Einu sinni lá leið míns fólks í verslunarleiðangur til fatakaupa og var það látið duga. Þetta hentar illa þegar maður er með ungviðið með sér. Stundum fór heildin saman út að snæða en í öðrum tilvikum eldað heima, eða hver þessara eininga sá um sig næringarlega.

Við dvöldum í ágætu húsi þar sem flest var í lagi - lítið af tólum til almennra þrifa og eldamennsku en fín laug, og umgirt neti sem heldur úti pöddum og hita kringum útisvæði hússins. Eðalfyrirkomulag fyrir barnafólk. Minn armur familíunnar fékk vissulega besta svefnherbergið og baðið enda flestir þar um notkun, nema aumingjagæska hafi ráðið ferðinni.

Við fengum síðan hvíta Toyotu Corollu í Hertzhappdrættinu og stóð hún fyllilega fyrir sínu. Það er eitthvað milli Toyota og okkar sem enginn fær skýrt því að hinir fengu Chevrolet og Hyundai. Toyotan var golfbíll ferðarinnar.

Samtals náðist að fara fimm sinnum í golf í ferðinni, þar af tvívegis á sama völl og einu sinni á ágætan par 3 völl. Siggi svili er fínn golfpartner komst ég að og nokkuð efnilegur spilari. Auðvitað voru vellirnir frábærir og dásamlegt að komast í þetta. Þótt heitt væri skipti það litlu máli því að maður var alltaf í golfbíl og ég er ekki frá því að maður hreinlega slái eilítið lengra í svona hita - hvort sem um er að þakka/kenna hitanum eða því að þarna er allt mælt í jördum á fahrenheit. Hins vegar mæli ég eindregið með því að menn fái uppgefinn nákvæman dvalarstað fyrirfram (sem ekki var í okkar tilviki) til þess að geta skipulagt sitt golf áður en farið er af stað. Oftast var ekkert mál að komast að, enda ekki high season, en maður verður að geta plottað út spennandi golfkosti áður en lagt er af stað. Þarna ókum við Siggi hreinlega út í óvissuna fyrsta sinnið og römbuðum reyndar á fínan völl eftir tæpan hálftíma en síðar kom í ljós að aðrir vellir og ekki síður spennandi voru enn nær.

Ég fann heilmikinn fótboltavöll nálægt húsinu okkar og fór nokkrum sinnum þangað með kylfur og kúlur að berja mér til dundurs þegar lítið var annað í gangi. Aldrei sást þar sála í fótbolta enda ekki sérlega aðlaðandi aðstæður til slíks miðað við mjúka þétta grasið okkar hér. Mér datt ekki í hug að stinga upp á allsherjarfótboltaferð hópsins á þennan völl. Það var miklu heitara þarna úti og sandur og maurar út um allt. Aðrir undu sér vel í lauginni eða við hefðbundin sólböð á meðan.

Meira síðar.

laugardagur, júní 12, 2004

Gleðilega hátíð! 

Sennilega er Evrópukeppnin albesta sjónvarpsefnið fyrir mínar þarfir. Bara góð lið og í flestum þekki ég einhver nöfn - ekki of margir leikir, þannig að þetta tekur ekki frá manni alltof mikinn tíma.

Áhyggjur? Já. RÚV lætur þetta góða efni í hendurnar á lélegu starfsfólki sem skemmir. Samúel var þegar í fyrsta leik kominn í hefðbundið blaður sitt um ekkert og gleymdi sér oftar en ekki í málskrúði og sjálfsaðdáun yfir einhverju hnyttilegu sem honum þótti vella út úr sér. Svo mætti Pétur Pétursson í næsta leik sem skrautfjöður og satt að segja var ég búinn að gleyma því hvað hann er hörmulegur meðlýsir, eins frábær fótboltamaður og karlinn var nú. Svo sjá þessir karlar ekki augljósa hluti - eins og þegar Spánverjinn sló boltann í markið eftir að hafa skallað hann af markmanninum og upp í loft. Sennilegast var þó dómarinn ekki að dæma á það.

Einnig hef ég áhyggjur af dómgæslunni. Collina var góður í fyrsta leik en Urs arfaslakur í þeim næsta. Allt of mörg spjöld og rangir dómar. Það verður erfitt að ná góðu jafnvægi á ný í fótboltann þar sem dómgæslan eyðir út leiklist, fautaskap, og óþverra en lætur í friði sannar tæklingar og góð einvígi. Dómarinn verður að vera hluti af leiknum en þó ekki einhver Deus ex machina með einkasjó á sviðinu græna.

Þáttur Þorsteins J lítur sæmilega út og fínt að fá hina og þessa í spjall og fara aðeins í tiltekin atriði. Ekki var ég þó alveg tilbúinn í þetta flipp um sorg og gleði með Doorsundirspilinu.

Leikirnir

Rehagel virðist vera búinn að koma Grikkjunum í rétt sálrænt ástand og búa til sína hernaðaráætlun. Enginn nefndi Þýskaland á nafn í umræðunni um meistarakandídata og e.t.v. skiljanlegt, en Grikkirnir minntu mann á þýsku leiðina í dag: spiluðu fast en heiðarlega og völdu einfalda kostinn, hugsuðu bara um leikinn, ekki dómara, hárgreiðslu eða leikræn tilþrif. Svo þegar andstæðingurinn gerði mistök var ekki að sökum að spyrja.

Auðvitað eru Portúgalir með flínkari fótboltamenn og þeir eiga mína samúð enda mikið ok á þeirra herðum að standa sig á heimavelli. Samt er greinilegt að þeir eru með veika pósta í uppstillingunni - t.d. óskiljanlegt að tefla fram Couto enn einu sinni eins og af gömlum vana, manni sem er ónýtur varnarlega en jú, svo sem fallegur á velli en ekki meir.

Spánverjarnir eru tilbúnir í slaginn og unnu sinn leik fagmannlega. Góð barátta og hæfileg blanda af leikni og vinnslu með góða kantmenn og svo náunga eins og Pujol og Helguera sem vinna sitt verk fyrir liðið.

Rússar voru greinilega lakari aðilinn þótt þeir hafi átt sína sénsa. Flínkir og fínir karlar inn á milli Aleinikov og Mostovoi en of margir léttvægir og allt fullt af sendingafeilum. Svo var nú dálítið eins og dómarinn tryði því að þeir ættu að tapa og hann ætti að aðstoða við það.

Niðurstaða dagsins er sem sagt að Snillingurinn (5) er ekki alveg tilbúinn að detta inn í svona keppni fullur áhuga en samt entist kappinn fram í seinni hálfleik fyrri leiks. Ég var þokkalega ánægður með skemmtanagildið en lýsi aftur yfir áhyggjum vegna dómgæslu. Maður fær síðan fyllri mynd af framvindunni eftir því sem fleiri leikir verða spilaðir en full ástæða er til bjartsýni, þegar komin óvænt úrslit og fín tilþrif.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?