<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júlí 23, 2004

Dang 

Hvers vegna þurfti að taka fram að hægra nýrað hefði verið fjarlægt?

fimmtudagur, júlí 22, 2004

Hugh Johns kenndi mér ensku 

Hann Hugh er enn á lífi háaldraður, besti fótboltaþulur allra tíma, að því er margir telja. T.d. lýsti hann fjórum úrslitaleikjum í HM fyrir Englendinga og þótti einkar málefnalegur og gagnorður. Það var lán minnar kynslóðar að RUV gerði samning við ITV um sýningar frá ensku knattspyrnunni á upphafsárunum þegar maður horfði gapandi á stytta vikugamla leiki síðdegis á laugardögum í sauðarlitum. Þá gerði enginn veður útaf enskum lýsingum.
 
Hugh talaði góða ensku og var með velska rödd eins og Richard Burton sá yfirburðalesari. Rúsínan í pylsuendanum var að ITV sýndi mest frá ensku miðlöndunum þannig að maður sá skemmtilegan bolta, a.m.k. þegar Derby County var annars vegar.
 
Ég held því fram að ungviði sem fær brennandi áhuga á einhverju geti lært nánast hvað sem er á undraskömmum tíma. Þannig kenndi Hugh mér ensku. Maður hefur hitt fyrir ungt fólk, einkum stráka, sem eru ómögulegir námsmenn í þessu hefðbundna en kunna allt um tölvur, bíla, þvottavélar eða eitthvað.

Íslensku fótboltaþulirnir eru ekkert síður kennarar en Hugh var mér á sínum tíma og ég er ekkert viss um að ég vilji láta Snillinginn (5) í íslenskunám hjá Gaupa eða Lárusi Guðmunds. Það er ekkert nóg að hafa eitthvað sem skilst eða er skemmtilegt - málfar og siðferði verður að vera í lagi líka. Það er líka himinn og haf milli þess texta sem þessir menn fá frá þýðendum til að flytja í markasyrpum og slíku og þvælunnar sem gjarna bunar úr þeim í beinni útsendingu.

Muniði þegar Gaui Þórðar var kóngurinn yfir fótboltaíslandi. Hann kom gjarna í spekingshlutverk í lýsingum og tók upp á því að nota orðið athyglivert sí og æ. Upp frá því féll s úr þessu orði  í fótboltalýsingum og þessa gætir ennþá. Eins gott að Gaui var ekki sérfræðingur í heilbrigðimálum eða landhelgigæslu.

Snillingurinn var bróderaður í fyrsta sinn á ævinni í dag - þrjú spor í höku eftir fall af reiðhjóli. Þegar ég frétti af þessu var ég einmitt nýbúinn að senda Herdísi Storgaard skýrslu um slys sem snáðinn lenti í á Hótel Kirkjubæjarklaustri um daginn þar sem hann rak sig í háan kertastjaka með þeim afleiðingum að hann lenti í vaxsturtu bókstaflega. Ég ætla að ráða Herdísi til að rífast fyrir mig næst þegar ég þarf því að svar barst nánast um hæl frá henni og var hún þá búin að taka hótelstjórann til bæna og hafa samband við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands til þess að tryggja að eitthvað yrði gert. Sem betur fer varð drengnum ekki meint af enda lenti vaxið aðallega á hvirfli hans og hnakka en andlitið slapp.

Ég ritaði annað bréf til hins opinbera um daginn til að kvarta yfir því að móanum okkar hefði verið sýnt banatilræði. Á bak við hús er nefnilega óbyggt og lítið notað svæði sem gegnir engum tilgangi öðrum en að vera mói. Enginn völlur, garður, eða neitt. Þarna vex einfaldlega gras og lágar villijurtir eins og í þessum venjulega íslenska valllendismóa. Einmitt um þetta leyti ársins ætti að vera í móanum himneskur ilmur sveitar og óbyggða með puntstrá og felustaði fyrir litlu manneskjurnar.

Einn daginn þegar maður kom heim úr vinnu var búið að slá svæðið og eitthvað hefur þá gengið á, því að víða voru kviðristar þúfur og hálfuppgrafin björg sem ekki hafa farið vel með sláttutækið. Ég sendi bréf á formann umhverfisnefndar, borgarstjóra, Hverfismiðstöð Vesturbæjar og deildarstjóra í garðyrkjudeild og bað móanum vægðar um framtíð alla. Ef móinn fær aðra eins útreið næsta sumar mun ég ekki hika við að tala við Herdísi Storgaard og setja hana inn í málið.

Undrið (2) er í sjálfskipuðu framburðar- og málfarsátaki þessa dagana. Nú er svo komið að 'r' er rétt handan við hornið, önnur hljóð og samsetningar eru komin eða í stöðugri æfingu. Hún á það til að skjótast í heimsóknir í næsta hús óforvarendis og í gær hvarf hún þangað og var komin í bað með vinkonum sínum þar þegar til hennar spurðist næst - að vísu undir eftirliti húsmóðurinnar á bænum sem vinnur reyndar í Húsdýragarðinum þannig að hún er ýmsu vön.

Snillingurinn sá hins vegar um svipað leyti föður sinn leika alvörufótbolta í fyrsta sinn, að svo miklu leyti sem tala má um slíkt í flokknum 40+. Hann var svo sem búinn að finna sér félaga til að sparka á milli áður en langt var liðið leik og lái ég honum það ekki miðað við frammistöðu FH. Hitt er svo annað mál að þarna kom hann í fyrsta sinn í búningsklefa fullan af gömlum félögum sem göntuðust og létu sínum látum eins og gengur. Sennilega heyrði hann þarna ljótara orðbragð á 10 mínútum en hann hefur upplifað allan sinn stofnanaferil hingað til. Einnig fékk hann að ganga um aðalútganginn út á Kaplakrikavöll rennisléttan og góðan. Ég ætla svosem ekkert að halda að honum fótbolta frekar en öðrum listum...

Asskolli góð annars útsalan í Útilífi - haldiði að ég hafi ekki fundið þessa fínu fótboltaskó á Snillinginn í dag. Sjaldan eða aldrei hef ég fengið jafninnilegt þakkarknús eins og þegar hann sá skóna.



laugardagur, júlí 10, 2004

Ættum við að reisa múr? 

Þeir voru að mála 30 á götuna okkar. Ég tel víst að það sé í fyrsta sinn sem þetta er gert til að herða á aksturshraða um hverfi. Það er nefnilega þannig, einkum á kvöldin og um helgar að fólk mjakast hér um á 5 km hraða gónandi á húsin hugsanlega í þeirri von að sjá eitthvað stórmenni. Sumir stoppa og bakka sérstaklega til að hneykslast á nýja húsinu sem var byggt vegna þess að arkitektinn eða niðjar hans leyfðu ekki breytingar á því gamla. "Hey! Ekki málið! Leigjum okkur stóra kúlu og mölbrjótum kofann - hvern munar um 70-80 millur - og svo búum við bara í Kvennaathvarfinu á meðan." Sumir fara 3-4 hringi, tja, e.t.v. í þeirri von að sjá Davíð fara út með ruslið, eða til að skoða Porscheana betur.

Heimamenn aka hins vegar gjarna of hratt - einkum erfingjarnir á Audionum sínum og BMWöffunum. Það er vandamál.

Nú er á döfinni að reisa tíu metra háan og tveggja metra breiðan múr utanum hverfið til að losa okkur við þetta drasl sem á ekkert erindi annað en að forvitnast og vera með leiðindi. Svo er vitanlega alltaf öðru hverju innbrotafaraldur í svona bubbabyggð. Slíkt má flokka með hryðjuverkum þar sem við á.

Síðan verður göngustígurinn lagður í neðanjarðarstokk þar sem hann liggur um stóra Skerjó svo að fólk geti grillað og sólbaðað sig í friði fyrir liðinu sem veit ekkert skemmtilegra en að vita hvað er í matinn hjá ríka og fræga fólkinu og Gísla Helgasyni og Herdísi.

Foringinn er búinn að semja um að beitt verði neitunarvaldi um þennan múr hvar sem um hann verður fjallað á neikvæðan hátt alþjóðlega og mun beita sér fyrir lagasetningu um múrinn innanlands til að tryggja að allt verði í lagi. Svo verður bara hlið og vörður og maður þarf að gera grein fyrir sér til að komast inn í hverfið. Gestir verða til dæmis að hafa heimild frá íbúa til að komast inn. Þannig er á einfaldan hátt hægt að losna við að leiðinlegt fólk komi í heimsókn. Sem betur fer þekki ég þó ekki slíkt fólk.

Það er nákvæmlega ekkert í þetta hverfi að sækja annað en heimili fólks. Varla nokkur þjónusta - jú Skerjaver stendur fyrir sínu en fólk kemur tæplega víðsvegar að til að versla þar - og svo er Bókabíllinn víst á ferð á mánudögum kl. 6-7.

Það var dálítið sérstakt fyrirbæri á bak við hús hjá okkur þar til fyrir nokkrum dögum, Nefnilega þessi dæmigerði harði íslenski þurrmói með dásamlegri blöndu af ýmsum blómum og flestum tegundum af grasi. Þarna gat maður gengið um og andað að sér sama ilmi og uppi í sveit. Ekki sver ég fyrir að þarna hafi mófuglar orpið en svæðið var heillandi og ósnert þótt ekki væri hægt að vera þar í golfi eða fótbolta.

Svo fékk einhver þá brjáluðu hugmynd að slá móann. Fyrir nokkrum árum mætti vösk sveit með vélorf og snoðaði móann okkar. Þetta leit snyrtilega út en hefði mátt sleppa því. Í þetta skipti var beitt stórvirkum vinnuvélum og einhver verkstjórinn hefur séð til þess að slátra traktorsknúinni sláttumaskínu með því að ráðast jafnt á þúfur sem stórgrýti og skilja eftir hálfgert flag þar sem nú er bara moldarlykt. Maður þakkar fyrir að blessuð grenitrén tvö rétt við húsvegginn voru látin í friði. Af hverju þetta rugl?

Vissir aðilar liggja undir grun um að hafa óskað eftir þessari aðför að eina ósnerta blettinum í hverfinu og sannarlega ástæða til að kanna málið frekar.

fimmtudagur, júlí 08, 2004

Don Oddson (ekki grín) 

Dálítið gaman að því að sjá að náungi sem kynnir sig sem Don Oddson skrifar í Moggann í gær og er að leita að ættingjum. Mætti ekki benda manngreyinu á að hann á sér eins konar alnafna hér á landi - eða var þetta kannski sá eini sanni að fylla upp í tómarúm einmanalegra hótelkvölda í USA með því að grínast svolítið í Mogganum. Hvað veit maður nema hann þurfi að lýsa eftir ættingjum sínum opinberlega á þessum undarlegu tímum.

Menn taka svo sem upp á ýmsu til að eyða dauða tímanum á þessum stjórnmálaferðalögum. Dunda við að breyta blogginu sínu og svona. (Er annars ekki einhver búinn að taka eftir því að ég setti alla færsluna frá 23. apríl í þátíð - Sigga Dögg? einhver?)

Annars - hvernig nenna þessir karlar að standa í svona veseni. "Hey, ég skal hitta þig í hálftíma fyrst þú endilega vilt." Og fljúga síðan í 6+ tíma hvora leið. Það var líka greinilegt að Davíð var að trufla eitthvað meiri háttar afmælispartí hjá Bush. Að minnsta kosti var eins og að einhver væri búinn að setja blautan svamp eða prumpblöðru í stólinn sem Davíð situr í á forsíðumyndunum.

Og Davíð hefur áreiðanlega dregið upp pakka af saltstöngum minnugur hremminga þeirra sem Bush lenti í forðum: "Hey, til hamingju með afmælið og svo ætla ég líka að gefa þér gamalt fjölmiðlafrumvarp sem við hættum við að nota. Enginn annar forseti er búinn að nota það."(Upp gýs gíslarúnarslegur bermúdahlátur à la frændinn sem kom með tyggigúmmíið í laginu, muniði!) Þetta eru svo miklir spaugarakallar.

Í gær var ár síðan blogg hófst - og enn er ég að lesa Bill Bryson en nú bókina þar sem hann fjallar um reynslu sína þegar hann snýr heim til USA eftir 20 ár í Bretlandi: I´m a Stranger Here Myself.

Undrið (2) fór víst fram á að fara upp í sveit með nágrönnunum í dag. Og Snillingurinn (5) fór í sólarhringsútilegu á Snæfellsnes með afa og ömmu nú nýlega. Þau stækka of fljótt.

Nú er Snillingurinn farinn að lesa allt sem að kjafti kemur og maður heyrir hann kannski reka upp undrunaróp þar sem maður er staddur í sjoppu: "Pabbi, sjáðu, samloka og súperkók á tilboði." Eða frammi í þvottahúsi heyrist skyndilega: "VAASSKEEEPUUULVER -vaskepulver - pabbi, af hverju heitir þvottaefnið vaskepulver."

mánudagur, júlí 05, 2004

Salt útí baunir 

Ekki gleyma að hlusta vel á börnin. Þau þýða hlutina yfir í sinn reynsluheim.

Undrið (2) er barn sem á til að bresta í söng eða alls kyns hróp. Vissulega er maður búinn að reyna að kenna henni ýmislegt gagnlegt og gott en sumt af því skilar sér greinilega ekki fyllilega.

Til dæmis kann hún: "FHingar unnu, KR datt í tunnu," sígilt og gott. Nema við nánari hlustun kom í ljós að hún segir: "FH Inga og Unnur" (náfrænkur hennar og mæðgur) en seinni hlutinn er vissulega réttur og sannur. Hún segir ekki: "Saltkjöt og baunir, túkall," enda réttur sá ekki á boðstólum í hennar veruleika, hvað þá túkall. Hennar útgáfa er: "Salt út í baunir, þú ert kall," og þá lítur hún jafnan stríðnislega á mig! Í gærkvöld var hún svo að fylgjast með úrslitaleiknum og hváði við þegar mamma hennar hrópaði upp yfir sig hvort væri gult á Portúgalann. "Ha, gult á pollagallann!?"

Glikkir sigruðu svo.

Að breyta reglunum 

Stundum förum við Snillingurinn (5) í fótbolta úti í garði. Ákveðum fyrst hvað leikurinn á að standa lengi, t.d. fyrstur uppí tíu vinnur og við vitum núorðið hve hátt má skjóta og hvar nákvæmlega stöngin er o.s.frv. Hér áður fyrr þegar Snillingurinn sá fram á tap tilkynnti hann gjarna einhliða breytingar á einhverju: mitt mark stækkaði um 1-2 tré, leikurinn skyndilega framlengdur uppí tuttugu, talningin breyttist skyndilega mér í óhag eða eitthvað. Hann er búinn að læra að þetta gengur ekki lengur og reglur eru til að fara eftir.

Ég nefni þetta nú annars vegar vegna þess að Snillingurinn var með í alvörufótboltaleik í fyrsta skipti nú um helgina og hins vegar vegna þess að sumir eru enn ekki búnir að læra að maður breytir ekki bara reglunum þegar maður er að tapa: Við bara framlengjum og hækkum um nokkur prósent og andstæðingurinn má halda að hann sé með í að breyta... Í þessum alvörufótboltaleik kom reyndar líka upp sú klassíska staða að sá sem átti boltann var ekki sáttur við stöðuna og ákvað því að hætta snögglega og fara með boltann, en - viti menn - það birtust strax nýir menn með betri bolta!

Jæja, þetta verður nú bara til þess að framlengja fjölmiðlakjaftæðið og viðhalda ruglinu.

Annars vann Snillingurinn í sínum fyrsta alvöruleik þótt hann hafi lent í að fá boltann illa í andlitið og þar með hafi þátttöku okkar lokið í leiknum. Það er spurning hvort mun standa uppúr, sigurinn eða kjaftshöggið sem blautur og þungur leðurbolti getur veitt fimm ára snáða.

Ég man eitt slíkt högg frá því ég var fimm ára. Þá var snjókast í götunni heima og ég var eitthvað að þvælast í skotlínunni og fékk harða og blauta snjókúlu í eyrað. Allir sem það hafa upplifað vita að slíkt er ekki þægilegt. Hvað um það - sá sem kastaði var aðaltöffarinn í götunni, Steinar Ragnars, og hann kom æðandi til mín fullur iðrunar þannig að ekki dugði að væla. Sennilega var ég bara stoltur af því að hafa fengið þessa göfugu snjókúlu í hausinn þegar allt kom til alls.

Annars er hausinn á mér furðulegur. Í einum af síðustu leikjum mínum í alvörufótbolta kom sóknarmaður KA upp í skallaeinvígi með mér og náði náttúrulega ekki í boltann en skallaði í ennið á mér og síðar myndaðist þar sjálfstæð hrukka sem mun aldrei hverfa. Ekki fann ég sérstaklega til í höfðinu eftir þetta atvik. Viðkomandi sóknarmaður átti að leika stórt hlutverk með Fram í sumar, en varð að hætta í fótbolta í bili vegna dularfullra höfuðverkja og yfirliða sem sennilega eiga sér skýringar í æðaskemmdum við gagnauga eftir viðureignir við harðhausaða varnarmenn gegnum tíðina.

Þeir voru reyndar nokkrir gegnum tíðina sem urðu að hverfa af velli eftir návígi við mig þar sem hausar komu við sögu... Og ég er ekki hættur í fótbolta þannig að þið sem hyggist reyna að skalla nærri mér ættuð að láta það vera.

föstudagur, júlí 02, 2004

Þrikkir í úrslit 

Ég er sigurvegari EM í knattspyrnu 2004. Ekki nóg með að liðin sem ég tel ekkert eiga betra skilið séu fallin úr leik, heldur eru Þjóðverjar í úrslitum þótt þýska liðið sé fallið úr leik. Brian Clough Þjóðverja er búinn að koma sínum mönnum í úrslit og auðvitað verða vesalings Grikkirnir úthrópaðir fyrir að spila skynsamlega og nákvæmlega eins og mannskapurinn hefur getu til. Þeir eru með lið, ekki bara mannskap eins og sumir hafa svo skemmtilega flaskað á. Lítill munur að segja grískur eða þýskur og því mun ég tala um Þrikki héðan í frá. Samt held ég með Portúgal í leiknum, fótboltans vegna.

Einu sinni fór ég eftirminnilega fótboltaferð til Portúgals. Þá komst ég í fyrsta skipti í golf erlendis - og oftar en aðrir golfáhugamenn í ferðinni því að ég sleppti öllum skoðunar- og verslunarferðum sem þóttu yfirleitt leiðinlegar. Í einum æfingaleiknum skoraði ég reyndar 2 mörk sem þótti tíðindum sæta. Í öðrum leik sprakk miltað í Dóra stóra og ég fór í markið og hélt hreinu. Ég kunni ágætlega við land og þjóð enda kunnugur þarna gegnum mikla uppáhaldsbók úr æsku: Siskó á flækingi.

Í þessari ferð flutti Helgi Bents lagið "Stál og hnífur" við tæplega engar undirtektir á einhverri knæpu. Afar eftirminnilegt. Ég var gjaldkeri almennrar söfnunar á farareyri fyrir Mfl. FH fyrir ferðina og fæ enn í dag um hver áramót yfirlit frá Íslandsbanka þar sem kemur fram að inneign í ferðasjóði er 57 krónur.

Svo átti ég einu sinni portúgalska pennavinkonu en sú átti við geðræn vandamál að stríða.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?