<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, september 30, 2004

Sleggja og Steinar 

Hinir og þessir hafa verið svo vænir að óska mér til hamingju með meistaratitilinn og ég oftast komið af fjöllum. Vitanlega gladdist maður þegar Fimleikafélagið tryggði sér sigur í ár loksins, en verð að játa að tilfinningin sem því fylgdi fer ekki í sjálfvirku minningabókina sem geymir stóru stundirnar hvort sem manni líkar betur eða síður.

Fyrsta frétt sem greyptist í þá bók var um morðið á Robert Kennedy. Þetta snýst um að muna hvar maður var staddur þegar fréttin kom og hvernig yfir helltist reiði, undrun, hræðsla eða fögnuður. Ég hlustaði á útvarpsútsendinguna þegar Armstrong steig fæti á tunglið staddur á spítalanum á Akranesi. Nokkrum árum síðar varð Derby síðan meistari og þá var ég staddur heima í Nesi í herberginu mínu og fagnaði gríðarlega. Ég frétti um gosið á Heimaey þegar ég mætti í skólann og allir ræddu þetta skrítnir á svipinn eins og þeir vissu ekki almennilega hvort þeir ættu að vera spenntir eða hræddir.

Svo fóru Lennon, Brezhnev og lafði Díana, Reagan og páfinn skotnir, og svo Chernobyl. Man hvar ég var staddur þegar fréttin barst. En svona fyrirsjáanleg frétt eins og meistaratitill FH - æ. Maður er ekki hluti af liðinu lengur og svo margt annað sem skiptir meira máli. Nú þegar eru mörg augnablik af eigin ferli í þessum sjálfvirka sarpi.

Fyrir nokkrum árum fór ég með hóp Breta í sýnisferð um Reykjavík eins og svo oft áður. Fólk sem var í tilboðshelgarferð á vegum einhvers dagblaðs ef ég man rétt. Sem við erum stödd í stúku Laugardalslaugar vindur sér að mér maður með sixpensara og spyr hvort það sé ekki þjóðarleikvangurinn sem blasi við þarna úr stúkunni. Ég neita því ekki og fer eitthvað að ræða um hvort hann hafi áhuga á boltanum. Hann gerði svo sem ekki mikið úr en sagðist hafa spilað þarna sjálfur fyrir margt löngu. "Nú?" Já, mætti í Laugardalinn með Liverpool 1964 og gerði fyrsta mark þeirra í Evrópukeppni. Þetta var sum sé Gordon Wallace sjálfur! Ha, ekki allir sem þekkja hann? Svo stóðum við þarna í hálfa mínútu og þögðum, hvor eflaust rifjandi upp fyrstu evrópumörk okkar liða eða bara að gá hvort væru einhverjar sætar stelpur að spranga á laugarbakkanum...

Gærdagurinn fer ekkert í sarpinn góða enda algerlega fyrirsjáanlegir atburðir sem áttu sér stað í pólitíkinni. Framsókn að kasta Sleggjunni fyrir að þegja ekki og vera stilltur, og Geir Harði kastaði Steinari í Hæstarétt fyrir að gelta á réttum tíma. Menn búa sér til rök fyrir svonalöguðu eftir hentugleikum, ákveða fyrst og byrja síðan að búa til ástæður. Annars er mér persónulega nokk sama um skipan Hæstaréttar.

Ég man einungis eftir einu tilviki þar sem mér hafa ofboðið aðgerðir yfirvalda sem bitnuðu á mér og það var þegar þáverandi sýslumaður í Borgarnesi lét stöðva popp- og sælgætissölu Knattspyrnufélagsins Sindra sem reynst hafði frábær tekjulind þessum unga klúbbi. Pippi sýslumannssonur, var sem sagt talinn handbendi Nýja félagsins, okkar helsta og reyndar eina andstæðings, og sagan mun að eilífu gera hann ábyrgan í málinu. Þegar sjoppunni var lokað í gamla fjárhúsinu á Wembley í Borgarnesi átu félagsmenn fyrst lagerinn og gerðu síðan út leiðangur upp á Esso til þess að kaupa meira gotterí fyrir rekstarafganginn. Síðan fóru Sindramenn heim í kjallara hjá Ella Fíu og rifu í sig lakkrís, karamellur, möndlur og síríuslengjur fram eftir kvöldi. Og þetta man ég vel!

(Þess ber að geta að Sindri vann Nýja félagið alltaf hvað sem aðrir kunna að halda fram. Einnig náði Sindri fram hefndum í sjoppulokunarmálinu með tilteknum krók á móti bragði, en hver hann var má ekki fjalla um fyrr en málsaðilar eru komnir á dvalaheimilisaldurinn).

miðvikudagur, september 29, 2004

Hóstur og slími 

Ekki man ég fyrir mitt litla líf hvaða frábæra orðaleik skaut niður í kolli mér í gær á leið heim úr vinnu. Einhver fyrirtækisbíll brunaði hjá og þá sá ég hvernig hægt væri að bylta heiti fyrirtækisins þannig að út kæmi einhver fyndin della á borð við Hóstur og slími, eða Bál og brenning/Kál og kenning. Horfin fyrirtæki eða hvað? Ef ég fer sömu leið heim á sama tíma á morgun sé ég e.t.v. sama bíl og man þetta.

Annars er nokkuð magnað hve mörg af þeim fyrirtækjum sem hafa auglýst á búningum sem ég lék í á sínum tíma eru horfin af vettvangi. Ennþá lifa þó ORA, Shell, LoftOrka, og KB (sem er vissulega Kaupfélag Borgfirðinga í hugum innfæddra).

Nú er ég orðinn tveggja skjáa maður í vinnunni og finn þegar stórmun. Þetta felur í sér að á skrifborðinu eru tveir stórir skjáir og ég get haft opið sitt hvort forritið á þeim þegar ég er að vinna. Afar gagnlegt þegar maður þarf að vera með ritvinnslu/hjálparskrár opnar annars vegar og hins vegar geta haft opið kerfið sem verið er að útskýra, einhverja netorðabók, eða þá bara póstinn. Maður þarf þá ekki í sífellu að skipta á milli. Mæli vissulega með þessu fyrir kollega eða aðra sem eru í svipaðri stöðu. Auðvitað þarf einhvern smáhugbúnað til að gera þetta virkt en það er ekkert stórmál.

Afleiðing sögunnar um fíkjutréð sem ég nefndi fyrir nokkru sem innskot mitt á stefnumótunardegi hjá fyrirtækinu var sú að keypt var nýtt fíkjutré sem nú skartar sínu fegursta í anddyrinu í Ármúlanum. Einnig fékk hver starfsmaður sitt eigið Bonsai tré á skrifborðið til minningar um daginn og ég býst fastlega við því að fljótlega verði sett af stað veðmál um hver verði síðastur til að kála sínu tré. Þetta eru reyndar laglegustu tré og ég finn að menn leggja vissan metnað í að halda í þeim lífinu þrátt fyrir allt. Auðvitað fæ ég skot á mig út af þessu en þau eru laus, já, meinlaus.

Skyldi Áldór Ásgrímsson ekki sjá hvernig það lítur út þegar hann birtist glaðbeittur í auglýsingum dag eftir dag með fyrirheit um að ganga í hús til að safna fyrir stríðshrjáð börn n.k. laugardag. Ætli Doddsson verði ekki við símann í þætti Gísla Marteins til að taka á móti framlögum...

miðvikudagur, september 22, 2004

Mínir menn 

Það gekk vel um helgina. Þessir meistarar í fyrsta sinni, þessir með góðan sigur í Cardiff og Evrópuliðið tók Ryderinn. Svo eru gömlu Norsararnir mínir langt komnir með að tryggja rétt til að leika um sæti í 2. deild.

Svo þurfti Brian Clough að taka upp á því að deyja og dempa dálítið í manni æsinginn. Hann þurfti alltaf að toppa það sem aðrir voru að gera. Hér má lesa fáeinar tilvitnanir í karlinn sem var svo elskaður og dáður fyrir sitt framlag í Derby. Þegar allt var á leið í kaldakol í borginni og Rolls Royce verksmiðjurnar að leggja niður þúsundir starfa kom Clough & Taylor tvíeykið og þeytti Hrútunum í efstu hæðir evrópskar knattspyrnu (og seinna náðu þeir einhverjum dollum með sama mannskap nánast, en fyrir hönd annars félags og smærra.) Sósíalisti, fyllibytta og skaphundur, en með einstaka útgeislun og þegar nýir leikmenn komu til starfa undir hans stjórn byrjaði hann á því að senda þá í klippingu. Karlinn skoraði reyndar sjálfur um 200 mörk í 270 leikjum með Middlesbrough og Sunderland á ferli sem lauk með slitnum krossböndum.

Kórinn minn er um það bil að springa held ég. Slatti af nýjum og endurheimtum og heildarfjöldinn eitthvað um 35 líklega. Þetta er varla kamarkór lengur. Mér finnst nú ganga vel að æfa og nýja fólkið er duglegt að lesa og syngja heyrist mér. Lagið sem við erum að syngja er heilmikil messa, ný og íslensk, Lincoln Mass, eftir Úlfar Inga Haraldsson. Laglegasta komposisjón með latínutextanum hefðbundna.

Annars heyrir maður svo sjaldan í þessum blessuðu kórum sem maður gaular með að það er til vansa. Hingað til hafa upptökur með okkur sjálfum komið mér þægilega á óvart. Kannski maður feiki svimakast á æfingu bráðlega og leggist upp á svið til að jafna sig og heyra svolítið í kórnum í leiðinni.

mánudagur, september 20, 2004

...en hvar vinnurðu? 

Muniði eftir vegheflum í þéttbýli? Rafmagnsleysi? Sköflum og ófærð á suðvesturhorni? Ferðum í næstu byggðarlög til að kaupa bensín eða mjólk? Assgoti eruð þið þá gömul.

Þetta er klassík og nú lifa einungis kennaraverkföll eins og risaeðla. Annars var skólinn yfirleitt að byrja um þetta leyti þegar maður var í grunnskóla. Haustið '75 fór ég til dæmis í sláturhúsið eftir gott sumar í vegavinnu og vann fram undir mánaðamót sept.- okt. Verkefnið var að hengja upp ylvolgar sauðargærur til kælingar áður en þær yrðu saltaðar. Maður er náttúrulega stórskemmdur eftir að hafa fengið svona stutta skólagöngu. Var svo ekki skóla slitið nógu tímanlega til að fólk gæti náð sauðburðinum í rólegheitum.

Þetta var svona meira eða minna miðað við rollur og lömb í þá daga sýnist manni, og kennaralaunin tóku mið af þingfararkaupi að því er þjóðsagan hermir. Það breyttist, en starfstími Alþingis er enn miðaður við að þorri þingheims sé sauðfjárbændur sem þarf sinn tíma til að takast á við hefðbundin bústörf.

Kennaraskrímslin verða bara verri og verri í augum almennings. Þetta verkfall virkar til dæmis á mig eins og samsæri sett af stað í því skyni að treysta nágrannasamfélag Skerjafjarðar og stuðla að bættum kynnum barnaskarans hér. Snillingurinn (5) var t.d. kominn út snemma í morgun með skólasystur sinni og ku hafa unað sáttur í leik lengi dags. Svo eru foreldrarnir farnir að hafa samband sín á milli til þess að athuga hvort þessi megi koma og vera í heimsókn meðan mamma fer í rannsókn, eða hinn geti tekið þennan í heimsókn á morgun ef það hentar.

Þessi tvö skipti sem ég felldi niður störf í kjarabaráttu '89 og '95 náðu samningarnir hreint ekki að vinna upp tekjutapið og það er hreinlega niðurdrepandi að standa í svona aðgerðum. Samt veit ég enga lausn á þessu frekar en aðrir.

Ég var svo ólánsamur að búa í skólahverfi skólans míns og maður var ekkert endilega látinn í friði þegar skóla lauk. Ýmist voru blessuð börnin að heimta að fá að koma í heimsókn, biðja um dót á tombólu, eða bara rétt að heilsa upp á mann til þess að spjalla. Einu sinni var brotin rúða í bílnum mínum og annað skipti horfði maður á fyrrum nemendur rölta yfir sama bíl í fylleríi. Gaman! (Kennarar eiga hvort sem er bara druslur er það ekki)?

Búðarferðir fóru stundum meira og minna í eitthvert nemenda-/foreldraspjall og fljótlega lærðist að ekki væri von á því að geta farið í sund í friði. Meira að segja á 17. júní var eins víst að maður sæti uppi með einhverja nemendur í eftirdragi ef maður álpaðist niður í bæ. Kannski átti maður bara að skrifa á þetta tíma eins og gert er í raunveruleikanum:

17. júní
Geir á háhesti, útkall 3 tímar;
Svava búin að týna mömmu sinni, 1 tími;
Stebbi, blindfullur úti í blómabeði 2 tímar.
(Ath. nöfnum hefur verið breytt af tillitssemi og þagnarskyldu.)

Sem betur fer var ég ekki bekkjarkennari með heilu fjölskyldurnar á herðunum og fólk hringjandi í mann fram á rauðanætur í skilnaðarþunglyndi eða lögreglumálum.

Í mínum skóla voru hlutfallslega margir karlar - 14 af ca. 55 manns. Um miðbik ferilsins (ca. 94) man ég að 13 af þessum 14 voru í aukastarfi utan skóla, á kvöldin eða um helgar. Gunnar 14. kenndi hins vegar öllum mönnum lengur frameftir degi og betur. Nú eru þessir skarfar flestir hættir í kennslu enda vinsælir og virtir kennarar upp til hópa.

Almenningsálitið núna minnir mig á gaurinn litla sem kom bláeygur að spyrja eftir safnkennaranum sínum skömmu eftir að hann byrjaði í sex ára bekk:
- Svo þú ert heima, BIRD!
- Já, kallinn minn, skólinn er búinn hjá öllum í dag, þá lokum við bókasafninu og ég fer heim.
- Jæja, en hvar vinnurðu svo, BIRD?

miðvikudagur, september 15, 2004

Hitt 

Er ekki málið að hafa í auglýsingum einhver lög sem eru annað hvort frábær eða óþolandi. Virkar jafnvel betur það síðarnefnda - maður gleymir líklega enn síður því sem er óþolandi. Stundum hafa auglýsingarnar þveröfug áhrif þannig að maður steinhættir að kaupa viðkomandi vöru.

Ég ætla samt ekki að fara að keyra á 60 í íbúðargötum.

Okkar bíll rann gegnum skoðun í dag þrátt fyrir að ekki væri búið að stilla bremsurnar. Ég held því fram að skoðunarstöðin í Skeifunni sé með ólöglegar bremsuprófanir, enda sprengdu þeir bremsurörin helvískir á sínum tíma. Nei annars, rörin urðu að ryki í höndum mér þegar þau losnuðu úr drulluhjúp undirvagnsins. Einasta athugasemdin hjá hafnfirska skoðandanum var: "Ja, það eru ansi mörg göt í gólfinu, þú ættir að kíkja á málið." Ef þið rekist sem sagt á næstunni á mann í svörtum jakka, sitjandi á götunni einhvers staðar á leiðinni Skerjafjörður - Múlar þá er það ég. Bíllinn mun sjá um sig sjálfur enda kominn ríflega á bílprófsaldurinn.

Ógleði 

Maður þarf stundum að slökkva. Áðan varð ég tvívegis að slökkva á eyrunum. Fyrst þegar samstarfsfólkið fór að tala um hvílíkir fávitar og ofbeldismenn grunnskólakennarar væru og svo fór Ingvi Hrafn að tala um Davíð.

Samt er mér óglatt ennþá.


þriðjudagur, september 14, 2004

Pizzuhlé 

Við mótuðum stefnu sl. laugardag í mínu fyrirtæki. Sem sagt: sátum nokkra tíma í hópastarfi til þess að ræða saman og finna út hvað við erum frábær og sammála. Niðurstöður okkar voru í 99% tilvika þær sem ráðgjafinn og stjórnandinn vissu um fyrirfram. Nú er bara að finna þetta eina % sem ræður úrslitum.

Annars vil ég síður nagast út í svona uppátæki. Það gerir mönnum gott að hittast í kristilegu umhverfi í Hafnarfirði í staðinn fyrir venjulegu skrifstofurnar og matsalinn. Svo var auðvitað matur og drukkur í boði aftaná eins og þeir segja frændur vorir og þá var stefnumótahluti dagsins því makar fengu að vera með.

Ég datt enn eina ferðina í gamla prestshlutverkið þegar lá í loftinu að farið yrði af stað með "næsta fasa" út af því að pizzunum seinkaði í hádegi. Þá var orðið búið að vera laust og menn duglegir að tjá sig um ótta sinn við atvinnumissi, tilgang lífsins, upplýsingaskort frá eigendum og eitthvað fleira. Nú stefndi í að banhungraður og útræddur lýðurinn yrði teymdur af stað í markmiðssetningu eða eitthvað álíka.

Þá fékk ég orðið og sagði söguna af fíkjutrénu. Ekki þessa sem er í Biblíunni og menn nota um áramót (Lúk 13, 6-9) því að ég vissi ekki þá um hana. Mitt fíkjutré hirti ég úr gámi fyrir utan vinnustaðinn þegar verið var að hreinsa út gamalt drasl við sameininguna. Þetta var reyndar sönn saga um tré sem lifnaði óvænt við eftir þriggja mánaða dvöl í ruslafötu. Hún brúaði bilið fram að pizzum og hafði meiri eftirmála en mann grunaði, en á þessari stundu get ég ekki farið nánar út í það. (Engin launahækkun,stöðuhækkun og enn hef ég ekki verið rekinn út af þessu.)

miðvikudagur, september 08, 2004

Óþolandi 

Það er djöfullega leiðinlegt að hlusta á auglýsingar sem Arnar Jónsson les. Fyrirgefiði en ég þoli ekki talandann í manninum

Verkfall 

Að undanförnu hef ég lesið meira en venjulega. Skammturinn sem ég náði í síðast á Borgarbóka er nánast búinn og það hefur sennilega ekki gerst árum saman að ég hafi lesið allt sem í var náð. Ja, nánast allt. Þarna var inn á milli hálfgert léttmeti eins og æviminningar Svavars Gests og einhver bók eftir Ómar Ragnarsson - Ljósið yfir landinu. Síðan las ég Summer at Little-Lava eftir einhvern ameríkana sem dvaldi sumarlangt á eyðibýlinu Litla-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi. Ég vissi nú ekki að það væri þarna. Manngreyinu leið hálfilla þarna, enda nýbúið að myrða móður hans og þetta sumar ('96) varð hann síðan fyrir því að ung systurdóttir fórst í frægu flugslysi/hryðjuverki (?) undan ströndum New York.

Líklega verð ég að steðja í Norræna Húsið fljótlega og taka þar bækur á ný. Barnabækurnar okkar eru nefnilega einnig búnar.

Væri ekki ljótt að athuga hvort ekki er laust í Flúðabústað vikuna sem kennaraverkfallið á að byrja. Þeir eru ekki bjartsýnir um samning eins og staðan er. Frúin er í fríi og ég á nóg eftir af dögum þannig lagað... Börnin yrðu himinglöð líka.

Á 12 ára kennsluferli fór ég þrívegis í verkfall en það seinasta entist bara einn dag. Aldrei var felld niður kennsla vegna veðurs, en einu sinni þurfti að hætta um hádegi vegna þess að vatnsleiðsla fór í sundur og því ekki hægt að sturta niður úr klósettum. Þegar gerði óveður var það undantekningalítið síðdegis á föstudögum eða uppúr hádegi eftir að einsetning gekk í garð, svo að maður lenti í því að bíða með börnunum eftir að ábyrgir aðilar sæktu þau.

Fyrra langa verkfallið var ég einn af 5 í mínum skóla sem var frá störfum enda meðlimur í HÍK og þá var ég byrjandi í kennslu. Hinir 50 kennararnir kenndu af miklum móð. Ég man bara eftir því að á hverjum föstudegi kom fulltrúi þeirra með samskot í umslagi til að létta róðurinn en ég komst samt ekki í æfingaferð FH til Cayman það vor sökum blankheita og æfði með einhverjum tveimur öðrum í krapa og snjó í Krikanum alla páskana.

Í seinna skiptið var maður einn af hópnum og þá hittist kjarni fólks á hverjum degi í kaffisamsæti heima hjá einhverjum eftir sundferð til að efla samstöðuna. Síðdegis var síðan haldið í einhverja verkfallsskrifstofu til að drekka kaffi. Þetta var ömurlegt og skilaði engu í budduna. Samstaðan var hins vegar ógurleg og að sögn bregst ég alltaf ókvæða við enn þann dag í dag þegar illa er talað um starfsfólk skóla, skólastarf og kennaraverkföll. Þetta sem er í vændum gæti hins vegar skilað manni nokkrum góðum hringjum á golfvellinum á Flúðum ef allt fer á besta veg. HAHAHA!þriðjudagur, september 07, 2004

Haus(t)verk 

Nú er tíminn til að ganga frá. Það safnast ýmislegt fyrir í annríki sumarsins og skammdegið er þá tíminn til þess að dunda í frágangi. Áðan var ég til dæmis að setja stóra tappann í vindsængina sem sprakk og ég gerði við. Tappinn týndist í lok seinni útilegunnar og fannst síðan í flugvél á leið til New York, svo ótrúlegt sem það má teljast.

Sl. laugardag var eins konar hverfishátíð, e.t.v. uppskeruhátíð á sinn hátt og því við hæfi að Davíð lét sjá sig. Hann hefur sennilega verið í göngutúr eftir opnun Gljúfrasteins og átti leið hjá 10 ára afmælishátíð Prýðifélagsins Skjaldar sem stendur vörð um hagsmuni hverfisins. Þá var verið að skenkja súpu og ég stytti biðröðinni stundir með léttum harmonikkuleik. Ekki hafði ég nú hugmyndaflug til að spila fyrir karlinn "On the Road Again" eða "Heill sé þér stjórngarpur slyngi" enda staddur í miðri barnasyrpu er hann mætti. Nú var ég alls ekki búinn að æfa mig síðan ég lék við brennuna á gamlárskvöld og því vék mér fimlega undan undirleik við fjöldasöng og spilaði bara eitthvað út í loftið. Af þremur músíkuppákomum þetta síðdegi og kvöld var ég ekki sístur.

Ég hitti ágætt frændfólk mitt, Svövu og Hjálm, héðan úr hverfinu og fór vel á með okkur.

Fyrir ári sameinaðist minn gamli vinnuveitandi erkikeppinautnum og varð til 120 manna fyrirtæki. Nú er helmingurinn horfinn á braut og flestir fóru sjálfviljugir. Þetta er samt svolítið undarlegt - maður keppist við að kynnast fólki sem er síðan farið áður en maður veit af. Reyndar eru hlutfallslega miklu fleiri farnir frá gömlu keppinautunum og því heldur fleiri en ella sem maður kannast þó við. Og svo stendur fyrir dyrum enn einn flutningurinn - af 4. hæð á 2. hæð og líklega færist ég þá úr hópi sölu- og markaðsdeildar til minna ágætu forritara sem er gott. Ég veit nefnilega aldrei hvort fólkið sem nú er í kringum mig er að tala við mig, í símann, við einhvern hinum megin á hæðinni eða eitthvað út í bláinn. Ég er nefnilega yfirleitt með eitthvað í eyrunum til að útiloka truflanir sem óhjákvæmilega fylgja opnu vinnurými.

Snillingurinn (5) er stundum fenginn til þess að lýsa mismuninum á leikskóla og skóla, nú þegar hann er búinn að kynnast hvoru tveggja. Í hans augum felst meginmunurinn í því að í leikskóla eru rúsínurnar soðnar með grjónagrautnum, en í grunnskóla eru þær settar útí eftirá og það er vitanlega miklu betra enda að hætti mömmu. Ég er feginn að eiga dreng sem kann að greina kjarnann frá hisminu.

föstudagur, september 03, 2004

Af plottum 

Skyldi Clinton hafa fengið sér heldur mikið remúlaði á pylsuna niðri á Bæjarins bestu? Karlinn sem aldrei hefur kennt sér meins alltíeinu með allt kíttað kringum hjartað! Og hvað var ekki Davíð að djóka með að hann væri hissa á fólki að heimsækja sig hálfdauðan... Þetta er náttúrlega heljarinnar plott alltsaman og sett af stað til þess að láta fólk gleyma RNC í New York á augabragði. Snilldarlegt hjá demókrötum!

Ég hafnaði forseta norska stórþingsins í dag. Nennti ekki að taka að mér að sýna honum Þingvelli, Gullfoss og Geysi þegar hann kemur. Eiginlega hálfsé ég eftir því því karlskinnið virðist vera fínt, en maður er náttúrulega ekki í formi - þótt það skipti eiginlega ekki máli. Annað hvort getur maður eða ekki. Aldrei hef ég svo farið dagsferð sem leiðsögumaður með áhugasamt fólk að ekki hafi orðið útundan einhverjir lífsnauðsynlegir fróðleiksmolar um landið, miðin og fólkið.

Ef þeir hringja og bjóða mér sænska kónginn, ja, eða prinsessuna þá er aldrei að vita nema maður slái til... Er það ekki annars örugglega þessi sem kemur?

Og talandi um plott. Sem leiðsögumaður lenti ég nokkrum sinnum í því að hafa hjá mér í hóp eldri konur sem töluðu um það opinskátt að ættingjarnir hefðu sent þær vísvitandi til Íslands til að reyna að losna við þær. Helst "for good!" Sem betur fór tókst það ekki í þessum tilfellum enda sjaldnast mikið hættuspil í þeim ferðum sem ég tók að mér.Vetur 

Vetrardagskrá opinberlega gengin í garð. Undanfarinn sólarhring var ég þrívegis í sporti - fyrst körfu með Lækfélögunum, síðan fótbolta og golfi með vinnufélögunum. Kóræfingar hefjast síðan á þriðjudag og fyrir liggur að æfa nýtt verk eftir Felixhafann og allsherjargoðann Hilmar Örn.

Snillingurinn (5) er byrjaður í skóla og gengur vel. Hann var eftir fyrstu dagana hissa á því að hafa ekki þurft að sitja og reikna liðlangann daginn, en var geysiánægður með matinn í skólanum. Mesti glansinn er reyndar farinn af þessum skólakosti eftir nokkra óvinsæla rétti að undanförnu. Hann á sér marga vini í bekknum og Auður aðalnágranni er honum samferða í skólabílinn þannig að þetta er besta mál.

Ég er á því að foreldrafélag 6 ára bekkjar í Melaskóla gæti annaðhvort stofnað góða hljómsveit eða fótboltalið. Þá tvo morgna sem ég hef fylgt piltinum í skólann hef ég kannast við nokkra lipra spilara í foreldrahóp og fylgdarliði: Jóel Pálsson, Matthías Hemstock, gítaristann úr SSSól, og náttúrulega Ríkharð Daðason, en hann er meiddur og spurning hvort hægt væri að setja hann á bassa í hljómsveitinni.

Skóladrengurinn fór á sína fyrstu æfingu hjá KR um sl. helgi ($%&#"?!) og fylgdi ég honum að sjálfsögðu. Hann var kátur með þetta og var rakleiðis boðaður í vígsluleik gervigrass KR-inga. Ekki var nú minn frami svona skjótur... Reyndar fór hann síðan á fimleikaæfingu hjá Gróttu í gær þannig að vetrarprógrammið er óðum að fyllast.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?