<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, janúar 31, 2005

Vantar bolta 

Það viðraði til vorverka í gær framanaf. Ég tók fimmtu umferð í laufhreinsun blettsins og lenti svo í hörkufótbolta við Snillinginn (6). Reyndar hættum við leik í stöðunni 12-9 vegna þess að þá var Undrið (2) komið inn í hús og enginn heima. Drengurinn skemmtir sér ekki jafninnilega við nokkra aðra iðju en þennan garðbolta okkar. Þegar hann verður orðinn nógu góður og stór til að vinna mig af sjálfsdáðum verður túnbleðillinn orðinn of lítill sem leikvangur fyrir þetta feðgaeinvígi (hann er FH en ég Derby).

Eftir tilraun gróðurhússins til að hefja sig til flugs er vissulega eitt og annað sem þarfnast þar lagfæringa. Ég hugðist festa eina litla stífu sem er á krítískum stað gagnvart vestanátt en komst þá að því að heimilið á ekki passandi bolta í verkefnið. Það á 6 nothæfa fótbolta, 20 kíló af golfboltum, nokkrar málningarfötur af skrúfum en varla einn einasta skrúfbolta. Við eigum fullan eplakassa af fornum plastpokum, hálfan rúmmeter af tuskuefni, tvo pappakassa af hljómplötum og allt of mikið af bókum. Ég viðurkenni að flest er þetta ættað frá mér, en ég veit af heilu pappakassastæðunum sem bíða í geymslu tengdaforeldranna. En einn af ljósu punktum dagsins var að við losnuðum við reiðhjól úr gróðurhúsinu, sem þar hafði dagað uppi.

Hvaða plötur eru þetta? Satt að segja man ég það ekki og hef ekki átt nothæfan spilara síðan Snillingur slátraði græjunum tæplega ársgamall. Örugglega drasl að megninu til. Man þó að ég var búinn að láta frá mér áritaða eintakið af Íslenskri kjötsúpu og eins eitthvert tvöfalt Iron Maiden albúm. Virkasta plötukaupatímabil mitt var 86-88 enda þá búsettur í Noregi og þar átti maður aur til að veita sér hitt og þetta. Samt, ég þyrfti að eiga bestu Elvis Costello verkin aðgengileg. Las um helgina að karlinn væri farinn að semja óperu...

Það kom í ljós að alls var þrennt á prjónunum mínum frá því fyrir 4-5 árum. Ósamstæðir sokkar og fingravettlingur. Þetta alltsaman rakti ég upp enda ómögulegt að halda áfram einhverjum fjögurra ára gömlum verkefnum. Nú er hins vegar rúmlega hálfur sokkur í höfn, m.a.s. með tilþrifum í stroffi. Augun í börnunum urðu aðeins stærri en venjulega þegar þau sáu mig við prjónaskap en ekkert efast um að ég kynni eða gæti. Svo sýndi ég þeim rastafarihúfuna sem langafi þeirra prjónaði forðum daga á mig og þá sáu þau sanna meistaratakta. Undrið (2) fór strax að heimta að fá að máta!

föstudagur, janúar 28, 2005

Hvar ertu Gummi Hrafnkels? 

Þetta var nú meira djöfullega brellan hjá Rússunum að smyrja feiti á vinstri sóknarvæng strákanna ykkar, en kannski óþarfi að færa Viggó svona tilvalda afsökun fyrir tapinu. Um tíma virtist sem menn ætluðu að líma auglýsingu yfir fituna og ég var orðinn nokkuð viss um að LÝSI hf.stæði með Rússunum á bak við plottið. Ég bíð spenntur eftir því hvort blaðanna nær að koma með frumlegri fyrirsögn í fyrramálið en af hverju ekki að nota t.d.: „Gekk eins og smurt" eða „Féllu á fitusvelli." ??

Það er annars ljóst að íslenska liðið saknar Guðmundar Hrafnkelssonar. Þessu skaut niður í huga mér þar sem ég var að taka bensín í dag og á næstu dælu var náungi sem líktist markmanninum ógurlega. Gummi er náttúrulega fullkominn tákngervingur liðsins gegnum tíðina, alltaf löðursveittur og eldrauður í framan, og átti það til að hrökkva í gír en aldrei of lengi. Hins vegar muna allir svipinn á honum eftir tapleik á stórmóti; dálítið sveitó bragur á karli en andlitið sagði alltaf: „Hvernig getur fólk verið svona vont við mig? Ég sem er frá litla Íslandi." Tapsvipurinn á drengjunum sem eru þarna núna mun aldrei jafnast á við klassískan Hrafnkelsson.

Viggó viðurkennir orðið stundum mistök sín en segir þó ekki af sér eins og Róbert Marshall. Mér datt í hug hvort ráðamennirnir færu e.t.v. eins að og Undrið (2) þegar þeir áttuðu sig á því að dómgreindin hefði brugðist þeim. Hún nefnilega grýtti perlum út um allt gólf öldungadeildar leikskólans (en hefur áreiðanlega ekki verið skömmuð þar sem hún er pínulítil, með sítt og fallegt hár og englabros). Hins vegar lagði ég hart að henni að segja mömmu frá því hvað gerst hefði. Fyrst kannaðist sú stutta ekki við neinar misgjörðir, en dró svo mömmu inn á bað, lokaði og slökkti ljós, og hvíslaði játningunni að henni. Hver man ekki eftir Mídasi karlinum með asnaeyrun. Kannski eru einhverjir rakarar búnir að hvísla leyndarmálum oní holur fyrir löngu. Hver veit?

Undrið gerði svo grín að mér í dag þegar ég bauðst til að prjóna á hana sokka: „Þá verður þú amma Lína með skegg." Amman sú er nefnilega nýbúin að afhenda lopasokka á dömuna. Ef þetta verður ekki til þess að ég fitji upp á morgun, ja, þá veit ég ekki hvað. Líklega ein fjögur ár síðan ég kláraði síðast prjónaða flík...svona er að horfa lítið á sjónvarp.

Extreme makeover 

Hafiði tekið eftir honum Þór? Já, ég er að tala um veðurfræðinginn sem skyndilega er orðinn sá langflottasti á skjánum. Bogi tilkynnir í sínum deadpan Buster Keaton stíl: „Nú ætlar hann Þór að spá fyrir okkur illviðri á morgun," rétt eins og þrumuguðinn sjálfur bíði handan við hornið. Svo birtist maðurinn sem árum saman skartaði ósnyrtu alskeggi og klæddi sig eins og hver annar menntaskólakennari. Eureka! Nýtt skegg, ný föt og áður óþekktir taktar. Eins og lúxusútgáfa af Charles Bronson lætur Þór eitthvert illviðri norðvestantil hljóma eins og versta mafíuplott (sem þó sé ástæðulaust að hafa áhyggjur af) og kemur svo með nýjung: „Ég ætla að sýna ykkur þetta í mæltu máli." [sic] Þegar hann kvaddi kom síðan áður óþekkt armsveifla. (Hugsanlega hægt að sjá þetta á fréttavef RUV).

Þetta minnir mig á frábæra máltíð á indverskum stað í Glasgow fyrir 14 árum. Römbuðum á staðinn tveir félagar og fengum borð nálægt eldhúsi og því mikil þjónatraffík. Þegar við vorum búnir að fylgjast með þjónunum að störfum dágóða stund segir félaginn: „Þeir tala saman á einhverju hrafnasparki, þjónarnir."

Hvað er annars með Þór? Séð og heyrt er hugsanlega búið að rannsaka málið. Ef til vill er þetta einungis dæmi um að maður sér bara 1/10 af ísjakanum. Hafísfræðingurinn Þór er hugsanlega kominn upp úr kafinu og sýnir okkur loksins sitt rétta andlit. Hann er flottur hlekkur í langri keðju óhagganlegra manna sem hafa séð okkur fyrir veðri og klassískum náttúrufróðleik gegnum tíðina: Hlynur, Knútur, Páll, Markús Á. (ætli Á hafi staðið fyrir Árelíus?), og Borgþór.

Ég var beðinn um að koma á framfæri ummælum sem ég viðhafði við kvöldmatarborðið og verð fúslega við því. Þannig er að mig langaði í Grísgrjónaréttinn góða sem er orðinn hálfgerð nostalgía í seinni tíð. Börnin eru nefnilega ekki hrifin af honum. Ég hugsaði með mér að ekki þýddi að miða eilíflega við langanir Snillings (6) og Undurs (2) þegar kvöldmatur væri annars vegar og eldaði ótrauður af metnaði. Þetta náttúrulega orsakaði mikinn kveinstafakór við matarborðið - klassískar hótanir og leiðindi á báða bóga og loks sagði ég þegar nóg var komið af jarminu: „Þú lætur eins og aumingi, karlinn minn." Skömmu síðar bauð ég uppá grjónagrautarafgang sem ég vissi af í kælinum. Því var vel tekið og Snillingur las síðan meira og betur en nokkru sinni áður upp úr lestrarbókinni sinni fyrir mig og við sofnuðum í miklum feðgafaðmlögum að loknum kvöld- og bænalestri. Æ, þessi börn lesa og þekkja mann svo miklu betur en maður gerir sér grein fyrir.

Pæling 1: Það er ég viss um að margur lætur þessi klassísku orð falla í fyrsta sinn á ævinni að lokinni sýningu Dúbba dúfu - the movie:
- Mér fannst nú bókin betri.-
Pæling 2: Ætli bloggið verði 17" ef ég fæ mér stærri skjá. Skammturinn virðist oftast passa á 15" hingað til - ómeðvitað að sjálfsögðu...

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Útsýni og skoðanir 

Mér líður vel í vinnunni þessa dagana. Alltaf nóg að gera en þó enginn sprengur og tvisvar til þrisvar á degi hverjum detta inn lítil textaverkefni. Kominn með ágætisverkfæri, kann það sem ég á að gera og veit hvert ég á að leita ef ég þarf aðstoð. Og samstarfsfólkið er til fyrirmyndar.

Það vantar bara sófakrók. Á tímabili vorum við sjö saman á skrifstofu og fastur liður á fimmtudögum var Betty sem einhver bakaði og síðan settust menn niður og snæddu yfir góðum umræðum. Á föstudögum var önnur umræða. Núna fer öðru hverju fram ágætt spjall en þá hangir fólk á skilrúmum hvert hjá öðrum og segir sig sjálft að heimsmálin verða ekki leyst við slíkar aðstæður. Einhver sagði að það væri nauðsynlegt að fólk í þróunarvinnu hefði gott útsýni því að 30% vinnunnar fælist í því að horfa út um gluggann.

Um daginn voru tveir vinnufélaganna að kaupa sér húsnæði og voru snöggir að. Maður var rétt búinn að frétta af því að þeir væru að leita þegar þeir voru búnir að festa sér húsaskjól. Annar er fluttur og ekki þrjár vikur síðan hann byrjaði... Þá rifjaðist upp ferlið við að eignast okkar íbúð.

Einhvern tíman taldi ég saman 53 íbúðir til sölu sem konan fór að skoða á þessum tíma og ég náði að sjá sirka helminginn með herkjum. Flestir hafa nú ekki nennu til að standa í slíkri leit að því rétta en samt sannfærist ég æ betur um að þetta hafi borgað sig, þótt vissulega hafi á endanum tilviljun ein ráðið því að við búum ekki núna á Mánastíg í Hafnarfirði heldur hér í utanverðum 101.

Þau tíðindi áttu sér stað í gær að Hrútarnir lögðu L**ds að velli heima, 2-0, og var það fyrsti sigur okkar manna í ein 18 ár gegn því sorglega leiðinlega félagi. Síðast þegar slíkt átti sér stað fóru mínir menn upp, en ekki gef ég neitt í skyn með því að nefna þetta. Hins vegar gleymi ég því aldrei þegar Derby stal meistaratitlinum af L**ds forðum daga. Leikmenn komnir í frí til Spánar og sátu við sundlaugarbakkann þegar fréttir bárust af því að Úlfarnir hefðu lagt L**ds öllum að óvörum og þar með tryggt sigur okkar. Ég var á leið inn í herbergið mitt heima í Nesinu þegar þetta kom í útvarpinu og varð ofsakátur.

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Vinur á válista 

Kunningi minn frá fornu fari er farinn að valda mér áhyggjum. Við höfum hist svo til á hverjum degi frá því ég man eftir mér, með hléum þó. Einu sinni var ég í vinnu hjá honum. Hann er reyndar oftast þunnur eftir helgar, greyið, en það fyrirgefst. Nú er hann farinn að tala við mig eins og ég sé hálfviti og því styttist í að hann verði gerður brottrækur af heimilinu.

Í gær tók staksteininn úr. Hann var að hæðast að auglýsingunni í NYT og lét út úr sér slíka steypu að maður átti ekki orð. Dæmi: „... íslenzk stjórnvöld settu landið aldrei á neinn lista þótt þau veittu Bandaríkjunum stuðning í Íraksmálinu. „Listinn" var eingöngu nöfn ríkja sem talin voru upp í fréttatilkynningu." Sem sagt tilviljun að Ísland var meðal ríkjanna sem nefnt var í fréttatilkynningunni. Annað: „...listinn, sem krafizt var að Ísland yrði tekið af, er ekki lengur til." Mikið er ég feginn, en af hverju? „Á listanum sem kom í staðinn, er nafn Íslands ekki að finna." Það sem ekki er verið að nota í ákveðnum tilgangi í augnablikinu er sem sagt ekki til. Þetta einfaldar vissulega sagnfræðina... Það er ég viss um að margur getur hreinsað samvisku sína á skjótan og öruggan hátt með svona lógík. Hvet ég fólk til að nota tækifærið meðan þetta er ráðandi stefna stjórnvalda.

Svo er klykkt út með því að fénu sem fór í auglýsinguna hefði mátt verja á annan hátt. Múhaha. Og
framsóknarmaður nokkur hefur þetta um peningaausturinn að segja:

„Á þeim tímum sem við lifum á, þar sem þúsundir farast í náttúruhamförum, þar sem þúsundir deyja vegna skorts á matvælum, hreinu vatni og lyfjum, þar sem eyðni leggur samfélög í sunnanverðri Afríku og Asíu í rúst, þar sem peninga sárvantar til hjálparstarfs, er athyglisvert að menn skuli hafa til þess samvisku að sóa peningum í rándýrar pennavinaauglýsingar í útlendum stórblöðum. Þessir peningar hefðu getað dugað til að bora brunna í Afríku. Þessir peningar hefðu getað greitt fyrir lyf og læknishjálp til þurfandi í sunnanverðri Afríku. Þessir peningar hefðu getað gert gagn í hjálparstarfinu vegna flóðanna í suðaustur-Asíu." [Leyfi mér að benda á skemmtilega vísun í Hallbjörn Hjartar í fyrsta hluta tilvitnunar]

Ef ég man rétt tók heimilið þátt í að birta auglýsinguna (og styrkti hjálparstarfið). Við settum í þetta hvort tveggja pening sjálfviljug. Svo ráðslaga aðrir með peninga frá okkur og velja að ráðstafa honum í öryggis- og sendiráð og -herra. Nei, takk eiginlega. Gaman að því annars að menn æsi sig yfir upphæð sem er jafngildi 1/6 af verði nýju eðalvagnanna fyrir aðalgaurana tvo.

Raunar var þrjú grönd búinn að segja þetta allt ...og þessi líka.

Veit annars einhver hvar maður sækir um að verða öryggissendiráðherra?

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Slysin gera ekki boð... 

Ein var að setja mig á lista hjá sér og þar geng ég undir nafninu: Ryksjúgandi fótboltamaður. Sáttur við það. Svo merkilegt sem það kann að virðast varð ég sjaldnast fyrir verstu meiðslunum í fótbolta meðan var og hét, heldur elti mig alls kyns fáránleg ógæfa og setti á sjúkralista. Braut reyndar handarbein þegar ég atti kappi við Bigga Skúla fyrsta sinni í fótbolta og tognaði og þess háttar.

Snemma á lokaári í MR fór ég í helgarfrí heim í Nesið og sá þar góðan skafl (að ég hélt) upp við hlaðinn steinvegg. Þetta varð mér tilefni til að æfa heljarstökk af veggnum, en þegar til kom reyndist skaflinn vera klakabunki og þar reif ég liðþófa. Samt hélt ég áfram að spila körfu nokkrar vikur en hnéð átti til að læsast og þurfti þá að lempa það úr lás með lagni. Á leið út í búð nokkru fyrir jól stökk ég yfir girðingu og í miðju stökki læstist hnéð og reif ég þar með hnéð endanlega úr sambandi. Þetta atvik varð til þess að stúdentsprófið mitt er skárra en á horfðist að loknum 7/8 af náminu. Upp frá þessu sneri ég nefnilega lífinu upp í lærdóm það sem eftir var vetrar og fór svo í aðgerð rétt eftir próf.

Nokkrum árum síðar (83) sleit ég liðbönd (að ég tel) við að hlaupa ofan Grímsstaðamúla, en þangað höfðum við nokkrir í RARIK kosið að ganga í matarhlé einhverju sinni. Slitið uppgötvaðist raunar ekki fyrr en mörgum mánuðum síðar og varð ekkert lát á sporti mínu.

Á þessum tíma var ég með slysatryggingu enda í áhættusömu starfi sem raflínumaður. Þótt ég færi langt með að eyðileggja axlirnar við að paufast með þungar þverslár og víra upp langa staura reyndi ekki á slysatrygginguna í því starfi. Axlirnar voru bara læknaðar með kortisónsprautum hægri vinstri. Hins vegar fór ég illilega í bakinu eitt sinn þegar ég var að ryksuga heima hjá mér og ætlaði heldur betur að fá út úr tryggingum, en þeir hlógu bara að mér og ég sagði upp. Viðkomandi tryggingafélag er ekki til lengur. Seinna varð ég fyrir sams konar meiðslum í Falun í Svíþjóð þar sem ég var staddur í bókabúð samankrepptur að skoða eitthvað í neðstu hillunni þegar ég skyndilega þurfti að hnerra. Úr leik í 4 daga.

Snillingur (6) fékk nefnilega legghlífar í afmælisgjöf og taldi þær heldur betur hafa bjargað lífi sínu á æfingu í gær. Ef hann væri nú í fiðlunámi og strengur slitnaði og lenti í auganu? Eru kannski fiðlunemar með sérstök hlífðargleraugu? Ekki að ég sé á móti fiðlunámi....

mánudagur, janúar 24, 2005

Mikilvægasta heimilistækið? 

Um daginn minnir mig að spurt hafi verið um örbylgjuofninn í Gettu betur. Spurning sem fyrrum nemendur mínir af bókasafninu hefðu átt að rúlla upp. Maður var mikið í því að leggja fyrir uppflettiverkefni til þess að æfa stafróf, þjálfa leitarhæfni og hugsanlega kveikja áhuga á ýmsum sviðum. Áðan las ég dálitla grein um nýjustu tækni og strauma varðandi neysluval í fjölmiðlun og þar var komið inn á sögu fjarstýringarinnar. Við erum með 5 slíkar í notkun á heimilinu, mismikilli að vísu, en ég get ímyndað mér að víða séu þær fleiri og gætu hugsanlega talist mest notaða heimilistækið hér og þar.

Varðandi sjónvarpstæki var það nú samt ekki fyrr en 1985 sem meirihluti slíkra var afhentur með fjarstýringu - 20 ár síðan. Í árdaga voru fjarstýringar þannig ljósstýrðar að sólarljósið eða önnur umhverfisbirta gat haft áhrif, og einnig var notast við hátíðnihljóð sem gerði hunda snarvitlausa en var utan við mennska tíðnisviðið. Nú er þetta orðið innrautt og stafrænt og fínt. Ætli þeir spyrji svo í Gettu betur 2025 um uppruna fjarstýringarinnar? (Verð að nefna að rannsóknir sýna að sáralítill munur er á fjarstýringarnotkun karla og kvenna, þannig að ykkur er vel óhætt að láta okkur karlana bara um þetta dömur mínar.)

Einn þeirra sem svaraði örbylgjuofnsspurningunni forðum daga er nú í íslenska handboltaliðinu í Túnis og hann kom skemmtilega við sögu í þessum æsilega jafnteflisleik. Sama hvað hver segir þá þykir manni dálítið vænt um þessa gömlu nemendur, en síst hefði ég trúað að Vignir Svavarsson ætti eftir að komast í landslið og gera það gott. Ljúflingur mikill, en virkaði alltaf heldur latur. Sannarlega samgleðst ég honum og maður skyldi aldrei vera of fljótur að dæma.

Stórleikurinn í gær var hins vegar í Lundúnum, nánar tiltekið á Upton Park. Mínir menn með fjórða útisigurinn í röð. Ekki skil ég hvers vegna West Ham virðist eiga sér fleiri stuðningsmenn en Derby, miðað við mætingu á knæpuna en alltaf verður þó sigur sælli í drjúgum hópi andstæðinga. Hehehe. Pólski símastaurinn með seventies klippinguna gerði tvö lagleg.

Það dregur dilk á eftir sér þetta kóraskemmtikvöld. Nú er Eggert Ólafsson, eftir Sigfús Einarsson kominn á lagalista fyrir barnasvefninn, en er þó ekki skrýtnasta dæmið á þeim lista. Sennilega er Bereite dich Zion úr Jólaóratóríunni hvað undarlegast (maður verður nefnilega að syngja hljómsveitarpartinn líka). Aldrei kvarta þó börnin, en Snillingur (6!) er þó búinn að koma sér upp kerfi. Þannig er að hann vill halda í hönd manns eftir að lestri lýkur og hafinn er bænalestur og söngur. Þá getur hann nefnilega kreist ef Faðirvorið er orðið að steypu eða maður lognast útaf í einhverju lagi miðju...

sunnudagur, janúar 23, 2005

Í hillum mínum 

Stundum kem ég inn á heimili hjá fólki og sé varla skræðu í hillu og allt eitthvað svo mínímalískt að eina hillan státar af einum kertastjaka eða svo. Aðrir hafa kannski tekið þetta trend með ljósmyndavegginn svo alvarlega að heilu fjölskyldualbúmin þekja alla veggi. Þetta er dálítið tilviljanakennt hjá okkur.

Plássið hér er ekki sérlega mikið og tölvan er í kompu þar sem eru 14 sneisafullar hillur af bókum, ljósmyndum og ýmsum pappírum. Þetta eru í grund og bund: Nótur, matreiðslubækur, orðabækur, leiðsögubækur, og áhugamálabækur, í þessari röð eftir fyrirferð og fjölda. Við kaupum orðið ekkert af skáldritum en nokkrir kassar eru einhvers staðar fullir af vasabrotsbókum.Svo eru 25 möppur fullar af gömlum glósum, nótnaljósritum, tímaritum, úrklippum og slíku drasli. Jæja.

Tími til kominn að taka til. Fyrir nokkrum árum gerði ég skurk í lausanótum og bjó til fullt af plastgormabókum. Þá varð til ein uppáhaldsbókin mín: Húnabókin mikla. Bókin sú inniheldur 53 texta við ýmis alþekkt lög og er frá kennaraárunum. Þá vorum við nokkrir í drengjasveit sem flutti eingöngu skemmtivísur og tróð upp í samkvæmum og afmælum. Tveir gítararar, egghrista og 4-6 raddir. Ýmist var aldrei æft fyrir þessar uppákomur eða einu sinni. Þetta voru partílög lífs míns og sum hver löngu klassísk. En ég held að þessi partílög í kórum geti aldrei orðið til nema af sjálfu sér...

Nú er vá fyrir dyrum á mörgum heimilum. HM í handbolta framundan og vissara að fara varlega í æsing og áhuga þar sem viðkvæmar sálir og áhrifagjarnar gætu fengið áhuga á furðusportinu handbolta. En eftir tæpan klukkutíma liggur leiðin enn og aftur á subbuknæpu í sunnudagshádegi því að mínir menn verða í varpinu þar. Quality time.

laugardagur, janúar 22, 2005

... og allir fyrir einn 

Kórinn minn tók þátt í samkundu nokkurra kóra í gærkvöld þar sem mikið var sungið. Að vanda var atriði míns kórs fjarskalega misheppnað enda á kórinn sá engin „partílög", eins og G. Ben orðaði það. Við fluttum einhver tvö lög, lítt æfð og illa sungin, en stemningin var fín. Þetta minnti mig á línudansinn sem ég sýndi á einhverri skemmtun með fyrsta kórnum mínum og Heimsumbólið sem ég tók þátt í að syngja á litlu jólunum þegar ég var í landsprófi.

Samt - þarna steig á svið Elías Davíðsson, sá ljúflingur sem menn eflaust muna margir fyrir Ísraelsumræðuna hér áður fyrr, og einhverjir e.t.v. út af tónlistarkennsluefni. Hann flutti sólóatriði með litlu nikkuna sína og sló í gegn syngjandi notalega franska harmonikkutónlist frá því fyrir stríð. Kannski maður ætti að fá karlinn til að segja sér til? Ég á trotz allem eins harmonikku og get vel hugsað mér að læra að nota hana í annað en undirspil við álfabrennusöng. Hann er vitanlega séní hann Elías, frumherji í tölvumálum á Íslandi sem starfsmaður IBM, en ákvað að helga sig frekar músík og heimsmálum. Svona týpa sem er of mikil manneskja fyrir þennan ljóta heim.

Þar sem enginn les þetta get ég látið í ljósi efasemdir mínar varðandi African Sanctus. Og það þótt sjálfur höfundurinn hafi tilkynnt komu sína og þátttöku í uppfærslunni. Ég vil bara J.S. Bach og hananú, eða þannig. Það er næsta víst að margur mun skemmta sér virkilega í Neskirkju 12. feb. enda læti og stuð og óvenjuleg samsetning á ferðinni. Ég verð með hugann í Jóhannesarpassíu í Langholtinu en hef ekki tíma í það dæmi. ´Just let me hear some of that baroque and roll music.´

Þorsteinn J er svona kammó fýr sem dúkkar alls staðar upp. Viltu vinna milljón - rekinn! EURO 2004 - því lauk og nú er hann kominn í bókaþátt í RUV. Ég var að vinna handavinnu í gær í vinnunni og skutlaði síðasta þætti af stað á vefnum. Þetta reyndist hin dægilegasta hlustun og eiginlega engin ástæða til að hafa þetta í sjónvarpi, ekki frekar en Gettu betur. Engin. Ég þarf ekki að sjá fólk tala, en það er dandaragaman að heyra skemmtilega umræðu eða spurningaþátt meðan maður vaskar upp eða raðar saman hjálparskrám eða burstar skóna sína eða eitthvað.

Reyndar hlustaði ég líka á Óskalög aldraðra sem kallast Óskastundin, en það er besta leiðin til að sannfæra sjálfan sig um að maður sé frábær söngvari í himneskum kór. Í Óskastundinni heyrir maður nefnilega hrikalegasta flutning og lagasmíðar sem í boði eru hér á landi. En alltsaman svo gasalega huggulegt og einlægt að maður tárast trekk í trekk.

Þetta er einn glimrandi kostur við netvæðingu fjölmiðla og adsl - maður stjórnar flestu sjálfur.Hvenær/hvort maður hlustar á Hlaupanótuna frá í gær, horfir á sjálfsmark Púllaranna úr fréttatíma frá í fyrradag, hlustar á stórgóða klassíska útvarpsstöð í Hamborg/London/Stokkhólmi eða heilsar uppá gamla kunningja í Q107 Rock Radio í Toronto. Svo er skemmtilegur þáttur á netinu sem heitir Fallegast á fóninn eða eitthvað svoleiðis. Þetta er náttúrulega borðleggjandi fyrir fólk sem vill geta haldið sinni rútínu með börnin, vinnuna og heilsuræktina og ekkert mál í mínu tilfelli þar sem ég get oftast verið í eigin headfónaheimi í vinnunni og stundum á kvöldin.

Áðan gáði ég að því hvað ég var að tala um fyrir ári og komst að því að enginn las þá stafkrók af þessu. A.m.k. voru kommentin innan við eitt á mánuði. Samt var þó betur gert að ég held en það sem nú birtist.

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Hvaða rígur? 

Allt kolvitlaust út af úrslitunum í Gettu betur í gær. Bráðfyndið hvað menn taka þetta nærri sér og sumir nota tækifærið til að hella sér yfir MR, ja eða t.d. Versló. Epli og appelsínur. Á mínum tíma varð ég ekki var við ríg milli einhverra skóla enda ekkert Gettu betur og ég hvort sem er alger utangarðsmaður í MR. Ég heyri aldrei né sé þessi gömlu skólasystkin mín og held engu sambandi við þau; einn þeirra býr hér í næstu götu hér. - Frú mín fögur er aftur á móti í MR saumaklúbb og hefur metnað fyrir hönd gamla skólans.

Hvers vegna var ég svona utanveltu?
a) utanbæjarmaður
b) yngri en flestallir hinir
c) æfði körfu með ÍR og fótbolta með Skallagrím (en ekki KR eða Val) og var þar að auki í fornmáladeild þar sem ekki tíðkaðist að vera íþróttamaður, þ.a.l. ekki í íþróttaklíkunni
d) lítið samkvæmisljón, en átti góða félaga í ÍR

Svo að ég vann mér ekkert til frægðar þarna. Var, jú, varadingaling Scholaris á fyrsta ári og tók svo sem við þessu hringjarastarfi þegar sessunauturinn smámsaman hvarf úr námi. Þarna hafði ég hins vegar fína kennara upp til hópa og þykist búa vel að því sem ég lærði. Seinni tvö MR árin bjó ég nákvæmlega beint á móti MH en aldrei hvarflaði að mér að færa mig þangað. Gleymum heldur ekki að stóra systir mín og verndari alla tíð var þarna árinu á undan mér og frá henni fékk ég vandaðar glósur af þeim sviðum sem við áttum sameiginleg í lærdómnum... Ég sé alltaf eftir því að hafa ekki farið í ljósmyndaklúbbinn, en ég átti nú reyndar enga myndavél.

Kannski verð ég einn daginn harður MR-ingur og þann sama dag harður KR-ingur og sæki jafnframt um inngöngu í karlakór. Maður má aldrei loka á neitt.

Hér áður fyrr kom oft fyrir að maður sá og heyrði vissar tegundir bíla og ökumanna á ferðinni með vélina öskrandi á fullu án þess að druslan kæmist mikið áfram. Þetta voru gjarna Lödur eða Fiatar. Kannski eru svona bílar enn í notkun í Írak ef marka má þessa frásögn frá Tal Afar. Fjölskyldan að rúlla heim í ljósaskiptunum og bíllinn eitthvað leiðinlegur, eða pabbinn bara lítið fyrir að skipta niður eins og sumir voru og eru. Svo á einu augnabliki er fjölskyldan ekki lengur til - bara fjögur munaðarlaus börn - pabbi
bókstaflega skotinn í spað í okkar nafni og mamma líka drepin. 39% fylgi við aðgerðir í Írak í USA samkvæmt síðustu tölum.

Þeir voru að setja Bush í embætti í dag.



miðvikudagur, janúar 19, 2005

Sögulegar sættir 

Einmitt þessa stundina hlýt ég að vera sérlega gáfaður; fann það raunar þegar ég hlustaði á Gettu betur í kvöld að með mig innanborðs hefði MR lagt Borgó. Tímabundnar gáfur skrifast á fiskát dagsins, því að í hádegi var klassískur plokkari og áðan ofnbakaður með grjónum. Hver hefði trúað því að ég ætti einhvern tíma eftir að fagna fiskmáltíðum sem sá mig fúlsa við soðningunni á bernskuárunum. Þrátt fyrir sögulegar sættir við fisk er ég þó lítt exótískur í tegundavali og hef jafnvel snúist gegn rækjuáti í seinni tíð, og rauðmagi mun aldrei fara inn fyrir mínar varir. Ein sterkasta Patróminningin lýtur að því þegar ég úðaði uppúr mér þeim ljóta fiski yfir eldhúsið heima, sennilega fjögurra ára gamall.

Í þessari heimasíðuvinnu minni fer ég víða til að fá hugmyndir og af einhverjum völdum vísaði Google mér inn á
kostulega ritsmíð Hrafns Gunnlaugssonar um vinnubrögð hans í leikhúsi, aðallega leikstjórnarvinnu við Endatafl.. Þetta virðist vera falin síða því ekki tókst mér að finna hana gegnum heimasíðu kappans. Hvað um það, þarna kemur fyrir eftirfarandi setning:
„Ég kem helst ekki inn í Þjóðleikhúsið núna; það er eins og hús sem sálin hefur verið slitin úr."
Þessi skrif eru sjálfsagt eldgömul hjá kauða, en í ljósi núverandi stöðu mála í Þjóðleikhúsinu eru sögulegar sættir borðleggjandi og hver veit nema hann snúi aftur sem leikhússleikstjóri. En ekki mun ég taka heimasíðuna hans mér til fyrirmyndar hvað sem öðru líður.

Við fáum Fulham heima í bikar og ég fagna því. Heiðar djöfull Helguson er búinn að skora 3 eða 4 mörk gegn Hrútum í vetur og engin ástæða til að gefa honum færi á að gera fleiri. Í einum af mínum seinustu leikjum í alvörubolta var verkefnið að passa 16 ára gaur sem elti allt og sparkaði í það. Þetta var á Dalvík og gaurinn var Heiðar. Við unnum 6-1 og ég skoraði að ég held síðasta mark mitt í deildarkeppni. Svo er full ástæða til að sýna Fulham í tvo heimana þar sem þeir hafa eitthvað verið að bera víur í markmanninn okkar góða.

Þeir segja að hann fari að rigna um eða uppúr helgi. Þá fer allt á flot enda svörður freðinn. Mér er oftast sama um frostið en tvennt pirrar:
a) ekki hægt að þurrka þvottinn úti
b) neglurnar verða ógnarbrothættar og hendurnar eins og handrit af fornsögum.

Nú bíður hins vegar nýr Rebus...

Villi át dómarann! 

Fótboltavallarkakan í afmæli Snillingsins (6) dugði oní 11 stráka og nokkra aukagesti, og pizzurnar gengu vel út. Ég kom nú ekki heim fyrr en langt var liðið á veisluna fyrir strákana úr bekknum og þá var megnið af þeim úti í garði í hörkufótbolta í gaddinum, einn hafði farið fram á að horfa á spólu og tveir voru í bílaleik. Svo var skipt inn og út úr bolta en fótbolta léku þeir hörðustu fram í myrkur og allt fór vel fram. Talið er að Þróttarinn Villi hafi etið dómarann af kökunni.

Nágrannasysturnar frábæru birtust á glugga undir lok veislunnar og gengu að sjálfsögðu í bæinn. Talið er að önnur þeirra sé með eins konar innbyggðan veisluradar enda vart sú veisla haldin hér á bæ að hún láti ekki sjá sig. Systurnar eru slíkir ljúflingar að enginn tók eftir því að þær væru mættar.

Það er nú erfitt að verða ánægðari með börnin en maður er nú þegar.Um daginn fór familían í svokallað ædolboð sem snýst um að 4 fjölskyldur með krakka á svipuðu reki hittast, borða, skrafa, borða og fá sér svo nammi og svo er ædol í sjónvarpinu eins konar hápunktur, en ég fer heim þegar það er að hefjast, enda ekki áhugamaður um þáttinn. Eftir síðasta boð fregnaðist að börnin mín hefðu verið þau einu sem ekki horfðu á ædol - kusu frekar að vera inni í herbergi að leika sér. Úha!

Skyldi vera hægt að nota heimabíó sem hljómflutningstæki heimilisins? Lýsi eftir svari, fávís maðurinn ég. Eða ætti maður að fá sér græjur með innbyggðum móttakara sem tekur þráðlaust við efni úr tölvu og spilar? Eða ætti maður að láta fermingartilboðstækið frá 2001 duga enn um sinn þótt það spili ekki hvaða diska sem er?

Á kóræfingu í gærkvöld lýsti ein konan (alt) því yfir að karlmenn ættu gott því að þeir ættu ekki við stöðuga áhyggjuþörf að stríða. Eða sagði hún e.t.v. ábyrgðarkennd...

þriðjudagur, janúar 18, 2005

3x16" í 12 stráka? 

Ætli það dugi ef líka er afmæliskaka dulbúin sem fótboltavöllur og bananakaka? Strákarnir eru sex ára og pizzurnar hálfheimatilbúnar. Ég varð að svindla á deiginu og kaupa í Björnsbakaríi vegna tímaskorts. Ég segi að þetta dugi. Svo lagði ég talsverðan metnað í að útbúa völlinn með tveimur hlaupkallaliðum: Á öðrum kantinum liggur t.d. einn afvelta eftir tæklingu og dómarinn er svartur hlaupkall sem er miklu stærri en hinir. (Reyndar eru línurnar lakkrísreimar sem skemmir raunsæisbraginn á þessu.) Á morgun koma 11 strákar heim til sín síðdegis, fagurgrænir kringum munninn eftir að hafa hámað í sig völlinn góða og kannski segja þeir: Pabbi, við höfum fótboltavallarköku í næsta afmæli, er það ekki?

Ég impra stundum á því hér heima hve lífið væri einfalt ef barnaafmæli væru barnaafmæli án foreldrapakkans. Pakkinn sá kallar á allt annars konar veitingar; jafnvel svokallaða „rétti" og vandaðar marengstertur. Svo kemur að því að ekki eru nein barnaafmæli lengur og þá fer maður sjálfsagt að sakna þeirra... Snillingurinn verður sex ára í dag og bekkjarbræðurnir mæta. Ég átti afmæli utanskóla (eins og skólaárið var þá) og við fórum oft í berjamó af því tilefni held ég. Ekki man ég hvort voru veislur.

Annars gerði ég góða ferð í bókasafnið og náði í þennan venjulega 12 bóka skammt - 6 barna og 6 fullorðins. Ég er alveg sáttur við að setja skattpeninga í bókasafnið, en er hugsanlega á því að megi fara að bremsa á ýmsum öðrum sviðum. Nú er svo að við feðgar erum sennilega vel yfir meðallagi hvað varðar notkun íþróttamannvirkja. Ég er t.d. í sporti 4x í viku yfirleitt og er samt bara að leika mér. Í þessum leik nota ég einn minnsta sal landsins í Lækerskörfubolta og svo er hádegisfótbolti vikulega í Fífunni, einhverju mesta gímaldi landsins. Í gær spiluðum við þar 4 á 4! Enginn að nota húsið fyrir okkar tíma eða eftir. Oft kemur fyrir að Lækershópurinn telur 8 eða fleiri og síst minni hreyfing sem af því fæst í því nestisboxi sem sá salur er miðað við Fífuna.

Hugsanlega talar hér bitur miðaldra sportari sem eyddi hálfum ferlinum á malarvöllum, skrámaður og skældur, en horfir nú uppá fordekraða sparkara sem hreyfa sig helst ekki nema fyrir marga þúsundkalla og þá alls ekki utandyra að vetri til nema erlendis sé... Umræðan sem opnaðist lítillega í haust út af Grindavíkurmarkmanni og Fylkismönnum var forkostuleg. Einn kom í miðlana og sagðist eyða 900 tímum í spark á ári og þyrfti að selja sig á ákveðnu verði til að réttlæta þennan tíma gagnvart fjölskyldunni. Hvað skyldi kosta að fá hann til að hlaupa nakinn niður Laugaveginn til þess að það væri réttlætanlegt gagnvart fjölskyldunni? Annað hvort eru menn til sölu eða ekki! Það er lágkúrulegt að blanda fjölskyldunni inn í slík mál.

mánudagur, janúar 17, 2005

Einu sinni rerum... 

Fyrstu fimm árin mín í heimi hér bjó fjölskyldan á Patró og ég man ekki sérlega mikið frá þeim tíma. Óljóst rámar mig í skipsferð til Reykjavíkur með Esjunni; einhverja sumarnótt fór ég með Ólöfu Hildi systur og verndara mínum til Ingu í Sigurðarhúsi af ástæðum sem eru löngu gleymdar; ég fékk gat á hausinn við einhverjar fimleikaæfingar á grindverki og svo stjórnaði pabbi karlakórnum. Ég fékk það staðfest fyrir nokkrum árum að Einu sinni rerum er karlakórslag þegar ég heyrði Lögreglukórinn flytja það í Hafnarborg á konsert þar sem ég var lánsbassi í öðrum kór.

Ég man sem sagt eftir þessu lagi frá Patró. Mamma var í æsku minni feikidugleg að halda sýningar þar sem farið var gegnum slædsmyndir úr sögu fjölskyldunnar og þá urðu til einhverjar minningar, aðallega um sólríka daga sem annars væru gleymdir.

Við Undrið (2) vorum ein heima dálitla stund í dag og hún var venju samkvæmt upptekin við að læra hreyfisöngva meðan ég mókti aðallega yfir fótbolta í öðru sjónvarpi. Öðru hverju kom hún siglandi til að ná í mig til að dansa við sig fugladansinn þar sem nauðsynlegt er að dansa við partner í því lagi. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að syngja fugladansinn fyrir svefninn því að hvort tveggja er lagið leiðinlegt og kallar á hreyfingu sem ekki er æskilegt þegar fólk er á leið inn í draumalandið. Kórinn minn syngur tónlist sem er þess eðlis að maður a) lærir fátt utanbókar og b) það passar ekki á svefnlagalistann.

Nú er svo að við erum með Mýsnabókina [sic] og Fljúga hvítu fiðrildin í fullum gangi þannig að af ýmsu er að taka. Samt hef ég æ meira snúið mér að þessum gömlu íslensku og Einu sinni rerum er á þeim lista, auk laga á borð við Kindur jarma í kofunum, Undir bláum sólarsali, Kvölda tekur, Austan kaldinn og Þú vilt vera, ég vil vera, allir vilja vera í FH. Ef þú lest þetta Sigga Beinteins vil ég leyfa mér að benda á þennan frábæra tónlistararf fyrir Söngvaborg 4 sem hlýtur að vera í burðarliðnum. Börn eru fordómalaus og kunna gott að meta - það þarf ekki að gefa þeim plast meðan nóg er til af gulli. Hvernig væri að taka t.d. gamla ýkjukvæðið Karl og kerling (Lag - Undir bláum sólarsali...) þar sem koma fyrir ein níu rímorð við eyddi.María Björk getur verið kerlingin í laginu og þú karlinn, eða mér er sama hvernig þið hafið þetta. 11. erindi er svona:

Kerling þurfti ketil að vanda
kaus hún Heklu sjer til handa;
þurfti og við þvott að standa,
um Þingvallavatn hún beiddi - Kerlingin eyddi.
Mörg kvað ekki mein sjer granda,
mætti hún það fá - og hló.
Kerlingin eyddi, en karlinn að dró.

Kvæðið í heild sinni, þótt grínaktugt sé, býður uppá umræðu um trúarbrögð, landafræði, landbúnað, gamla matarhefð og samskipti kynjanna, auk endalauss misskilnings. Hvað gerist það betra.

Hafiði annars heyrt að Elvis var í Ölveri um helgina? Tjéllingarnar víst viti sínu fjær...

Mér varð litið á teljarann og þar er komið yfir 5000. Fyrsta síðan mín, sællar minningar, sem ég bjó til sem prufu fyrir vefsmíðakerfi í vinnunni náði þessum fjölda á rúmu hálfu ári eða svo, enda fersk, fyndin og þess eðlis að áhrifamiklir menn þurftu nauðsynlega að skoða hana reglulega til þess að fylgjast með gengi sínu á vikulegum æfingum. Sú síða dó er vinnan mín afsameinaðist og ég lenti hjá þeim aðila sem ekki var með vefsmíðar á sinni könnu. Verst að þar hurfu að eilífu pistlar og kveðskapur sem hvergi var til annars staðar.

föstudagur, janúar 14, 2005

Heppin með veður? 

Í gær var ég eitthvað að minnast þess að nú eru 19 ár síðan ég flutti til Noregs sem fótboltamaður. Maður dugði nú bara í 3. deild þar og engin atvinnumennska á ferð. Þeir borguðu flug og sáu til þess að ég fengi vinnu og leiguhúsnæði. Mikið assgoti var þarna kalt, fannst mér.

Þeir voru með hitamæli við æfingavöllinn og ef frostið var innan við -20°C í upphafi æfingar þótti í lagi að æfa. Mér var fljótlega bent á að fara með takkaskóna í íþróttabúðina til neglingar! -Fy faen, sagði ég, -hvað eruð þið að meina? Jú, þarna voru skór negldir á nákvæmlega sama hátt og bíldekk því að yfirleitt var yfirborð vallarins harðfenni eða klaki með örþunnu malarlagi og þótti þetta svo góðar aðstæður að önnur lið sóttu í að fá að æfa þarna. Má geta nærri að sumar tæklingar urðu blóðugar og enn sjást forn ör á ökklum eftir aðfarirnar.

Frost var iðulega komið niður í -23-25°C í lok æfingar og innan viku sá ég fram á að þurfa hlé á æfingasókn þar sem neglur á báðum stórutám voru orðnar kali að bráð. Þá fékk ég vinsamlega ábendingu um að fá mér hníf og bora á þær gat til þess að tappa af vökva og halda svo bara áfram eins og ekkert hefði í skorist. -Þið eruð klikkaðir, hugsaði ég, en gerði auðvitað eins og mér var sagt. Mest varð frostið -33°.

Á öðrum degi varð mér ljóst að ég þyrfti að læra á kamínuna í stofunni og einhvern veginn nálgast eldivið. Ég impraði á þessu við Morten búningastjóra liðsins og á þriðja kveldi í Noregi birtist vörubíll með fullan pall af spýtnabútum sem höfðu fallið til í timbursölunni hjá honum. Þessu var nú sturtað þarna í garðinn og forðinn kláraðist reyndar á þessum rúmu tveimur mánuðum sem eftir voru til vors

Síðasta verkið á kvöldin var að stinga mótorhitaranum í samband við til þess að bíllinn færi í gang að morgni en alvörufólk var vitanlega búið að koma sér upp sjálfvirkum búnaði sem sá um slíkt. Kosturinn við veðrið var að manni var eiginlega aldrei kalt því að það var aldrei vindur. Svo snjóaði á ca. tveggja vikna fresti þannig að allt varð aftur hvítt og maður gat auðvitað ekki annað en farið að stunda skíðagöngu af eldmóði. Maður gat komið sér á skíðin við útidyrnar og gengið í troðinni slóð svo lengi sem maður vildi.

Svo komu hinar öfgarnar. Fyrst bjó ég þar sem háttaði svo til að trén í garðinum svignuðu undan eplum síðsumars, en í seinni bústað mínum var jarðarberjaakur beint utan við eldhúsgluggann. -Þú nælir þér bara í ber þegar þér sýnist, sögðu húsráðendur. Svo komu á haustin Pólverjar að tína í akkorði - einstakt prýðisfólk. Hitinn fór þarna upp í 33° og þá var ekki gaman að æfa fótbolta, en mestallt sumarið var einkar notalegt veður í minningunni.

Það fer að verða tímabært að renna þarna við á ný.

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Nefnilega 

Þeir töluðu mikið um mannanöfn í fréttunum í gær og þá sá ég hve það getur verið viðkvæmt að ræða svona hluti. Allir þekkja eflaust einhvern sem heitir óvenjulegu nafni og ekki fallegt að gera að slíku grín, enda fer oft svo að þessi nöfn venjast og ég sem kynntist nú margvíslegum samsetningum í skólanum varð ekki var við að nöfnin gerðu börn betri eða verri. Nema hvað Ísakar voru undantekningalítið ódælir. Tilviljun.

Oft hef ég varið stúlkunafnið Kría sem sumum finnst fáránlegt en mér alls ekki. Það er samt hægt að leika sér með þetta og búa til samsetningar að gamni sínu, en ekki rakst ég á kunnugleg nöfn úr erlendum íþróttum, menningu og listum við lauslega athugun á stúlknanöfnunum.

Menn þekkja núorðið fjölda dæma um skemmtilegar samsetningar, Líf Vera, Björt Nótt og þess háttar og því e.t.v. í bakkafullan læk að bera. En stundum virðist eins og heildarhljómur og merking samsetningarinnar gleymist: t.d. Von Dara, Agna Rögn, eða Odda Tala (fyrir stærðfræðinga), Mýra Borg, Brák Arey eða Snorra Þula (fyrir Borgfirðinga og Mýramenn), Vanda Málfríður (fyrir sálfræðinga), Munda Boga (fyrir veiðimenn), Birta Mörk (fyrir íþróttafréttamenn), Tea Sía, Sólbrún Bera, Karla Þrá, Gógó Mey, Sölva Tína, Selja Sigdóra, Rán Dýrborg, Ylja Rún, Njóla Þúfa. Nú er nóg komið en allt beint úr skránni.

Nýtt mál á dagskrá er umsjón heimasíðu kórsins míns, sem er fremur fátækleg og öldruð. Enn er ég rétt svo að komast af stað þannig að verkefnið er ærið. Svo er ég búinn að fá nýjan síma sem ég kann ekkert á en hann er nú ekki merkilegri en svo að maður getur ekki slegið inn á hann tónlist eftir nótum eins og ég lærði fyrst af öllu á gamla sorrý Grána.

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Enn um nöfn 

Mér finnst svo gaman að velta fyrir mér nöfnum og skoða reglulega mannanafnaskrána okkar. Þar bætist stöðugt við og gerist æ auðveldara fyrir fólk að velja sér skemmtilegar samsetningar í nöfn á börnin sín.

Nú er til dæmis hægt að setja saman fullt af íþróttastjörnum: Ríó Ferdinand, Edvin Móses, Martin Max, og Patrik Bergur, eða tónlistarhetjur á borði við Lars Ulrich, Þorra Amos og Marvin Geir. Ekki má gleyma kvikmyndastjörnum svo sem Richard Príor og Alexíus Baldwin. Fyrir matarspekinga vil ég benda á Parmes Andra, og drykkjumenn, Per Nóa. Allt nöfn úr mannanafnaskrá. Eitt af nýju nöfnunum er Elvin en það hlýtur að vera prentvilla og á örugglega að vera Elvis, kónginum til heiðurs sjötugum.

Atlas Tindur og Sigur Bogi eru nýjungar, en möguleikarnir eru endalausir og ekki lengur bundnir við Leif Arnar og Brand Ara. Ég nefni nokkur nöfn til hagræðis fyrir nýorðna og verðandi foreldra sveinbarna: Ögri Fólki og Þjálfi Víðar (hefði passað á Gauja Þórðar), Mars Ari (fyrir dansáhugamenn), Ölver Loki (fyrir bindindispostula), Beitir Vopni og Kaldi Karl (fyrir handrukkara), Hafnar Brimi (fyrir sjómenn), Haki Skafti (fyrir grafara), Dan Kort (fyrir verslunarmenn), Hjarnar Viðar og Saxi Lýtingur (fyrir lækna), Skefill Skeggi (fyrir rakara), Gerðar Dómald (fyrir samningamenn), Ómi Hreinn (fyrir tónlistarmenn), Hraunar Bolli (fyrir jarðfræðinga), Búi Engill (fyrir presta), Skíði Skúta (fyrir útivistarfólk), Neptúnus Geisli (fyrir stjörnufræðinga), Finn Ástvin (fyrir björgunarsveitarmenn), Stormur Austar (fyrir veðurfræðinga) Gutti Heimir (fyrir aðdáendur Stefáns Jónssonar) og loks Viðar Brestir (fyrir smiði). Löggild drengjanöfn alltsaman. Stúlkunafnaábendingar síðar.

Annars spurði mig Snillingurinn (5) um daginn hvort maður nokkur sem þá var í Kastljósi héti virkilega Illaugi, og hvort það stafaði af því að hann væri með ill augu. Ónei, ég hafnaði þeirri kenningu og sagði sem var að þetta væri pabbi hans Ísleifs úr KR og nú ætlaði hann að fara að stjórna útvarpsstöð. Ég verð til í að hlusta á þá stöð.

Í fyrradag sýndist mér ég sjá Kjartan Gunnarsson sjálfstæðisforingja í einhverju hlutverki þá stuttu stund sem ég staldraði við Myrkrahöfðingjann. Þetta fékkst staðfest í gömlum Badabing,
en ekki var þó karlinn í titilhlutverkinu. Sennilega ekki nógu hátt settur í flokknum til þess. Annars met ég við Kjartan að hann á jafnan einhverja smekklegustu jólagarðskreytingu vestan lækjar - gríðarveluppsetta seríu í fagurlimuðu tré í garði sínum - og logaði enn á henni í gærmorgun sá ég. Það er djobb fyrir körfubíl og tvo karla að setja þetta upp og taka niður.

mánudagur, janúar 10, 2005

Póstkortin 

Maður kom ansi víða við á ferðunum sem fótboltamaður en það var lítið um útsýnisferðir á þeim túrum. Oftast brunað/flogið á staðinn, spilað og síðan þrusað heim á leið á ný. Svo kom í ljós eftir að ég varð leiðsögumaður að Landmannalaugar eru ekki með lið í deildakeppni, hvað þá Dettifoss eða Hveravellir. Asskolli hvað þá var gott að hafa fróða og gagnlega bílstjóra sér við hlið til að leiðbeina.

Eftir fyrsta sumarið í gædinum þóttist ég fær í flestan og hló mikið þegar myndin um Agnesi kom fram á sjónarsviðið. Þar var eitthvert lið að ríða á milli bæja í Húnavatnssýslu og svei mér ef því tókst ekki að koma við undir Eyjafjöllum, í Landmannalaugum og í Ásbyrgi á leiðinni. Eftir þetta ágæta ferðalag hefur mér reynst erfitt að horfa á íslenskar kvikmyndir með því hugarfari að fylgjast með sögu eða atburðum. Ég er sífellt að glápa á náttúruna og fylgjast með því hvar mennirnir eru að filma. Svona póstkortaleikur.

Því fór ég í geymslutiltekt í gærkvöld meðan boðið var uppá tvöfaldan skammt af íslenskri forneskju á RUV. Meginniðurstaðan úr þeirri vinnu verður væntanlega að margir fá á næstunni fullt af fötum gefins og nú þegar er orðið fært inn í geymsluna sem áður skorti á.

Enginn fótbolti í sjónvarpi um helgina en við komumst samt áfram í bikar í fyrsta sinn frá því 1991! Á morgun ku verða sýnt frá varaliðsleik á einhverjum öldurhúsum en því leyfi ég mér að sleppa.

sunnudagur, janúar 09, 2005

Handyman 

Af öllum mínum furðulegu störfum um ævina er ekkert sem kemst nærri því þegar ég réð mig sem eins konar húsvörð hjá manni nokkrum. Sá kvaðst ómögulegur til verklegra framkvæmda og fékk mig því til að kippa í lag ýmsu á heimili sínu sem þurfti að laga. Perustæði, póstkassi, kjallaragluggi og rúm var meðal þess sem ég kippti í lag hjá honum. Ekki man ég hvernig hann fékk þá einkennilegu hugdettu að ég væri rétti maðurinn í þetta, en vissulega tókst mér að klára það sem mér var falið.

Því rifja ég þetta upp að nýlega tók ég fram stjörnuskrúfjárnið uppi í vinnu og víxlaði skrám á hurðum. Á minni hæð var lengi búið að vera vandamál að skráin small í lás óforvarendis og þar sem ég sit næstur innganginum þurfti ég oftar en ekki að rjúka til og opna. Auðvitað var ég búinn að tilkynna vandamálið á réttan hátt en ekkert gerðist. Því fór ég og tók skrána úr mjög lítt notaðri hurð og setti hjá okkur við mikinn fögnuð nágranna minna á hæðinni.

Þessi atburður varð m.a.s. einum félaga mínum hvatning til að laga einhverja bilaða skrá heima hjá sér og sannast þar með að oft þarf lítið til. Í gær tókst mér síðan við ekki minni fögnuð að ná upp hita í miðstöð fína bílsins á heimilinu eftir að frúin var næstum frosin í hel á leið í og úr Breiðholti. Ekki þurfti mikla tækniþekkingu né vit til þess. Sennilega er alltof auðveld leið framhjá ýmsum þessum smávandamálum að maður gefi sér að það sé manni ofvaxið að leysa þau. Ótrúlega oft felst lausnin í því að reyna, að láta vaða, ef maður bara passar að öruggt sé að vandinn versni ekki ef ekki tekst að finna leið og passi jafnframt að ekki hljótist skaði af.

Undrið (2) tók upp á því að ulla á foreldra sína í gær og ögraði nokkuð grimmt á þennan hátt þar til að ég hótaði að taka úr henni tunguna ef hún héldi þessu áfram. Eins og hennar er vandi til þurfti hún endilega að prófa enn einu sinni að ulla og ég reif í tunguna og hélt fast í (uppskar vissulega nokkuð beitt augnaráð frúarinnar fyrir vikið) þar til sú stutta fór að væla. Hún ullaði ekki meira það sem eftir var kvölds og varð ekki meint af tungutakinu. Hvers virði eru hótanir ef ekki er staðið við þær?

föstudagur, janúar 07, 2005

Svo glaður, svo glaður 

Það er ekkert grín að telja sig vera hugsandi mann í nútíma en þó er svo ótal margt sem gleður mig í dagsins önn og gerir hana skemmtilegri. Í gær til dæmis fyrsta fótboltaæfing ársins, með sigri og mörkum. Einnig fann ég nýja þýska útvarpsstöð klassíska með fínu fréttayfirliti á stundarfresti, gladdi mig mjög að rifja upp þýskuna. Áðan var ég að hugsa hvað sænska er fyndið tungumál og hló innra með mér. Ef ég væri köttur gleddist ég yfir því að nú er lokið rakettutíð og sprengingum að mestu. Við óskum hvort öðru gleðilegs árs og jóla og segjum góðan dag á morgnana, en einn vinnufélaginn sem rekur stundum inn nefið heilsar alltaf með kveðjunni: Til hamingju með daginn! Ég þekki manninn lítið enda vinnur hann mest í Ameríku, en samt er sérlega ánægjulegt að verða á vegi hans.

Reyndar fann ég grein sem bremsaði gleðiflauminn tímabundið. Þar reifar höfundur ótrúlega lagni mannskepnunnar til að vera sjálfu sér ósamkvæmt og setur í samhengi við hugtak sem oft hefur heyrst undanfarna daga: Tala látinna. Mönnum er tíðrætt um fjölda vestrænna sem þarna fórst en svo virðist sem upphafstölur um þá hafi verið of háar á meðan stöðugt bætist við fjölda heimamanna sem lét lífið í þessum hamförum. Við virðumst þurfa að setja hlutina í okkar samhengi til þess að þeir fari að skipta máli. Stjórnvöld setja 5 millur í neyðaraðstoð í fyrstu umferð en 20 millur fara svo í að flytja Svía heim. Svona fimmkall er tæpur fjórðungur af því sem list Sigmunds kostaði, sennilega tæp árslaun eins af 35 sendiherrum.

Stjórnvöld í USA settu $15 millur í fyrstu umferð, sem er jafnmikið og kostnaðurinn við Íraksúthaldið í 3 klukkutíma og þriðjungur af því sem veisluhöld við innsetningarathöfn forsetans munu kosta. Nú eru þeir búnir að setja $350 millur, sem er 1/10 af því sem varið var til uppbyggingar vegna fellibyljaskemmda í Flórída. Ég skil þetta vel. Tap mannslífa sem orsakast af náttúruhamförum veldur okkur harmi en ef það verður vegna stríðsátaka er um fórnarkostnað að ræða. Sem sagt: náttúran er grimm en mannskepnan neitar að horfa í eigin barm varðandi svonalagað. Eðlið er undarlegt. Verðandi forseti Alþingis sagði að það skipti engu máli hvort við værum á viljuga listanum því að það fæli ekki neinar þjóðréttarlegar skuldbindingar í för með sér. Verðandi forseti Alþingis, úha! Við erum pappaþjóð og eigum kannski ekki annað skilið en fólk sem líður best með pappaundirsáta.

Nú held ég að sumir kætist óskaplega yfir því að nú snýst umræðan um atvinnuleyfi fyrir Kínverja til að vinna fyrir austan. Bæði það að þá hverfur í skuggann hvað þarna er raunverulega á ferðinni með tilliti til fjárskuldbindingar til framtíðar og náttúruspjalla. Svo geta þeir alltaf sagt seinna: Iss, það voru Kínverjar og Ítalir sem gerðu þetta, ekki alltaf vera að benda á okkur. Hvurslags er þetta - úrtöluafturhaldskommatittsseggir getið þið verið!

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Breytt burstunarhegðun 

Fyrir mörgum árum ákvað ég með sjálfum mér að þegar sá tími kæmi að sixpackinn væri ekki allur á iði meðan ég burstaði í mér tennurnar væri kominn tími á líkamsræktarátak. Nú vill svo til að ég hlýt að hafa þróað hreyfingarnar við þessa hversdagslegu iðju þannig að magavöðvar komi ekki lengur við sögu. Nema málið sé að maður, nei - getur ekki verið - ég stekk ennþá hærra en körfuboltafélagarnir og samt er ég eldri en þeir flestir. Samt, mamma er alveg hætt að tala um að ég sé nú eitthvað svo grannur. Kannski á maður ekkert að vera ber að ofan við tannburstun.

Hins vegar nefnir hún stundum að ég ætti nú að skella í mig hárstrípum eins og stundum kom fyrir áður fyrr. Mamma, ég veit að þú lest þetta ekki, en því get ég lofað að ég mun verða ljóshærðari á komandi ári og það mun ekki stafa af bleikingarefnum!

Mér leiðist dálítið þessi vindur alltaf hreint. Þannig er að gróðurhúsið mitt breyttist um daginn í blöðru sem var í þann mund að fjúka til fjandans þegar ég kom heim úr körfubolta. Snillingur (5) hafði náð í hjólið sitt í húsið og ekki lokað á eftir sér, en einmitt þann dag gerði vestanhryssing sem blés blessað húsið upp af grunni sínum. Það var hreinlega útlits eins og opinn kjaftur þegar ég kom þarna að. Við erum að tala um plastplötur en ekki gler og því varð enginn stórskaði, en samt er þörf fyrir tilteknar lagfæringar sem verða að bíða betri tíðar og birtu. Í millitíðinni verð ég órólegur þegar hann blæs duglega að vestan eða suðvestan. Þetta ljóta gróðurhús er mér kært og mun ég því berjast fyrir því að það lifi.

Í árvissu uppgjöri mínu við áramót hef ég gjarna staldrað við og íhugað á dálítið sjálfselskan hátt. Hvað tókst fullkomlega? Svarið er að þessu sinni 2. högg á 8. braut á Highland Reserve vellinum í Flórída í maílok. Stórfenglegt fimmuhögg, 190 yd. inn á flöt yfir erfiða glompu og boltinn snarnegldi niður þegar hann lenti. Þetta var par 5 en auðvitað tókst mér að klúðra erninum - gott ef ekki BIRDinum líka... Skrambi góð ferð þessi Flórídaferð og við Undrið (2) vorum einmitt að rifja hana upp í gærkveld undir svefninn.

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Úr því að ég nefndi bók síðast... 

Þá brá ég mér í bókabúð í dag. Eina sem auglýsti útsölu því hún væri að hætta. Þetta var eins og að vera við jarðarför að koma þarna. Karlgreyið sem rekur verslunina að stimpla lækkað verð á alla hluti og maður var gráti nær að horfa uppá þessa smákompu á ómögulegum stað bara leggja upp laupana. Ekki tókst mér að fara þaðan út án þess að versla til málamynda eitthvert dótarí í sarpinn og eina vasabrotsbók eftir Bill Bryson. Það er eins og mig rámi í að hafa lesið minningargreinarnar um stofnanda þessarar bókabúðar í fyrra og nú er hún að fara á spjöld sögunnar sjálf.

Hrútarnir verða alls þrívegis í beinni nú í janúar, og að auki ku leikur varaliða Chelsea og Derby verða sýndur eitthvert kveldið um gervihnött. Þetta byrjaði vel gegn Reading enda spila mínir menn einungis vel þegar þeir eru í sjónvarpi og á móti þokkalegum liðum. Við vorum fjórir Derbymenn á kránni þegar best lét, en félag brottfluttra Stöðvfirðinga eða fjölskylda Ívars Ingimarssonar var öllu margmennari. Tveir sigrar og tvö töp út úr jólavertíð er ekki eins gott og ég vonaði, en sigrarnir komu gegn toppliðum á útivelli en heimaleikir gegn lakari liðum töpuðust.

RÚV var ekki að þessu sinni viðstatt áramótabrennu við Skildinganes og ég sá því enga ástæðu til að munda dragspil. Næstu áramót munu fara í að vakta Snillinginn (5) gagnvart sprengiglöðum peyjum en þessi rakettuárátta hans virðist hafa erfst sömu leið og bílaáhuginn. Ætli endi ekki með því að maður þurfi að svara fyrir einhverjar sundursprendar ruslatunnur eftir nokkur ár. Vinnan gaf 5000 kr. tertu sem maður fór með út á horn um miðnætti. Ekki get ég sagt að því hafi fylgt kikk að horfa á tertuna þá arna fjúka til himins. Má ég þá heldur biðja um 16 pakka af Betty Crocker's Devils Food Cake, sem mun fara nálægt því að vera ársneysla heimilisins og gesta á þeirri ágætu brúnköku.

Ég reyndi að ná einhverjum táknrænum myndum út úr áramótabrennunni en batteríið kláraðist rétt áður en það tókst. Einni mynd auðnaðist mér að ná þar sem við blasir bókstafurinn F (sjá til hliðar) en ekki hefur mér tekist að ráða í hvað það gæti merkt - farsælt, fjandinn, fellibylur, fönn, fjölskylda, frami, fjallgöngur, FH, fyllirí, fálkaorða, - örugglega ekki Fylkir eða friður - en sennilega barasta 5. Sjáum til með það... Þegar Snillingur fæddist var hann með Toyota merkið á gagnauganu og það hefur orðið til þess að fjölskyldan ekur um meira eða minna á slíkum bílum - hingaðtil reyndar við, litlasystir og móðurættin aðallega, en ekkert segir mér að það geti ekki breyst.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?