<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, febrúar 25, 2005

KR eða kirkjan? Jólin eða sólin? 

Þeir eru búnir að banna jólasöngva í skólum í sumum skólaumdæmum í Florida og New Jersey samkvæmt þessum náunga. Gæti víst komið illa við minnihlutahópa að kvelja börnin á þennan hátt.

Menn ræða ákaft tilburði
til trúboðs í skólakerfinu. Ansi held ég að margt þurfi að breytast í sögubókunum á næstunni ef maður yfirfærir rökfærslu vantrúarmanna á ýmislegt annað. Það eru ekki allir sammála um það sem sumir, oftast meirihlutinn, telja sögulegar staðreyndir og ef á að taka þennan part út er stutt í þann næsta, burt með jólin næst. Einn segir:
"Trúboð: Jesús var sonur guðs.
Fræðsla: Kristið fólk trúir því að Jesús hafi verið sonur guðs."
Þeir eru sumir það harðir að tala um hryðjuverk í sambandi við bænalestur og er ég þar með hryðjuverkamaður, en stundaði þó ekki slíka starfsemi í skólakerfinu. Reyndar var ég á hverju ári með heilmikla dagskrá fyrir 10 ára börn um norrænu guðina og hef þá hugsanlega boðað ásatrú úr því að ég gleymdi örugglega stundum að setja fyrirvara um að heiðið fólk hafi haldið því fram að Þór sé þrumuguð o.s.frv. (Þori af eðlilegum ástæðum ekki að fullyrða neitt um hvernig þetta er hjá Ásatrúarmönnum nútímans - þekki ekki málið.)

Mér finnst þetta óþarfur ótti, en get þó ekki fordæmt þá sem gera að hugsjón sinni baráttu gegn svokölluðum ríkjandi gildum á þessu sviði sem öðrum. Vitanlega er til í dæminu að einhvers staðar eigi sér stað innræting eða eitthvað sem fer yfir strikið. Þeir eiga við þetta að stríða í Finnlandi líka, samanber þennan Múmínálf.

Mannskepnan hefur búið sér til ramma um hlutina og hann á ekkert endilega að vera óbreytanlegur. Að einhverju leyti finnst mér þó að þarna örli á þeirri ranghugmynd vegarnestið sem börnum er búið út í lífið komi að ríkjandi hluta frá stofnunum og ekkert sé við því að gera. Ef allt er í lagi kemur það nesti heimanað. Ég er ósammála því að það sé slæmt að láta 3 milljarða renna til kirkjunnar á ári úr sameiginlegum sjóðum (tölur frá vantrúarmönnum) vegna þess að þar er í gangi starf, ótengt beinni trúariðkun eða ritúali, sem réttlætir slíkt framlag að mínu mati. Tónlistarstarf, ýmiss konar samfélagsþjónusta, námskeið, barnaskemmtanir - ég veit um trúlausa sem fara með börnin sín í barnamessu út á skemmtanagildið og stuðið - og þeir sem oft koma í kirkjur verða örugglega varir við að þar eru virkir, gildandi og velkomnir margir sem minna mega sín og fengju aldrei inni í Rotary eða Lions.

Við tökum þrjár bænir fyrir barnasvefninn á þessu heimili og síðan á hvort barn sitt uppáhaldssvefnlag og svefnsyrpan veltur á því hvort foreldranna á í hlut. Sennilega væri sami tilgangurinn í því að þylja stafrófið á latínu ef þau hefðu vanist því frekar en faðirvorinu. Það væri ekkert erfiðara að skilja það en skuldunautin og það allt. Við höfum ekki lagt áherslu á textaskýringar, nema e.t.v. þegar Snillingur á sínum tíma spurði hvaða prik þetta væri sem hann væri með - „því að þitt er prikið..." Bænirnar meðhöndlum við eins og hvern annan texta sem má alltaf leika sér með. Til dæmis sitja guðs englar ekki bara sænginni yfir minni heldur líka eftir atvikum í sundlauginni, útilegunni, o.s.frv.

Ekki höfum við stundað barnamessur að ráði, en Snillingur (6) var í
svonefndu kirkjustarfi frameftir vetri. Hann er að detta þar út þar sem honum finnst leiðinlegt að teikna! Gott og vel. Ég er satt að segja hræddur um að hann hafi fengið miklu meiri fótboltainnrætingu en trúarlega, enda entist hann heldur ekki lengi í fimleikum. Sennilega er KR með 85-90% markaðshlutdeild á þessu svæði okkar líkt og þjóðkirkjan en ég hef þó ekki beitt mér gegn því KR trúboði sem vissulega á sér stað víða og á ofurlúmskan hátt. Drengurinn fer að heiman með Derby og FH í hjartanu og það hefur haldið hingað til, þótt ég sjái blikur á lofti einna helst varðandi Chelsea.

Sjálfur ætti ég eflaust í erfiðleikum að taka snarpa sennu um mína trú eða kristni, enda hef ég ekki séð ástæðu til að skilgreina hana í smáatriðum. Einu sinni fór ég í kirkjulegt starf sem hafði ekki með tónlist að gera enda hafði ég fregnað að þar tækju þátt þrjár glæsilegustu unglingsstelpurnar úr mínum árgangi í Nesinu. Við mættum fjögur ásamt stjórnanda en það starf bar engan árangur í mínu tilfelli, ekki frekar en aðrar veikburða tilraunir til kvennafars gegnum tíðina, og var lagt niður eftir eitt skipti...


miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Food & Fun 

Pabbi: Og hvað var í matinn í dag á leikskólanum?
Undrið (2): Ég veit ekki.(Staðlað svar við öllu þessa dagana).
P: Jú, þú veist það.
U: Það var brrrrrauð.
P: Nei, það var ekki brauð það var ommeletta.
- Mamma kemur inn á sviðið frá vinstri, klædd einkennisbúningi.
M: Og hvað var í matinn á leikskólanum?
U: Það var ómögulegta...
(Tjaldið)


Ætli maður hugsi svona mikið um hvað krílin fá að borða af áhyggjum yfir því að ekki sé hugsað um að þau fái nóg? Í mínu tilfelli er líklegri skýring að ég fái sjálfur ekki nóg suma dagana. Einn vinnufélaginn, matmaður nokkur, leit á mig með blöndu af skelfingar- og vorkunnarsvip í gær er ég tjáði honum að þrisvar í viku væru hjá mér íþróttir í hádeginu. Svo rifjaðist upp fyrir mér við kvöldmatarborðið um kl. 19 að ég hafði ekki fengið mér annað allan daginn en súrmjólk um kl. 8. Sjálfskaparvíti. Þá daga sem frú mín er í vinnunni er oftast flugvélamatur á boðstólunum hjá henni og gjarna hvort sem er lítill tími til að snæða...

***
Sambassi minn, Kóroddur að nafni, tendraði glóð í sönghjartanu er hann kvaðst hafa fyrir satt að karla vantaði í Jóhannesarpassíu Langholtsmanna. Þetta yrði um mánaðartörn fyrir mann og ekki annað fyrirliggjandi í Voxinu næstu vikur en fínpússing vegna hljóðritana á efni sem við kunnum. Kanna þetta fljótlega. Svo er Ágúst nokkur Ólafsson þar í einsöngshlutverki. Gamall nemandi úr Öldutúni rétt eins og Eyjólfur tenór. Hvorugur var þó í hinum rómaða Kór Öldutúnsskóla...wonder why? Eyjólfs er hins vegar enn minnst fyrir frábæran leik og ógurlegt gervi í hlutverki Grýlu á jólaskemmtunum og Ágúst var alltaf í körfubolta á skólalóðinni.

Nokkra drengi í vinnunni dreymir um að stofna karlakór en ég sé ekki fyrir mér að af því verði. Til þessa hafa undirtektir verið dræmar og ekki fundinn stjórnandi þótt búið sé að velja lög og finna a.m.k. þrjú heiti á fyrirbærið.


mánudagur, febrúar 21, 2005

Pabbi - hann sagði kúgildi! 

Illugi Jökulsson var í árgangnum á undan mér í MR. Á sínum tíma sagði sagan að hann hefði horfið úr skóla þegar einhver var kosinn pólitískri kosningu sem ritstjóri skólablaðsins frekar en hann. Ekki veit ég hvort það er satt, en líklega er ég einn af fáum sem hafa spilað fótbolta með kappanum frá því hann komst á fullorðinsár. Synir okkar æfðu saman fótbolta um tíma í fyrrasumar og einhverju sinni á æfingu voru foreldrarnir munstraðir með í leik.

Sennilega er Illugi duglegur. Hann var staddur á Borgarbókasafni rúmlega 5 á fimmtudag að viða að sér bókum og kominn í loftið innanvið klukkutíma seinna. Mér hefur löngum líkað við hann í fjölmiðlum, þótt ekki geti ég dæmt um DV tímabilið. Þeir Egill Helgason fóru hamförum sem umsjónarmenn helgarblaðs Tímans forðum daga, báðir MR dropout. Í gærkvöld vantaði mig undirleik við prjónaskap þar sem ég var búinn að lofa Undrinu (2) að klára tána á ullarsokknum sem henni leist svo ljómandi vel á við mátun. Þá valdi ég Illuga framyfir bíómyndirnar Rocky III og Hamborgarhópinn (sem mér hafði upphaflega misheyrst að ætti að vera Hamborgarhryggurinn - sem hefði altsvo verið meira spennandi.) Svo hlustaði ég á Illuga rifja upp ömurleg afdrif klerka úr Grímsey á 18. öld meðan ég prjónaði táarhelvítið.

Nú er komin rúmlega vikureynsla á útvarpsstöðina hans Illuga og tja, mér líst ágætlega á. Þetta er að slípast, og mér finnst gott að hlusta á Sigurð G. og stundum á annað sem er á dagskrá, en þegar Illugi rabbar sjálfur hlusta ég. Ég man reyndar eftir Jökli sem útvarpsmanni og röddin er keimlík og eitthvað þjóðlegt og notalegt við þetta.

Þeir eru með þjóðlega og forna útvarpssögu á Talstöðinni og hún var á í gærmorgun þegar við Undrið vorum að baka konudagspönnsur á ameríska vísu í tilefni dagsins. Allt í einu lítur sú stutta á mig með hneykslunarsvip sem einungis birtist þegar mikið liggur við og segir:

- Pabbi, hann sagði kúgildi! Það má ekki segja kú...kalabbi!

Æ, ég fór ekkert út í að skýra út kúgildi eða aðrar fornar mælieiningar í tilefni þessa en lét eftir mér að hneykslast innvirðulega með dótturinni á þessum dónaskap í útvarpinu. Maður skyldi ekki vanmeta eftirtekt barna. Ónei.

Minningin um Guðmund 

Einhverju sinni fyrir um 14 árum hringdi í mig maður og bauð gítarnum mínum í þorrablót. Þannig var að hann var með einhvers konar fjölskylduþorrablót og á staðnum voru ástríðusöngmenn sem vantaði undirleik. Ekki þurfti að marghvetja mig og rölti ég umsvifalaust yfir í Stekkjarhvamminn á þorrablótið og upplifði einstaka kvöldstund með góðu fólki.

Sl. fimmtudag voru tíu ár síðan Guðmundur Sveins dó. Sá mikli kennari, FHingur, söngvari, fjölskyldufaðir og manneskja. Þegar ég fór að kenna í Öldutúni varð ég fljótt var við að Guðmundur var aðal, eins og það kallast í Hafnarfirði,
í kennaraliðinu þótt ekki hefði hann hæst á kennarastofunni. Maðurinn sem treyst var til hvers konar verka, sem hlustað var á, sem var elskaður að verðleikum umfram aðra. Mér fannst ég frá fyrstu stundu kannast við hann frá í gamla daga og hef hugsanlega séð hann á ferð í Borgarnesi á æskuárum enda átti hann þar vini. Ekki mundi ég eftir honum úr Randver, enda var mér hálfilla við þann flokk eftir Bjössi on the milk-car paródíuna.

Skeggprúður var hann með afbrigðum, reyndar prúður að öllu leyti, og yfirburðakennari. Samstarf okkar var einkar gott enda fann maður frá fyrstu stundu fyrir því í raun að hann treysti manni til góðra verka, og bjó ég þar í upphafi að því að vera FHingur. Á þessum árum var uppgangur í fótbolta hjá FH og alltaf biðu menn eftir því að ná titli því að þá fyki skeggið af Guðmundi. Því miður kom ekki titill fyrr en í fyrrahaust og ekki laust við að maður fylgdist með ofankomu dagana eftir að FH sigraði til að gá hvort ekki fylgdu með skeggflygsur að ofan.

Svo veiktist Guðmundur og dó fáeinum misserum síðar. Þá vorum við búnir að syngja saman nokkur ár í hljómsveitinni Húnar & Björn á hverri starfsmannaskemmtun ásamt góðum félögum. Ekki fór ég að heimsækja hann á spítala eftir að hann veiktist. En við hittumst engu að síður því að hann átti endurkvæmt í skólann fáein skipti. Hann er og verður einn þeirra sem ég hef borið hvað mesta virðingu fyrir á minni leið.

Grunnskólakennarar hófu verkfall sama dag og Guðmundur dó og það varði í sex vikur. Ég sakna Guðmundar enn.

föstudagur, febrúar 18, 2005

Með Landróver á hælunum 

Þegar ég kom til náms í bæinn var ég sveitamaður. Einn fagran haustdag 76 datt mér í hug að fara út að hlaupa og lá leiðin austur Njálsgötu, upp á Skólavörðuholt og niður Njarðargötu. Við enda Njarðargötu handan Vatnsmýrar varð fyrir mér girðing og sem sannur sveitamaður sá ég þann kost auðveldastan að klifra yfir hana og svo leit ég til hægri og vinstri og uppí loft, og hélt síðan áfram hlaupum yfir flugbrautina. Ekki leið á löngu þar til ég var kominn með gulan Landróver á hælana, blikkandi ljós og hamagangur. Var mér snarlega kippt inn í bílinn og ég síðan ávítaður fyrir hlaup á flugvelli. Ekki komst ég í Skerjafjörð daginn þann.

Þetta varð þó ekki til þess að gera mig andsnúinn því að hafa flugvöll í miðborginni. Ekki heldur hávaði frá einkatraffík á góðviðrisdögum eftir að ég flutti í nágrenni vallarins og ekki flugslys sem hafa átt sér stað hér í nágrenninu. Sumir minna nánustu vilja halda í flugvöllinn til þess að tryggja að hverfið okkar haldist óbreytt og út af fyrir sig. Mér finnst bara sjálfsagt að á þessu svæði eigi að vera hús og fólk og þjónusta sem því tilheyrir.

Um daginn var ég í boði meðal Skerfirðinga og nefndi að félagi minn einn væri að flytja í Voga á Vatnsleysuströnd. Fannst þeim heldur klént að taka sig upp úr höfuðborginni og lýstu því yfir að það væri nú betra búa þar sem væri skóli og þjónusta önnur innan seilingar. Þá gat ég nú ekki stillt mig um að nefna að sennilega gætu nú börnin í Vogum gengið í skólann, en þyrftu ekki skólabíl. Fá hverfi eru fátækari hvað þjónustu varðar en Skerjafjörður. Líklega er heldur ekki mikið lengra í Smáralind úr Vogum en héðan ef þannig stendur á traffík.

Eftir alfyrstu árin í bænum átti ég alloft leið upp í Breiðholt úr Hlíðunum og kom fyrir að ég hjólaði á körfuboltaæfingu. Þá hjólaði ég eftir hitaveitustokki yfir flæmi nokkurt sem stundum var kallað Kringlumýri, en mér fannst vera týpískir kartöflugarðar umkringdir njólastóði. Ég hef sennilega búið erlendis þegar hagsmunabarátta kartöfluræktenda gegn Kringlu, Borgarleikhúsi, Versló og Mogga átti sér stað. Eða - NEI - þetta var víst fólk sem bjó í borginni og því engin ástæða til að láta það ráða neinu. Ef Ísfirðingar og Akureyringar hefðu ræktað þarna kartöflur væri líklega engin Kringla en hugsanlega kominn hjólastígur umhverfis garðana, en að öðrum kosti væri Reykjavík ekki lengur höfuðborg.

Þegar fótboltaliðinu mínu gamla fór að ganga betur forðum daga lentum við í að spila gegn útnáraliðum og þá var gjarna flogið. Menn settu ekki fyrir sig að renna í bæinn til að fljúga til Norðfjarðar eða á Húsavík enda vegir slæmir. Hálfs annars tíma akstur til að fljúga í 50 mínútur. Áratug seinna gekk ég aftur í sama lið og lenti í að spila gegn Húsvíkingum og þá var ekki til umræðu að fljúga enda hagstæðara að keyra. Betri bílar, betri vegir.

Fullt af fólki ekur til vinnu, náms eða annarra erinda til Reykjavíkur af Suðurnesjum, Selfossi, Skaganum og víðar að - á hverjum degi! Frú mín þarf að hefja sinn vinnudag með því að fara til Keflavíkur og til baka í lok dags. Með mér syngja í kór menn sem búa á Suðurnesjum og renna þaðan á æfingar í Melaskóla. Er svona hræðilegt að þurfa að bæta við ferð til Keflavíkur eða frá ef maður þarf á annað borð að stunda ferðir milli staða hér á Íslandi með flugi? Í einhverjum tilfellum er úthverfafólk á höfuðborgarsvæði sneggra að komast heim til sín frá Keflavík en frá Reykjavíkurflugvelli. Þegar ég var leiðsögumaður voru ferðirnar út á völl að sækja fólk besta slökun sem ég vissi.

Það er víst að þessi völlur fer úr miðbænum og því fyrr sem menn viðurkenna það og gera nauðsynlegar ráðstafanir því betra.

Auðvitað breytist sumt án þess að breytast. Fyrir 20 árum eða svo var eitthvert vinsælasta sjónvarpsefnið spurningaþættir Ómars Ragnarssonar, Byggðirnar bítast eða Sýslurnar svara, eða eitthvað svoleiðis, með ekta hagyrðingum og bakfallshlátri. Nú felst barátta byggðanna víst í því að koma sínum keppanda í Idol áfram í næstu umferð. Held ég hafi heyrt um daginn eða lesið að einhver hafi nú verið helvíti góður en ekki frá nógu stórum bæ til að komast áfram.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Várlongsul 

Áðan var ég að kíkja í nótnabunka til þess að finna nokkur lög eftir Lindberg sem ég hyggst gauka að Dr. Tuma ef einhvern tíma skyldi vanta ljúflingstónlist fyrir kórinn minn. Þá rakst ég á gömlu gospelnóturnar mínar frá í árdaga kórmennsku. Þar, eins og annars staðar, var karlahallæri og þegar leið nær tónleikum að vori náði stjórnandinn í tvo liðtæka sem voru í söngnámi. Annar var Jóhann Friðgeir nokkur, þá þegar raddmikill og -fagur, en hann mátti lítið vera að þessu. Mig minnir að hann hafi starfað við fasteignasölu þegar þarna var komið sögu.

Þetta var svona hálfberfættur og -andlegur kór sem kallaðist Móðir Jörð minnir mig og skartaði geysiskræpóttum kuflum á tónleikum. Eitt lagið var indíánakviða mikil og jafnan heilmiklar tilfæringar þegar það var sungið á æfingum; búin til halarófa og svo endaði kórinn í hrúgu, svipað og nú sést æ oftar á vellinum þegar lið peppa sig saman fyrir leik. Maður sá að Jóhann Fr. fann sig ekki í þessu atriði og því kemur mér ekki á óvart að hann fái fá prik fyrir leik sinn í Toscu. Hann dillaði sér heldur ekki neitt verulega þegar það átti við...

Reyndar kom ótrúlega oft fyrir þegar andlegheitin voru að ná hámarki að gemsinn hans hringdi og hann vék út í horn til að selja fasteign eða eitthvað. Þetta var í árdaga gemsavæðingar og vakti nokkra athygli. Stundum þegar ég þykist ekki heyra eitthvað afsaka ég mig með því að heyrnin hafi laskast þegar ég stóð við hliðina á Jóhanni og við kyrjuðum Oh, Happy Day svo ákaflega að lifur og lungu fylgdu nánast með í flutningnum.

Eftir á að hyggja hef ég komist í hann mun krappari í kórsöng en þessum Afríkusanctus og seint verður toppuð kantatan Glámsaugun frá Langholtsárunum. Þetta var útskriftarverkefni tónfræði- eða smíðanema nokkurs. Nú förum við í Vox víst að taka upp Úlfarsmessu og hugsanlega annað. Það verður væntanlega alllygn sjór að sigla.

Það er rok og lítt vorlegt. Ekki veit ég hvort orðið væmni er til í færeyskri tungu:

Mær leingist at lýða á fuglanna ljóð,
tað vekjandi, styrkjandi blíða,
mær leingist að hoyra tann dandandi sjó
at kvöða við vögguna sumarsins ljóð,
tað eyma, tað mjúka, tað fríða.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Mysa dagsins 

Misskilningsmöguleiki dagsins úr útvarpi er úr viðtali við útfararstjóra á Talstöðinni:

Spyrjandi: Og tekurðu vinnuna með þér heim á kvöldin?
Útf.stj. : Já, ég get ekki neitað því...

Móðurharðindi og Múmínálfar 

Mér varð á að setja Jóhannesarpassíuna af stað í kvöld undir barnaherbergistiltekt. Þar er einn örstuttur kór í blábyrjun (Jesum von Nazareth fyrir þá sem til þekkja), tvítekinn, samtals einar 14 sekúndur og þar finnst mér samankomin meiri tónlist en í gervöllum African Sanctus. Fyrirgefiði! Ég get farið með Jóa í vinnuna og hlustað þar ef verkefni dagsins leyfir, því að ég kann hann ekki. Messías og Mattheus kann ég það vel að ég verð að syngja með og það er hjákátlegt á einum vinnustað að hafa einhvern gaur úti í horni svissandi milli allra radda, syngjandi heila passíu. Fínt í bílnum og skítt með augnagotur á rauðu ljósi.

Annars sagði frú mín í tilefni af kommentum sem ég hafði látið falla að hún hefði svo sannarlega gifst bassa og ekkert kjaftæði. Þetta segir eiginlega meira um tenóra en mig, en ég treysti smekk hennar og innsæi varðandi tónlist þótt við séum ekki alltaf sammála á því sviði.
Reyndar erum við oftast sammála á því, en smekkurinn er ekki endilega hinn sami. Ég lít svo á (þar til annað kemur í ljós) að meistaragráða hennar í tónlist hafi skipt máli í makavalinu. Ef það er rangt skora ég á hana að setja komment á þar til gerðan stað...

Snillingurinn (6) á það til að vera grimmur við mömmu sína og jafnvel beita hana hömlulitlu ofbeldi, sem eflaust kemur öllum á óvart sem þekkja kauða. Ég held því fram að hún sé of góð við hann.
E.t.v. of góð, punktur. Hún heldur því fram að honum þyki svo vænt um hana að það brjótist út í ofbeldi, nánast móðureyðingarhvöt á stundum. Í fyrradag voru hálfgerð móðurharðindi hjá karlinum og endaði með því að fjölskyldan hélt í mömmulausa fjöruferð. Það hefur geysilega róandi áhrif að dúlla sér niðri í fjöru enda fór ég oft niður í fjöru á yngri árum þegar mér leið illa. Ef ég varð brjálaður út af einhverju fann ég ókleifa leið í klettum og klifraði. Sem betur fer gerðist það afar sjaldan, eiginlega bara einu sinni, og þá fór ég upp Vallarklettana einhverja leið sem ég skildi ekki eftirá hvernig ég komst... Eins gott að ég bjó ekki á Selfossi - engir klettar, engin fjara, ekkert... Flott á samt, Ölfusá.

Ein af bókunum sem ég átti forðum daga var Pípuhattur galdrakarlsins (Múmínálfar I). Mamma var svo almennileg að senda mér vænan pakka af fornum bókum úr hillunni minni fyrir nokkru, og í fyrradag hófst lestur Múmínálfanna. Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en í miðjum fyrsta kafla að þetta er texti sem situr í manni frá í bernsku. Sumir bloggarar hafa dálæti á Múmínálfum og nú skil ég betur hvað er þar að baki. Undrið (2) lýsti m.a.s. yfir miklum áhuga á sögunni við matarborðið í gær, þrátt fyrir að hún lognist útaf rétt undir lok lestrar yfirleitt.

Ég var svo heppinn að vinna
í mörg á við að lesa fyrir skólabörn. Ein var sú bók sem ég las upphátt fyrir sjálfan mig, þá piparsveinn undir súð - nefnilega Gauti vinur minn. Löngum skildi ég ekki hvað fólk sá við Vigdísi Grímsdóttur sem rithöfund og hafði ég þó margreynt, en þessi góða barnabók hennar fleytir henni umsvifalaust á efsta stall þótt ég muni sennilega aldrei lesa eftir hana fullorðinsbók. Hugsanlega er þetta fullorðinsbók í barnabókarumbúðum.

Í pakkanum frá mömmu voru m.a. Stóri Björn og litli Björn og Dagfinnur dýralæknir, auk sjálfs Ugluspegils. Maður var greinilega naskur að ræna úr bókaskápnum hjá ömmu á Njálsgötu forðum daga því að sumar bókanna eru merktar bræðrum pabba. Ugluspegill og Nasreddin - það verður hlegið fyrir svefninn þegar þær verða lesnar, ef ég þekki mitt fólk rétt.

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Hagsmunir flokksins 

Þeir sem syngja í kór setja hagsmuni flokksins í fyrirrúm. Það gengur ekki að syngja hraðar eða hærra en hinir, þótt allir kórsöngvarar geti eflaust nefnt dæmi slíks af eigin reynslu. Eins verða þeir sem eru í fótboltaliði að hafa hagsmuni flokksins í öndvegi. Menn verða að skila sér í vörnina, ekki þýðir að einspila þangað til maður missir boltann og stundum kemur fyrir að menn fórna sér fyrir málstaðinn. Nú er ég kominn á þá skoðun að Framsóknarflokkurinn væri ágætur kór eða fótboltalið, þótt ýmis uppátæki þeirra manna bendi til þess að þar fari afleitur stjórnmálaflokkur. Á hriflu.is ritar Haukur nokkur: „Framtíðin er björt fyrir konur í Framsóknarflokknum, þær konur sem hafa fengist til starfa með hagsmuni flokksins að leiðarljósi." (Ath. þarna stendur FLOKKSINS en ekki Fólksins.) Og þetta er ritað á Íslandi 2005, ekki í DDR 1975.

Hagsmunir flokksins skiptu máli í Neskirkju í gær þegar Snillingur (6) mætti með mínum betri helming að hlýða á African Sanctus. Tvennir tónleikar og seinni tókust betur. Aðspurður sagðist drengurinn hafa skemmt sér vel. Hann hefur lítið komið nærri tónlistariðkun foreldranna en nú fer að verða breyting þar á. Ég ku annars hafa stjórnað karlakór í fyrsta og eina skiptið þriggja ára gamall eða svo, við fögnuð viðstaddra, á sjómannadegi
eða eitthvað á Patró, ´65 eða svo.

Mínir menn féllu með sæmd útúr bikar í gær meðan ég var að syngja. Höfðu yfirtök gegn úrvalsdeildarliði en töpuðu eftir framlengingu.

Aðdáendur enskra þula fengu vatn á sína myllu í kvöld þegar Ólafur Torfason kvikmyndaspekingur hélt því statt og stöðugt fram að Sean Connery væri að fá heiðursútnefningu, allt þar til snillingurinn John Barry gekk á svið og hálfdó úr tilfinningasemi. Það pirrar okkur hrokagikkina sem skilja ensku þegar menn grípa sífellt frammí og yfirgnæfa kynninn, jafnvel þótt megnið af þýðingunni hafi verið ágætt og þótt Mr. Fry sé orðinn tiltölulega fyrirsjáanlegur.

Önnur stórfrétt af heimilinu er að við höfum eignast tískulöggu. Undrið (2) er nefnilega ekki aðeins búið að ná errinu, heldur einnig koma sér upp fatasmekk. Þannig var að mamma hennar hugðist fara í föðurland eitt sem e.t.v. er ekki sérlega mikið fyrir augað og sú stutta kvað upp úrskurðinn: „Farðu í buxur, mamma, ég vil ekki horfa á þig í þessu." Mamman hló en gerði lítið í málinu og þá kom: „Var ég ekki búin að segja þér að fara í buxur?!?" Þess ber að geta að Undrið (2) er rétt rúmur hálfur meter og sem sagt vel innan við þriggja ára gamalt og ég var ekki viðstaddur þennan atburð og átti engan þátt í viðkomandi ummælum, enda vita þeir sem til þekkja að ég horfi meira á innihaldið en umbúðirnar.

laugardagur, febrúar 12, 2005

Hjarl 

Þeir sem eiga eftir að fara í Orð skulu standa á Rás 1 mega vita nú þegar að hjarl merkir land.

Bakhjarl er allt annað og oftast er ég í því hlutverki og kann vel við. Í boltanum varnarmaður - þeir mega alls ekki klúðra þá er komið mark, (en eitt árið sem Höddi M varð markakóngur átti ég samt meira en helming stoðsendinganna). Í tónlistinni bassi, sem er gjarna grunnurinn. Í kennslunni, bókasafnskennarinn sem er ráðgjafi, stuðningur og hjálparhella bæði nemenda og kennara. Í núverandi starfi líka í þessu hlutverki. Milliliður og bakhjarl þeirra sem skapa.

Maður hefur svo sem búið til eitt og annað (og er ég þá ekki að tala um snjókarla, ullarsokka eða pönnukökur) og fengið lof fyrir, en mér líður vel sem bakhjarli. Viðurkenning fyrir gagnsemi þess sem maður gerir birtist alla jafna ekki í blöðum eða launaumslagi, en þó er hún til staðar. Á morgun fer einn aðalgúrúinn okkar til Englands í vinnuferð og hann kann sannarlega að meta framlag mitt til þess að koma hugmyndum sínum og afurðum á framfæri á skiljanlegan hátt. Það er mér nógur hvati til dáða.

En í dag flytjum við African Sanctus og það verður rosalegt! Ég hvatti mína heittelskuðu til að mæta með eyrnatappa til öryggis...

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

RRRRRRRRRRRRrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr 

Aukaerrið í síðasta færslutitli reyndist hafa forspárgildi. Undrið (2) kom nefnilega heim úr leikskóla á ösku(r)degi með rammíslenskt og rúllandi err - heilmikill áfangi það! Æ, samt er maður nú þegar farinn að sakna: aldrei verður framar farið fram á að setja lúsínul í gljónaglautinn og hlæla sjálf, nágrannavinkonurnar heita ekki lengur Klistín og Auðul, ekki framar ljómi á skylið. Það eru brátt tvö ár liðin síðan bleiur sáust hér á heimilinu - þetta líður svo hratt, alltof hratt.

African Sanctus er loksins að vakna til lífsins í hausnum á mér eftir síðustu æfingu þegar sköllótta ryþmasveitin lét til sín taka og öllu var rúllað í gegn. Maður þarf bara að sleppa sér dálítið í þetta verkefni og láta vaða. Þetta er enginn Allegri, svo mikið er víst. Það er asskolli freistandi að taka fram gamla gospelserkinn frá því í árdaga kórmennsku minnar og svinga litríkt á lokaæfingu á morgun. Svo er víst að verða uppselt á a.m.k. fyrri tónleikana...

Loksins er ég búinn með nýjasta Rebusinn og sá var nú lélegur. Þetta var eins konar æfing í því að taka heitt mál úr deiglu fréttanna og búa til einhvers konar reyfara utanum það. Eins og þessir íslensku höfundar sem þurfa að troða Kárahnjúkum og Kára Stefáns inn í plottin hjá sér. Ég ætti sennilega að gefa mig meira að bókmenntum á borð við þessa eða þessa sem eru hvað eftirminnilegastar af lesningu undanfarinna ára. Annars var ágætt að lesa Mýrina á þýsku þegar ekki var að fá eintak á íslensku á safninu. Nú er ég að prófa Ævar Örn.

Annars varð mér á að svara þýskum vinnufélaga mínum í síma á þýsku um daginn og síðan hélt samtalið bara áfram á því ágæta tungumáli og nágrannarnir á kontórnum létu í ljósi undrun yfir tiltækinu, enda vissu þeir ekki af því að maður kynni þetta. Gott að vita að þýskan er þarna einhvers staðar ennþá, þótt ég hafi ekki tekið að mér þýskumælandi ferðahóp í tæp tvö ár.

Einn sérkennilegasti partur tilhugalífs okkar hjóna fólst í því að ég bauðst til að skrifa lærða bókmenntaritgerð á þýsku um tilvistarkreppu Werthers unga. Ritgerðin var eitt skilyrðanna fyrir því að hún fengi að snúa heim frá námi í München fyrr en ella og hvað leggur maður ekki á sig fyrir ástina... Leiðinleg bók en ritgerðin var samþykkt og þar með réttlætanlegt að nota þýsku í þetta eina skipti án þess að fá borgað fyrir í beinhörðum!

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Öskurdagur 

Ekki veit ég hvernig stendur á því að ég hef verið að rifja upp mér sjálfum mér athyglisverðan þátt í uppvextinum, sem var kjallarinn okkar í Nesinu. Hugsanlega stafar það af því að hann rigndi í stífri sunnanátt um daginn og þá fór að hripa inn vatn meðfram stofuútganginum.

Þegar gerði almennilegt vatnsveður forðum daga safnaðist saman í kjallaranum heima úrkoma af allstóru vatnasviði. Ekki var þar annað en miðstöð (annað heiti yfir olíukyndingu) og e.t.v. einhverjir kassar í geymslu en aldrei gleymi ég kvöldunum þegar maður óð elginn upp í læri við austur til að bjarga miðstöðinni. Þetta gerðist alltaf á kvöldin. Seinna var malbikað og gengið frá almennilegum niðurföllum og þá hætti þetta vandamál að angra fjölskylduna. Hugsið ykkur - lengi vel var steyptur vatnsgeymir á klettinum fyrir vestan húsið, virkilegt kennileiti í bænum sem löngu er horfið. En sá var nú ekki beysinn þótt í notkun væri, krosssprungin í honum steypan og hriplek. Aldeilis hefði verið hægt að bjóða í sundpartí í kjallaranum ef hann hefði farið eins og maður átti alveg eins von á.

Eitt og annað var geymt í kjallara og stundum var maður sendur niður að sækja eitthvað á kvöldin (áður en gengið var almennilega frá dyrum og slíku). Ef ég man rétt þurfti maður að ganga nokkra metra inn í myrkrið til að komast að ljósarofanum og þá kom oftar en ekki fyrir að einhverjar kynjaverur skutust eldsnöggt hjá og út. Þetta voru oftast kolsvartir villikettir sem áttu sér bækistöð í hænsnakofa Grönfeldt sem var úti undir kletti en öðru hvoru skynjaði maður að mýs voru þarna á ferð. Hafi ég einhvern tíma verið myrkfælinn læknaðist það þarna. Það er hvort sem er leitun að almennilegu myrkri núorðið, a.m.k. hér um slóðir og aldrei rafmagnsleysi.

Í dag er öskudagur og frí hjá Snillingi (6) í skóla. Aðalmálið er að finna vettvang til að skarta Spidermanskrúðanum sem hann fékk í afmælisgjöf og búið að leggja drög að því. Í endurminningunni var aðalvandamálið með öskudaginn að finna títuprjóna sem hægt var að beygja. Í gamla daga var maður jú ekki út um víðan völl að sníkja sælgæti eða berja í tunnur, heldur tíðkaðist að rimpa saman nokkrum pokum og fúttið var að hengja þá aftan á fólk sem átti sér einskis ills von. Til þessa þurfti maður sveigjanlega títuprjóna sem voru ekki á hverju strái. Mér vitanlega eru öskupokar úr sögunni enda fáránleg tilhugsun að það sé eitthvað sniðugt við að krækja þessu drasli í ókunnuga. Samt hljóp maður í skjól og hló eins og vitfirringur af kæti ef þetta tókst sannarlega. Nú eru flestar verslanir og fyrirtæki komin með staðlaða miða - ALLT NAMMI BÚIÐ - og þeir yfirleitt komnir upp fyrir kl. hálftíu á öskudegi.

Þess má geta að þetta heimili gefur ekki nammi í tilefni dagsins -

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Eitt og hálft par 

Ætli sé ekki eins með prjónaskap og hjólreiðar og fleira. Hreyfingarnar síast inn í líkamann og hafi maður prjónað fimm pör af sokkum einhvern tíma er glíman við prjónana orðin innbyggð. Sokkaprjón er besta leiðin til að halda sér vakandi yfir sjónvarpi og glæsileg afsökun til að horfa á fótbolta. Þegar hæll og úrfellingar eru komin nokkurn veginn á hreint þarf maður ekkert að hugsa við þetta og kosturinn er að manni er heitt á höndunum og þarf ekkert að hreyfa sig.

Mín kynslóð fór ekki í hannyrðir í skóla heldur smíði, enda voru strákar þá strákar ennþá. Á unglingsárunum, eftir dvöl í sveit, saumaði ég út nokkrar myndir en lærði fyrst að prjóna eitthvað af viti kominn undir þrítugt. Mér finnst heldur leiðinlegt að prjóna á sjálfan mig en hef þó átt nokkra þokkalega fingravettlinga úr eigin smiðju. Málið er að maður er svo stór að það tekur lengri tíma að strauja fötin af mér og prjóna á mig en flesta aðra. Börnin eru t.d. núna í fínni stærð. Að vísu held ég mig við fínna prjón sem fyrr þannig að sokkapar á Undrið tekur t.d. rúma þrjá fótboltaleiki eða þrjár bíómyndir. Þrír sokkar í höfn.

Á laugardagskvöldið náði ég síðan í fyrsta sinn á ferlinum að baka nokkurn veginn fullkomnar vatnsdeigsbollur, að sjálfsögðu í munnbitastærð, enda langhreinlegast að hafa það þannig. 40 stykki og uppskriftin úr Mogganum steinlá (að vísu smér í stað smjörlíkis eins og venjulega).

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Lax lærir að hlusta 

Snillingur (6) tók sig til að loknum kvöldmat á föstudag að klára lestrarbókina sína í einum rykk. Of létt bók sjálfsagt en lífið má ekki eingöngu vera púl og það tíðkast t.d. í undirbúningi bestu fótboltaliða að fá þeim auðveld verkefni til að auka sjálfstraustið. Boðskapur bókarinnar var sá að gott gæti verið og gagnlegt að hlusta og taka mark á þeim sem maður telur sig hafin yfir á einn eða annan hátt. Laxinn álpaðist raunar ekki til að hlusta á sílið sem varaði við ormi á öngli, en slapp fyrir horn þar sem agnið var dregið burt í þann mund sem hann ætlaði að gleypa. Sá stutti las reyndar líka í föstudagsmogga að FH hefði lagt KR í fótbolta og fagnaði mjög.

Uppákoman með enska þuli í íslensku sjónvarpi er hin sérkennilegasta. Um helgina sýnir Skjárinn leiki án þula, með íslenskum þulum, og síðan enskum og skjóta inn örstuttum textabrotum öðru hvoru á íslensku! Það má sýna útlent efni þindarlaust þegar stríð er í gangi en ekki fótbolta. Sumir íslensku þulanna gera tungunni meira ógagn en gagn með vitleysunum í sér.

Í einni stétt sem ég hef tilheyrt hefur verið barist fyrir svipuðum málstað en án árangurs, nefnilega hjá leiðsögumönnum. Það eru engar reglur um að fólk með íslensk leiðsögumannaréttindi skuli fylgja erlendum hópum á ferðum um landið. Þetta þykir sjálfsagt í mörgum löndum. Hvað verður nú um allar þessar sjónvarpsuppákomur þar sem tíðkast hefur að skjóta inn stuttri endursögn á því sem er í gangi? Kærir Skjárinn næstu Óskarsverðlaunaafhendingu?

föstudagur, febrúar 04, 2005

Matur 

Félagi minn einn lýsti því yfir í hádeginu að hann væri þegar farinn að hlakka til að elda sér grjónagraut með tilvonandi erfingja, og jafnvel bjóða upp á slátur með. Konan hans borðar nefnilega ekki mjólkurgrauta. Jafnframt kom fram að þetta yrði liður í herferð sem fælist í því að borða oftar venjulegan heimilismat. Yndisleg stund þarna í hádeginu og umræðan snerist eingöngu um mat.

Þetta voru eintómir karlar við borðið, tveir tveggja barna feður, einn sem á von á sér í mars (alinn upp á veitingastað) og einn ungur sem er enn í móðurfaðmi. Það kom fram að flestir eiga sér ógeðsmat sem fer ekki inn fyrir varirnar - alls ekki. Dæmi: gellur og hrognkelsi. Einnig voru menn nokkuð sammála um að svokallaður heimilismatur hefði í seinni tíð tilhneigingu til að vera sá matur sem börnin geta hugsað sér að borða. Fiskur er ekki lengur þverskorinn og soðinn, heldur ofnbakaður eða steiktur. Vinsælast af hvunndagsréttum meðal barna virðist vera hakk og spakk.

Þetta er sama tilhneiging og ríkir hér á heimilinu. Fiskur, pastaréttir og heimapizza komast næst því að vera öllum þóknanlegir. Svo eru náttúrulega börnin alls ekki eins: Snillingur (6) vitlaus í hammara og pizzu, meðan Undrið (2) er meira fyrir pulsur, beikon og ólívur. En það er ég viss um að hægt væri að hafa grjónagraut upp á hvern dag og fá aldrei kvartanir. Eitt sem pirrar dálítið er þessi árátta sem vissulega er að hluta til sprottin frá leikskólum að dæla tómatsósu út á nánast hvað sem er og ógerningur er að stöðva.

Ég lagðist í dálitlar tómatsósurannsóknir um daginn og komst þá að því að þetta er dálítið sérstök vara. Maður upplifði sl. vor að í hásölum neyslunnar í USA er ekkert einfalt að kaupa vörur á borð við beikon eða sinnep og slíkt. Það er í stærri matarbúðum slíkt ógnarúrval af mismunandi sortum með mismunandi afbrigðum að venjulegur Íslendingur verður stúm. Þetta er afleiðing markaðsrannsókna og liður í því að geðjast öllum og tiltölulega stutt síðan þessi sprenging varð í úrvali. T.d. var ein sinnepstegund allsráðandi en nú eru þær legíó. Við þekkjum mörg slík dæmi sjálf. Einu sinni var ekkert kaffi að hafa nema Ríó eða Braga.

En tómatsósa er búin að vera nánast eins frá 1912 og þar stendur valið milli vörumerkja ekki bragðtegunda þótt eflaust einhverjir telji sig finna mikinn mun á merkjum, rétt eins og veðurfræðingum. Málið er að tómatsósa ku kalla fram þær fimm tegundir bragðskynjunar sem mannskepnan greinir: súrt, sætt, salt, beiskt og eitthvað sem kallast „umami". Að auki er tómatsósa gjarna eitthvað það fyrsta sem börn fá að skammta sér sjálf og börn
fara að þjást af nýjungafælni varðandi mat þegar upp úr þriggja ára aldri, sem er öryggisventill náttúrunnar því að um þann aldur fara þau að eflast að sjálfstæði. Maður treystir þriggja ára barni til að sitja ekki úti í beði og tína upp í sig orma og köngulær. Um tómatsósu má lesa stórfróðlega grein hér, en rétt að taka fram að Malcom Gladwell ritar stórgóðar greinar um eitt og annað, og bendir þar að auki hér á aðra penna sem vert er að kíkja á ef menn vilja lesa góðan texta og fræðast.

Hver hefði t.d. trúað því að einn heitasti heimspekingurinn í Ameríku væri bangsalegur Slóveni sem veltir fyrir sér hversdaglegum fyrirbærum á borð við hurðarlokunarhnappnum í lyftum, tilboðum í stórmörkuðum, auk heimsviðburða. Þetta er í grein Rebeccu Mead.

Annars kom Snillingur (6) heim úr skóla á miðvikudag með þá kenningu að allur matur sem væri ljótur væri jafnframt vondur. Þann dag var þorramatur í Melaskóla.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Party all the time 

Já, hver man ekki lagið góða sem markaði innreið Eddy Murphy á svið dans- og dægurtónlistar? (Ég hélt raunar lengi vel að lagið væri skot á Michael Jackson, sbr. hendinguna: 'Michael wants to party all the time,' sem reyndist vera 'my girl wants to...´.) Jæja.

Þeir voru með tónlistarverðlaunahátíð í varpinu í kvöld og ég skil ekki hvers vegna ekki er búið að finna upp eitthvert smellið heiti á þessi verðlaun: „...og Leifsinn fyrir lagasmíðar..." - Nei, gengur ekki. „...og Heiminn í ár hreppir..." -æ, varla, þótt þetta vísi bæði í tónskáld og karlakór, „...og Langspilið..." Djö, kannski luma lesendur á tillögum. Maður er nottla hundfúll yfir því að kórinn minn tapaði fyrir sálmamjálmi Ellenar. Hefði gert gæfumuninn ef ég hefði tekið þátt í þessum Hjartarupptökum? Trauðla. Ellen var annars hellenvíti góð á bellen um kvellen með Tívolí á menningarhátíðinni Rauðhettu, ´78 eða svo, en síðan hefur ferellen dalað hjá kellen að mínu mati.

Titill færslunnar átti annars að vísa í rúntinn sem maður tekur flesta daga til að kíkja á stöðuna hjá alls ókunnugu fólki sem nennir að skrifa nokkuð reglulega. Svipað og huggulegt partí. Maður ranglar á milli herbergja, hlerar hvert umræðuefnið er og leggur orð í belg ef við á. Margir að hugsa um svipuð mál eða velta upp einhverju áhugaverðu. Málbeinn gjarna í orðaskaki. Þessi rabbar um smáliðadýrkun og þrívélafróðleik. Flesta þekki ég ekki neitt en þekki samt. Svo komst ég að því áðan að sameiginlegt með þessari, auk tónlistaráhuga, er búseta á Njálsgötu og í Sörlaskjóli (spit). Já, ég var lítið hamingjusamur í Sörlaskjóli þennan hálfa MR vetur þar. Það var kalt og vindasamt í Vesturbæ og langt að fara á æfingar með strætó upp í Breiðholt eftir sendisveinastörf síðdegis.

Þessi er orðinn eins og gamall vinur og höfum við þó hvorki hist né her. Hann ritar um sjaldséðan nágranna sem rifjaði upp fyrir mér árin í Hamrahlíðinni. Þar leigði ég herbergi hjá Blindrafélaginu seinni hluta MR áranna og öll HÍ árin. Staðan var sú hjá blindum að þeir voru nýbúnir að taka í notkun slatta af ágætum íbúðum fyrir félaga sína og höfðu nokkur stök herbergi til leigu í húsnæði sínu. Ég fékk inni út á afa minn og alnafna sem var goðsögn meðal eldri félaga fyrir störf sín fyrir þá mörgum áratugum áður. Eftirminnileg ár og ágæt (sérstaklega eftir að þeir endurskoðuðu kyndingarmál hjá sér.) Aðgangur að gufu og dálitlum æfingasal, hjólageymsla og fínt þvottahús, afnot píanós og á drjúgu tímabili hafði ég m.a.s. til ráðstöfunar Trabant sem einn ágætur blindur kunningi átti. Trabbaleigan fólst í því að skutla kunningjanum stöku sinnum í heimsókn til vinkonu sinnar.

Nema hvað. Í herberginu við hlið mér bjó öll þessi 6 ár manneskja, sem ég sá alls einu sinni og varð að öðru leyti ekki var við. Við vorum með svokallaðan sameiginlegan aðgang að svölum og baðherbergi. Þetta var ríflega miðaldra kona sem fór til vinnu á hverjum degi virka daga (skildist mér) og dvaldi í annars í herbergi sínu. Ég var heilmikið á vappi þarna í húsinu og á öllum tímum sólarhringsins en einhvern veginn tókst konunni að haga sínu lífi þannig að hún var ekki til gagnvart öðrum í húsinu. Nánast yfirnáttúrulegt hve hljóðlát og ósýnileg manneskjan var. Kommon, sex ár! Eina skiptið sem ég sá hana var snemma morguns á stúdentsprófsvorinu mínu þegar svefntími minn var 19.00 - 02.30 að öllu jöfnu. Þá átti ég erindi fram á gang snemma morguns og hef sennilega verið óvenjuhljóðlátur því að nágranninn álpaðist til að rjúka út úr herbergi sínu rétt um það bil sem ég gekk hjá. Báðum brá okkur ákaflega, en eins einkennilegt og það kann að virðast man ég ekkert síður hvernig konan leit út en aðrir sem maður umgekkst á hverjum degi. Skyldi svona fólk vera víða á ferð?

Sennilega er þetta orðinn rúmlega 17" færsla en nýr skjár kom í hús hér á mánudag. Stórfyrirtæki í ferðabransanum að skipta út vélbúnaði og starfsmenn fengu ágætt tilboð sem frú mín nýtti sér að minni áeggjan. Hún hvarf síðan til Ameríku og er þar enn. Fínn og flatur og svartur Dellari en maður er nú orðinn vanur 2x19" í vinnunni þannig að... Eitt skrýtið þó. Ég álpaðist til að reyna að fara á heimasíðu Iceland Express og umsvifalaust kom upp eftirfarandi melding: „Þessi skjár mun springa í loft upp ef þér reynið þetta aftur.
"

Áar mínir ánar 

Samkvæmt kenningum þessa manns er ein af fimm höfuðástæðunum fyrir hnignun og falli samfélaga sú að þau hafa tilhneigingu til að halda alltof fast í menningarhefðir og siði. Þetta varð m.a. til þess að norrænu Grænlendingabyggðirnar liðu undir lok. Þeir gátu ekki hugsað sér að éta fisk og þeir síðustu í hópnum sultu í hel þegar þeir voru búnir með seinustu tutlurnar af mjólkurkúnum sínum. Þá var auðvitað búið að ganga á með gróðureyðingu, nágrannaerjum við heimamenn, Skrælingjana, (sjálfsagt mikið til út af rasisma), kólnun veðurfars, samgönguerfiðleikum og þar með brottfalli verslunar. Ef 80% landsmanna eru ósátt við ákvarðanir núverandi stjórnvalda í tilteknum málum spyr ég hve hátt hlutfall þeirra lætur þá skoðun í ljósi næst þegar tækifæri gefst til? Ekki 80% spái ég. Við erum föst í þessari sjálfseyðingarhringavitleysu. Við erum sömu ánarnir og áar okkar svo maður noti nú þessi blessuðu krossgátuorð.

Svipuðu máli gegnir um mína menn í boltanum. Allt í blóma þar á bæ eftir nokkur mögur ár. 5. sæti í deild, fín spilamennska, enn í bikar og menn búnir að segjast halda áfram á sömu braut. Kemur þá ekki tilkynning um að efnilegasti maður liðsins sé á förum í sumar. Scheisse! Og það til Tottenham...

Það vill til að maður hefur tæplega tíma til að verða skapvondur yfir þessu, enda sólóforeldri nú í nokkra daga. Æ betur kemur í ljós að staða okkar hjóna sem Besserwisserar heimilisins er í alvarlegu uppnámi. Um daginn ókum við framhjá húsi þar sem Snillingur (6) dvaldi dagpart meðan kennaraverkfallið stóð yfir. Undrið (2) kom með mér að sækja drenginn daginn þann:
P: Manstu hver á heima þarna.?
U: Já.
P: Það er amma hans Palla, manstu?
U: Hún heitil ekki amma, kjáni - hún heitil Lllllúna.
P: (spældur) Segðu eRRRRR

This page is powered by Blogger. Isn't yours?