<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, mars 31, 2005

Vor? 

Það var fínt að komast nokkra daga í bústað í Húsafelli þótt ekki næðum við hitametsdeginum. Þessir bústaðir núorðið bjóða oftast uppá eitthvað sem er flottara en maður hefur heimavið (t.d. heitan pott eða uppþvottavél) en það eina sem ég saknaði var textavarpið, af einhverjum orsökum. Maður vill geta náð í tilteknar upplýsingar strax og margt af því er að finna þar. Ekki var golfvöllur tilbúinn en við fórum samt að berja kúlur nokkrum sinnum, iðkuðum fótbolta auk þess að lesa helling, borða vel og ganga upp í gilið. Vel heppnuð bústaðarferð sem lauk með því að við festum okkur í vegaframkvæmdum á bakaleið. Gott að eiga svoleiðis í minningunni.

Æskuminningar af fjölskylduferðum tengjast margar ferðum í uppsveitirnar Borgarfjarðar og þar vann maður nokkur sumur við vegagerð og raflínumennsku. -Hér er brekkan sem var einu sinni svo brött að Trabbinn dreif ekki upp fyrr en í fjórðu tilraun; hér er uppáhaldsfjallið hans afa ykkar; hér er jökullinn sem hann frændi okkar á; þetta ræsi setti ég nú í veginn á sínum tíma; einu sinni óð ég þarna yfir Blundsvatn; þarna kom ég fyrst á hestbak á ævinni. - Svona lét maður á leiðinni.

Ég sleppti víst sumu.

Þegar eiginlegt páskafrí byrjaði komum við heim og tók þá við hörð snerra í garðinum sem skilaði sér í örgustu garðsperrum - þær eru enn til staðar. Ég er á því að vorið sé komið enda eitt og annað farið að spretta og Snillingur (6) kominn með sumarklippingu.

Tengdaamma Dúdda lést á föstudaginn langa og verður kvödd á morgun. Hún var orðin harðfullorðin þegar ég kom til sögu í fjölskyldunni og heilsulaus síðustu árin, enda af þeirri kynslóð sem fékk að slíta sér út til þess að við gætum haft það gott. Ég minnist hennar með virðingu.

þriðjudagur, mars 15, 2005

Hættið að grafa, strax! 

Atvinnulífið? Hvað er nú það? Orðið fyrirfinnst ekki í minni orðabók en miðað við umræðu undanfarinna daga er eins og þetta orð eigi við starfsemi utan opinbera geirans sem sé í alla staði merkilegri en starfsemi hans. Ég er staddur í atvinnulífinu núna en var áður hjá hinu opinbera; semsagt öllu flottari nú en þá! Það kemur e.t.v. fram í pyngjuþyngd en að samanlögðu var gamla aðalstarfið ekkert ómerkilegra eða minna gagnlegt. Mér finnst ömurlegt hvernig menn leyfa sér að halda fram að vinna hjá hinu opinbera sé einhvers konar ómerkileg áskrift að launum. Líka kostulegt að halda því fram að sölustjórastaða í Marel Far-East sé jafngildi þess að vera „forstöðumaður eins framsæknasta fyrirtækis á Íslandi." Kommon! Holan var nógu stór fyrir.

Því meira sem tindátarnir reyna að útskýra fréttastjóraskipunina þeim mun dýpra sökkva þeir í dýið og nýrri lægð náði Markús í Kastljósinu, með því að varpa ábyrgð á öllu yfir á aðra hvort sem var hallarekstur (Kári J.), slakt gengi meðal ungs fólks í hlustendakönnunum (fréttastofa) eða Ráðningin (útvarpsráð). Hvers vegna er hann sjálfur ekki búinn að láta til sín taka ef þetta er allt svona ömurlegt? Halló, útvarpsstjóri! Ó, þetta skemmtilega ribbaldaforingjaviðhorf: „Svona verður það haft; þið getið hætt að rífa kjaft!" Pétur Gunn er farinn að líta út eins og bilað forrit sem leit vel út í byrjun en endar með því að eyða sjálfu sér. Svo mætir vesalings Auðun og fær í smettið: „Við erum 30 þú ert einn! Þú verður dissaður, ungi sveinn."

Hvað á annars Markús við með því að segja að ungur fréttastjóri geti orðið til þess að unga fólkið fari að hlusta á fréttir RUV? Hann sem hlustar sjálfur mest á BBC, að eigin sögn í Vesturbæjarblaðinu, minnir mig...

Þessi ungi maður veit hvað hann ætlar sér, en búningurinn sem hann er íklæddur á myndinni er náttúrulega grín og ekki í tengslum við raunveruleikann! Skemmtilegt að hann ætlar að feta í fótspor föðurins. Þessar fyrirætlanir hans opnuðu augu mín fyrir því að ég er í fullri og göfugri vinnu við alþjóðleg hjálparstörf (fyrir búðarmenn). Sæki um hjá Rauða krossinum næst þegar losnar feit staða...

Svo fór ég að viðra golfkylfur í helgargaddinum. Mitt golf iðka ég utan alfaraleiðar - og alls ekki á golfvelli á þessum árstíma, enda löngu hættur í golfi. Uppáhaldsstaðirnir tveir eru í nágrenni Hafnarfjarðar og nú brá svo við að ég fann bankakort og kvenmannsúr bókstaflega í óbyggðum. Ég er á því að truntur hafi gleypt hvort tveggja og skilað því svo af sér þarna því að aðrar skepnur hef ég aldrei séð á þessum slóðum. Það er dásamlegt að dengja þessum kúlum út í loftið og leita svo að þeim og endurtaka svo leikinn ad nauseam. Sveiflan er á sínum stað, og táknræna staðfestingu á því fékk ég í sjoppu í Garðabæ á bakaleið þar sem sveiflusaxistinn, Sigurður Flosason, var með fjölskylduna að snæða ís í næðingnum.


föstudagur, mars 11, 2005

Beðið 

Enn bíð ég í ofvæni eftir fýlubombunni sem Fischerfylkingin ætlaði að sprengja á öðrum degi ef Japanir létu ekki kappann lausan. Ég bíð eftir að Jóhann Hauksson gefi upp hvað Áldór sagði við hann um þessi ráðningarmál á RÚV. Loks bíð ég eftir því að veðurstofan afturkalli spá sína um frostakafla á næstunni og segi: Nanana-gúgú!

Annars sá ég Markús Örn í Nóatúni um daginn þar sem hann velti fyrir sér hvort hann ætti að velja grófa eða fína lifrarkæfu úr kælinum. Þarna stóð karlgreyið með sína dolluna í hvorri hönd með örvæntingarsvip og sem ég fikraði mig í áttina að skyrinu sé ég að hann seilist eftir gemsanum - sjálfsagt til að fá lifrarkæfulínuna frá ráðgjöfunum réttu.

Einu sinni var ég í menntaskólabekk með núverandi varamanni í útvarpsráði (þessum sem Jóhann Hauksson varaði við að skrökva.) Af einhverjum völdum flutti ég fyrirlestur í tíma um Uppreisn alþýðu eftir Einar Olgeirsson, í verkefninu „Fyrirlestur um bók að eigin vali." Að fyrirlestrinum loknum spurði varamaðurinn hvort fyrrverandi ASÍ maðurinn væri afi minn og alnafni. Ekki hefði mér dottið í hug þá að þessi greindi maður yrði síðar talsmaður Framsóknarflokks en þarna strax var hann nú samt farinn að pæla í einhverjum pólitískum ástæðum fyrir vali mínu. Afi minn og alnafni var ekki forseti ASÍ þótt pólitískur væri.

Seinna var ég plataður til að sækja um ópólitískt opinbert starf sem pólitískt kjörnir menn véluðu um. Þetta var meðan ég enn var í fótbolta og viðkomandi menn höfðu mikinn áhuga á honum. Ég fékk þær upplýsingar að allir væru sáttir við að fá mig í djobbið. Svo kom bréf þar sem kom fram að ég væri ráðinn með atkvæðum meirihlutans en minnihlutinn hefði valið annan. Minnihlutinn var vinkonur eiginkonu hins eða eitthvað svoleiðis. Ég dró umsóknina til baka samstundis og hef aldrei séð eftir því enda fúlla en flest að láta plata sig. Minnihlutamaðurinn gegnir hins vegar starfinu enn og stendur sig vel að ég best veit en fótboltinn á staðnum blómstrar ekki.

Sáningin sem ég minntist á um daginn tókst framúrskarandi vel. Allt er farið að spíra og vaxa og lítur vel út með sumarblómahaf og krydd í sumar. Fyrstu tilburðir mínir við ræktun af fræi hófust 18. júlí 1994 og enn lifa tveir kaktusar sem fóru í mold það kvöld, þrátt fyrir misgóða umhirðu. Á tímabili var heimili mitt eitt blómabeð en nú er ræktun jurta árstíðabundin enda aðrar verur mikilvægari.

mánudagur, mars 07, 2005

Sumt breytist, annað ekki... 

Til eru dýr og fólk sem engum er annt um. Þegar einhver elskar mann, langar mann til að lifa. Ást er ótrúlega sterkt afl - eins og sjálfur lífsviljinn. (Hannesar saga Grásteins 5. bók, bls. 24)

Já - sæmilega háfleygur textinn a tarna sem er beint uppúr lestrarbók Snillingsins (6). Óborganlegt að heyra hann lesa þetta sinni björtu rödd. Nóg að gera á þeim bænum þessa dagana, skólasund og fótbolti á fullu -
suma daga er hann lengur að heiman en ég, karlgreyið. Undrið (2) er svo upptekið af því að vera stórt að maður gleymir því stundum sjálfur að hún er lítil. Hví skyldi hún ekki mega fela hnífapörin undir spaghettilengjunum ef henni dettur það í hug? Hvers vegna finnst mér það ekki gaman? Hey, hver segir að mér finnist það ekki gaman; bara leyfi mér það ekki!

Um daginn borðuðum við Ora fiskbollur og sú stutta raðaði öllum sínum bitum skipulega í hring á diskinn og nefndi síðan nafn leikskólafélaga um leið og hún stakk þeim uppí sig. Þarna borðaði hún semsagt börnin á eldri deild skv. uppröðun í leskrók, réttsælis, með tómatsósu og kokkteil!

Stundum ræðum við gæludýrahald hér á heimilinu - það er nú einu sinni þinglýstur réttur okkar að halda hund hér í húsi. Ég er á móti, aðrir með. Samt var ég löngum mikið fyrir ketti og hef átt þá nokkra fyrir trúnaðarvini. Aðallega eru mín mótrök óþrifnaðurinn (og ég er með lágan þröskuld gagnvart slíku), en kattahald endar líka alltof oft með einhverri tragedíu. Þegar við flytjum í uppsveitir, í stóra kotið við golfvöllinn, skal ég glaður halda hund og kött. En það verður þá að vera einhver gamaldags margblandaður sveitahundur sem hrafnar mega stríða, ekki svona viðrini eins og margir nýhunda á landinu eru (afsakið fordómana.) Hvað er annars með þessi hundanöfn? Við vorum um tíma með ljótan fisk í pössun og hann reyndist lítill gleðigjafi.

Maður fylgdist með einvíginu ´72 þótt ekki hefði það kveikt skákáhuga. Pabbi tók mig með í Höllina á 11. skákina eða svo, og ég man eftir ljósaskilti hægra megin við sviðið sem á stóð SILENCE. Mér fannst það flott, og svo voru Geller gamli og Larissa Spasskaya að fá sér kaffi frammi í teríu, ein tvö borð frá okkur pabba. Man líka eftir Lothari Schmidt dómara vappandi um sviðið, en aðalspenningurinn við þetta einvígi fólst í að fylgjast með hvaða rugli Fischer tæki uppá næst. Ég spái sambærilegum spenningi ef þeim tekst að drösla karlskarfinum hingað fyrir rest.

Kalt á toppnum 

Það var alltaf læri eða hryggur í sunnudagsmat og svo gjarna sveskjugrautur með rjóma á eftir á æskuheimilinu. Hér er átt við hádegismat. Nefni þetta vegna þess að ég fór í hádegislæri hjá tengdó í gær og menn duttu í nostalgíu.

Annars stendur uppúr hvað mig varðar þessa helgina að ég týndi kaffibrúsanum mínum. Vönduðum brúsa af Vango gerð. Eiginlega gleymdist hann í Neskirkju en þar var kórinn minn í upptökum á laugardag. Vonandi bjargaði einhver skilvís aðili gripnum þannig að ég endurheimti hann á næstu kóræfingu. Ef ekki mun ég yrkja auglýsingu í þessum anda:

Lýst er eftir Landrover.
Löngum vínrauðum Defender.
Tengdamamma á toppnum er.
Týndist 11. desember.

Tekið skal fram að viðkomandi Landrover fannst í húsasundi steinsnar frá Lögreglustöðinni eftir 2. vikna stífa leit.

Þetta var býsna viðburðarík helgi hjá ýmsum í nágrenni mínu og Derby vann góðan sigur. Frú mín komst óvænt á Carreras tónleikana og var harla ánægð með þá upplifun. Einn gekk til altaris í fyrsta skipti, annar náði því langþráða takmarki að fá konu sína með í fótboltaferð til Lundúna (með því skilyrði að ABBA sjóið yrði inni í pakkanum) og sá þriðji fór á herrakvöld KR og var óhrifinn. Snillingur (6) náði sínum lengstu golfhöggum um ævina í gærmorgunblíðunni, og mega rúðueigendur í grenndinni nú fara að vara sig. Eitthvað fleira líka hjá öðrum. Svo braut Fischer japanskt nef af því að hann fékk ekki egg að éta. Hvað er í gangi?

Það gaf ágætlega til útiveru enda börnin mikið úti um helgina. Undrið (2) er að verða fúst og fullfært um að sjá um sig sjálft í útivist enda oftast einhverjir nálægir til að snuddast kringum. Maður gáir út öðru hvoru og athugar hvort ekki sé allt í lagi - og í gær skilaði eftirlitið því að ég gómaði Snilling glóðvolgan efst í hæsta tré hverfisins ásamt bekkjarsystur sinni. Nei, nei, ekkert ósiðlegt í gangi en þetta tré er einar 7-8 drengshæðir og ekkert skárra að detta þaðan en ofan af húsþaki. Ég rak hann niður mildilega og er hann steig á fósturjörðina gaf hann yfirlýsingu:

Pabbi - það er kalt á toppnum, en býsna gott útsýni.

föstudagur, mars 04, 2005

Rokin suuri tuntematon 

Í fyrrakvöld vaknaði ég rétt í tæka tíð til að ná finnsku heimildarmyndinni um bassasnillinginn Carol Kaye. Flott kona og frábær tónlistarmaður með ótrúlegan feril að baki. Vann á daginn við að vélrita leyniskýrslur og spilaði jazz á kvöldin til að sjá fyrir börnunum og mömmu sinni. Gerðist svo stúdíóbassisti og lék í lögum sem allir þekkja - m.a. hjá Ray Charles, Stevie Wonder, Quincy Jones, Beach Boys og í ýmsum bíómyndum og þáttum. Það var ágætt að myndin er finnsk - konan fékk frið til að láta ljós sitt skína og sagði yndislegar sögur úr bransanum.

Einn af draumunum mínum áður fyrr var að spila á bassa og eiga stórt mótorhjól til að aka virðulega um uppsveitir - og ég geri hvort tveggja reyndar iðulega í dagdraumum. Manni nægir í alvörulífinu að syngja bassa og svo fékkst ágætisútrás fyrir véladrauma í sumarvinnu skólaáranna á tækjum á borð við Michigan, Jacobsen, Bröyt, að ógleymdum Zetor. Á því fyrstnefnda leysti ég af nokkrar vikur við ámokstur á vörubíla í malargryfju, þá 17 ára og ábyrgðin mikil því að ef maður sturtaði þessum 4 tonnum úr skóflunni skakkt á vörubílspallinn átti maður á hættu að eyðileggja viðkomandi bíl.

Ég verð seint talinn tækjasjúkur en hafði þó gaman af því að skoða lista yfir 100 merkustu smátæki (gadgets) sögunnar. iPODinn er þar í 12. sæti og þarna er að finna margt athyglisvert sem bæði kveikir minningar og kemur á óvart. Ekki vissi ég t.d. að armbandsúrið væri einungis 101 árs gamalt fyrirbæri sem slíkt, þótt úr séu mun eldri.

Þessi kristilega innræting á leikskólum skilaði sér hér inn á heimilið í dag þegar Undrið (2) fór að kyrja Jesús er besti vinur barnanna af eldmóði. Ég hálfskammaðist mín fyrir að kunna þetta ekki almennilega til að taka undir og hlýt á næstunni að fara með hana í barnamessu til þess að sjá hvort hún kann betur að meta slíkt en Snillingurinn (6).

Hann hefur lýst yfir áhuga á að eignast Chelsea búning, blessaður drengurinn og ég veit reyndar um stað þar sem hægt er að kaupa hann á viðráðanlegu verði. Hrikalegt annars að vera ekki búinn að ná í Derby treyju á snáðann en menn verða víst að fá að velja á eigin forsendum. Nú verð ég hins vegar að fara að prófa eBay. Þar er möguleiki að ná í búninga sem ekki eru á hverju strái, og reyndar ekki bara búninga. Mín netkaupafóbía stafar af því að fyrir mörgum árum pantaði ég disk frá Svíþjóð með Requiem sem KLK var að fara að flytja og því fylgdi fjandans skýrslugerð og himinhár kostnaður en nú eru vonandi breyttir tímar. Það er eitt og annað á neti sem ég gæti hugsað mér að eignast og vissulega möguleiki að láta senda á áfangastaði spúsunnar erlendis til að sleppa við óþörf gjöld.

Hún lenti annars í seinkun á flugi í dag og ástæðan: Óveður og kafsnjór í Amsterdam! Mér fannst með ólíkindum að hugsa til þess að slíkt gæti átt sér stað. Í dag fórum við feðgin dálitla stund í garðinn að hreinsa lauf úr steinhæð og ekki laust við að þar glytti hér á þar í græna vorboða þegar maður ruddi burt rotnandi gróðurleifum síðasta sumars.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Geimskip á austurhimni 

Ég kem sjaldan heim á kvöldin því að yfirleitt er ég þá heima. Þriðjudagar eru undantekningin og ég hef tekið nokkrum sinnum eftir geimskipi lágt á austurhimni á leið minni heim af kóræfingu. Þar sem ég er lítið fyrir yfirnáttúruleg fyrirbæri eða vísindaskáldskap hef ég ekki hugsað nánar út í þetta en aðdáendur slíks verð ég að hryggja, eftir á að hyggja, með því að þarna er sennilega um skíðasvæðið í Bláfjöllum að ræða - flóðlýst og fínt. Þangað hef ég aldrei komið. Fyrsta daginn minn í Noregi gekk ég upp á efsta þrep skíðastökkpalls bæjarins míns og lauk þar með skíðastökksferlinum jafnharðan og hann hófst. Ágætt útsýni samt.

Þessi dásamar sinn Vesturbæ og einkum Skerjó. Mér finnst Skerjafjörður nú vera úthverfisþorp. Talsvert um það að hér búi heilu ættirnar og nokkrir lókalviðburðir á ári sem efla kynni fólks. Ég veit líka af fólki sem veit allt um alla hér í þorpinu og miðlar óspart eins og vera ber. Svo hittast foreldrar á (einkarekna) leikskólanum en það er eina þjónustustofnunin sem er hér. Skerjaver fínt fyrir sinn hatt og nauðsynlegt dvergmoll, en í þorpinu mínu í gamla daga voru Stebbi skó, Reynir rafvirki og svona náungar sem hægt var að leita til með eitt og annað; trésmíðaverkstæði þar sem mátti sníkja efni í örvar, dekkjaverkstæði þar sem kallarnir redduðu lími og bótum ef sprakk á hjólhestinum Hægt að ganga á bókasafnið og í skólann og á æfingar. Svona samfélag var að hluta til enn til staðar í Hafnarfirði á mínum árum þar, a.m.k. fyrir þá sem komust í réttu kynnin, eða voru Gaflarar.

Hinu verður ekki neitað að hér er sennilega fínt að vera krakki fram að unglingsaldri og betra en víðast hvar. Lítil umferð, slatti af leiksvæðum, stórir garðar og fjara. Frá ca. 3-4 ára aldri þekkjast öll börnin hér sem eru á svipuðu reki og gjarna er stofnað til útileikja á sumarkvöldum. Mjög heimilislegt þegar garðurinn er skyndilega þakinn börnum að brjóta niður gróðurinn eða þegar nágranninn sést þjóta út að huga að ungum sveini sem hefur orðið sér úti um gat á hausinn. Það horfir reyndar til gósentíðar fyrir krakkaskarann því að heyrst hefur að hér verði allt grafið sundur og saman í sumar.

Reynslan af tveggja sumra störfum við götusprengingar, klóakkviðgerðir og slíkt kenndi mér að börn safnast að verklegum framkvæmdum sem flugur að ferskum skít. Sumarið ´80 urðu nokkrum sinnum skrílslæti meðal ungdómsins í Sæunnargötu, í póstnúmeri 310, þegar ég lék tónlist á forláta sög sem við
hrepparar höfðum í fórum okkar.

Svo er nú fjandakornið ekki langt að fara í skólann úr Skerjó, allt upp í Háskóla og ekki tekur nema 5 mín. að koma sér á spítala, eða bókasafn, þannig að maður kvartar ekki.
Hins vegar þurfa börn sem búa hér og ætla að æfa með KR að fara oní bæ og skipta þar um strætó eða hjóla ella sem er varla kostur í stöðunni fyrir þau yngstu í skammdeginu í alls konar veðrum. Æ, ég gleymdi, við erum stödd á skutlskeiði mannkynssögunnar. Börnum er skutlað nú til dags.

Ekki held ég að grundvöllur sé fyrir pöbb hér í nágrenninu og er það vel. Það eru hálfgerðir subbupöbbar sitt hvoru megin við vinnustaðinn minn, á svæðinu sem Guðmundur Andri kallar Desolation Row í Fréttablaðsgrein og næstir þeim síðan tvær af helstu stofnunum í veitingageiranum hér, Múlakaffi og Broadway.
Pistill Helgason hefur sennilega aldrei komið á þessar slóðir og fjallar því ekki um það í sínum Kofaborgarannál.

þriðjudagur, mars 01, 2005

Hann á afmæli í dag! 

Jú, altso bjórinn! 16 ára landvistarleyfi. Nú hefði verið sungið á ónefndri kennarastofu.

Það er lækur... 

fyrir norðan sem kallast Framsókn. Hann ku vera nefndur eftir stjórnmálaflokki sem er svo stefnulaus að hann fer nánast í hringi kringum sjálfan sig. (Þessu laug einhver leiðsögumannskollegi að mér.) Staðreyndin er sú að lækurinn kallast Þingmannalækur og rennur í Fnjóská, en viðkomandi þingmenn voru aftur örugglega framsóknarmenn, því að lækurinn fer um dalbotninn í ótal hlykkjum, hægri, vinstri, til baka og svo aftur oní sjálfan sig einhvern veginn. Ekkert ósvipað og Reykjadalsá þar sem hún liðast um landareign Steingríms Hermannssonar að Kletti, nálægt Stórakroppi. Í jarðfræði eru svona bugður til merkis um þroskað vatnsfall (e. meandering stream), ég sagði JARÐFRÆÐI. Ég held að Doddson sé ekki með læk á sínu sumaróðali; ef eitthvað rennur þar er það á, og sennilega Rangá.

Auðvitað les ég reglulega hvað Siv er að bardúsa, enda leitun að annarri eins fyrirmynd hvað varðar dugnað, heilbrigt líferni, og almennan skörungsskap. Steini karlinn hennar er líka gamall skólafélagi. Svo finnst mér athyglis- ef ekki aðdáðunarrvert hvernig manneskjan getur haldið sinni persónu algerlega utan við sín skrif sem eru jú nánast svona eftiráritaradagbók með fjölskylduívafi. Maður veit aldrei hvað hún hugsar eða hvernig henni líður. Hún varð mér reyndar hvatning til að sá í
gærkvöld í nokkra moldardalla blómafræjum og kryddjurtum. Fyrst Siv og fjölskylda eru að sá er örugglega rétti tíminn fyrir alla aðra að sá til forræktunar.

Ég átti annars leið framhjá Nordicu meðan Framarar þinguðu þar og get vitnað um að nýi BæverskiMótorWerkur leiðtogans er ekki grænn heldur foringjasvartur og flottur. Enginn LandRover þar á ferðinni eins og Framsóknarmenn í mínu ungdæmi óku margir. Má vera að ekki sé laust við einhvern fiðring í kallinum að fá sér svona bíl - sá var annars þreifandi kátur að vera endurkjörinn með ritara og alles.

Í gær gerðist í fyrsta sinn í 14 ár að ég tæklaði andstæðing svo rækilega að viðkomandi yfirgaf völlinn og fór aftur í vinnuna. Þetta var í hádegisfífufótbolta og gerði ekkert til því að viðkomandi er vælukjói, Gróttu/KRingur sem getur ekkert, og þar að auki varð jafnt í liðum við brotthvarf hans. Má raunar efast um hvort hafi verið um brot að ræða - örugglega ekki. Ég hef hitt menn á lífsleiðinni sem hafa haldið því fram að ég hafi meitt þá illa í fótbolta en það er haugalygi, held ég. Í versta falli hef ég dottið á þá eða runnið. Hitt er svo annað mál að hausinn á mér er harðari en flestra enda margur farið illa skekinn út úr skallaeinvígjum við mig, eða hlotið glóðarauga.

Um helgina kom þrennt í ljós: Ég
og upplifði á árshátíð Icelandair enn og aftur hvað ég er feikivel giftur; á bjórkvöldi í vinnunni heyrði ég að efniviðurinn í karlakór fyrirtækisins er ekki beysinn (þar var svokölluð Singstar-keppni), og í þriðja lagi kom í ljós að afleiðing þess að karlmenn sjá alfarið um skipulagningu slíkra viðburða er sú að ekki verður skortur á drykkjarföngum þótt matarþátturinn verði gersamlega útundan. Spurning hvort maður taki þá bara sóló á okkar árshátíð ef andagiftin heilsar uppá mig til yrkinga. Ég er kominn með lagið og byrjaður á texta - hvað annað en People are strange með Doors kemur til greina þegar maður yrkir um Streng? Tillögur eru vel þegnar, enda enginn úr vinnunni sem fylgist með þessum skrifum að ég held.

Ekki verð ég með í Jóhannesarpassíu hvort sem er - sá draumur reyndist óraunhæfur þótt KórJónsi hefði sannarlega fagnað fyrirspurn minni. Æfingaplan gekk ekki upp miðað við aðra dagskrá mína og fjölskyldunnar í komandi mánuði.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?