<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Frambruni og fleira 

Það hitnaði í kolunum í síðasta hádegisfótboltatíma vetrarins í höfuðstöðvum Fram. Í stöðunni 15-14 (fyrir hina) tóku að heyrast brestir uppi við loft og svo sást reykur og við urðum að fresta leik. Þetta leit satt að segja ekki vel út þegar maður kom út eftir eldsnögga sturtu - heilmikill reykur og viðbúnaður. Sem betur fer fór þó ekki á versta veg. Spurning hvort þetta verður notað í einhverri kosningabaráttu - ég sá þarna Össur auglýstan sem aðalræðumann á einhverju herrakvöldi Framara.

Þarna hélt ég að kominn væri skammturinn af lögguhasar og slíku fyrir daginn, en nei! Á leið í strætó kom ég þar að sem verið var að drösla stúlkukind einni inn í skýli og stumra yfir. Hún var það illa haldin að hringt var á aðstoð og innan skamms voru komnir tveir af hvoru löggu- og sjúkrabílar, fjórar löggur, tveir eða þrír læknar og fjórir sjúkraflutningamenn og ein mamma. Greyið stúlkan hafði dottið illa er hún steig úr strætó, snúið sig og þegar hún reyndi að standa á fætur leið yfir hana. Ég gegndi eiginlega engu hlutverki í þessu nema finna út heimasíma dömunnar meðan hún var enn hálfpartinn út út heiminum, en missti af strætó fyrir vikið þar sem hann kom áður en hjálparliðið mætti.

Lærdómurinn sem af þessu má draga er að ef eitthvað kemur fyrir sé
hugsanlega best að hendast strax út á götu eða gangstétt og láta aðvífandi fólk taka þar við. Viðbrögð lögreglu voru alltjent snarpari en þegar ég lét vita af hnífamönnum á barnaleikvelli forðum daga. Einnig dreg ég þann lærdóm að fólk hér sé enn í lagi þegar svona uppákomur verða - þau tvö vitni sem tekið höfðu málin í sínar hendur voru annars vegar harðfullorðinn maður sem leit út eins og jólasveinninn og hins vegar ung nýbúastelpa. Eftir að ég var kominn þarna bar einnig að unga stelpu sem hafði séð úr bílnum sínum hvað gerðist og hafði greinilega lagt á sig heilmikinn krók til þess að athuga hvort hún gæti orðið að liði, skutlað á slysó eða eitthvað.

Það er góð tilbreyting að taka strætó og fimman er sem sniðin að mínum þörfum. Maður hefur svo ágætan tíma til að hugsa og horfa og hlusta. Tvö skipti hef ég lent á sama bílstjóra og fékk sama brandarann í þau bæði. Skáld í skýli, börn í byssó, og undirleikurinn einhver blanda af technotakti sem berst úr útvarpi bílstjórans og gemsasamtali unglingspíu. Skemmtilegt.

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Það var þá 

Fyrir um ellefu árum lagði ég leið mína upp í Karmelítaklaustur með ritvélar tvær: Annars vegar ágæta fermingjargjöf, ABC skólaritvél og síðan rafmagnsvél sem kom seinna í mína eigu. Þessar vélar áttu víst að fara til Afríku til þess að einhver þar gæti lært fingrasetningu og þ.h. Síðan þetta var eru nokkrar kynslóðir af tölvum gengnar hjá og sjálfsagt margir skjáir sem rykfalla í geymsluhillum, og víða er ástandið líklega svona á haugunum.

Ég er þessa dagana að stinga út, eins og í sveitinni í denn, og velti fyrir mér hvað ég á að gera við gamla skjáinn minn sem er ósköp venjulegur 15" og í fínu lagi. Þarf bara að koma honum úr húsi og hef ekki heyrt af Afríkusöfnun nýlega. Þeir henda svona dóti í massavís í fyrirtækinu mínu þar sem fólk þarf ýmist flatari eða stærri skjái nú til dags. E.t.v. best að setja þetta í Sorpu/Góða hirðinn þar sem ég fékk mína fínu línuskauta á kr. 1000.

mánudagur, apríl 25, 2005

Hvað væri landslag? 

Fermingarveisluferð í gær á Snæfellsnesið. Mér finnst leiðinlegt að keyra en veðrið var gott og skemmtilegt að rifja upp í huganum þessi kjarnmiklu og furðulegu örnefni og bæjarnöfn sem verða á leið manns: Hausthús, Litla-Skyrtunna, Hestur, Helgrindur, Skjálg, Berserkjahraun og Elliði. Förunautar mínir sváfu eða dormuðu á vesturleið en þá er maður meira svona á leið inn í fjöllin og því skemmtilegri sýn á þau.

Löggan var með einn í sektarmeðferð skammt norðan við Fáskrúð þegar við brunuðum vestur og á suðurleið var löggufundur skammt sunnan við Eiðhús í Eyja- og Miklaholtshreppnum. Jeppaliðið var sem kýr á vori þegar ljóst var að ekki væri von á hraðamælingum um sinn og geystist framúr á ca. 140 km hraða eða þar um bil, sumt með motocrosshjól eða annað í eftirdragi.

Á vesturleið var ég að velta fyrir mér hvað væri verið að byggja svo merkilegt í Borgarnesi að reisa þyrfti utanum eina ljóta skemmu meðan á byggingu stæði. Þetta hvarflaði að mér þar sem téð bygging er framtíðarandlit staðarins, og rís austan fótboltavallartanga eins og ég þekkti hann forðum. Þarna var lítill klettur á sínum tíma sem fór á kaf á stórstraumi en nú er allt breytt. Skemman ljóta er framtíðarBónus þeirra Borgnesinga og mun ég nú fyrirgefa hverjum þeim sem velur að flytja á brott af skipulagsástæðum. Jeremías minn.

Ef einhver hefði nennt að standa og fylgjast með birkinu síðustu tvo sólarhringa hefði sá ekki orðið fyrir vonbrigðum. Mikið í gangi þar og ætti laufskrúð að prýða garða hér í firðinum áður en vikan er liðin.

Í fyrradag náði ég sundi, golfi og línuskautum á sama deginum. Allt gekk þetta vel, nema einhver kúkar alltaf þegar við eigum leið í Árbæjarlaug. Að þessu sinni átti þetta sér stað í sturtu og er það sýnu skárra en að lenda í óæskilegum veiðum í smábarnainnilauginni eins og þar áður. Snillingur (6) fékk sína langþráðu línuskauta og jaskaði sér út á fyrsta degi á eftirminnilegan hátt. Þegar ég kom úr golfinu fórum við dálítinn hring feðgarnir - öðru hvoru heyrði ég másað fyrir aftan mig „æfingin skapar meistarann" og tvívegis fór hann fram á hlé til hvíldar en gaf sig þó ekki. Svo segir mér hugur að ekki líði á löngu þar til ég verð sá sem mása...

Ekki fór ég í dalinn minn græna til að berja kúlur enda ekki á bíldruslu. Það er nánast helgiathöfn að fara upp í Slysadal og eiga þar 2-3 tíma við kúlnaslátt og -leit; eiginlega miklu stærri stund en að spila golf á golfvelli í einhverjum félagsskap fyrir morðfjár. Styttist í fyrstu ferð þangað, en að þessu sinni fór ég á hinn staðinn minn: dávænan grasvöll undir suðurhlíðum Ásfjalls. Ekki líður á löngu þar til þarna verður komin heilmikil byggð sýnist mér.

Má ég aðeins ljúka þessu með því að mæla með tónlist Ninu Ramsby og Martin Hederos. Þau settu saman fínan disk með norrænum vísum í sænskri útfærslu - einfaldar en heillandi útsetningar og þetta hef ég hlustað á tvisvar á dag undanfarnar tvær vinnuvikur. Sjaldan sem ég fell svona fyrir einhverju. Ekki sakar að söngkonan heitir Ramsby, en það gerir þó ekki útslagið. Þarna er m.a. efni eftir Bellman og Cornelis Vreeswijk. Líklega eru engir tónleikar sem ég hef sótt eins eftirminnilegir og þegar ég heyrði Cornelis í Hamar 1986 - rúmu ári áður en hann dó, fimmtugur, fúll og búinn með sitt.

laugardagur, apríl 23, 2005

My Friend the Wind 

Það er stutt á milli kórhátíða hjá manni. Ekki fyrr búinn með eigin kór en við tekur Galahátíð hjá frúarkórnum og það er óperukór. Árið 1987 tók ég törn í því að kynna mér óperur, leigði hverja á fætur annarri í Bókasafni Móelfar í Noregi en engu tók ég ástfóstri við þessa grein tónlistar. Hugsanlega hefði farið á annan veg hefði ég steðjað til Ítalíu en ekki Noregs að spila fótbolta - ég féll nefnilega talsvert fyrir skandinavískri vísnatónlist um þetta leyti.

Hátíð umrædd var haldin í Gullhömrum við Grafarholt, sem er feiknamikill veislusalur og nýr. Afburðagott að eta og aðbúnaður með ágætum. Svo sannarlega stóð ég ekki yfir pastapottum þarna eins og á fyrri hátíðinni. Fjöldi atriða var á dagskrá en tónlistin hvarf dálítið út í buskann út af hljómleysi og heldur langdregnar kynningar og klapp inn á milli drógu heldur úr.

Dansurinn attaná, svo enn sé gripið til færeyskunnar, fannst mér samt athyglisverðastur. Fyrsta rúma klukkutímann lék salonsveit Sigurðar Snorrasonar sem skipuð var tónlistarfólki sumu á heimsmælikvarða: Bryndís Halla, Sigrún Eðvalds, Nardeau, hinn Pólverjinn, og Pétur Grétarsson, svo einhverjir séu nefndir. Úha, maður sveif þarna um víðfemt dansgólfið rétt eins og í períóðumynd. Enginn Kokkur þar við kabyssuna, takk fyrir.

Svo hætti bandið og við tók Diskótekarinn. Öryggisvörður nokkur sem ég kannast við frá því ég var jólasveinn í hafnfirska mollinu á sínum tíma. Hann spilaði einkum fyrirsjáanlega tónlist og endaði með því að Geirmundur var orðinn meira eða minna hvert lag - reyndar sá ég og heyrði síðast þar sem einhver hópur var kominn á fullt í línudanskennslu um það bil er ég ók á braut. Hins vegar má diskóvörðurinn eiga að hann spilaði Demis Roussos sem heyrist ekkert um þessar mundir. Hver sem heyrt hefur Demis syngja "Goodbye, my Love, Goodbye, eða titillag bloggsins gleymir því ekki. Hvaða söngvari annar er svo frægur að hafa sungið sig lausan undan flugræningjum, mér er spurn?

Sennilega er maður orðinn svo gamall að enginn man eftir Demis lengur en hann var þó stórstjarna á sínum tíma - hátt í 200 kíló þegar best lét. Ekki ólíklegt að karlinn dúkki upp á skerinu innan tíðar til að halda tónleika, ef miðað er við hvað er í boði á þeim vettvangi í seinni tíð. Lou Reed, Plant og Shadows eru nánast heilli stjörnukynslóð á undan Demis.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Álvar töframaður og öðruvísi deyfingar 

Strax þegar ég sá að Geðhjálp ætlaði að fara að stofna hóp fyrir geðklofa hugsaði ég hvort ekki þyrfti þá að stofna tvo...æ, ég verð að hætta að hugsa svona.

Í gær fór ég í klippingu og til tannsa sem er ekki í frásögur færandi en þó skemmtilega hliðstætt. Þarna situr/liggur maður í sérstökum stól fremur bjargarlaus á meðan menn með skaðræðisverkfæri eiga eitthvað við hausinn á manni. Eins gott að geta treyst þessum náungum.

Klipparinn minn lítur út eins og þessi týpíski bifvélavirki og klæðir sig líka næstum þannig. Stofan er meira að segja dálítið hrá. Hann klippir prýðilega drengurinn og líkar mér ágætlega að fá snara þjónustu, enda fer ég ekki til rakara til þess að drekka expresso eða éta konfekt, eins og ég lenti í á þarsíðasta stað. Kannski ég biðji þennan ágæta mann að kíkja á vatnskassann í bílnum næst þegar ég fer. Einhver smáleki í gangi.

Tannsi er dálítið fyrir að tala um fótbolta, en það er bara svo erfitt að ná upp góðu spjalli þegar maður er með kjaftfylli af vélbúnaði og bómull - dálítið einhliða. Svo á hann til að segja: „Og gekk ekki bara vel hjá Ásdísi?" eða eitthvað svoleiðis og meðan maður leitar að svigrúmi til að svara kemur í ljós að þarna var hann skyndilega farinn að tala við klinkuna.

Mér ofbauð næstum því í gær þegar hann var rétt kominn með króka og spegla upp í mig og spurði hvort ég væri ekki Poolari. Sem betur fer tókst mér að afstýra því að hann næði að tala mikið um það leiðinlega lið enda nóg af mönnum sem tala um það í vinnunni.
Ég er á því að það virki betur en deyfing að tala um leiðinleg fótboltalið enda sjaldan sem ég tek tilboði um deyfingu. Verkefni dagsins hjá honum var fremur einfalt og því náðum við áður en yfir lauk að rifja upp byrjunarmannskap í leiðinlegasta liði enska boltans frá því ég man eftir mér - Leeds ca.1971-75. Hvílíkt samansafn af ljótum fólum.

Tengdafaðir Álvars töframanns kenndi mér ensku ca. 74-75, og þótti mér ákaflega leitt að hann sagðist styðja Leeds enda vandaður maður þar á ferð. Ég varð vitni að opinberum frumflutningi hnífaparagaldurs Álvars á laugardag og lýsi yfir mikilli hrifningu enda engin vélabrögð í tafli. Ekki einungis tókst manninum að greina með bragðprófi hvaða tveimur göfflum af fimm hefði verið stungið gegnum álpappír heldur var sjálfur flutningur galdursins sérlega sannfærandi.

Flutningur þessi átti sér stað á vel heppnaðri listahátíð kórsins míns. Ég var að þessu sinni ekki með atriði (þótt nikkan hefði verið með í för) en var kippt inn í einhvers konar snöggsoðið bassaprógramm. Í heimahúsinu þar sem hátíðin var haldin var alstærsti sturtuhaus sem ég hef séð á ævinni, og sólpallurinn var í skugga eins fegursta grenitrés sem getur að líta á landinu. Það er kókauglýsingarhæft, þetta tré! Kannski maður ætti að benda honum á að skrá það hjá Eskimo Casting?

Húsráðandi viðurkenndi að eina vitið væri að hafa pottinn og sólbaðsaðstöðuna á hringsnúningi utanum tréð til þess að ná að njóta sólar af viti án þess að vera á stöðugum hlaupum eftir geislunum. Muna svo allesammen! Ekki planta trjám út í bláinn ef ætlunin er að tengjast þeim tilfinningaböndum.

föstudagur, apríl 15, 2005

Salatskálin frá Júgóslavíu 

Sumt fylgir manni ótrúlega lengi. Svörtu sparibuxurnar sem ég keypti í Verzl. Ísbirninum 17-18 ára og nota enn við hátíðleg tækifæri; naglaklippurnar frá Scholl sem farnar eru að láta á sjá en eru líka a.m.k. 25 ára; vasahnífurinn frá litlu systur sem var jólagjöfin '84, og salatskálin og hárgreiðan sem ég keypti í Makarska í Júgóslavíu '86, rétt eftir Palme-morðið og skömmu fyrir Chernobyl.

Ég væri til í að kíkja þarna niður á Adríahafsströnd við tækifæri - það var fallegt héraðið milli Split og Dubrovnik og er vonandi enn, glæsilegt fólk og ágætur matur. Þetta var fyrsta ferðin mín til eins konar sólarlands þótt hún væri farin til þess að æfa og sparka eins og obbinn af mínum utanlandsferðum.

Heimanetfangið mitt til 11-12 ára er í uppnámi þar sem minn gamli skóli er búinn að segja upp samningnum. Ég er enn ekki búinn að ræða armilega við nördana í vinnunni um bestu lausnina á þessu. Sko, ég er með fínt ADSL-innhringisamband gegnum mitt ágæta tölvufyrirtæki en þar eru engin svona persónuleg netföng, og ég kæri mig ekki um að blanda saman vinnu- og heimilispósti. Það væri sársaukalaust að skipta yfir í eitthvert nýtt netfang fyrir fjölskylduna ef það á sér sannanlega lífvænlega framtíð og kostar ekki ósköpin öll. Tillögur?

Fyrst í gær hafði ég upp á síðu sem birtir lifandi myndir af bestu mörkunum úr neðri deildunum í ensku og sjálfsagt að deila þeim upplýsingum með öðrum. (Smella á sjónvarpið þegar síðan kemur upp.) Ekki sakar að þessi mörk eru undantekningalaust fallegri en fögnin sem koma í kjölfarið ólíkt því sem gerist oft í efstu deild. Ég mæli einkum með marki # 2 í núverandi syrpu. Þess má geta að þrátt fyrir einungis fjögur mörk í efstu deild hér á landi náði ég að þróa persónulegt fagn á sínum tíma og þótti það nokkuð sérstætt, enda ekki á hverjum degi sem menn með mína líkamsbyggingu taka balletthopp.

Í gær kíkti ég einnig á síðu sem telur upp 50 bestu lagabúta seinni ára. Ég er nú ekkert endilega sammála matinu þarna en get því miður ekki stillt upp á móti mínum uppáhaldsbútum að sinni. Í sjötta sæti er Íslandlag Zeppelin og sérstætt myndband sem því fylgir... 'Aaaaaaaaa ah, We come from the land of the ice and snow, From the midnight sun where the hot-springs blow...' Byrjunin þykir þarna mögnuð.

Undrið (2) náði sér furðufljótt, nánast áður en æluþvotturinn náði að þorna, og stefnir á blátt ball á leikskólanum á morgun. Snillingur (6) hóaði hins vegar í mig í gærkvöld úr rekkju sinni og sagði draum sinn hafa endað með höggi á ennið. Ég skildi ekkert og færði honum vatn, en hann kvaðst þá sennilega hafa rumskað við að rekast í rúmfjölina sem varnar því að hann falli úr efri koju. Svo sagði hann: „Jói útherji" og hvarf þar með inn í draumalandið á ný...

fimmtudagur, apríl 14, 2005

„Virðulegi forseti, ég hef hér orðið" (fyrir einelti). 

Maður er nefndur Lúðvík. Ég held að pabbi hans hafi verið á forsíðu Moggans í gær í viðtali um aflabrögð í kantinum. Kannski veiddi hann Bergvin risalúðu í einhverri vík daginn sem hin fagurrauð- og hrokkinhærði snáði kom í heim. Hugsanlega var svo kappinn uppnefndur Lúði í skóla. Ég man að þegar ég keppti á móti honum í fótbolta fyrir um 15 árum var Lúðvík með svipaða klippingu og Janus Guðlaugs og Lionel Richie skörtuðu lengst af, og var grófur leikmaður - fékk stundum dæmd á sig víti og eitthvað fékk hann af spjöldum.

Enn er Lúðvík að fá á sig víti en er þó löngu hættur í boltanum. Þingvíti nr. 2 á ferlinum af samtals fjórum frá stofnun lýðveldis, að ég held. Ummælin vítaverðu er að finna hér
. Lúlli er svona Vinnie Jones, Andoni Goicoetxea og Toni Schumacher í einum og sama manninum. Það er eins og Blöndal sjái rautt þegar Lúðvík er annars vegar! Mér finnst þetta jaðra við einelti og áhættuhópurinn skýr: Rauðkrullhærðir stjórnarandstæðingar frá Vestmannaeyjum. Ég tek fram að ekki þekki ég Lúðvík þótt ég búi nokkurn veginn mitt á milli hans og Doddssonar hér í hverfinu.

Talandi um pólitík þá vinn ég mitt á milli skrifstofa Ingibjargar og Össurar í Ármúlanum, nær Ingibjörgu þó. Við Össur erum systkinabörn að því leyti að við vorum á yngri árum í sveit hjá systkinum í Borgarfirðinum. Hann í Rauðanesi hjá Ingu og Viggó, en ég hjá Kristjáni og Siggu á Ferjubakka. Engar lágu þó leiðir okkar saman við þessa iðju því ég er talsvert yngri. Össur skrifaði svo fínar minningargreinar um þau hjón á sínum tíma að ég hef síðan séð hann fyrir mér sem sveitaprest á veiðihlunnindajörð með nokkrar mjólkandi í fjósi. Svosem aldrei of seint...

Ingibjörgu þekki ég ekkert. Jakob frímannsfrændi keppist við að rakka hana niður - óttast kvenræði um leið og hann býður Idol-stelpuna velkomna í Stuðmenn. Hey, ekki bauðstu Kalla Bjarna í Stuðmenn, frændi sæll. Ingibjörg er svona týpa sem getur gefið töngina hægri vinstri og komist upp með það. Næstu misseri verða áhugaverð í pólitík og forvitnilegt að fylgjast með hvernig batteríið í borginni er að fara af stað.

Mér finnst dásamlegt að heyra hægri kór skyndilega kyrja Vatnsmýrarútivistarlofgjörðina við undirleik samgönguþingmanna þegar HR er boðin lóð á huggulegum stað í Öskjuhlíðarfæti. Hinn kosturinn, Urriðaholt, er náttúrulega frábær staður og miklu merkilegri kostur sem útivistarsvæði, ef út í það er farið, en það væri ljóta óráðið að bjóða uppá útivistarsvæði úti í náttúrunni. Maður þarf ekkert að fara í leikhús til að horfa á skuespill.

Í hádegisfiskibollunum í gær hafði ég tvo nýbakaða feður sem sessunauta og nokkuð var rætt um hægðamál og slíkt. Vitaskuld miðlaði ég reynslusögum af kúkakreistingum og slíku og fékk svo sem að heyra tregðusögur af sjó og landi. Svo þegar ég var búinn að telja stjörnurnar í augum þeirra og við búnir allt að því að tárast yfir fundnum tilgangi lífsins laumaði ég að þeim að ævintýrið væri rétt að byrja og sneisafullt skemmtiprógramm framundan í þeirra lífi.

Undrið (2) mitt er hins vegar lasið núna, með hita og æluvellu og þá líður manni ekki sem best sjálfum.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Það kemur í koll... 

Hve oft fékk maður ekki að heyra á fótboltatímabilinu að maður yrði orðinn fótalaus um fertugt, hnén farin til fjandans og hjólastóllinn eina úrræðið? Það er nú búið að hreinsa til í báðum hnjánum svosem, en þau angra mig ekki og oftast er ég sprækur. Heilinn þokkalegur líka þótt maður hefði að aðalstarfi í boltanum að skalla ýmist hausa eða (framanaf) níðþunga og blauta knetti, eða vera skallaður. Vonandi eyddi ég þarna bara þessum ónýttu frumum sem fólk heldur fram að séu í höfðinu.

Enginn sagði hins vegar að ég ætti nú eftir að fá það fullreynt síðarmeir sem kennari. Kennaradjobbið mitt var að mörgu leyti ansi ljúft - engin foreldrasamskipti, engin próf og flestir komu fúsir í mína tíma, fengu sögu eða aðra skemmtan, eða stundum verkefni, en alltaf bók að taka með heim þeir sem vildu. Það kom fyrir að börn pissuðu í buxurnar í einhverju gleðialgleymi í tímum hjá mér, án þess að ég bæri beint ábyrgð þar á. Svona var að vera Björn á bókasafni. Ein nemönd fór reyndar eitt sinn að gráta í tíma hjá mér af einskærum metnaði - orðabókaverkefnið hjá mér var víst dálítið þungt þann daginn. Hún er núna unglæknir þannig að þetta hefur ekki skaðað til óbóta. Annan nemanda klóraði ég (óvart) til blóðs en hann er núna með 2 í forgjöf í golfi og hefur eitthvað tekið sig á í hegðun. Enginn fyrrum nemandi heilsar mér innilegar en sá piltur.

Nú er ég ekki kennari lengur en fæ iðulega harðvítug leiðréttingarverkefni og sannast þar með það sem enginn sagði. Það er nefnilega ekkert spaug að færa rúmenskar eða grískar fréttatilkynningar um verslunarkerfi yfir á mannamál, jafnvel þótt þær eigi að heita á ensku þegar ég fæ þær til meðferðar.

Við Snillingur (6) höfum undanfarin ár lagt leið okkar í bæinn að fylgjast með Maraþonbyrjun okkur til skemmtunar og seinast lét ég víst einhver orð falla um að næst yrðum við með feðgarnir. Kappinn minnti mig á samkomulagið í gær og taldi rétt að fara að æfa fyrr en síðar. Ekki spurning að þarna er verðugt verkefni og eins gott að við fáum ekki bústaðinn sem við vorum að sækja um á þessum maraþontíma.

sunnudagur, apríl 10, 2005

Svo er hann ekki frændi minn... 

Lengi gekk ég með þá grillu að Megas væri skyldur mér en nú er Íslendingabók búin að afsanna það. (Hins vegar er Jakob Frímann eins skyldur og ég hafði fregnað - já.)

Steinsen og Eldjárn bekkjarbræður voru manna duglegastir að kynna mér tónlist forðum daga og líklega gaf Steinsen mér árið 1980 spólu með fyrstu plötum Bubba og Megasar, hvorri á sinni hlið. Ég var meira fyrir Bubba þá en Megas nú.

Í öllu afmælishampinu og mærðinni missti ég af því ef einhver minntist á „Nú er ég klæddur og kominn á ról." Alltaf gaman þegar menn kíkja oní rótina á sjálfum sér - harmóníum og bænasyrpa í byrjun og svo gamla barnalagastrollan í bland við eitthvað úr Fjárlögunum. Hvert einasta atkvæði rétt og skýr og tónsetning undantekningalaust rétt og mjög oft frumleg, ólíkt því sem gerist víða í barnatónlist nútímans. Ég þori varla enn að spila þetta fyrir Undrið (2) þar sem tófur og refir eru helstir ógnvalda nú um stundir og tófan á grjóti í túlkun Megasar er ógnarleg!

Það væri samt í lagi að taka sér þessi vinnubrögð til fyrirmyndar. Varla er karlinn sjálfur nógu markaðsvænn til að setja á DVD og allan þann pakka. Sé ekki fyrir mér Megasarborg III. Eins ágæt og Stundin okkar er iðulega hafa tónflytjendur þar ekki riðið feitum hæfileikahesti að undanförnu. Það er svolítið norskt að spila viku eftir viku einhvern hörmulegan byrjendaflutning ágætra verka frá tónlistarskóla Héðinsfjarðar eða eitthvað, og láta blessuð börnin halda að þetta sé frambærilegt. Bæði þau sem horfa og hin sem flytja. Ekki er ég heldur hrifinn af útskýringum Heiðu eða flutningi hennar á barnalagaarfinum. Fyrirgefiði hrokann en mér finnst þetta skipta máli.

Annars var ég á Melaskólaskemmtun í fyrsta sinn sem foreldri um daginn og gat snúið stoltur heim. Mörg góð atriði þar og gífurleg mæting. Snillingur (6) tók ekki annað í mál en mæta í hvítri skyrtu með bindi og var einn um þann klæðnað. Hann kvaðst hafa verið feiminn en stundum sungið hæst! Undrið (2) var með mér áhorfandi og tók því illa að fá ekki að taka þátt í dansatriði 2. bekkjar.

Þótt enn sé von á frosti er kominn sá tími að maður getur gengið að því sem vísu á kyrrum kvöldum að heyra skvaldrið í sjófuglum neðan úr fjöru. Það styttist í vorið gott fólk.

þriðjudagur, apríl 05, 2005

O tempora, o mores 

Nú þarf ekki lengur að ræða hvort okkar hjóna hefur tekið í spaða frægari núlifandi manns - hehehe. Páfinn dáinn en Pelè er enn brattur að ég held.

Talandi um spaða þá keypti ég í Bílanausti spaðaöryggi í dag og tók nokkur auka til öryggis. Ég gæti lánað þetta briddsspilurum sem vilja hafa vaðið fyrir neðan sig. Merkilegt annars að einn lítill barnajeppi þarf öflugri öryggi en fást almennt í bílabúðum og á bensínstöðvum.

Börnin snerust hatrammlega mér til varnar þegar þau komu að konunni traðkandi á bakinu á mér í gær þar sem ég lá á stofugólfinu og þótti mér vænt um það. Svona fer nú þegar maður leyfir sér að hanga lengur úti á lífinu en talist getur hollt harðgiftum. En ágangurinn var reyndar að mínu frumkvæði enda veit ég ekkert betra en láta ganga á mér þegar bakið er ekki í standi. Takk samt, börn, og takk frú - í dag var bakið nefnilega fínt. Bara einhver sex daga tognun eða taugaklemma í gangi rétt eins og hefur gerst á tæplega tveggja ára fresti að jafnaði frá 1984 eða svo. Oft hef ég rakið þetta ástands til tiltekins atburðar, svo sem eins og þegar ég hnerraði í bókabúðinni í Falun, í hnipri, skoðandi póstkort í neðsta rekkanum, en svo var ekki nú.

KB-banki var með sína árshátíð um helgina í Egilshöll og heyrði ég í dag fyrir tilviljun tvívegis lýsingu á eftirminnilegasta skemmtiatriðinu sem fólst í því að bundið var fyrir augu eins ofurstjórans og hann látinn þreifa á berum bossum einhverra samstarfsmanna sinna. Ansans ári að manni skyldi ekki detta svona snilld í hug fyrir okkar árshátíð. Ég læt mér detta í hug þá kenningu að gæða- og menningarstig skemmtiatriða á árshátíðum sé í öfugu hlutfalli við meðallaun þeirra sem eiga í hlut.

Svo var einn úr vinnunni að ferma. Dóttirin fékk 380 þús. og Friends komplett! Ég held endilega að ég hafi fengið ritsafn Einars Kvaran á sínum tíma, Þorstein Erlingsson, veiðistöng, ullarteppi, skólaritvél, og eitthvert ríkisskuldabréf með meiru. Örugglega pening líka. Jakkafötin voru blá, hárið talsvert og veðrið fínt. Þá voru engin göng og ekki brú, þannig að það tók
þorra veislugesta hátt í 3 tíma að keyra þetta í Nesið úr bænum.

Væri maður annars ekki betur settur núna að eiga Smart spæjara komplett, Vidoq, Dýrlinginn, eða Bonanza að ógleymdum Skrepp seiðkarl, sem var í nokkur ár eftir birtingartíma sinn mælistika á furðulegt eða ljótt fólk: „Hey, hann er eins og Skreppur seiðkarl!" var setning sem heyrðist ósjaldan. Þið munið það...

mánudagur, apríl 04, 2005

Sagan segir 

Mér finnst nú mannsnafnið Óðinn hljóma grunsamlega líkt nafninu Auðun, say no more, say NO more, wink wink. Ég freistaði þess að taka leigubíl aðfaranótti 2. apríl til að fá niðurstöðu í þetta mál og heyra hvað framtíðin bæri í skauti sér, en lenti á byrjanda í bransanum sem vissi ekki einu sinni hvort framkvæmdum væri lokið í Suðurgötu, 101 R. Menn á RUV bíða eftir hefndinni vænti ég, en Auðuni til huggunar nefni ég að það losnar fljótlega skemmtileg afleysingastaða hjá okkur í markaðsmálum vegna fæðingarorlofs.

Helvítis Morrinn úr Múmínálfunum er að komast á stall með litla andarunganum (úr Einari Áskeli) sem einhver mesti skelfir martraða Snillingsins (6):. „Þarna stóð Múmínsnáðinn undir ljósastaur og úti í myrkrinu var M sjálfur." Þetta er svo ógurlegt skrímsli að menn forðast að segja nafnið hans.

Ég eignaðist um daginn línuskauta á 1000 kr. í Góða hirðinum en er rétt búinn að prófa einu sinni í skjóli myrkurs. Ferðin sú var áfallalaus en nokkuð erfið, þó ekki svo að drægi úr mér kjarkinn. Konan er hins vegar að hugsa um að byrja í Karate.

Hver veit um góðan pípara sem er til í smáverkefni?

sunnudagur, apríl 03, 2005

Bubb í Borg 

Café Victor 04:00 Liðið á nótt og eiginkona kunningja að tjá mér innilega áhyggjur sínar yfir því að kunna ekki ensku nógu vel. Kunninginn í óðaönn að snapa fæting við einhvern sem gerir grín að honum með því að þykjast vera Norðmaður. Jú, ég er svo sem enskumenntaður en þetta samtal er frekar verkefni fyrir prest eða sálfræðing en mig. 3. þýskukennarinn í MR lýsti gjarna sveitaprestsdraumum sínum þegar okkur tókst að plata hann á Nýja kökuhúsið við Austurvöll, en ég lét ekki sannfærast. Ósjaldan hef ég lent í hlustarahlutverkinu samt sem áður.

Fyrr um nóttina var ég búinn að dvelja hálftíma á Rex í algeru tilgangsleysi að því er virtist en svona stáelsi eflir mann bara. Fyrst bláókunnugir menn heilsa manni með nafni út á fornar fótboltadáðir rúmum áratug eftir að því lauk öllusaman, æ... Svo eftir tíu ár fer ég næst á lífið og þá kemur einhver og segir:„ Ert þú ekki bassinn þarna úr Voxinu sem flutti African Sanctus í Neskirkju 2005?" Varla.

Árshátíðin var vel heppnuð og góður rómur gerður að atriðinu þar sem ég kom við sögu. Mjög góður! Ársskýrsla fyrirtækisins í bundnu og viðlagið eins konar væntingavísitala starfsmanna. Bragurinn vissulega með sterkum lókaláherslum og á síðustu stundu ákvað ég að fórna bragfræði að hluta til fyrir málstaðinn. Ekki þurfti að kvarta, því salurinn á Hóteli Borg tók rösklega undir viðlagið þegar fólk var búið að átta sig. Þarna komst ég næst Húnalegri upplifun frá því Húnar voru og hétu. Birti 2. erindi og viðlagið til gamans - Sigurjón er framkv.stj. (Cover of the Rolling Stone):

Við breyttum tapi í hagnað, það var býsna magnað,
en bissness er okkar game!
Við höfum kaffivélar á hverri hæð
og klósett við hliðina á þeim.
Við eigum marga flotta sem er verið að votta,
og við syngjum öll sama tón.
Samt má alltaf bæta

og það mundi okkur kæta ef þú sérð um þetta, Sigurjón!

Sigurjón!
Ég vil mjúka sófa niðrí matsal.
Jón- meiri laun að setja á mitt framtal.
Jón- svoldið lengra sumarfrí!
Viltu sjá um þetta Sigurjón!


föstudagur, apríl 01, 2005

Clinton á Akureyri! 

Ég var að taka til í fataskáp og fylgjast jafnframt með tíufréttum í gær. Iðnaðarráðherra að lýsa furðu sinni á því að ekki allir Akureyringar vilji fá álver í næsta nágrennið. Svo var svipmynd af viðstöddum á fundinum þar sem þetta kom fram og ég sá ekki betur en Clinton væri þarna, að vísu dálítið unglegri en maður átti von á.

Svona þekkir maður betur liðið úr fjölmiðlunum, en gamla góðkunningja eins og þann sem sveif að mér og heilsaði niðri í vinnu þar sem ég í sakleysi mínu var að næla mér í kaffi. Sá var á námskeiði og þekkti ég ekki manninn fyrr en á röddinni og er hann þó ekki ýkja breyttur. Mér fannst hann hafa minnkað og fitnað. Er ég þá á fáum dögum búinn að hitta tvo forna götunga mína úr Nesinu, báða fædda 59 og enn búandi þar.

Áðan velti ég fyrir mér hvað sauðlaukur væri og komst ekki að niðurstöðu. Sennilegast að landnámsmaðurinn hafi staldrað þarna við og soðið sér lauk. „Hér sauð ég lauk - hey, Sauðlauksdalur skal það vera." Hugsanlega endaði sauður hans ævina rétt í þann mund er hann leit dalinn augum. „Æ, æ, sauð lauk." Hvað sagði ekki Dylan:

Next animal that he did meet
Had wool on his back and hooves on his feet,
Eating grass on a mountainside so steep.
"Ah, think I'll call it a sheep."


Ætli íbúar í Sauðlauksdal (ef einhverjir eru eftir) nefnist Sauðdælir? En svo flettir maður þessu upp og kemur í ljós að sauðlaukur er einhver jurt af ættkvísl dulfrævinga - boring. Einu sinni var með mér í bekk stelpa úr Kvígindisdal þar sem sagt var að menn pissuðu í úrkomumælinn til að ná viðunandi millimetratölum í veðurfregnunum.

Hitt er svo annað mál að vilji maður læra ný og skemmtileg orð er kjörið að reika um Bílanaust í svo sem hálftíma og lesa á hillumiða. Bílgreinin lumar á smellnum orðaheim sem maður er lítt í tæri við dagsdaglega, og alls konar verkfæri og aukahlutir liggja þarna eins og gestaþrautir um allt. Þegar maður er búinn að mynda sér skoðun á því til hvers mætti hugsanlega nota hlutinn les maður á hillumiðann og rekst á orð sem eyðileggur kenninguna en er jafnóskiljanlegt engu að síður. Verst að ég ritaði ekkert af þessum orðum hjá mér þegar ég staldraði þarna við um daginn.

Ég varð svo glaður í vinnunni mjög síðdegis í gær að ég fór til yfirmannsins og sagði honum að ég væri mjög glaður. Aldrei þessu vant reyndist hann hafa fengið mér nýtt verkefni sem verður miklu hægara að fást við en ég þorði að vona. Það tók mig 6 vikur fyrir þremur árum bara að komast að hvernig ég ætti að vinna sams konar verk en í gær 15 mínútur og aðferðafræðin er að sama skapi fljótleg og einföld. Altsvo, ég þarf að setja inn notendahjálp fyrir nýja útfærslu á verslunarkerfi. Yfirmaðurinn samfagnaði að sjálfsögðu með því að fá mér fleiri verkefni.

Karlakórinn í vinnunni varð aldrei neitt neitt þrátt fyrir meintan áhuga. Ég var hins vegar löngu búinn að setja saman tvo gamantexta en annar þykir víst heldur grár og lítt fallinn til að gleðja hluta starfsmanna. Hinn mun ég flytja ásamt tveimur sprelligosum á árshátíðinni og er hann vissulega ortur undir áhrifum hirðskálds Húna. Lagið? Jú, Dr. Hook slagarinn Cover of the Rolling Stone af því að hægt er að setja inn Sigurjón þar sem Rolling Stone kemur fyrir. Rímar annars ekki matsal við framtal?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?