<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, maí 30, 2005

Skálmað í gleði 

Hluti kórsins míns sá um messusöng í Neskirkju í gær til þess að endurgjalda húsnæðisafnot við tónleika og upptökur. Svona skipti eru ágæt og alltaf gaman að kyrja við messu. Ég misnotaði aðstöðuna þarna eilítið til þess að tryggja Fimleikafélaginu gott gengi með því að marsera í broddi fylkingar inn kirkjugólf með kross í hönd skartandi FH bindinu, í þessari hverfiskirkju KR-inga. Vantrú hvað!

Snillingurinn (6) fékk að fylgjast með fyrri hálfleik í nefndum leik áður en hann fór að sofa. Svo spurði ég hann hvernig hann héldi að leikurinn hefði farið: „FH vann - það stóð í blaðinu um daginn að þeir væru óstöðvandi." Skemmtilegt þetta skeið í lífinu þegar allt er satt sem stendur á blaði.

föstudagur, maí 20, 2005

Megas á Alþingi 

Ég fór í bæinn á knæpu í gær eftir vinnu að fylgjast með mínum mönnum falla úr leik í keppni um sæti í Úrvalsdeild. 0-0 dugði ekki, en upplifun mín var hálfskringileg. Þannig var að á knæpunni var aðalatriðið Evróvisionkeppnin og átti ég fullt í fangi með að heyra í bresku þulunum í tækinu sem stillt var á Sky, fyrir látunum frá þessum músíktilraunum. Undanfarin ár hef ég tekið þátt í svonefndum júróvisjónpartíum þar til tónlistin upphefst og er þá venjulega búið að sporðrenna pizzum eða grillmat. Þá get ég farið heim að gera eitthvað misvitrænt meðan gaulið gengur yfir. Nú er þessi hefð í uppnámi.

Verst að Selma gleymdi að fara úr náttfötunum og í búninginn. Svo duttu dansararnir í krampaflog í gólfið um miðbik lagsins. (Íslenska atriðið var nefnilega í hálfleik míns leiks - því sá ég það). Sætið í úrslitakeppninni tapaðist hins vegar ekki í gærkvöld heldur á kynningarmyndbandið algerlega sökina, ásamt þættinum hjá Opruh. Svona bogfimisýningar eru engum til framdráttar, ekki hvað síst nú þegar Nott***ham Forest er fallið, hvað þá að bjóða upp á jafnkindarlegan dreng sem skotmark eins og um var að ræða í myndbandinu.

Svo er Opruhþátturinn örugglega búinn að koma því inn hjá heimsbyggðinni að íslenskar ljóskur séu glyðrur frá 15 ára aldri sem éta kviðsvið og hákarl milli þess sem þær hneykslast á offitu annarra kvenþjóða. Sendisveitin okkar var því fyrirfram vonlaus. Nú gildir að vera öðruvísi og því ekki að senda Hemma Gunn næst?. Hvers manns hugljúfi karlinn, þekktur í mið-Evrópu úr atvinnumennskunni forðum daga og löngu búinn að sanna sig sem söngvari. Hver man ekki eftir útfærslu Hemma á lagi Plastic Bertrand, Ca Plane Pour Moi
(ísl:Einn dans við mig).

Á leið á knæpuna rak ég nefið inn á bókasafnið. Nú eru sumarstarfsmenn að mæta til leiks og þarna vakti athygli mína gaur sem vissulega var klæddur sem strandvörður en ekki bókavörður. Hvað um það ég nældi í ágætar ferðabækur um Ísland því fátt er skemmtilegra en hanga heima og ferðast þó.

Í einni bókanna segir af forföður mínum sem gerðist bóndi í Kalmanstungu. Hann ætlaði að smygla með sér fé úr Þverárhlíð sem var bannað vegna fjárkláða. Hreppstjóri gómaði áann og sagði: „Það vissi ég, Stefán, að þú vast huglaus helvítis geit, en hitt vissi ég ekki fyrr, að þú varst líka bíræfinn bölvaður fantur." Stefán svaraði: „Þetta gerði ég í sakleysis grunleysis meinleysi," og hélt að því mæltu til baka með féð. Við erum enn eins í þessari ætt: lúmskir en hlýðnir.

Í sömu grein er getið langalangalangalangalangaafa konu minnar, einnig Kalmanstungubónda, sem lét sig ekki muna um að kalla á syni sína þótt 9-10 km væru á milli. Raddstyrkurinn er enn við lýði í þeirri ætt.

Ég rakst á textabók Megasar á safninu og kippti henni með. Inni í bókinni voru sneplar sem leiddu í ljós að næsti lesandi á undan mér var forseti Alþingis. Svo sem ekki merkilegur pappír þar á ferð, en gaman að vita til þess að Megas er lesinn á þingi undir einhverjum þingsályktunartillögum um stöðu hjóna og sambúðarfólks. Kannski Halldór hyggi á trúbadúrferil eftir forsetatíð sína. Bróðir hans heitinn hafði gaman af því að upplýsa okkur nemendur sína um að herbergi Halldórs í Hvalstöðinni á sumarvinnuárum þar hefði kallast Hóf, svo að hann gæti sagst drekka í Hófi. Ætli uppáhaldshendingar Blöndalsins úr Megasi hafi ekki verið:

Halló Norðurland nú er mér horfin
öll nótt og Suðurland eða er mig kannski að dreyma?
hjá yður Þingeyingar - þúfnabanar
þar finn ég loks að á ég heima.

fimmtudagur, maí 19, 2005

Dónatuddaleiðindi og veisluhöld 

Snillingur (6) er hættur í bili að æfa fótbolta. Ég er náttúrulega alinn upp við frásagnir af örgustu KR vörgum og því kemur mér ekki á óvart að ástæðan er einn dónalegur tuddi í 7. flokk sem lætur út úr sér svívirðingar sem prúðmennið kveðst ekki þola. Líklega er önnur skýring sú að hann er þarna innanum gaura sem eru allt að tveimur árum eldri. Heimurinn harði lætur ekki að sér hæða.

Bletturinn minn er einn sá grænasti í hverfinu, sleginn og fínn, og maðkurinn kominn á fullt að éta birkilauf. Verstur andsk. hvað hann er kaldur á nóttunni, sem gerir að verkum að mismunur hitastigs á sólarhringsgrundvelli í gróðurhúsinu verður allt að 40°C. Þar með á ég ekki von á að nýsáð fræ spjari sig sérlega vel, en ég nenni ekki að hafa þetta innivið - ja, e.t.v. um helgina ef ekki skánar spá.

Seinna í dag ræðst svo hvort mínir menn ná að komast í úrslitaleik gegn West Ham um sæti í úrvalsdeild að ári. Þetta lítur skemmtilega út: allir helstu burðarásar meiddir og 0-2 tap í fyrri leik. Enginn býst við neinu og því full ástæða til bjartsýni.

Mér finnst ansi klaufalegt hjá stjórnvöldum í USA að krefja Newsweek um að fjalla jákvætt um sig í augum múslima. Eitthvað gluggaði ég í rit þar sem fjallað var um Guantanamo fangelsið og komst að því að því minna sem um það er getið því betra fyrir USA. Auðvitað munu allir tengja frekari umfjöllun við harðýðgi vestanmanna. Þarna eru innan um sakamenn og stríðslarfa geymdir unglingar og lasburða gamalmenni sem gripin voru nánast að handahófi.

Ég lenti í tveimur afmælisveislum um sl. helgi: annars vegar hjá þessum, og hins vegar granna mínum í austri. Sá fyrrnefndi fékk brag frá Húnum sem hefst svona: Ísafjarðardjúp var mín æska. Margræðni og skáldlegt innsæi framhaldsins var í svipuðum anda. Það var gott að hitta gamla samstarfsmenn og fagna með félögum.

Hitt afmælið var afar óformlegt. Afmælisbarnið sat við borð úti á stétt og kallaði til granna sem áttu leið hjá eða vart varð við, og bauð 12 ára gamla lögg. Reyndar var ég heldur léttklæddur við þetta sumbl og varð því nánast úti, en þarna kom engu að síður fram vitneskja sem eingöngu grannar geta veitt. Það ku nefnilega vera 300 m sleginn grasbleðill innan seilingar sem gæti orðið til þess að maður færi að slá oftar golfkúlur.

sunnudagur, maí 08, 2005

Svört grasgræna 

Nú er kominn útitími. Nágrannavinkonan kemur í gættina að morgni um helgar og fær Undrið (3) með sér út og ef barnaefni heillar ekki þeim mun meira hverfur Snillingur (6) á brott skömmu síðar. Það kallast gott ef þau gefa sér tíma til að borða.

Í dag komu vinkonurnar smáu og fóru ca. 15 sinnum og sjálfsagt hefur ástandið verið eins á heimili hinnar. Þær fengu síðan leyfi til að fara í sjálfstæða heimsókn í kuningjahús í næstu götu undir eftirliti bróður og vinar (enda bara pabbar þeirra sem þurfti að spyrja leyfis). Tilgangurinn var að skoða köttinn Hring sem ku vera 100 ára. Tveimur tímum síðar gætti ég að ástandi mála og þá mætti ég vinkonunni á leið heim með brauðsneið á diski en Undrið (3) var eitt drullustykki að borða brauð á hinum heimsótta stað búin að drullumalla pastasúpu í lítravís. Þar var heimilisfaðirinn líka einn til svara. Nei - við umræddir menn eru ekki fráskildir en svo virðist hafa viljað til að allar frýrnar voru önnum kafnar.

Undrið sagði mér síðan í óspurðum fréttum yfir tannburstun og þvotti að hún væri góð að kýla, enda hefði hún æft sig í því að kýla Axel. Svona getur verið gaman að lenda í þessum karlmannaheimi af og til - allt leyft, bara brauð að éta og hnefaleikar stundaðir af kappi.

Snillingur skilaði sér heim í kvöldmat eftir tæpra 8 tíma útiveru og þá voru buxnahnén orðin svört af grasgrænu, að sögn vegna mikilla fótboltatæklinga. Hann borðaði eina 3 kúfaða diska af hakkogspakki enda ekki hans sterka hlið að sinna næringarþörfinni yfir daginn þegar mikið er að gera. Hann hafði víst eitthvað fengið í gogginn í laun fyrir aðstoð við mokstur í næsta húsi. Ég þarf víst ekki að nefna að þau sofnuðu skjótt og vel.

Ég er búinn að finna næsta forseta ef endilega þarf að halda í þetta embætti til frambúðar. Nei, ekki sjálfan mig heldur Kristin Sigmundsson. Þetta er reffilegur maður, með líffræðibakgrunn og sjálfsagt málakunnáttu en fyrst og fremst kúltúrljóma yfir sér. Í viðtölum virðist hann skemmtilegur náungi og enginn getur velkst í vafa um hve forsetalegur karlinn er. Nú er bara að láta ÓRG vita af því að þetta sé búið spil og pressa síðan á Kristin. Það er miklu áhugaverðara að hafa menningarmanneskju þarna heldur en stjórnmálamann. Æ, svo má ekki gleyma því að hann er bassi, sem er náttúrulega feikilegur kostur.

föstudagur, maí 06, 2005

Útflutningur 

Ef þessi vél færi daglega héðan með fullfermi íslenskra farþega og sneri aftur tóm, tæki það u.þ.b. eitt ár að flytja mörlandann af skerinu.

mánudagur, maí 02, 2005

Gönguhraði 

Sl. föstudag arkaði ég heim úr vinnu og tók það 50 mínútur. Ef ekki væri flugvöllurinn tæki þetta rúman hálftíma, en ég hef ekki góða reynslu af því að stytta mér leið yfir flugbrautir. Einnig komst ég að því að gönguhraði minn er meðaltal af gönguhraða tveggja spjallandi kvenna annars vegar og einnar skokkandi hins vegar.

Svo hef ég velt fyrir mér undanfarnar mínútur hvort það breyti mönnum að verða afar. Ekki að ég sé á leið í þann úrvalsflokk en maður hlýtur að horfa á menn eins og Björn Bjarnason og Hörð Sigurgestsson dálítið öðrum augum eftir að hafa séð þá sprangandi um hverfið sitt með barnavagn. Varla eru þessir vagnar hlaðnir herstofnunarfrumvörpum eða ársskýrslum og hlutabréfum... Tek fram að ég sá ekki nafna minn með neinn vagn, svo hann fari nú ekki að gera athugasemd, en tengingin er ekki út í loftið án þess ég fari nánar út í það.

Fræðslumyndasafn Ríkisins 

Á öðrum vetri í menntaskóla vann ég með námi megnið af vetrinum. Fyrri hluta vetrar bjó ég í Sörlaskjóli (sem er rokrass í minningunni) hjá frænku, en þann seinni í Álftahólum hjá stóru systur. Skólinn var MR, vinnan í Borgartúni og amma og afi á Njálsgötunni. Á þeim tíma voru menntaskólanemar ekki á bíl almennt og ég hvort sem er nýorðinn sextán og vitanlega ekki með próf. Það kom einstöku sinnum fyrir að ég gekk vestureftir en það var of langt upp í Hólahverfi til þess.

Venjulega fékk ég far í skólann með systur minni þennan seinni hluta vetrar og hún árgangi á undan í skólanum. Skólinn var búinn 13-13.30 og þá steðjaði ég til ömmu og afa fékk einhvern bita og hjólaði síðan upp í Borgartún í vinnuna á Fræðslumyndasafninu þar sem opinber titill minn var sendisveinn. Forstjórinn var þingmaður og skömmu síðar utanríkis- og síðan forsætisráðherra. Aðrir starfsmenn voru þrír.

Hlutverk mitt var að sendast með kvikmyndir á BSÍ eða vöruflutningamiðstöðina, og grípa í filmuviðgerðir þegar lítið var um sendingar. Það kom fyrir að maður fékk að taka leigubíl ef skammturinn var sýnilega þyngri og umfangsmeiri en svo að hann kæmist á bögglaberann, sem sagt 40 kíló eða meira. Flesta daga var það ekki. Það var stundum fjandi þungt og svalt að hjóla þennan spöl á gamla DBS.

Vinnudegi lauk kl. 17 og þá þurfti ég að koma hjólinu í geymslu á Njálsgötunni og koma mér síðan í Breiðholtsstrætó. Í annan tíma hef ég ekki nýtt mér almenningssamgöngur jafnmikið. Svo komst ég upp á lag með að sofa þennan hálftíma í strætó og lenti einungis einu sinni í því að sofa af mér mitt stopp, en mikið lenti ég í því oft að fólk hnippti í mig til að athuga hvað væri að mér.

Nokkrum sinnum í viku voru svo körfuboltaæfingar, og urðum við ÍRingar Reykjavíkurmeistarar í aldursflokknum og í öðru sæti á Íslandsmóti þetta ár ef ég man rétt. Ég umgekkst einnig þessa íþróttafélaga talsvert einmitt þennan vetur utan æfinga og leikja. Ekki man ég hvenær ég lærði eða hvort slíkt átti sér stað, enda reddaðist slíkt yfirleitt framanaf með prófatörn.

Miklu seinna átti ég ofurlítil viðskipti við mitt fólk af Fræðslumyndasafni Ríkisins, sem þá var orðin undirdeild í Námsgagnastofnun og filmur að mestu orðnar að myndböndum. Jóna afgreiðslumeistari var þá enn við lýði og leit á safngögnin nánast sem persónulega eign, en út á samstarfið forðum daga gaf hún mér tvær myndir á filmu 16mm sem átti að úrelda. Var ég orðinn eini leigutakinn og þær sýndi ég á hverju ári við mikinn fögnuð - Jiminy Cricket að útskýra heyrn og sjón. Það var sérstök stund á Bókasafni mínu þegar búið var að stilla upp sýningarvélinni gömlu og filman rúllaði af stað með tilheyrandi braki og suði. Hátalaranum hafði ég komið fyrir bak við sýningartjaldið þannig að blessuð börnin fengu þarna sérdeilis nýstárlega bíóupplifun. Vantaði bara popp og kókið.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?