<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Rangur banki? 

Það kom múrari og steypti í gólfgatið í eldhúsinu. Undrið (3) fylgdist með af áhuga og spurði gáfulega.
U: -Til hvers seturðu net í steypuna, múrari?
M: -Það er til þess að hún springi ekki...
U: -Mamma, ég vil fara út! Steypan getur sprungið.

Hún sagði mig eitt kvöldið vondan, ljótan og leiðinlegan og eitthvað reyndi ég að leiða henni fyrir sjónir að svona segði maður ekki um fólk hvað sem manni fyndist. Til dæmis hefði nú stóri bróðir aldrei stundað slíkt.
P: -Hann stóri bróðir þinn er nefnilega ljúflingur.
U: -En ég er unglingur, pabbi.
P: -Ö, umm, nújá...

Í gær var ég í golfi á Vatnsleysuströnd. Mér fór fyrst að ganga vel eftir að ein óuppdregin kría skeit á öxlina á mér á 4. braut. Þá var ég einmitt nýbúinn að segja: „Í versta falli skíta kríuskammirnar á mann." Meira að segja Vatnsleysuströndin er dáfalleg ef maður er í golfi í góðu veðri og allt gengur vel.

- Þurfiði endilega að skrá mann á öll námskeið í heiminum?- spurði Snillingur (6) daginn áður en hann átti að byrja á útilífsviku meðal skáta. Að vikunni lokinni vildi hann helst í sama prógramm strax í næstu viku.

-Þurfiði endilega alltaf að kaupa ís með svona brúnum kúlum, sem ég borða alls ekki?- spurði hann nokkru síðar er hann í fyrsta sinn átti að fá Dajm ís í eftirmat. Að mig minnir kom hann fimm sinnum að fá meira.

Hann fer innan tíðar á sitt fyrsta meiriháttar fótboltamót.
Einn daginn kom póstur um að til stæði að útvega liðinu regnjakka og kurteislega spurt hvort einhver gæti útvegað styrk. Ekki stóð á því og eins og hendi væri veifað var búið að fjármagna 50 stykki með styrkjum frá fyrirtækjum. Svona viðbrögð hef ég ALDREI áður upplifað við slíkum beiðnum og hef þó ríkulega reynslu úr bolta og kórstandi. EN - einn styrktaraðilinn var víst rangur banki, því að einn slíkur á KR og sá var búinn að gefa töskur. Ekki er útséð hvaða áhrif bankastríðið mun hafa á regnjakkamál 6-8 ára drengja í Vesturborginni... Þeir fá víst líka húfur í boði einhvers. Drengurinn spurði fyrr í sumar í fullri einlægni hvort ekki væru tök á því að flytja í Hafnarfjörð eða a.m.k. áleiðis til þess að hann gæti æft með sínu liði. Æ.

Snillingur er líka búinn að missa sína fyrstu nögl og er þar föðurbetrungur að ég held. Ekki allir sem ná því að missa nögl áður en tennurnar fara að fjúka. Neglur hef ég nokkrar misst í gegnum tíðina en líklega var ég orðinn eldri þegar það gerðist fyrst.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?