<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Stór kór - flugvöllur og sjór 

Umræður í kjölfar aðalfundar leiddu í ljós að kórinn minn langar til að verða stærri. Ég trúi tæpast að það muni takast miðað við gefnar forsendur en hvað veit ég? Mér er sama. Á þessari stundu er ekki ljóst hve fjölmennur hópurinn er, varla mikið meira en 22 - og mestur hörgull á sópran virðist vera! Næsta ár verður allt morandi í Mozart í tónlistarlífinu útaf fæðingarafmælinu og ég er ekkert sérstakur áhangandi. Þetta verður annars ágætt og fjölbreytt söngár sýnist mér. Lýsi hér með eftir kórreynsluboltum sem eru hraðlæsir á nótur, skemmtilegir, og lausir á þriðjudögum.

Á menningarnótt álpaðist fjölskyldan inn í Dómkirkju á leiðinni niður að höfn og þar hlýddum við á ungmenni syngja nokkur lög. Þá rifjuðust upp fyrir mér einhverjir eftirminnilegustu tónleikar ferilsins, nefnilega þegar Gospelkórinn MJ tryllti lýðinn með klassískri svitasveiflu, með Kommatrommu, Skuggabassa, píanói, og litríkum kuflum. Þetta var að vori til, líklega '96, seint á laugardagskveldi. Hvað sem má segja um menningargildi söngsins hef ég enn ekki náð að trompa stuðið sem þarna ríkti með neinum þeirra kóra leiðir mínar lágu í síðar. Og á eftir fór mannskapurinn á Óðal eða hvað sem sá ágæti dansstaður hét þá. Þetta prógramm fór víða - í Hveragerði sungum við fyrir 4 en í Njarðvík mættu 19... Annars staðar var betur mætt. Kuflinn á ég enn.

Mér finnst að flugvöllurinn ætti að fara norðurfyrir borgina, í Engey/Viðey
samtengdar. Öllum er sama þótt þeir stígi frá borði í norðangarra á Sundunum. Hugmyndirnar um að færa kvikindið út í Löngusker, bókstaflega nokkurhundruð metra frá núverandi stað, eru fáránlegar. Vitanlega á að tengja saman Seltjarnarnes og Álftanes með vænum sjóvarnargarði, þurrka upp Kópavog, Fossvog og Skerjafjörð og byggja oní gjótunni sem myndast þegar sjórinn er horfinn. Allir græða! Enginn missir útsýni og liðið á Botninum (eins og gráupplagt er að kalla hverfið) mun njóta fáheyrðrar veðurblíðu og nálægðar við miðbæjarmenninguna.

Ég reyndi að skrá mig á RSS hjá Mikkavefs í gær en tókst ekki. Það virðist eitthvað vera í skralli hjá GF og félögum þessa dagana.

þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Öfgar og laus tönn 

Í gær var ég með í alvörufótbolta í fyrsta sinn síðan snemmsumars er ljóshærði Fylkisaulinn sprengdi eitthvað í hnésbótinni. Ætlaði bara að vera með í hádegisbolta samsteypunnar en svo fór að ég náði seinasta leik í Íslandsmóti 40 ára og eldri áður en dagur var að kvöldi kominn. Svonalöguðu lendir maður bara í óviljandi og það fyndna er að hnésbótin er fín, en ökklinn ekki, og að auki fékk ég högg á öxlina. Maður lætur lítið á þessum meiðslum bera enda gefið að þá yrði lesinn pistillinn um örkuml og fánýti fótboltans. Ég veit líka að skrokkurinn verður eins og barinn harðfiskur næstu daga.

Þetta er samt ekkert vandamál. Þeir sem hafa reynt undirbúning vegna þátttöku í efsta þrepi einhvers, hvort sem um er að ræða andlega eða líkamlega iðju, vita að stundareymsli og vanlíðan gleymist þegar frá líður en ávinningurinn af vinnunni situr eftir. Vissulega er ég ekki í efsta þrepi neins núna, en allt svona má yfirfæra með góðum vilja. Um daginn steig ég líka á vog í fyrsta sinn í nokkra mánuði og kom þá í ljós allóvænt kílóatap.

FH og Derby töpuðu tapleysi sínu á sama sólarhringnum og mér er sama. Smotterí af mótlæti herðir mann bara í stuðningnum.

Snillingur (6) tilkynnti lausa tönn í gær og er það hin fyrsta. Ekki seinna vænna að losna við þetta þar sem gaurinn er að verða búinn með fyrsta settið, aðallega útaf áralangri tanngnístran. Kann einhver ráð gegn náttgnístran tanna sem dugar, annað en gómur? Ég bauðst til að losa hann við tönnina með tönginni góðu úr undrabúðinni Europris, en því var hafnað. Samt er ég nú farinn að fá að taka flísar hjá honum (með fínni töng), en ekki ennþá hjá Undrinu (3).

Ég las Halldórs Laxness í bústað um daginn og hafði gaman af. Hingað til hef ég forðast að lesa verk Laxness sjálfs (þá er ekki hægt að saka mig um áhrif/eftirhermur þegar ég verð frægur rithöfundur) og sá ásetningur er óhaggaður. Nú veit ég alltjent hvers vegna Laxness skrifaði ekki barnabækur og svo sem ýmislegt fleira athyglisvert sem ég ekki vissi fyrir.

Annars heillar mig lítið það sem ég rekið hefur á fjörur mínar úr síðasta bókaflóði. Reyndar náði ég að klára Rigningu í nóvember, en ekki Bát með segli og allt, hvað þá Storm. „Gríðarlega slakt" svo maður vitni í núverandi uppáhaldsorðalag íþróttalýsenda.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Áhyggjur 

Snillingur (6) sagði mér í dag að hann hefði áhyggjur af vini sínum því að pabbi hans skyti fugla. Snillingur hefur stundum of miklar áhyggjur. Undanfarnar vikur hefur hann til dæmis þrálátlega spurt að því hvort við foreldrarnir hefðum örugglega læst húsinu/bústaðnum/bílnum svo að þjófar kæmust ekki í feitt. Þjófar komast nú ekki í feitt í okkar veraldlegu eignum hvort sem er, en við reynum nú ekki einu sinni að segja frá því. Snillingur hefur sofnað grátandi yfir þeirri tilhugsun að Toyota Camry fari einn daginn í pressuna miklu og hann hefur lýst áhyggjum sínum yfir ormunum sem lentu illa í gatnaframkvæmdum í Skerjafirði í sumar útaf skurðgreftri. Á ég nokkuð að segja honum frá því að ég hafi grýtt tvo máva í hel forðum daga í Nesinu, annan á flugi og hinn í geri við klóakstút? Æi.

Hér á bæ er rútínan loks að ganga í garð, húsnæðið orðið nothæft fyrir allnokkru, en það hefur gengið á ýmsu. Ekki nenni ég að ergja mig lengur út af tryggingaveseni og slíku, enda komin lending í þeim fjanda, þótt enn verði bið á endanlegum lagfæringum þar sem veggir og gólf þurfa að þorna enn um sinn. Ef einhver góður og sanngjarn pípari er í lesendahópnum mikla má hann hafa samband út af dálitlu inniverkefni,
þægilegu og einföldu.

Við náðum tveimur útilegum, einni bústaðarferð, og nokkrum bústaðarheimsóknum. Þrjá og hálfan nýjan golfvöll hef ég spilað í sumar auk nokkurra sem ég þekkti, og í síðustu viku náði ég í verðlaun í golfmótum - bikar og golfkúlupakka. Einmitt það sem mig vantaði - ég alltof marga bikara fyrir og 23,5 kg. af golfkúlum, minnst. Golfsettið mitt er ægilegt samansafn af ljótum og gömlum kylfum sem líta út eins og þær hafi verið búnar til í smíði, en stendur alltaf fyrir sínu.

Einn skemmtilegasti viðburður sumarsins var þegar Derby County kíkti í heimsókn og mun ég fjalla nánar um það síðar, enda nóg um að fjalla.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?