<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Skyndilega... 

Endrum og eins verður mér á að langa allt í einu óskaplega í eitthvað sérstakt. Nú er það væn flís af köldum lambahrygg með extra salti. Missti raunar af hádegismat að vanda en vann í staðinn frækilegan sigur í boltanum sem kemur í matar stað á fimmtudögum. Við sem unnum vinnum betur fyrir bragðið en eftir matinn - skilllllru. (Þessi setning var í boði Mjólkurdagsnefndar sem styrkir íslenska tungu.)

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Sofnar ekki fyrir hvölum... 

Nú gengur yfir ágæt spurningaleikjabylgja í netheimum. Ég hef gaman af þessu. Á tímabili síðunglingsáranna tókum við faðir minn gjarna syrpur í svonalöguðu á síðkvöldum - maður á mann - þegar ég kom í helgarheimsóknir í foreldrahús úr höfuðstaðnum eða á sumrin. Það var oftast jöfn glíma enda þekkjum við hvor annan passlega vel til að þetta varð jafnt og spennandi.

Hlaupafinn er nýfarinn af stað með getraun, brjálaði Hattarinn tók svæsna orkuþraut nýlega og Egilsstaðaútibú tónelsku fjölskyldunnar er með sígilda tónlistargetraun í gangi. Brjálað að gera hjá Google þessa dagana. Svo er Viktor Arnar, krimmahöfundur með eitthvað í gangi, en ég man ekki hvar. Oftast hef ég lítið tóm til að gefa mig að því að leita svara.

Annars er líf mitt ein spurningakeppni: Hvað hef ég í kvöldmatinn? Hvernig lækkar maður hringingar í borðsímum í vinnunni? Hvort á ég að raka mig í kvöld eða fyrramálið? Hvar á innra netinu er þýðingartólið sem maður notar í Navision? Hvort þarf mitt fólk snjógalla eða regngalla í skólann á morgun? Svona er þetta hjá fólki flestu, býst ég við.

Hins vegar jafnast fátt á við þær þrautir sem Snillingur (6) býður uppá í stanzlausri leit sinni að upplýsingum og sannleika þessa heims. Fyrr í kvöld fékk hann hvali á heilann og gat ekki sofnað útaf endalausum pælingum um augnstærð hvala, lit, og átvenjur. Þetta gekk heldur langt í tíma hjá mínum manni og á endanum sagðist ég næst mundu fara og sækja stóra hamarinn ef hann galaði fram fleiri spurningar. „Nú, til að berja úr mér öll orðin?" sagði Snillingur þá. Svo hringdi síminn og hann þurfti að vita hver var á hinum endanum. „Gallup" sagði ég og þá tók við næsta spurningalota - hver hann væri þessi Gallup... Gaman að þessu.

Annars var ég að rifja upp í dag, þegar ég fór offari í væntingum mínum til nemenda. Þá gerði ég orðabókarverkefni sem var strembið og lagði fyrir 11 ára bekk. Súpernemönd ein endaði á því að koma til okkar kennaranna grátandi út af því hvað verkefnið var erfitt. Ég fékk samviskubit en það hvarf smám saman á þessum tólf kennsluárum, enda hverjum manni hollt að glíma við ókleifan hamar og upplifa sín takmörk öðru hvoru. Nemöndin er núna læknir.

Svo vil ég nefna þetta með söngvara... Er Tom Waits með svona rödd? Er Hjálmasöngvaranum ómögulegt að halda sig á (lag)línunni ef söngvara skyldi kalla? Er Antony (and the Johnsons) að ýkja í sinni raddbeitingu? Mig fer oft að klæja í hálsinn þegar ég hlusta á fólk misþyrma raddböndum sínum.

laugardagur, nóvember 12, 2005

Eitthvað sem byrjar á b... 

Man ekki orðið í bili, en það skrapp inn í hausinn á mér í gærkvöld þegar mér varð hugsað til þess að ég las um að Stefán Karl hafi beðið sinnar heittelskuðu í þætti hjá Sirrí. Nýtt íslandsmet í þessu b eitthvað, fannst mér. (Orðið er sletta og alls ekki orðið bjánahrollur.) Stebbi átti sér margar hliðar á skólaárunum og við ræddum málin gjarna á bókasafninu mínu enda drengurinn mikill FHingur og tónlistaráhugamaður.

Síðast þegar ég hitti hann, fyrir um 5 árum, var kappinn orðinn þekktur leikari og ég benti honum á að gamli skólinn ætti fullt af upptökum af skemmtunum og uppákomum frá því hann var barn og unglingur í ýmsum hlutverkum. Það var raunar ekkert gott hljóðið í Stebba þá, honum fannst Þjóðleikhúsið eitthvað vont við sig. Vonandi fer Hollywood betur með hann.

Jú, þarna kom það. Banalítet er orðið. Glannalegt ef ekki glæpsamlega banalt eitthvað að bera fram bónorð í þætti Sirríar. Veit ekki hvort þetta var brella til að vekja athygli á bók frúarinnar og hugsanlega vanmet ég plögggildi Sirríar. Þarf ekki bara að gera eitthvað krassandi til þess að vekja athyglina í þessu massíva upplýsingaflóði - t.d. tala illa um fyrrum maka eins og Súsanna Svavarsdóttir gerir í Fbl. Gott ef hún var ekki samferða mér um ranghala bókmenntafræði forðum daga í HÍ ásamt bæjarstjórunum Kristjáni J og Lúðvík, svo maður haldi áfram þessu nafnakalli eða neimdroppi.

Í upplýsingaflóðinu missir maður næstum af dánarfréttum og slíku, en þrír af kanti æskuáranna kvöddu heim nýlega - menn sem ég þekkti lítið sem ekkert en voru hluti af litlu heimsmyndinni; Óli lögga, Hermann Búa og Geiri í Dalsmynni.

Ekki er ég sá fyrsti til að undrast hugtakið raunveruleikasjónvarp, sem er eins konar öfugheiti í flestum tilfellum þar sem það er notað. Svo fór ég að velta fyrir mér hvort fyrsti orðhlutinn í merkingunni mæða, ami, kvöl væri ekki lykillinn að merkingu hugtaksins.

Brottskemmdur 

Maður er forréttindagaur að hafa öðru hvoru einkaábyrgð á börnunum og missa ofursjaldan úr dag með þeim. Af því tilefni varð mér hugsað til norska orðsins bortskjemt og sá það í nýju ljósi því nú er frúin burtu í verkefni erlendis í nokkra daga. Ég bæði ræð og stjórna og er brottskemmdur því venjulega læt ég nægja að ráða. Og hvað gerist? Fjandinn losnar!

Snillingur (6) fékk að koma heim í gær sem lyklabarn úr skóla í fyrsta sinn (með mig sem ábyrgðarmann), og þá náttúrulega dró hann með sér stelpu. Ég kom að þeim drekkandi kókómalt og borðandi ristað brauð eins og ekkert hefði í skorist. Og síðan settust þau saman í stól og horfðu á mynd. Um kvöldið bauð daman honum heim og hann kom um HÁLFEITTLEYTIÐ heim með skelmisglott í fési. Hún var raunar með vöfflukaffi í tilefni afmælis síns (8) og býr í næsta húsi og er frábær vinur og nágranni. Honum þótti athyglisvert að sjá kertum stungið í efstu vöfflu bunkans, en saknaði þess að ekki voru kökur. Ég sem hafði allt eins búist við honum um hálftíuleytið...

Þetta er ágætt. Vonandi verður drengurinn dugmeiri selskapsmaður en sumir sem brutust ÚT af skólaböllum í gaggó, og fengu eina kvörtun á alllangri vist á leigumarkaði: nefnilega fyrir slaka frammistöðu í skemmtanalífi og að bjóða aldrei fólki heim. Mínir góðu húsbændur voru víst vanir því að ungu fólki fylgdi líf og hæfileg gleðilæti.

Ég bíð spenntur eftir að sjá í boði hvers Meistarinn verður svo að ég geti hætt að skipta við viðkomandi fyrirtæki. Það þarf engar 5 milljónir í verðlaun til að búa til góða spurningakeppni. Þvert á móti held ég að þetta uppátæki verði til þess að gengisfella þetta vinsæla dagskrárefni. Hvers vegna hættu menn með Viltu vinna milljón? Hvað er ég annars að röfla sem ekki sé Stöð 2?

Hugsanlega þarf núorðið reiðufé til að fólk almennt nenni að hreyfa við heilasellum ef ástandið er eins og í íslenska fótboltanum þar sem meðalmenni rápa milli félaga og fá sum ofurlaun fyrir að geta ekkert. Hvers vegna láta þessir náungar ekki bara ferma sig á hverju ári líka til að græða meira?

Mér fannst ágæt keppnin á Talstöðinni sl. mánuði og býst ég síður við að fólkið sem þar var komi í Hagaskóla til að þreyta inntökupróf í Meistarann kl. 14 í dag. Mín stundarfrægð í geiranum fólst í að komast í undanúrslit í spurningakeppni í Stundinni okkar 1972-3 með tveimur bekkjarsystkinum úr GB og ég fékk skjal, en fór í þessum miklu reisum til höfuðborgarinnar í fyrsta sinn ævinni á hamborgarastað og það í boði hins opinbera. Staðurinn var á efri hæð í Glæsibæ. Enn man ég hvaða spurningum við svöruðum rangt... ($%#" Hannes Hafstein og #$%& Guðlaugur Rósinkrans.) Spyrjandi var Sveppapabbi en séntilmennið Hermann Ragnar hafði yfirumsjón með Stundinni.

Að lokum mæli ég eindregið með þessum blogghópi. Flest sem þessir náungar sjá ástæðu til að ræða er athyglisvert og stundum eru býsna góðar greinar hjá þeim um ólíklegustu mál- eða hugðarefni. Til dæmis fer einn hér á kostum í umfjöllun sinni um iPod og Viagra, en milli þessara tískuvörutegunda á nútímamarkaði sér hann vissulega hliðstæður.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Bragð er að... 

Við Undrið (3) þurftum aðeins að bíða eftir að Snillingur (6) lyki kvöldskák sinni við páfann áður en lestur skyldi hefjast. Okkur varð litið á Kastljós og þar voru að ræða málin DNA-heilarinn og Magnús læknir. Henni varð að orði: „Er þetta Spaugstofan." I wish. En mikið getur svona kríli verið glöggt í hugsun. Hún æfir skrift af kappi þessa dagana enda fyrirmyndin í skóla og þá þarf að leika allt eftir.

Aðalbókin þessa dagana er Tobías og Tinna. Tinna er enn ekki mætt til sögu en mikið vorkennum við Tobíasi. Hann er með annan fótinn styttri, foreldrarnir mega ekkert vera að því að tala við hann, hvað þá lesa og heimurinn er vondur við greyið. Snillingur tjáði mér að hann vissi af fólki sem læsi fyrir börnin sín og léti þar við sitja en sleppti kvöldsöng og ættu það þó að teljast almennilegar manneskjur. Mér varð á að nefna að líklega rynni upp það kvöld að við slepptum því að lesa fyrir hann. Þetta varð til þess að hann leit á mig augnaráði sem gaf til kynna að ég væri búinn að tapa glórunni...

Annars setti hann í gær persónulegt met með því að lesa í rykk 40 blaðsíður í valbókinni sinni. Hingað til hefur hann einkum valið sér vondar bækur (frá Fjölva) eða fornbókmenntir (Ármann Kr.) og því ekki leiðinlegt að heyra öðru hvoru hlátursrokur úr horni þar sem hann sat með sinn Gúmmí-Tarzan. Auðvitað er heilmikil kúnst að læra að velja sér bækur eins og allt annað og ekkert að því að reka sig á í þeim efnum öðru hvoru. Margan gullmolann hefur maður nú rekist á með því að gefa einhverju tækifæri sem kveikir ekki í við fyrstu sýn, bókum sem öðru.

Hins vegar leyni ég því ekki að einhverjar ánægjulegustu endurminningar frá skólasafnskennaraferlinum eru tengdar hlýjum orðum frá foreldrum sem komu sér upp því fyrirkomulagi að ég valdi bækur í kvöldlesningu með börnunum þeirra. Mósaíkmaðurinn horfni var einna fremstur í þeim flokki - framúrskarandi góður drengur og faðir.

Ég þekki einn sem heitir Ævar, en tvo sem heita Eiður. Þekkir einhver einhvern sem heitir Ævar Eiður?

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Fínt að þegja 

Við vorum tveir virkir í bassanum á seinni hl. kóræfingar í gær (en þriðji bassinn settist við píanóið og lék undir). Eins gott að Ríkharður ÖP var ekki til staðar að hlýða á þessa ágætu Requiem æfingu - sá hefði nú getað gólað sinn hefðbundna karlaraddaskortsblús. Við kunnum þetta vel báðir sem stóðum vaktina og höfðum í fullu tré við 20 kvinnur og 5 teróna, en þurftum að taka svolítið á. Gott að þegja í dag.

Reyndar átti RÖP leið hjá þar sem Dónakórinn var við sjónvarpsupptökur í miðbænum sl. laugardag og sá ástæðu til að spyrja hvort við færum eftir júlíönsku tímatali, en tjáði sig ekki um tónlistarflutninginn. Atriði þessi verða reyndar ekki flutt fyrr en í desember svo að hvað það snertir er ekki verið að brjóta reglur, þótt jólin hafi verið fjarlægð úr textunum...

mánudagur, nóvember 07, 2005

Viðbrögð 

Snillingur (6) dreif sig á fótboltaæfingu (úti) í hádeginu og kom glaður heim með níu mörk skoruð. Þarna var hann að spila við jafnaldra sína en ekki 1-2 árum eldri gaura eins og venjulega, og aldeilis bylting fyrir kappann að geta látið ljós sitt skína í alvöru. Pjakkurinn er reyndar búinn líka að fá uppfærslu um hóp í blokkflautu, út á eigin dugnað. Skólabókin er ugglaust ekki merkilegasta verkefnið í hans huga, enda les hann nú hvað sem er og hvar sem er, og er farinn að afla sér upplýsinga með blaðalestri og textavarpi og fleiru.

Hann spurði reyndar í gærkvöld hvað "Stupid fat hobbit" þýddi! Sagði að vinur sinn hefði alltaf verið að segja þetta í fyrra...í fyrsta bekk. (Hafði þá rekist á bókina um heimsku hvítu mennina sem ég er að lesa og einhvern veginn myndað tengingu aftur í tímann). Veit einhver hvaðan "Stupid fat hobbit" er komið?

Alltaf minnisstæð sagan sem Jónsi gjarna sagði þegar nálgaðist stórtónleika og tilefni þótti til að minna fólk á að auglýsa nú vel og mikið. Hann var orðinn þreyttur á aðgerðaleysi fjölmiðla í umfjöllun um gróskumikið tónlistarlíf í kirkjunni sinni og þegar hann var búinn að hringja nokkrum sinnum eitthvert skiptið í fréttastofur í von um skot í lok frétta eða eitthvað, ákvað hann að hringja og segja að einhver hefði gert sér lítið fyrir og skitið á altarið. Ekki skorti viðbrögð fréttamiðla þá.

Minnir á söguna um manninn sem hringdi nokkrum sinnum í lögreglu og kvaðst hafa orðið var við grunsamlegar mannaferðir í nágrenninu. Eftir nokkur árangurslaus símtöl sló hann á þráðinn og sagði löggunni að hafa ekki frekari áhyggjur af þessu þar sem hann hefði gert sér lítið fyrir og skotið mannfýluna sem var að sigta út vænlega innbrotsstaði. Löggan mætti eftir 2 mínútur grá fyrir járnum...

Mér finnst alltaf gaman að fá óvænt verðlaun og óverðskulduð. Þannig fékk ég í haust verðlaun fyrir lengsta upphafshögg í golfmóti. Ég held að hinir allir hafi ekki hitt brautina. Nú liggur fyrir að ég hef verið tilnefndur til Edduverðlauna, eða þátturinn minn, eða þannig. N
okkur okkar úr kórnum vorum fengin til að syngja fáein jólalög með nýjum textum í Stelpuþætti um helgina. Verst að þetta verður víst ekki sýnt fyrr en eftir afhendingu Eddunnar...

Annars er Jóladiskur Voxara kominn í sölu og þeir sem heyrt hafa eru kátir. Borðleggjandi hátíðarstemning. Ég skal alveg selja þeim diskinn sem vilja - og afhenda persónulega á höfuðborgarsvæðinu.

Svo minntist ég á nýjan vindstyrksstaðal (1-10) sem ég fann upp og gagnast einkum áhugafólki um útiþurrkaðan þvott. Standardflík á mælikvarðanum er sem sagt venjulegur bolur (T-shirt) á meðalmanneskju og miðað er við: þeytivindu 800 rpm, úrkomuleysi, 4 °C (án þess að nákvæmlega sé tilgreint rakastig) + snúrur eru í skugga þannig að sólfar skiptir ekki máli:

1 - Bolur þornar á sólarhring, saumar hugsanlega rakir
2 - Bolur þornar á 14 tímum
3 - Bolur þornar á 9 tímum
4 - Bolur þornar á 3 tímum og fer 1 hring utanum eigin snúru
5 - Bolur þornar á 2 tímum og fer 2 hringi utanum eigin snúru á staurnum
6 - Bolur þornar á 4 tímum og fer 2 hringi utanum næstu snúru á staurnum
7 - Bolur þornar á 5 tímum og fer 4 hringi utanum næstu snúru á staurnum og önnur klemman losnar
8 - Bolur þornar ekki enda liggur hann í drullunni undir snúrunum
9 - Nágranni kemur öskureiður með bolinn og segist hafa fengið þetta í hausinn á leiðinni inn til sín
10 - Bless bolur, þú varst ágætur - verst að nú ertu horfinn út í hafsauga


laugardagur, nóvember 05, 2005

Stöðumat 

Kominn úr vetrarfríi að Flúðum. Fjölskyldan í afslöppun og litla systir kom í heimsókn líka. Ég ætlaði að yrkja eina sonnettu í leyfinu í anda þessa manns, en gleymdi því óvart. Einn hringdi úr vinnunni og spurði hvort ég kæmi ekki örugglega í hádegisfótboltann... Gott að vita að maður er ómissandi.

Það er annars frábært að láta minna sig á að stundum getur verið ágætt að helsta spennumómentið felist í því hvort norðurljósin í nótt verði magnaðri en í fyrrinótt, eða hvort náist að klára 500 stykkja púslið áður en pizzurnar bakast. Svo afslappað var þetta. Flakkarinn títtnefndi sannaði gildi sitt sem afþreyingarmiðstöð með því að sjá börnunum fyrir dægradvöl þegar á þurfti að halda að deginum til, fullorðnum fyrir bíó ef þurfti (lítið) og svo er þarna fullt af tónlist. Ekkert vesen, bara tvær snúrur í samband og allt klárt, og fyrirferðin á öllusaman svipuð og á nesti Snillings (6) fyrir einn skóladag. Gott heiti, Flakkari, á þetta fyrirbæri.

Reyndar rumskaði Snillingur rétt í þessu og tjáði mér að allt væri í lagi, en tunglið hefði bara komið alveg til sín og hefði verið hreint og fallegt... Gott að sofna með þá vissu í farteskinu.

Að vanda steðjaði ég á bókasafn í aðdraganda ferðar og las hátt í 5 bækur á 4 dögum, þar af tvær eftir Arnald og ég er sammála Stefáni um karlinn. Kleifarvatn og Grafarþögn eru klénar, bæði texti og flétta. Það vantar í þetta eitthvert malt. Paul Auster og Michael Moore bættu það upp. Þótt ég sé bara hálfnaður með þá nokkurra ára gömlu bók, Stupid White Men, rekst ég sí og æ á atriði sem auðvelt er að heimfæra á litla Ísland. Eitt er víst að gamli vinnufélaginn Ingvar Sig. er enginn Erlendur rannsóknarlögreglumaður.

Svo kemur maður aftur í netheima þar sem Egill er enn að predika um flugvöll á Lönguskerjum. Getur ekki einhver sem á bíl og þekkir manninn rúntað með hann á fjöru út að flugbrautinni sem endar við Suðurgötuna og bent honum á hvar Löngusker eru? Plís! Það er nefnilega styttra þaðan og út í Löngusker en í enda næstu flugbrautar, þannig að þetta væri enginn flutningur - hugsanlega hliðrun. Það mætti halda að svona spekingar kynntu sér ekki það sem þeir fjalla um. Og hvenær hefur umferð um Tryggvagötu verið vandamál? Tryggvagötu í stokk er eitt af tíu mikilvægustu framtíðarmálum Reykjavíkur að mati Egils. Vá! Fínt annars að þessi Lönguskerjaflugvöllur myndi spilla útsýni Kjartans Gunnarssonar og Ögmundar J, þannig að andófið verður óbilandi úr öllum áttum, a.m.k. svo lengi sem þetta mun skipta mína fjölskyldu máli.

Nú er loks komið heimabíó á heimilið, þannig að hægt er að hlusta á hvað sem er og horfa líka. Tækjavæðing sem byltir menningarlífi familíunnar á innan við 50 k samtals, með flakkaranum og þessu. Allt í einu fullt af plássi þar sem áður voru spólur, flögur (sjá fyrri pistil) og hljómtæki.

Hvað skyldi annars Gísli Marteinn vera búinn að láta klóra sér í bakinu fyrir marga milljarða? Hve margir koma eftir nokkur ár og segja: „Hey, manstu þarna um árið - í prófkjörinu?"! Kíkið á meðmælendalista kappans og sannið til ef hann kemst að...

Síðdegis fer ég að gera mig enn einu sinni að fífli í þágu menningarinnar... Meira seinna um það - e.t.v. Og svo er ég búinn að finna upp glænýjan vindmælistaðal sem verður kynntur innan tíðar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?