<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, janúar 31, 2006

Herferð skýtur sig í fót... 

Skyldi happdrættisræninginn vera einn af vinningshöfunum sem hafa birst í dulargervi í auglýsingum...
95 þús.+ Kraftgalli= heildarkostnaður við fjölda frétta í öllum fjölmiðlum. Hvað kostar ein auglýsingasíða?
Er markaðsstjóri HHÍ fljótur að hlaupa?

Fréttirnar góðu/vondu 

Stjórinn rekinn frá Hrútunum... - tja, hvað tekur við, spyr maður? Ég hitti kappann í fyrrasumar. (Góðar/vondar)

Ég flísalagði í fyrsta sinn í gær og tókst bærilega, takk. (Sjá að neðan). Gæti næstum hugsað mér að leggja þetta fyrir mig. Útkoman er snyrtileg, krefst vandlegs undirbúnings, en smásubbuskapur meðan á verkinu stendur. Þannig er ég - meyjan sanna. (Góðar)

Þvottavélin tók upp á því að þvo óendanlega, án þess að vinda, og slá síðan út. 18 ára Candy með innbyggðum þurrkara - snilldarvél sem ég hef getað viðhaldið sjálfur hingaðtil. (Vondar)

Pabbi besta vinar Snillings (7, já 7) er sérfræðingur í rafkerfi þvottavéla og kíkir við á morgun enda skuldum við honum heimboð frá því á nýársnótt.
(Góðar)

Píparinn sem lauk verki sínu fyrir 3 vikum er kominn heim frá Kanaríeyjum og hringdi inn kostnaðartölur í gær. Hann er a.m.k. helmingi ódýrari en við óttuðumst og varla fjórðungur á við það sem tryggingarnar hótuðu... Sómi stéttar sinnar að auki, glaður, iðjusamur og indæll í hvívetna, og var næstum búinn að hirða kattarhelvítið. (Ekki frá Handlögnum, hvorki kötturinn né píparinn...) (Það var út af pípulögnum sem ég þurfti að endursmíða og flísaleggja frontinn á baðkarinu. Sjá að ofan.)
Nú eru engar duldar pípulagnir lengur í húsnæði voru sem gætu brugðist fyrirvaralaust með tilheyrandi afleiðingum og hægt að byrja á framtíðarlausnum út um allt. (Góðar)

Ég geng um 5.8 km úr vinnu miðað við skreflengd og hraða sem stendur nokkurn veginn heima við Borgarvefsjá. Ég var á gulustu skóm lýðveldisins í dag á þessari gönguferð. Frábærir NIKE Veron sem áttu að kosta 17.000 en fengust á um 6.000 út af litnum. Tíkallsstóra hælsærissárið angraði ekkert - og þá á ég við EKKERT! Þetta eru skórnir sem reimaðir verða á fót í Reykjavíkurmaraþoni 2006 (skemmtiskokki) sem við Snillingur munum þreyja persónulega.
(Góðar)

Kattarfjandinn Randver er að verða allt sem ég spáði. Ég þekki Hafnfirðinga+ketti og niðurstöðuna úr því dæmi.
(Vondar)

Ég fékk hrós fyrir vinnuna mína um daginn frá Norðmanni sem staddur var í Prag.
(Góðar)

Undrið (3) er komið í íþróttaskóla KR og stendur sig vonum framar. Héðan í frá má ekki missa af tíma, ella er vikan ónýt. (Þetta gefur til kynna frábæran vilja og einbeitingu til góðra verka, því vonirnar voru hástemmdar. Hún er m.a.s. farin að tala um að fara svo í fótbolta þegar fram líða stundir...) Börnin mín eru föðurbetrungar, get ég fullyrt. (Góðar)

Að þessu sögðu held ég því fram að maður segi aldrei á þessum vettvangi fréttirnar sem máli skipta nema, e.t.v. eftirá þegar búið er að melta þær...og allir vita hvort sem er.

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Hvar var Sæmundur? 

Þessa dagana geng ég heim úr vinnu, enda nýbúinn að henda Toyotu Camry sálugri. Ég fann út í dag að hvert skref mitt er 0.952 m og á einni mínútu geng ég 120 skref að jafnaði. Vafalaust mun ég komast að fleiri skemmtilegum staðreyndum um þetta síðdegisskálm á næstunni.

Nú var ég nýlagður af stað og enn í Ármúlanum þegar á vegi mínum varð náungi sem mér fannst ég kannast við. Fullorðinn, skeggjaður og dálítið stórskorinn maður með pokaskjatta og fötin bentu ekki til þess að hann væri að koma úr vinnu sem tryggingaráðgjafi hjá VÍS eða frá einhverri fasteignasölu. Fyrst datt mér í hug að þetta væri afdankaður bóndi úr gamla heimahéraðinu, einna helst af Mýrunum, sem ég kannaðist við frá árunum hjá RARIK eða VegRIK. Svo kviknaði ljósið - þetta var Bobby okkar Fisher. Sæmundur var hvergi sjáanlegur... Kannski var Bobby að tölta í þorramat á Múlakaffi.

Sæmundur á tvíburabróður sem var með mér í ráshópi í golfmóti í hitteðfyrra. Ég lenti í að skrifa skorið hjá karlinum og hef ekki upplifað aðrar eins tilraunir til að vantelja eins og hjá þeim ágæta manni. Þó var ekki eins og hann hefði möguleika á verðlaunum eða slíku.

Og af því að Sæmundur rútusnillingur er nýhættur með sérleyfið er við hæfi að rifja upp atvik frá hans bestu árum í bransanum. Þá var ég nýorðinn unglingur og einn á ferð úr höfðuborg í Borgarnes með Sæmundi á M 505 sem var stærsta rúta Íslands á þeim tíma. Svo skemmtilega vildi til að við hliðina á mér sat einhver mesta draumaprinsessa Borgnesinga af minni kynslóð, reykvísk mær sem dvaldi löngum hjá afa og ömmu í Nesinu, þannig að ég var í sjöunda himni miklu frekar en troðfullri rútu.

Í sunnanverðum Botnsvogi í Hvalfirði lenti Sæmi í því að mæta feikilegum amerískum fleka á þessum gamla, mjóa malarvegi. Ökumaður flekans þorði ekki út í kant og stoppaði, enda snarbratt oní sjó; ég segi ekki þverhnípi því að ekki var um það að ræða. Þá tók Sæmi til þess ráðs að svipta sér yfir á rangan vegarhelming og mæta helvítinu þannig. Draumaprinsessan fleygði sér ekki í fangið á mér í angist sinni, enda vissu allir og vita enn að Sæmundur skilar því
á áfangastað sem hann flytur.

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Sóló 

Huh, huh, huh, huh, huh, huh, huh, huh, huh, huh, huh, huh, huh, huh, huh, huh, sprrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrund. (Endurtekið nokkrum sinnum)

Svona lítur nú út sóló mitt á Myrkum músíkdögum, líklega hið fyrsta með kór síðan "de hip bone's connected to the back bone", '95. Dyggir aðdáendur söngferilsins þurfa þá ekki að bíða lengur.

Þeir sem álpuðust til að opna munninn á æfingu og spyrja um eitthvað voru umsvifalaust gerðir að sólistum - svo einfalt var nú það í mínu tilfelli. Aukin ábyrgð tímælalaust - eins og að vera varnarmaður og fá að fara fram í horn- og aukaspyrnum.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

...og nú langar mig til að taka annað högg á 4. holu á Kiðjaberginu... Skrýtið!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?