<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Ekki styggja Hafnfirðinga... 

Í barndómsminningunni jafngilti það ferð nánast út fyrir endimörk alheimsins fara upp fyrir pípuhlið. Þeir sem gátu státað af því að hafa hjólað upp að pípuhliði fyrir tíu ára aldur voru kempur og sagan sagði að það væru gullnámur þar í grennd. Gott ef Indjánar leyndust ekki í holtunum þar fyrir ofan. Pípuhliðið markaði sem sagt endimörk Borgarness í þá daga og þó var heilmilkinn spotta að fara frá íbúðarbyggð að pípuhliðinu. Vírnet var endastöð rúntsins og efsta hús í byggð, en bæði hesthúsahverfið Votidalur og kartöflugarðarnir í Sandvík voru á milli byggðar og pípuhliðs.

Ævintýraveröldin utan pípuhliðs freistaði vissulega: Þar voru braggar úr stríðinu og öskuhaugarnir. Einhverju sinni fór lið úr mínum bæjarhluta uppá hauga í ævintýraferð, aðallega til þess að æfa reykingar undir forystu Breiðdalsgengisins, minnir mig. Aldrei mun ég gleyma því fjaðrafoki í hópnum sem varð þegar sást rykmökkur í fjarska og menn þóttust greina Andrés löggu á Zephyrnum sínum. Á meðan menn ruku í felur og oní fjöru var ég sendur til að dreifa athygli Drésa og ljúga einhverju að honum, af því að ég var yngstur og bekkjarbróðir sonar hans og ekki reykjandi. Auðvitað fór ég létt með verkefnið. Drési henti sínu rusli án þess að taka eftir neinu misjöfnu, enda bara helgarlögga. Gott ef ég fékk ekki far hjá karlinum niður í bæ, sem var þingmannaleið í endurminningunni. Sjaldan hef ég verið eins feginn að hafa verið sendiboði lyginnar enda nennti ég ekki að ganga heim. Seinna vann ég með Kristni á Grímsstöðum, föður Andrésar, við gærusöltun í sláturhúsinu og var það skemmtilegur og vænn maður.

Svo voru braggarnir rifnir og haugarnir fluttir lengra upp í hreppinn. Í gamla kartöflugarði fjölskyldunnar reisti Alli Emils hús og réð mig í það verkefni að vírhreinsa, enda var ég þá orðinn unglingur. Á braggaslóðum byggðu gömlu skólafélagarnir hús fyrir sparimerki meðan ég var í framhaldsnámi í höfuðborginni. Ekki minnist ég þess að Reykvíkingar hafi sett Borgnesingum stólinn fyrir dyrnar varðandi braggadraslið sem var þó merkilegt í sögu staðarins - enginn úr höfuðborginni tjáði sig um hvílík firra væri að rífa þessar stríðsminjar og sögulegu byggingar.

Nú er ég Reykvíkingur og geng heim úr vinnu framhjá stríðsminjum þá góðu daga er ég hef tækifæri til. Í blíðunni í gær öskruðu gamlir braggar, ónýtt svæði, drasl, bílhræ og kofar frá stríðsárunum á mig sem aldrei fyrr - inni í hjarta borgarinnar, á svæði þar sem hanna mætti a.m.k. þrjá þokkalega golfvelli ef því væri að skipta. Sumir kalla þetta flugvallarsvæðið og landsbyggðarmenn og flugdólgar ærast upp til hópa þegar upp kemur umræða um að fórna því undir almennilega notkun. Aðrir landsbyggðarmenn eru grautfúlir af því að við í Reykjavík viljum ekki borga fyrir tónlistarnám barnanna þeirra lengur. Gott ef við eigum ekki að borga fyrir frið á jörð með því að reisa sérlega friðarsúlu að frumkvæði Yoko Ono. Oh, no! Aldeilis frumkvæði sem sú naðra hafði á friðinn hjá Bítlunum.

Stundum saknar maður þess að vera ekki Hafnfirðingur lengur. Þar finna menn oft réttu lausnirnar. Ekki alls fyrir löngu höfnuðu Vogamenn og Vatnsleysingar því að sameinast Hafnarfirði. Þá settu Gaflarar á stofn hóp til að hefna sín og fann hópurinn snilldarlausn, að því er ég hef fyrir satt. Nú eru hafnar framkvæmdir við að útbúa eitt mikið rör þar sem safna á saman öllu klóaki úr Firðinum og senda suðurmeð ströndinni þangað til hafstraumar taka við og bera á land í Vogum mykjuna frá mínum gömlu grönnum. Af þessu má draga lærdóm - Dagur, Villi, Silvía Nótt, einhver...

föstudagur, febrúar 24, 2006

Best að vakna 

Þegar ég var búinn að sjá fram á að Snillingur (7) væri veikur í morgun og færi ekki í skóla lét ég eftir mér að stela fimm mínútum í kúri hjá kellunum mínum þar sem ég þyrfti hvorki að hlaupa uppi skólabíl né Strætó. Ekki leið á löngu uns Undrið (3) bærði á sér þar sem hún var stödd í hitaholunni milli mömmu og pabba. Fyrstu orð dagsins voru til mín:
- Viltu ekki koma með mér fram, litla krúsidúllan mín? (Þessu fylgdi að sjálfsögðu ómótstæðilegt morgunbros.)
Ég kann ekki svona taktík sem fellir mann flatan og kýlir mann kaldan og treystir manni trúna á framtíð mannkyns og blóm í haga, en þetta og ótalmargt annað sýnir að maður lærir meira af börnunum en þau læra af manni sjálfum þegar allt kemur til alls.

Food & fun 

Á 10 veðurstöðvum innan höfuðborgarsvæðis sem gefa upp veður kl. 9:00 eru samtals 9 mismunandi vindáttir nú í morgunsárið. Ein áttin sendir inn um vinnugluggann minn angan af steikunum sem Múlakaffi er með í ofnum sínum þessa stundina. Þetta verður að gilda sem þátttaka mín í matarhátíð 2006. Skárra en ekkert.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Tómatsósa með grænmeti 

Ég fór í starfsþróunarviðtal í vikunni. Þar er farið yfir mætingu, spurt hvernig gangi, hvernig manni líði í starfinu, hvort vinnuaðstaðan sé góð, hvort maður ætli að mennta sig í þágu starfsins og um samstarfið. Allt nema launamál.

Þegar ég fékk skýrslu með niðurstöðu viðtalsins var ekki eins og það hefði tekið klukkutíma - nær fimm mínútum. Mér virðist líða vel, mér gengur vel, ég mæti vel, ég er sáttur við aðstöðuna, og allt í sóma. Fátíð en ekki óþekkt gagnrýni á mín störf hefur fallið um sig sjálfa þegar nánar var skoðað að sögn yfirmannsins. Það er alltaf nóg að gera hjá mér í vinnunni, ég ræð við verkefnin, ég vil og fæ að stjórna mér sjálfur, ég get sveigt vinnutíma að þörfum heimilisins í fullkomnu samkomulagi við vinnuveitanda.

Fyrir hálfu öðru ári fengu allir starfsmenn (80-90 manns) bonzai-tré á skrifborð sín og eftirlifandi eru þrjú, öll í þróunardeild og tvö þeirra í minni umsjá - annað í fóstri fyrir starfsmann sem er staðsettur í Prag. Ég sé sem betur fer ekki bara útflatta hrossataðshauginn Esju út um vinnustaðargluggann minn heldur sjálfa Skarðsheiðina og raunar kíki ég oft á dag út í Engey þar sem afi Sigurður heyjaði síðastur manna trúi ég, og fyllist oftar en ekki fyrirframvorkunn í garð þeirra sem þar munu búa síðar ef sumar hugmyndir verða að veruleika. Ég hef gaman af því að text/test hornið á 2. hæð laðar að sér fólk sem vill segja frá íbúðakaupum og -sölum, vill sýna nýja barnið sitt, leitar ráða við kálfameiðslum, eða þarf að tjá sig um uppvöxt sinn á Bíldudal. Ekkert af þessari málsgrein lenti í ofangreindu viðtali en ætti e.t.v. heima þar.

Samantekt viðtalsins minnti annars eilítið á fyrsta hluta daglegs starfsþróunarviðtals heimilisins sem Snillingur (7) afgreiðir undantekningalaust á sama hátt.
-Hvernig var í skólanum í dag?
-Gaman.

Kötturinn Randver (a.k.a. Kisvaldi Kaldalóns/Geirfinnur) hefur verið á heimilinu í 4-5 mánuði og stendur sig vel að mínu mati. Hann sefur og étur og er úti þess á milli. Nennir lítið að láta börnin ráðskast með sig, fær aðeins grunnumönnun hjá mér og er grunaður um að hafa drepið fugl. Ég varð var við stórvægilegt fjaðrafok á verandarstéttinni í dag. Þetta er allskynsamur köttur og ekki síður fljótur að læra en annar ungdómur hér á bæ. Hann leitar þó undir bíla, situr oft uppi á jeppadekkjum og mun því hugsanlega ekki kemba hærurnar. Vonandi kem ég fyrstur að því slysi ef af verður.

Kisi lærði t.d. umsvifalaust á nýlegan kattarstiga sem ég sneið og setti saman m.a. með nýinnkeyptri stingsög. Stiginn opnar honum leið út/inn án mannlegra afskipta - oft sést undir kattarþófa þegar birtast vinkonur (3) heimkomnar af leikskóla. Ég þurfti að hugsa í nokkra hringi áður en ég datt niður á arkitektúr stigans og tel hann visst afrek, því að fv. húsameistaraköttur ríkisins hefur ekki slíkan aðgang að sínu heimili ef marka má reglubundið blístur sem heyrist í götunni á síðkvöldum. Eftir ca. viku verður greyið einhverjum líffærum fátækari.

Talandi um ungdóm og lærdóm: Það er fyndið að sjá Undrið (3) sem Silvíu Nótt flytjandi evróvisjónlagið á stofugólfinu hampandi einum af gömlu fótboltabikurunum mínum sem hún fékk fyrir að vinna keppnina. Magnað að ótvíræður foringi fjölskyldunnar og yfirburðaskemmtikraftur sé yngsti aðilinn. Við spyrjum okkur stundum hvað sé í eiginlega í matnum á leikskólanum. Við spurðum Undrið raunar sjálft eftir uppistand kvöldsins (sem felldi alla áhorfendur að velli af hlátri) og svarið kom strax: „Gænmeti og tómatsósa með fiski - þess vegna er ég með mesta orku."


Besta skemmtun 

Sumt fólk grínast með að það sé áhugavert (not) að fylgjast með þvottavél þvo.
Aðrir tjá sig í blöðum um taubleiuþvott eins og það sé stórkostlegt málefni.
Hafiði nokkurn tíma fylgst með þvotti frjósa á snúru?
Það er listaverk.

Svona má finna gimsteina í rútínunni.

(Það var ekki eins vont og ég hélt að það yrði að ganga heim úr vinnu í gær í norðanbálinu - smámótvindsbál á stígnum við N-S endann á flugbraut.) Kjellinn er að komast í stórvægilegt form vegna göngu úr vinnu og heim síðdegis. Skyndilega hanga nýlegar gallabuxur sem partýtjöld um lendar og ég veit ekki hvað. Hvílík nautn sem 49-55 mínútna ganga getur verið í lok dags. Bíðið bara þar til hælsærið slæma hverfur - þá mun ég fljúga...

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Candy no can do 

Í vikunni gafst upp þvottavélin eftir tæpra 18 ára staðfasta þjónustu. Í förgunarferlinu þykir okkur sjálfsagt að kanna með viðgerð á ræflinum. Verkstæði Pfaff benti mér endilega á að tala við aðalsnilling þeirra í þvottavélaviðgerðum og sá garpur heitir Hreinn. Sá hlýtur að hafa fengið sinn skammt af glósum gegnum tíðina en þetta nafn á þessum manni er nú samt skondin tilviljun.
„Hreinn - þú ert alltaf í þvottavélunum, ha!"
Ekki má gleyma að Hreinn þvottavélameistari var óspar á góð ráð og öðlingur í alla staði, eins og hinir tveir hjá Pfaff sem ég ræddi við. Hann sjúkdómsgreindi gegnum símann og hvatti mig til að reyna sjálfur að gera við áður en til frekari ráðstafana væri gripið.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?