<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, apríl 28, 2006

Risinn vaknar 

Síðar í dag verður tilkynnt um yfirtöku Heiðursmannabandalagsins (League of Gentlemen) á eignarhaldi Derby County. Þessu fagnar lýðurinn og ég ekki hvað síst. Fari nú fjárplógsmenn og Panamahrægammar til fjandans. Nýir og ferskir vindar munu blása um þennan fornfræga klúbb og ekkert því til fyrirstöðu að nýtt stórveldi muni taka völdin í enskum bolta - ég minni á að búningurinn er í FH litunum og þannig er einnig búningur Þjóðverja, tilvonandi heimsmeistara.

Svo er Requiem í Langholtskirkju kl. 15:00 á morgun. Allir mæta þangað!

Afhömstrun 

Ég hef fyrir satt að fatanúmer (kvenna) í Bandaríkjum hafi breyst undanfarin ár til þess að mæta kröfum markaðarins. Að fatasalar hafi lagað sig að almennt umsvifameira sköpulagi með því að lækka einfaldlega númerin svo að neytendurnar þyrftu ekki að horfast í augu við að þurfa stærri númer. Þannig noti sú sem ekkert hefur breyst í laginu sl. 15 ár nr. 6 núna en hafi áður notað nr. 8. Snjallt. Eflaust gildir þetta líka um karla, enda gildna þeir ekkert síður almennt.

Hitt er svo annað að ég hugðist kaupa mér hjólbarða á Besta hjólið (Den Beste Sykkel) og leitaði til Hafnarfjarðar, enda óvíða betri þjónustu að fá en þar. Þá bar svo við að 28" barðar hafa tútnað svo út að sá sem ég fékk í einhverju gömlu samansafni hjá Ása hjólahvelli er alltof víður á gjörðina.

Núorðið getur maður kynnt sér málin með Gúggli frænda hvenær sem er og rannsókn mín leiðir í ljós að stærðarmál reiðhjólabarða eru merkileg stúdía sem kallar jafnvel á sérnámskeið í Vísindasögu við æðri menntastofnanir. (Einnig komst ég sem sagt að því fyrir hvað DBS stendur, sjá að ofan - alltaf hógværir Norðmenn). Á morgun held ég á ný á vit ævintýranna með formúluna 700x35C=37-622=28x1 5/8 x 1 3/8. Ég mun leita á Íslandi að dekki í þessari stærð, en kaupi það ella á netinu þar sem framboðið er ofsalegt.

Um daginn gekk ég heim úr vinnu aldrei þessu vant og um Öskjuhlíð að vanda. Sem ég arka í vorþykkum fuglaklið niður suðvesturhlíðina á 95skr./100m meðalhraða rek ég augun í eitthvað blátt við vegarkantinn. Ég fór að skoða og sá að þarna var stórt og nýlegt hamstursbúr með opið út. Jæja. Þá er komin samkeppni við kanínurnar sem maður sér þarna nánast daglega - en ef einhvern vantar gott og glæsilegt búr fyrir hamstur er það hugsanlega enn að finna um 500m neðan við Perlu á hægri hönd rétt utanvið malarveginn sem liggur í suður frá Perlunni og fram hjá gervigoshvernum.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Breytingar 

Það eru örlagatímar hjá Hrútum þessa dagana, ræðst væntanlega innan fárra sólarhringa hvort félagið lendir í höndum nýrra fjármálaspekúlanta sem græða á því að kaupa skuldir annarra eða heimatilbúinna ríkisbubba sem stutt hafa Derby County frá barnæsku. Nokkrar neglur nagaðar upp til agna nú þegar ef marka má stöðuna á póstlistanum mínum góða þar sem dyggir stuðningsmenn eiga sér vettvang. Þar logar allt í illdeilum út af engu og hamsið álíka heitt og hjá kristnum Keflvíkingum.

Biskup harmar Hollywoodvæðingu brúðkaupsathafna. Hann minnir mig stundum á einhvern nörd, sá ágæti maður. Þegar menn giftu sig á viðeigandi hátt og sungu sálma við athöfnina var árlega í sjónvarpinu sænskur þáttur sem hét Spekingar spjalla og komu þar saman Nóbelsverðlaunahafar nýútnefndir og skeggræddu málin. Nú er árlega í sjónvarpinu sænskur þáttur sem heitir eitthvað álíka og þar koma saman poppfræðingar og fara yfir Evróvisjónmálin. Svona breytast hlutirnir Karl! Einu sinni var Kontrapunktur, nú Popppunktur. Í brúðkaupi mínu voru raunar Bach & Kaldalóns í aðalhlutverkum við athöfnina, en Elvis tók við í veislunni...

Snillingur (7) breytti útliti sínu í fyrradag á sígildan hátt drengja með því að slasa sig í framan. Príl í sleipum stiga endaði með þeim ósköpum að hann datt og fékk kjaftshögg frá nærstaddri
spýtu. Þar með fékk barnaframtönn nr. 2 í efri góm flýtimeðferð í burthvarfi sínu og lán í óláni að fullorðinstennur voru ekki mættar til leiks því höggið var þvílíkt að efri vör þrefaldaðist og sprakk fyrir við nefsrætur. Karlinn stutti var allsnöggur að jafna sig en útlitið er breytt. Hann er annars farinn að prjóna sér trefil, svo það sé nefnt.

Undrið (4) var sama dag úrskurðað með streptókokka A - enn ein herjans plágan sem leggst á þennan litla skrokk. Alltaf heldur hún sama kraftinum og gleðinni sama hvað á dynur. Ef hún reiðist (sem vissulega kemur fyrir) þrumar hún eitthver skammaryrði sem oftast innihalda orðið ósanngjarnt, setur upp snúð og strunsar inn í herbergi með tilheyrandi hurðarskelli. Svo birtist hún yfirleitt 5 sek. síðar með brosið á sínum stað. Er á meðan er...

Hvar getur maður keypt hjólbarða á gamalt DBS sem er 28 x 1&5/8"? Á Þjóðminjasafni? Og hver getur sagt Agli Helgasyni að það sé ekkert sérlega frumlegt lengur að tala um ólígarka hvort sem umræðan snýst um enska boltann eða fjölmiðlafrumvörp?

laugardagur, apríl 22, 2006

Stóra kayakmálið 

Þegar kvikmyndin byggð á lífi og störfum Ingólfs Guðbrandssonar verður gerð legg ég til að Al Pacino verði fenginn í aðalhlutverkið.

Ég hef verið að kynna mér ungverska hljómsveitarstjóra að undanförnu og komst m.a. að því að hinn góðkunni Eugene Ormandy hét upphaflega Jenö Blau. Hann fór til Ameríku og tók sér þetta nafn af því að hann ferðaðist með skipinu Normandie. Þetta fannst mér athyglisvert.

Á Borgarbókasafni lenti ég í gær á ungum íhlaupastarfsmanni sem gat ekki hamið kátínu sína þegar hann sá bók eina sem ég valdi fyrir Undrið (4):
- Hey, þessi bók! Ég hef ekki séð hana í 15 ár held ég bara. Eða 17. Assgoti fannst mér hún alltaf góð!
Bókavörðurinn glaði var varla deginum eldri en 22 ára og bókin eðalgripurinn Á hjólum eftir Huck Scarry (Richard Scarry jr.), sem var allvinsæl í mínu safni þegar það var og hét. Svona lifa nú sumar bækur í minningunni...

Börnin mín eru ólík. Annað fær í magann við tilhugsunina um að fara í afmæli á meðan hitt grætur yfir því að sér sé ekki boðið í hvert einasta afmæli sem nefnt er í hennar áheyrn. Það þótti við hæfi í mínu ungdæmi að reyna að koma fjölskyldunni í berjamó á afmælisdegi mínum til að gera dagamun. Ég man að systur mínar héldu afmælisveislur en hvort veisluhöld tilheyrðu mínu afmæli í den tid get ég ómögulega munað, hvað þá að ég hafi sótt afmælistengdar veislur sjálfur. Hugsanlega var ég svona óvinsæll eða var minna um tilstand hér áður fyrr? Maður hefur heyrt af 4. ára veislum sem voru þrískiptar: 1) leikskólafélagar 2) vinir og nágrannar 3) fjölskylda - alls 70 manns.

Tengdaforeldrarnir voru vart lentir á Fróni eftir Kínaferð fyrr en foreldrarnir héldu til Færeyja - skemmtilegt ferðaval hjá þessu sómafólki. Ég vona að hitinn drepi mig ekki í mínu sumarfríi og að ég verði ekki drepinn fyrir að halda með Þýskalandi á HM. Kannski maður láti lítið á því bera. Kannski verður ekki hægt að fylgjast með HM þar sem við verðum. Merde - best að svitna ekki um of fyrirfram.

Ég á sem sé 1/75 í í kayak, gott fólk, en sé ekki fram á að geta nýtt mér það að ráði nema í fyrirsögn færslunnar.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?