<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 21, 2006

Eftir ferð 

Fjölskyldan fór til Frakklands. (Þetta var besti möguleikinn fyrir SÝNlausan mann að fylgjast með fyrstu umferðum HM og því sló ég til. Það var annars óborganlegt að heyra frönsku sjónvarpsþulina segja Schweinsteigeeeeeuuur og bara það réttlætti ferðina.)

Í gær réðust örlög Michaels Owens:
ónýtt hné og örugglega fleira.
Ég var í París og einnig Provence
og passaði að skera ekki af mér eyra.

Gordes,
Coustellet, Bonnieux, Cavaillon, Joucas, Rousillion, Isle de la Sorgue, Fontaine Vaucluse, Goult. Nei, menn kannast e.t.v. ekki við þessi þorpsheiti en þarna vorum við að rúnta um markaði, vafra um (þr)öngstræti, og leika okkur í hita og sælu, á milli þess að liggja við laugarbakkann á sveitasetrinu góða Font Blanche. Sumir dunduðu sér við fiðrilda- og froskaveiðar eða lavendertínslu, aðrir lágu mest sólbaði, enn aðrir kældu sig við skjáinn og kíktu á HM. Sagan segir að Johnny Depp búi þarna í grenndinni en ég hitti nú ekki karlinn. Næsta stórborg er Avignon.

Eftir ferð til Avignon
á það vil ég minna:
Annar heitir afinn Jón
afkomenda minna.
(Tileinkað Bubba fimmtugum)

Maður þarf að passa sig á að fá ekki hnetur og köngla eða kirsuber í hausinn ef maður leggur í gönguferð þarna í sveitinni, slík er gróðursældin. Svo sá ég eðlur og skrilljón geitunga og tók óbeðinn að mér að henda út þrjóskum sporðdreka. (Ath.: Ég er ekki að tala um konuna þótt hún sé líka þrjóskur sporðdreki). Verst að moskítóflugurnar lögðu mig í einelti eitt kvöldið. Það var kvöldið fyrir 17. Þá var mér var fenginn gítar í fang og fjöldasöngur stóð fram eftir nóttu.

Það rigndi einn dag: 17. júní! Hvernig má það vera að þessi regla gildi líka í France?

Mér líkaði ágætlega við Frakka. Óvæmið fólk við ókunnuga, en kurteist, heiðarlegt og hjálplegt lið upp til hópa. Auðvitað er gott að vera hluti af pakka eins og mínum: Kona, norrænn sporttöffari (7), megakrútt (4) (og ég). Ef vandræðin urðu veruleg, faldi ég mig bara á bak við næsta tré og sendi restina af fjölskyldunni á vettvang í leit að hjálp.

Svo fórum við heim og Undrið (4) fór fram á að sitja hjá mér í flugvélinni. Hún var greinilega ýmsu nær eftir ferðina góðu því þegar við lentum taldi hún sig sjá kunnuglegan gróður úr fjarska:

Við flugbraut sást fjólublár litur
við feðginin þóttumst vitur.
Hvort er lavender skyldur lúpínu?
Líklegast ekki. Jú, pínu!

Þegar ég mætti í vinnuna frétti ég að ég hefði unnið rauðvínspottinn - in absentia! Hahahahaha! Ég kem rauðvínslaus frá vöggu víngerðarlistarinnar og lendi svo í þessu. Líf mitt er djók.

þriðjudagur, júní 06, 2006

Nýr forystuhrútur 

Konan hringdi frá Ameríku í gær og áður en ég fékk sagt margt fékk Snillingur (7) símann og tjáði henni í smáatriðum gang mála á fótboltamóti dagsins. Þegar svo Undrið (4) átti að fá að komast að rofnaði sambandið. Konan hringdi aftur og ég spurði hvort hún hefði eitthvað viljað tala við mig?

- Já, heyrðu ertu ekki örugglega búinn að þvo gallabuxurnar mínar og svona?
- Jú, örugglega.
- Ætlaði Undrið ekki
eitthvað að tala við mig?
- Jú...!
- Bless.

Dæmigert annars fyrir Bédór að tilkynna brotthvarf sitt einmitt þegar þjóðin er í miðjum FH leik. Maður frétti þetta bara útaf því að Fótboltakvöldi seinkaði...

Í gamla daga eignaðist maður stundum fróðlegar vasabækur frá Fjölvís þar sem var listi yfir ráðherra og maður fór létt með að læra nokkra áratugi af ríkisstjórnum eins og hver önnur fótboltalið. Á báðum vígstöðvum breyttist lítið sem ekkert frá ári til árs. Nú er öldin önnur ... á báðum vígstöðvum. Ætli þeir fari ekki bráðum að kaupa ráðherra erlendis frá til að redda málum eins og í fótboltanum.

Heyrðu,
Haarde! Er það annars ekki norskt? Erum við búin að fá kröftugan norskan kubb við völd á landinu bláa eða uppblásinn vindbelg. Æ, maður fer víst ekki alltaf heim af ballinu með það sem maður óskar sér... (Hver verður nú fyrstur til að rifja upp þau ummæli upp í þessu samhengi?)

Höfum við áður teflt fram forsætisráherra með erlent ættarnafn? (Heyrðu, mágur hans ku vera á lausu um þessar mundir og hefur reynslu af stjórnunarstörfum. Má e.t.v. eiga von á honum á nýjum ráðherralista? Æ, nei, synirnir eru ekki beint að brillera í sinni endurkomu til Íslands).

Hrútar eru einnig búnir að fá nýjan mann til starfa. Kjöftugan skoskan stubb sem náði að koma Preston í umspil tvö ár í röð þrátt fyrir að hafa úr litlu að spila. Preston leikur í nokkurn veginn sams konar búningum og Derby, FH og Þýskaland, ef liti skyldi kalla. Ég haf alltaf verið dálítið veikur fyrir heiti klúbbsins Preston North End og þar skiptir höfuðmáli að um er að ræða North en ekki eitthvað annað. Mér finnst líka gott þegar lágvaxnir menn ná langt. Þeir byrja jú neðar en við hinir og þurfa því að vinna sig hærra upp...

Í gær fórum við sem heima sitjum á fótboltamót þar sem Snillingur lék í fyrsta sinn í KR-liði með sínum jafnöldrum (en ekki bekkjarbræðrum) og fékk þá virkilega að njóta sín. Skoraði og sólaði og tæklaði og þrusaði og var bestur. Núverandi aðstoðarþjálfari KR (og fyrrum andstæðingur minn) varð vitni að þessum gjörningum og tjáði Snillingi eftir mót að hann hefði þarna skorað fleiri mörk en karl faðir hans á öllum ferlinum - sem er haugalygi. Mikið leið annars karlinum vel, ja, okkur báðum körlunum reyndar. Ædolstjarnan Snorri mætti á verðlaunaafhendinguna og söng fjögur lög:

Annie's song - John Denver
Lazy afternoon - The Kinks
Ædollagið í ár (hvert sem það annars er).
The Weight - The Band (aukalag)

Snorri hefur ruglast aðeins því að áheyrendur voru að stofni til 5-8 ára en ekki 58 ára, enda voru flestir mun uppteknari af Landsbankafígúrunni Sprota, sem dillaði sér um sviðið, en ædolinu. Undrið herjaði það útúr mér fyrir rest að Sproti væri ekki alvöru og mig grunar illilega að hún muni sjá í gegnum jólasveininn mun fyrr en stóri bróðir, sem er enn sanntrúaður á þá rauðklæddu bræður.

Við duttum óvart inn í útsendingu frá Hvítasunnumessu í fyrradag á meðan verið var að þurrka og fara í náttföt eftir bað. Strax varð ljóst að Undrið grútfílaði giggið, enda allir dillandi sér við taktfasta tónlist. Snillingur hlustaði stundarkorn á söng kórsins og sagði síðan:
- Jesús Kristur - sjá, þetta eru mínir upphafsstafir! Við Jesús eigum þá sömu upphafsstafi!

(Það er skreytni að drengurinn hafi í raun sagt „sjá").

This page is powered by Blogger. Isn't yours?