<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, október 31, 2007

14 


Í gamla daga fórum við sveitapiltar stundum í höfuðstaðinn til að keppa í körfubolta. Þetta voru ævintýraferðir og mikil upplifun að koma í risastórar íþróttahallir þess tíma úr fásinninu og æfingasal sem var lítið stærri en þokkalegir bílskúrar nútímans. Mekka körfuboltans var Íþróttahús Hagaskóla og þar æfir nú Snillingur (8) handbolta. Veturinn áður en ég hélt á vit viskunnar til dvalar í sollinum fórum við að keppa við ÍR og töpuðum 44-12, ef ég man rétt. Eftir leik tók við mig viðtal ungur blaðamaður á Mogganum og smellti af mynd. Þetta var Gylfi Kristjánsson og bróðir hans, Stebbi, þjálfaði mig síðar í ÍR. Viðtalið birtist undir fyrirsögninni: Tveir efnilegir úr 4.flokki. Hinn náunginn sem kom við sögu varð síðar mikill félagi á ÍR tímabilinu. Gylfi hefur nú kvatt þennan heim en myndin sem hann tók af mér 14 ára er hér meðfylgjandi.

laugardagur, október 13, 2007

Að axla ábyrgð? 

Ég hef ekki sett almannafé í áhættufjárfestingar svo milljörðum skipti. Stundum óð ég forðum með heilu rútufarmana af Miðevrópubúum í hálfgerðar svaðilfarir sem urðu þó bara eftirminnilegar á jákvæðan hátt eftirá þrátt fyrir blaut föt og þreytu. Núna veit ég sjaldnast hvort vinnan mín skilar sér þangað sem henni er ætlað en hlýt þó að trúa því.

Í ljósi eigin reynslu er sennilega eitthvert besta hrós sem ég hef fengið fyrir unnin störf ættuð frá föður sem sagði mér í eitt sinn í óspurðum fréttum að hann hefði árum saman treyst mér fyrir að velja bækur sem sonur hans kom með heim af skólabókasafni og þeir feðgar lásu saman fyrir svefninn. Faðirinn sagði mér að ég hefði staðið mig vel í stykkinu sem bókmenntaráðunautur síns 6-12 ára sonar og þakkaði vel fyrir. Að því mæltu leið mér vel, en varð jafnframt hugsað til þess að mér fannst ég alltaf axla verulega ábyrgð þegar mér var falið að velja lesefni fyrir aðra út frá eigin mati. Við slíkar kringumstæður er ekki nóg að þekkja bækurnar, maður verður líka að þekkja fólkið sem á að njóta þeirra.

miðvikudagur, október 10, 2007

Landnámsbíllinn? 

Minningin um Volvo gamla, kvikindið sænska, lifir góðu lífi enda ekki allir bílar sem hafa fengið ort um sig ljóð sem sungið er við hvert tækifæri sem gefst. Við Snillingur (8) vorum að ræða aldur og árgerð nýlega og hann velti fyrir sér hvaða árgerð bíllinn hefði verið.
-Volvo var 86 módelið, sagði ég.
-En var það 18 hundruð eða 19 hundruð? - sagði hann.
Þess má geta að hann lærir þessa dagana um landnám Íslands.

sunnudagur, október 07, 2007

Green 

Það voru mistök að nota ekki áfram Geysir Grín Energy frekar en REI. Væri ekki ráð að endurskoða það einnig?

laugardagur, október 06, 2007

Utanríkisklúður 

Verst með hann Bjarna Vestmann. (Prófið að segja það hratt.)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?