<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, nóvember 30, 2007

Sprunginn hundur 

Það var undarlegt að vakna í morgun kl. 6 við að hundur nágrannans sprakk. Þetta var lítill, hvítur hundur sem minnti á dálítið fótbolta. Allir viðstaddir sáu hvað verða vildi en enginn gat gert neitt þegar stóri trailerinn sem var að fara að snúa við ók yfir greyið. Ég vaknaði við hvellinn þegar hundurinn sprakk! Svo var mér falið að fara með hausinn af hvutta í ruslið því hugmyndin vað að búa til fótbolta úr restinni, en ég komst ekki alla leið því ég var vaknaður. Alltaf skal maður nú samt lenda í skítverkunum. Enginn af grönnunum á svona hund þótt raunar sé slatti af hundum í hverfinu og atburðurinn átti sér stað á gatnamótum Bröttugötu og Egilsgötu í Nesinu - fyrir utan húsið hans Búkka. Þetta var víst draumur og ekki sofnaði ég aftur enda nóg búið að sofa.

Tónleikar kvöldsins gengu fantavel og virkilega gaman að kyrja þessa efnisskrá. Það er eitthvað í samsetningu hópsins sem gerir að verkum að hlutirnir ganga nánast alltaf upp þótt sumt virki tæpt á æfingum. Mig vantaði smástyrk sjálfan en söng þetta samt betur en áður. Kannski eitthvað hafi klárast úr röddinni þegar ég öskraði á hundspottið í draumnum eldsnemma í morgun? Aðeins einu sinni hefur þessi kór klikkað en þá var um sérlega flókið nútímaverk að ræða og hálfómögulegt til söngs. Nú tekur Verdi við.

Ég fann organistaefni úr 2. bassa sem brást glaður við tilboði mínu um að erfa orgelnótur úr sarpi föður míns. Efni sem hann er búinn að nota til fullnustu. Ég mun kemba efnið og svo fær þessi drengur það sem hann vill úr því. Ég hef sennilega úr nógu að moða fyrir mínar nótnaþarfir í bili - enda var ég arfleiddur að dýrmætum sjóði, mér alls ótengdum, fyrir rúmum tíu árum. Í síðustu föðurhúsaferð hlotnaðist mér raunar bláa þjóðlagabókin sem ég hef séð í hillingum um árabil: mætar nótur sem pabbi kenndi okkur systkinum að syngja við skemmtileg lög á árum áður og ég hef að einhverju leyti reynt að framlengja í mín börn. Þau kannast vel við Austan kaldinn á oss blés, og Kindur jarma í kofunum, svo dæmi séu nefnd...


Tíðindi dagsins eru að öðru leyti að Rufus mun koma í apríl og halda hér konsert. Hann er Kanadamaður og þá er ég þar með strax vilhallur, en drengurinn er fjandi góður. Hann vinnur víst að óperu núna sem Met pantaði, og á til að blanda inn í lögin sín tilvitnanir í klassík. Lagið sem Grímur nefnir af nýja disknum er gott, en eins og sumir sem ekki ná því alveg að verða mainstream, líkt og t.d. Declan McManus, er Rufus stórgóður lagahöfundur og sérstæður flytjandi. Hann er þessa stundina réttu megin við mörk þess að vera frábær eða óþolandi hjá mér. Þetta er svo sem myndarlegur maður oná annað, en því miður á föstu með einhverju trölli í Berlín. Sorry girls and guys. Hins vegar er Declan (aka Elvis Costello) núna kvæntur Kanadakonunni Diönu Krall. Hann hlýtur að vera ofarlega á lista hjá einhverjum innflytjanda tónlistarmanna - ég leyfi mér að trúa því! Hvað er með þessa Kanadamenn?

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Giggin 

Jamm. Á föstudag verða tónleikar Voxins í Langholtskirkju og allt small saman á lokaæfingu í kvöld. Að vanda verður frábært að koma sér í rétta gírinn fyrir jól með því að syngja dásamlega tónlist. Vissulega hef ég oftar verið duglegri að sækja æfingar og verkin oft verið auðveldari, en samt. Ekki er alltaf á allt kosið og að þessu sinni held ég að menn verði ekki fyrir vonbrigðum út af því að hafa heyrt eitthvað betur gert eða öðruvísi: Það er sjaldan sem fólk fær tækifæri til að heyra Gloriu e. Poulenc og Jólakantötu e. Honegger LIVE með flottri hljómsveit og glimrandi einsöng.

Svo skemmir heldur ekki fyrir að gamli enskukennarinn minn úr MR, sjálfur Big Gun, Bjarni Gunnars, er kominn í vörnina með mér og söng í eyra mér í kvöld. Við stóðum forðum þétt saman í KLK-bassanum og kyrjuðum Messías og Mattheus mér til eilífrar ánægju. Þetta er nánast eins og hafa góðan markvörð að treysta á þegar maður klikkar sjálfur á tæklingu. Dálítið sérstakt samt að fara skyndilega í 2. bassa á næstsíðustu æfingu fyrir tónleika og verða að sérlegu autoríteti um texta þrátt fyrir að hafa misst af flestu að undanförnu... Þarna kemur sér vel reynslan úr hljómsveitarstjórn, sem aftur minnir á að:

Comeback hinnar fornfrægu gleðisveitar Húna og Björns er í ákafri gerjun um þessar mundir. Búið að skipa óháða atburðarnefnd og vinna þegar hafin við söfnun og samningu efnis. Sveitin mun því geta einbeitt sér að flutningi tónlistar. Það vakti athygli á fyrstu æfingu að ekki sá högg á því eðaleldvatni sem borið var í sveitina. Öðru vísi mér áður brá. Búast má við því að Hafnarfjörður nötri í mars! Þeir sem ekki fá sérlegt boð verða að sætta sig við að missa af þessum stórviðburði. Bæði verður í boði nýtt efni og ný hljóðfæri og menn farnir að lýsa eftir löngu stolnum hljóðfærum til að viðburðurinn megi verða sem eftirminnilegastur. Talað er upphátt um hátt í tug af Greatest Hits fyrir utan nýtt efni. Spurning um að fá torrentmeistarann Svavar L. til að dreifa þessu til almennings, enda gamall nemandi þar á ferð... (Glanni Glæpur er reyndar líka gamall nemandi - hvað segir þetta um skólann þar sem Húnar og Björn eiga rætur?).

Loks er þess að geta að hjá Derby County er sitthvað í deiglunni og menn flestir ánægðir með nýja stjórann. Við skulum sjá til í vor hvort ástæða verður til að hlæja að þessu fornfræga liði sem fór óvænt og of snemma upp um deild sl. vor... Það segir sitt um klúbbinn að nýi stjórinn hafnaði því að taka við Birmingham og Wigan. Derby er alvörufótboltabær með flotta aðstöðu, þótt ekki hafi gengið sem skyldi í vetur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?