<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, maí 20, 2009

Rán 

Um daginn keypti ég geymslu til að eiga afrit af því sem skiptir máli. 1.5 Tb og Snillingur (10) sagði samstundis er hann frétti af kaupunum að mannsheilinn væri 7 Tb. Hann er alltaf að fræða mann - og er vissulega gæddur þeirri ættgengu áráttu að þurfa að hafa alltaf réttast fyrir sér. Það er í hans tilfelli tvíættgengt en í lagi og fyrirgefið, enda varð hann Reykjavíkurmeistari um daginn, reyndar ekki í Besserwissi heldur fótbolta. Svo á hann Undrið (7) fyrir systur, sem var enn meiri beturviti, en er farin að slaka á hvað það varðar. Enn og aftur föðurbetrungur drengurinn, því að ég varð fyrst Reykjavíkurmeistari 17 ára. En verður hann Borgarfjarðarmeistari einhvern tíma?

Geymslan mín reyndist ekki virka sem skyldi og því þurfti ég að skipta henni, svo virkaði ekki hýsingin og ég þurfti í dag að skipta henni líka. Ekki kvarta ég undan þjónustunni, en þegar gaurinn á verkstæðinu var að setja nýja diskinn í nýju hýsinguna kom neyðarkall frá búð og hann bað mig að fylgja sér hið snarasta. Þar kom í ljós að einhver hafði verið gripinn við að stela hleðslutæki. Hleðslutæki! Einhver töff klæddur ungur maður, varla af unglingsaldri, stóð þarna lúpulegur með ólétta stúlku sér við hlið og minn maður í lagfæringum hringdi í eigandann sem lét kalla á lögreglu. Allt kært. Hve mörg hleðslutæki skyldi þessi ungi maður vera til í að borga til að losna við þennan blett af samvisku og sakaskrá sinni. Ég fór áður en lögreglan kom en sá svo grein um aukinn þjófnað í búðum eftir bankahrun í blaðinu þegar ég kom heim.

fimmtudagur, maí 07, 2009

101 Helvíti/Hamingja 

Í Paradís rignir sjaldan. Grasið grær
gersamlega óháð veðri og öðrum þáttum
Ekki þarf að spá í hvað gerðist í gær.
Guð sér um sína og heldur öllum sáttum.

Í 101 var hryðjuverk framið í gær.
hávær jarðýta setti þá allt úr skorðum.
(Örskammt þaðan sem ennþá stendur bær-
Austurnes, sem Jón Þorláksson byggði forðum.)

Tætti upp svörðinn Caterpillar knár
kastaði mæði og horfði yfir flagið.
Móinn sem þarna var í þúsund ár
þurrkaður út á dagparti. Það var lagið.

Valllendismóinn var mjúkur undir tönn
meyr sem lamb á villijurtabeði
Kryddaður blóðbergi, beitilyngi og hvönn,
sem beltin söxuðu niður af sannri gleði.

Nú þarf varla að kvíða vorfuglasöng.
Vell í spóa vekur ei framar að morgni.
Í þessu tilfelli þótti náttúran röng
og því greip maðurinn inní - sá viti borni.

Hvort skapar umhverfið menn eða öfugt?
Er endalaust hægt að laga og móta?
Er sama hve málefnið er gott eða göfugt?
Getur náttúran aldrei fengið vafans að njóta?

Móinn var afdrep - allt og ekkert í senn -
unaðsreitur - endalaus ánægja og spretta.
Ævintýraheimur fyrir álfa og menn.
Af hverju þurfti þá að plægja og slétta?

Skjöldur bað um flatan fótboltavöll
- félagið sem er sverð vort og einnig sómi.
Prýðifélagið!! Erum við þar ekki öll -
öflug heild sem talar einum rómi?

Þeir sem mótmæla þola víst ekki börn.
Þola ekki aðra sem kunna lífsins að njóta.
Vita ekki að sókn er sýnu betri en vörn.
og setja út á allt sem sannlega er til bóta.

Caterpillar kláraði verkið í dag.
Kargaþýfið horfið - enginn vandi.
Snillingar þar á ferð sem kunna sitt fag.
svo fylltu þeir í sárið með möl og sandi.

Á morgun kemur svo Maradonaldinho,
meistari fótboltans, ævinlega prúður.
Hann kennir (ókeypis) knattlist úti í mó!
(en krakkarnir borga sjálfir brotnar rúður.)

---

Drengurinn fór út í KR að keppa í gær
kom svo til baka gervigrassvartur í framan.
Ilmandi eins og hjólbarðaverkstæði í hita.

- Pabbi við unnum! - eins og endranær-
Æðislegt, frábært og ótrúlega gaman.
Og ég er algerlega svartur af svita!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?