<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, mars 24, 2010

Grannkona kvödd 

Í gær bárust mér tíðindi af andláti góðrar grannkonu og jafnöldru minnar sem bjó í húsinu við hliðina. Það voru ekki óvæntar fréttir en engu minna grátlegar fyrir bragðið. Við vorum fædd í sama mánuði og áttum stundum hvunndagsspjall á förnum vegi um daginn og veginn; börnin, hundinn hennar, veðrið eða eitthvað. Það kom fyrir að hún leitaði til okkar að finna ráð eða aðstoð.

Síðast hitti ég hana í ágúst þegar góðvinir fögnuðu með henni afmæli í góðri grillveislu. Mér var ekki boðið neitt formlega, en systurdóttir og eigin dóttir báru mér eindregna ósk afmælisbarnsins um að ég mætti í selskapinn með nikkuna. Hjá þessu fólki þarf ekki formleg boð. Eitthvað var sungið og trallað við heldur máttlaust undirspil en nú er gott að hugsa til þessarar stundar.

Grannkona átti ekki alltaf sjö dagana sæla í lífinu, og sérstaklega ekki undir lokin, en fjölskylda hennar var einstök - foreldrar, systur og aðrir tengdir - ótrúlega samtaka um að takast á við málin á farsælan hátt. Þökk sé þeim. Við grannarnir söknum og kveðjum.

þriðjudagur, mars 16, 2010

Barnaprógrammið 

Undrið (7) er með píanótíma, íþróttir, sund, fimleika (2klst) og söng-/leiklist (2klst) á sinni dagskrá í dag auk venjulegra tíma í skóla. Svo er smáheimalestur. Snillingur (11) er bara með píanótíma, íþróttir og leik gegn Val í Rvk.móti í fótbolta (fórnar afmæli bekkjarbróður vegna þess og tilkynnti það sjálfur símleiðis). Þetta er ýmist ofaná og/eða með venjulegum hefðbundnum kennslustundum. Sú stutta fær um 1/2 klst. pásu 16.15-16.45. Annars er stöðug keyrsla frá ca 07.31-20.45. Hún sofnar snarlega á kvöldin því ef færi gefst á milli þess sem upp er talið er hún komin á línuskauta, í heimafimleika, í föndur eða sjálfstæða hugmyndavinnu. Það er ansi gaman að vera chauffeur, kokkur, hárhönnuður og almennur stuðningsmaður hjá svona fólki. Ég veit svei mér þá ekki stundum hver er að ala hvern upp.

Hann rúllaði upp smátónfræðiprófi í gær á milli skóla og handbolta með nettri 10. Undirbúningur fólst í að dúndra gegnum verkefnin á milli bita af the usual langloku. Það var skemmtileg stund. Og sullaðist gegnum heimalærdóm á 4.35 mín. eftir handboltann. Og æfði sig eins og höfðingi fyrir píanótíma. Svo finnst manni eftirá eins og eitt aðalhlutverkið sé að nöldra yfir einhverju smotteríi: Nú verður þú að hætta í tölvunni, nú þetta, nú hitt. Right! Lífið var ekki svona þegar ég var barn - svo mikið man ég.

Ég ber virðingu fyrir nútímabörnum og dáist að þeim. Ekki bara mínum þótt flott séu.

fimmtudagur, mars 11, 2010

Allt er gott þá þrennt er! 

Fyrirsögnin er túlkun Undursins (7) á alþekktum málshætti sem kennarinn ku hafa látið út úr sér af því tilefni að þrír úr bekknum misstu í dag tönn á skólatíma. Hjá J kom ekkert blóð, hjá Undrinu kom blóð en hún fékk sér vatn og skolaði því burt, en V drakk að sögn allt sitt blóð. Til að koma í veg fyrir misskilning stendur V ekki fyrir vampýru heldur er V kornungur íslenskur karlmaður sem að vonum líkar hressandi saltbragðið sem er af blóði.

Árstími fuglasöngs í morgunsárið og útleikja á kvöldin er nú genginn í garð. Og í gróðurhúsinu fór hitastig í fyrsta sinn í vor yfir 20°C í dag, auk þess að vorlaukar gægjast af kappi upp úr sverðinum. Þetta hefur áhrif á mannfólkið og til marks um það felldi í dag bókavörður niður óútskýranlega skuld mína upp á kr. 500 við BBS. Sem betur fer helst ég á jörðunni með því að styðja Derby County sem aldrei fyrr. Það er örugglega skemmtilegra að vita aldrei á hverju maður á von heldur en búast sífellt við hinu besta og verða stöðugt fyrir vonbrigðum, eins og t.d. Liv**poolmenn búa við.

Við þetta má reyndar bæta að Snillingur (11) hefur óskað eftir hársnyrtingu, helst á morgun. Hann er loðnari nú en nokkru sinni frá því hann var 2. ára. Þess má geta að drengurinn hefur náð upp ótrúlegri færni sem felst í því að snúa sér sofandi þannig að höfuð lendir í fótastað í rúmi sem er á þverveginn rétt um þriðjungur lengdar hans sjálfs. Tel ég þetta öruggt merki um þroska í átt að táningsaldri.

mánudagur, mars 01, 2010

Skiing in Dallas 

Ég náði ekki að kitla margar hláturtaugar sem byrjandi á brekkuskíðum og biðst hér með afsökunar á því. Raunin varð að ég er lélegri í lyftum en á skíðum. Fyrir löngu, í Noregi, álpaðist ég til að prufa að fara í skíðaklossa sem var óþægilegt og því hef ég ekki talið ástæðu til að leggja undir mig fjallshlíðar hingað til.

Nú er að baki helgi í norðlenskum skíðalöndum - líklega skagaði hátt í vinnudag sá tími sem ég var í þessum óþægilegu klossum - en rétt áðan fattaði ég hvað vantaði til að skíðaíþróttin væri stórkostleg. Undrið (7) hafði ágæta skýringu á því hve vel ég stóð mig - að ég hefði lært að skíða á netinu, sem er sumpart rétt - en þetta snýst í grunninn um að kunna að beygja. Þá stjórnar maður hraðanum og skiptir ekki máli hve brött brekkan er. Spurningin er um að fá kick út úr hraða eða nýta brekkuna með eilífu risasvigi... E.t.v. var karlinn bara á sjálfskíðandi lánsprikum sem virkuðu svona dandaravel.

Vissulega hitti ég marga gamla andstæðinga úr boltanum og fyrrum kunna kappa sem nú loksins máttu láta gamm geisa í brekkunum eftir mögur skíðaár með klásúlum um bann við aukaíþróttum, en niðurstaðan er sú að það vantar bolta í skíðaíþróttina. Nú er bara að leggja hausinn í bleyti og finna upp nýja Ólympíugrein. (Einnig sást til iðkenda úr dýrari klassa boltaíþrótta sem hentu familíunni út í fjallið og fóru svo líklegast heim á hótel að horfa á sjónvarpið).

Og Dallas reyndist flottari en Akureyri - plís, ekki samt segja neinum frá því samdóma áliti Vöfflujárnskvartettsins, sem ferðaðist saman að þessu sinni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?