<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, september 30, 2005

Mettun 

Lokahóf 7. fl. hjá KR í dag og fráfarandi þjálfarar tóku að sér hlutverk frelsarans - að metta 50 svanga stráka með 10 pizzum. Ég var í drykkjaskömmtun til að hafa eitthvað fyrir stafni. Einn bað um vatn, fimm appelsínusafa, en restin var 60-40 kóki í vil á móti pepsi. (Einhvern tíma hefði Vífilfell nú ekki tekið í mál að bjóða uppá keppinautinn hjá KR meðan Dóri kók var og hét og höfuðstöðvarnar í Vesturbæ.) Ég skammtaði naumt í 2-3 umferð og enginn þessara gutta múðraði þegar ég sagði skammt til kvöldmatar og að það væri óhollt að drekka mikið gos...

Grétar Ólafur var þarna í hlutverki stjörnunnar að svara spurningum strákanna og veita áritanir. Skemmtilegt að sjá að Gummi Ben. fékk nánast jafnmikla athygli, þótt hann væri þarna sem foreldri... Þetta var nú fínt samt, og Snillingur (6) ákveðinn í að halda áfram í fótbolta, en karate er úr sögunni. Ef hann fær hraða og grimmd
frá mömmu sinni eða aftan úr ættum skal ég sjá honum fyrir vilja og yfirvegun. Þá er leiðin greið fyrir kauða í boltanum.

Maður er svolítið í klemmu útaf fótbolta í sjónvarpi. Ég fæ ekki séð hver besta leiðin er fyrir heimilið að sinna væntanlegum kröfum Snillings um tækifæri til að fylgjast með einhverjum fótbolta í varpinu. RUV er ekki með áhugaverða íþróttadagskrá um þessar mundir, og yfirleitt á vonlausum tíma fyrir unga pilta. Enskaboltastöðin heillar mig ekki, enda okkar menn ekki þar, en hugsanlega endar maður þar. Það er ágætt að sumu leyti að vera ekki bundinn yfir bolta á laugardögum eins og hver annar netbolur, en ég minnist gjarna margra góðra feðgastunda úr æsku yfir vikugömlum svarthvítum fótboltaleikjum með enskum þul. Sl laugardag hlýddi ég á BBC í útvarpinu og rifjuðust þá upp sérstakir tímar þegar maður var með gríðarlegt víravirki uppihangandi sem loftnet til að ná BBC World Service í Nesinu.

Það er lítil hætta á að handbolti muni heilla drenginn til ástundunar. Þeir eru búnir að leggja hann niður í Vesturbænum. Ég man þá tíma að Mogginn var með sérstakan handboltakálf í byrjun vertíðar og Geir Hallsteins var viðlíka heilagleiki og Eiður Smári nú, en því er ekki lengur að heilsa. Annars fínt að Framarar gera það gott í handboltanum, ef það getur orðið til þess að þeir komi í stand áhorfendastæðunum að sunnanverðu í salnum sínum.

Ég er þarna í hádegisbolta og var einmitt í bolta þegar kviknaði í klæðningunni forðum daga, en ekki er boðlegt að hafa þarna einhver skilti og drasl sem ytri mörk vallar. Nú í dag lenti ég í því í bardaga um boltann að ryðjast óvart gegnum dyr og inná iðnaðarmenn sem í sakleysi sínu voru að snæða. Þarna var Borgnesingurinn Kristján Reynis í Rafblik sem ég heilsaði leiftursnöggt en sneri mér síðan að baráttunni á ný. (Honum var ekki skemmt við innrásina.)

Mikið óskaplega fékk ég ánægjuleg tónlistartíðindi í síðustu viku - yndisleg fortíð sem ég hélt glataða bíður þess nú bara að ég eignist svonefndan flakkara.

fimmtudagur, september 29, 2005

Atvinnuviðtalið 

Við höfum eitthvað misst af fólki inn í bankakerfið, enda bullandi hagnaður þar og svo mikið að gera að þeir hafa bætt við mánuði sem er ósýnilegur öðrum en þeim sem þar vinna. Ég vildi ekki missa af tækifærinu og bókaði mig um daginn í atvinnuviðtal hjá starfsmannastýru þar sem ég taldi mig vera með allar réttu forsendurnar til að taka við bankastjórastarfi og stjórnarformennsku.

Stelpan kom af fjöllum þegar ég fór að telja upp: Hátt í skrilljón ár í ábyrgðarstöðu hjá því opinbera, þar sem heill og hamingja fjölda manns hvíldi á mínum herðum. Ég hafði vissulega tekið út 400 þús. kall úr banka þarna um árið þegar Sparisjóðuninn fór að auglýsa á Haukabúningum, svo ég vissi nú sitthvað um starfsemi bankastofnana. Ég er núverandi meistari í briddsklúbbi áhrifamanna (spilum einungis undir áhrifum, sko - segi ekki meir). Ég hef verið um árabil leiðtogi (að nafninu til) í misvirkum en ákaflega vinsælum félagasamtökum þar sem menn eru m.a. hiklaust reknir fyrir ábyrgðarleysi á borð við að hyggja á skógrækt á mikilvægum raflínusvæðum.

Þetta hélt ég að dygði, miðað við allt og allt. Svo fór þessi svonefnda mannauðsstýra, eða hvað sem hún annars titlast sú ágæta kvensnift, að spyrja mig út úr. Ég þoli ekki þegar fólk leyfir sér að spyrja mig einhvers, sérstaklega ef það eru óþægilegar spurningar. Ég minnti hana á að ég vissi nú vel að hún hefði fallið í efnafræði á stúdentsprófinu, og fengið að auki styrk úr Bræðrasjóði Menntaskólans, eins og kæmi fram í skýrslunni frá 1991. Haldiði að hún hafi þá ekki farið að röfla um að ég væri nú kominn á þann aldur að blablabla, ha, hvort ég kynni eitthvað á tölvur, ha? Ég hélt nú það, hefði verið með eina á skrifborðinu árum saman til að dunda í kapli þegar lítið var um sendiherrastöður og aðra bitlinga að úthluta. Svo sagðist ég einu sinni hafa farið á námskeið í tölvupósti hjá vinum mínum, en þeir hafi sagt að maður yrði allur útbíaður í fingraförum við að standa í svoleiðislöguðu.

Það voru víst 7000 ólesin skeyti í Innboxinu þegar ég fór af síðasta vinnustað, enda löngu búið að fá fólk úti í heimi til þess að sinna þessari blessuðu utanríkisstefnu eða hvað það nú annars var sem ég átti að gera.
(Maður var nú búinn að fá hundleið á þessum Kofa þarna, Clint og því hyski öllusaman síhringjandi út af einhverjum ósvöruðum meilum.) Þar að auki var ég búinn að þróa nýja aðferð til að stjórna án mannlegra samskipta. Úti í bílskúr var ég með öfluga loftræstingu sem safnaði fráblæstrinum á kút. Svo settist ég bara í rólegheitum og tortryggði smástund, eða hataði. Þar með var komið á kút tiltekið þjóðfélagslegt andrúmsloft sem ég sleppti svo út eftir hentugleikum. Svínvirkar! Ef ég man rétt náði ég á kúta einum 14 mismunandi gerðum og suma á ég enn.

Stelpukindin virtist enn ekki sannfærð...

„Heyrðu vinkona, varst þú annars ekki að vinna hjá Máli og menningu í jólafríinu 1989?", sagði ég svo. Hehehe, þar með var viðtalið búið. Stelpuræfillinn lofaði að útvega mér tölvu- og símalausa skrifstofu, hækka launin afturvirkt, og láta Breiðfjörð setja steint gler í gluggann sem snýr að forsetaskrifstofunni.

Sennilega þarf ég ekki að mæta frekar en ég kýs, en þó verður mitt fyrsta verk að ráða einhvern góðan, eða þrjá í staðinn fyrir þessa afturhaldskommamannauðsgálu þarna.

Síðasta verkið á hinum staðnum? Smádjók, hehehe - best að sýna Friðrik hvernig fer fyrir flokksmönnum sem ná sér í Kvennalistakonur. - „Hey, strákar getum við ekki sent Dúnu til Afríku til að sýna Frikka í eitt skipti fyrir öll að svona gerir maður ekki?"-

þriðjudagur, september 27, 2005

Um ferð 

Snillingur (6) er hræddur í flugvél og á sjó. Þetta kom í ljós nú í nýafstaðinni Krítarferð barnanna með mömmu flug. Grét í flugtaki og bar sig víst aumlega í siglingu sem þau fóru í. Vonandi er þetta tímabundið og þá einnig að hann yfirfæri þetta ekki á mömmu sína sem flýgur í vinnunni. Ég stend mig stundum að því að hafa áhyggjur af rútuferð minnar ástkæru til og frá Kef frekar en fluginu enda ógnvænlegt hve mikið er af sturluðum ökumönnum hér. Ósköp venjulegt fólk eflaust í daglega lífinu en kemst í annarlegt ástand við stýrið.

Ég ek frekar hratt (neyðist þó stundum til að fara hraðar en ég kýs), en stunda þó ekki millimetrasvig það sem maður verður svo oft vitni að jafnt utan- sem innanbæjar. Þótt ég sé á druslu (fyrirgefðu Camry) kemur hún mér á áfangastað skjótar en mörgum, þó ekki sé fyrir annað en fyrirhyggju. Ég fer tímanlega af stað, veit hvaða leiðir (a.m.k. 2) eru skynsamlegastar og vel í tæka tíð miðað við aðstæður og umferð. Svo felst restin í að keyra jafnt og hafa hugann við verkið. Maður les stundum í blöðum um flugatvik þar sem eitthvað gerðist næstum því, en þanniglagað SÉR maður nánast daglega í umferðinni og fer ég þó ekki sérlega langt í vinnu eða úr og jafnan gegn meginþunganum. Fyrir viku lenti ég í morgunsúpunni úr Hafnarfirði í bæinn og þakka mínum sæla fyrir að upplifa það helvíti ekki á hverjum degi.

Til eru þeir sem finnst ég tala of lítið en þeir hinir sömu hafa ekki séð mig í fótbolta, held ég. Einhvers staðar las ég að samskipti manna innan vallar giltu 70% á móti fótboltagetu (30%) varðandi velgengni en það er sennilega yfirdrifið. Í gær var Fífubolti og þokkalega jöfn lið, en mitt komst þó í 3-0. Hinir skoruðu þá 4 í röð og þá fór ég að öskra enda oft eins og að leika í þögulli mynd að spila með þessum skörfum. Maður fær ágætlega út úr því að öskra í Fífunni per se, en að þessu sinni ákvað ég að gera þetta meðvitað - blanda saman einfaldri hvatningu og hreinum fyrirskipunum: „Þú átt hann, Dóri!!! Viddi passa til vinstri!!! Keyra í vörnina!!! Snorri til baka!!! Skjóta svo!!" o.s.frv. Menn hlýða ótrúlega vel við þessar aðstæður, og ég fæ þarna góða útrás fyrir mínar víkjandi stjóratilhneigingar. Við unnum 7-4 í gær, og velti ég nú fyrir mér hvort ég taki upp svipaða taktík á kóræfingu í kvöld. Annars, það þarf ekki; bassinn vinnur hvort sem er alltaf. C",)

sunnudagur, september 25, 2005

Litli moggamaðurinn 

Ég nenni ekki að ná í bókina til þess að gá að titli og höfundi en virkilega fín tilbreyting að fá franskt umhverfi í reyfara. Þetta er vissulega þýtt yfir á ensku, enda vantar örlítið uppá frönskukunnáttuna til að ég láti vaða á frummálið. (Les Rivières Pourpres - Jean Christophe Grangè). Rannsókn leiðir í ljós að þetta er orðið að spennumynd sem ég vissi ekkert af.

Á fimmtudaginn hitti ég félaga minn sem kvaðst vera farinn að vinna á tölvudeild Moggans. Maðurinn er ekki hávaxinn en ekki trúi ég þó að hann sé Litli moggamaðurinn sem lak tölvupóstinum í Siggu Dögg (enn einn Borgnesinginn). En Sigga Dögg? Var hún ekki í vinnu hjá Mogganum áður en hún skipti yfir á Fréttablaðið? Það verður fróðlegt að sjá hverju Sunnudagsfréttablaðið hefur við að bæta og hve langt menn ganga síðan í því að skjóta sendiboðann.

Vonandi þarf ég ekki að hafa áhyggjur af lifibrauði mínu nú þegar lýðnum er ljóst að Mogginn ástundar ókeypis þýðingarþjónustu. Sennilega neita þeir að þýða yfir á íslensku einhverja gagnagrunna fyrir verslunarkerfi eins og ég dundaði mér við í dag, en hugsanlega tækju þeir að sér afrekafréttir eins og ég snara stundum fyrir íslensku vefsíðuna.

Á fimmtudag fór ég í fyrsta sinn á Hamborgarabúlluna (á leið heim af bókasafninu) og hef aldrei á ævinni fengið eins snara þjónustu. Gaurinn spurði mig heitis þegar ég var búinn að panta og ekki var ég sestur þegar hann kallaði á mig. Hamborgarabúllan er þó minnsti staður sem ég minnist að hafa komið á og býður manni að borða inni. Þétt setið þarna um kvöldmatarleytið og borgarinn þokkalegur, en frönskurnar ekkert húrrahróp. Nú auglýsa þeir útibú í Hafnarfirði - hvar skyldi það vera? Mér finnst með ólíkindum úrvalið af veitingastöðum í Hafnarfirði og sakna þess dálítið. M.a.s. ku vera kominn þar grænmetisstaður...

Ef aðalleikkonan í rómantísku gamanmynd gærkvöldsins (ruv) væri íslensk, héti hún þá ekki Hrísgrjón með skeið? Jú, næstum því...

fimmtudagur, september 22, 2005

Nöfn og titlar 

Þeir eru búnir að mæra Michael Bolton fyrir manngæsku í miðlunum hérna að undanförnu. Ég komst að því að til er sögnin to Michael Bolton á enskri tungu. Sögnin sú hefur víst ekkert með manngæsku að gera en merking hennar er útskýrð hér.

Menn eiga til að troða á mig ýmsum titlum. Nú síðast hirðskáld, íslenskufræðingur og lífskúnstner. Á tímabili var ég varnarjeppi og hljómsveitarstjóri, (en aldrei markahrókur.) Mér er sama, svo fremi að engum detti í hug að kalla mig athafnamann. Það er orðið að samheiti yfir menn sem stunda ekki fasta launavinnu en standa í alls kyns bralli og braski, oftar en ekki einhvers staðar á jaðrinum. Neikvætt orð, finnst mér.

Ef Simon Wiesental hefði verið íslenskur hefði hann heitað Símon Engidal, eða hvað?

Skyldi einhvern tíma verða leikinn bikarúrslitaleikur á Íslandi án þess að í aðdragandanum verði birt blöðum uppstillt mynd af kjánalegum fyrirliðum togandi í bikarinn úti á velli? Sem betur fer eru fyrirliðarnir, sem eflaust munu brosa sínu aulabrosi á íþróttasíðunum seinna í vikunni, með fallegustu mönnum eins og títt er um fyrirliða.

miðvikudagur, september 21, 2005

Klukk - 5 staðreyndir 

1. Ég er ákaflega heimakær, óhóflega jarðbundinn og með fremur óframfærinn (allegedly). Sem sagt leiðinlegur.
2. Ég hef oftar en einu sinni sofnað ódeyfður í stólnum hjá mínum ágæta tannlækni, í miðri viðgerð. (Sofna líka oftast í leikhúsi nema þegar ég er á sviðinu.)
3. Ég man fólk og staði en gleymi skáldsögum og bíómyndum jafnharðan og ég les eða sé.
4. Ég hélt lengstu ræðuna í brúðkaupsveislu okkar hjónakorna og söng líka Elvis við eigin undirleik (ódrukkinn).
5. Ég fór einu sinni á blint stefnumót með stúlku af spjallrás, í árdaga slíkra fyrirbæra. Úr því urðu engin kynni. Stúlkan heitir Anna og eignaðist hún mann sem er alnafni minn. Ég eignaðist konu sem heitir Anna og hennar maður er líka alnafni minn enda ég sjálfur. Við erum samt ekki sama fólkið en eigum drengi sem voru
um tíma í sama leikskóla. Þeir voru ekki nafnar.
6. Ég fer alltaf eftir reglunum og geri jafnan það sem mér er sagt að gera og stundum meira til (nema örsjaldan).

Ég veit ekki um neinn óklukkaðan bloggara sem les þetta.

Nú er spurningin: Hvaða Elvislag söng ég? Klukkari minn var í veislunni og söng þar líka en má svara ef hann man. (Vísbending: Lagið var ekki "Don´t" sem heitir á norsku "Dumt", í flutningi Vazelina Bilopphöggers. Heldur ekki "(You're the) Devil in disguise".)

þriðjudagur, september 20, 2005

Tilboð - tilboð 

Var að heyra að Gummi Marteins, gamla miðjutröllið úr Víkingi Ól og Skallagrím, hefði ákveðið að skella banönum á tilboð í öllum Bónusverslunum í tilefni dagsins... Sel það ekki dýrara.

föstudagur, september 16, 2005

Hvað var ég að gera? 

Þegar fólk spyr hvað ég geri, lendi ég í vanda enda margt í mörgu. Nú greini ég frá því hvað ég gerði í gær:

Frúin var farin í vinnu þegar við börnin vöknuðum. Þau voru dugleg og við komumst gegnum morgunrútínuna á 27 mín. Snillingur (6) var óvenjusnar að borða og Undrið (3) tók vel í að vera líka rösk til þess að allir gætu verið samferða úr húsi - hann fór í skólabíl, hún í leikskóla.

Fyrsta verk í vinnunni (kl. 8.24) var að semja um að einn félagi minn fengi gamla barnavagninn fyrir svalavagn. Síðan bjó ég til danskan þýðingargrunn vegna útgáfu kerfisins okkar í Danmörku. Það tókst í þriðju tilraun. Asnalegt tól sem maður notar í þetta. Fram að hádegi þýddi ég yfir á dönsku, en þýski samstarfsmaðurinn hafði samband á MSN og bað um nýju hjálpina með kerfinu, sem ég sendi snarlega. Hann sendi einnig nýuppfærðan kafla fyrir kennsluefni til yfirferðar og viðbótar í kennslubókina. Stutt stopp þarna einhvers staðar til að hringja í VR og panta bústað í vetrarfríi Melaskóla. Ég náði í seinasta Flúðabústaðinn og taldi mig góðan. Borga á morgun!

Í hádeginu spilaði ég fótbolta með vinnufélögunum. Mitt lið sigraði 9-8, og ég gerði tvö ljót mörk. Ökklinn ennþá til vandræða.

Þjóðverjinn hafði samband fljótlega eftir hádegi og var þá búinn að finna villur í hjálpinni og ég lofaði að fara í málið og lagfæra. Hélt svo áfram að þýða yfir á dönsku. Þegar ég lauk við það sem ég taldi auðveldlega viðráðanlegt fyrir mig voru eftir 39 línur af alls 246. Sáttur. Restina tók að sér manneskja sem vann mörg ár í Danaveldi við þetta en er nýkomin til okkar.

Síðan fór ég yfir tilkynningu frá markaðsstjóranum en tók svo til við að laga þetta sem Þjóðverjinn benti mér á. Frúin hringdi og var óvenjusnemma komin frá London þannig að hún tók að sér að sækja afkvæmin og halda þeirra degi áfram. Mér gekk vel að lagfæra og þóttist langt kominn þegar vinnudegi lauk (kl.17.26). Um fjegur fór ég út í sjoppu og át pylsu og græddi kr. 410 í spilakassa. (Samtals í kr. 9570 gróða frá 1998). Eitthvað velti ég fyrir mér að kippa með heim rauðvínspottinum sem ég vann að þessu sinni í vinnunni en frestaði því.

Familían var í karate með Snillingi þegar ég mætti í hús, þannig að ég kíkti aðeins á barnavagninn til að undirbúa afhendingu (sjá ofar). Síðan braut ég saman þvottinn á grindinni og gekk frá og setti uppþvott gærdagsins á sinn stað. Mitt fólk mætti um 18.30 og þá fékk ég samþykkt kvöldmatarplön mín (afgangar fyrir börnin og samlokur fyrir mig - frúin fékk sér salat enda á leið í saumaklúbb skömmu síðar). Óvíst hvort karate verður inni í myndinni framvegis, enda tíminn í dag seinni prufutími, og Snillingur horfði bara á. Jæja.

Matarkvartanir dagsins snerust um að ég fengi samlokur en þau spaghetti en bæði fengu bita hjá mér og málið dautt. Síðustu tvö kvöld hefur Snillingur fengið úthlutað tíma til að snæða og gengur maturinn fyrir bragðið mun betur í kappann. Fínt að gera matartímann að kappleik fyrir íþróttastráka. Að þessu sinni lauk hann borðhaldi á 24.45 mín. (sem var vel innan marka) en fékk að háma í sig tvær verðlaunabrauðsneiðar í uppbótartíma meðan hann lauk við heimaskrift. Undrið fékk í matartíma undanþágu til að spreyta sig á að skrifa nafnið sitt og gekk vel. Hún verður orðin skrifandi fyrir fjórða afmælisdaginn.

Meðan mæðgurnar fóru í sturtu gerðum við feðgar við laskaða smellu á barnavagninum og ég stakk skrúfjárni á bólakaf í vinstri löngutöng í atganginum. Þegar þarna var komið skall á háttatími og að þessu sinni var tvílestur: Mamma las Litlu bóndabæjarbókina í neðri koju og söng meðan við feðgar fræddumst um líffærin í kviðarholi í efri koju. Þar kom slysasaga af fótboltaleik nokkrum í Portúgal 1990 sterk inn þegar miltað bar á góma. Undrið sofnaði 20.30 en ég söng nokkra slagara fyrir Snilling eftir að mamma fór í saumó. Nýtt uppáhaldslag hans er Sjö litlar mýs!

Ég skutlaði vagninum síðan út í bíl og vaskaði svo upp. (Lúxus að hafa aftur heitt vatn í eldhúsvaski). Í tilefni þess að hreindýraveiðitíma lauk í gær ákvað ég að þrífa baðherbergið en skutlaði í þvottavél fyrst. Ekkert í varpinu og því tilvalið að ryksuga, og þá kom frúin heim enda að fara í flug í býtið. Stysti saumaklúbbur hennar á ferlinum. Ég settist við hljómborðið og gleymdi mér á meðan hún var hvarf í draumalandið. Ég gutlaði við rólega slagara í 75 mín. en þá var kominn tími til að lesa bloggrúntinn og Derbypóstinn. Inn á milli kíkti ég í vinnutölvuna og kom þvotti í þurrk.

Enginn dagur er dæmigerður hjá okkur, sem betur fer, en þessi var ágætur. Nóg að gera og allt gekk upp þannig lagað. Engin slæm tíðindi í fréttum og allt vitlaust hjá okkur Derbymönnum út af stjórninni...

miðvikudagur, september 14, 2005

Tattoo 

Ég veit hvaða mynd ég léti flúra á húðina ef ég væri þannig og líka hvaða persónulega númer ég fengi mér á drusluna. Mér finnst hins vegar nánast undantekningalaust húðflúr ljótt og núorðið er fátíðara að sjá gömlu númeraplöturnar á bílum en þessi persónulegu, þannig að druslan sker sig þanniglagað úr hvort sem er.

Nú um daginn sá ég viðtal við bílstjórann á flottasta leigubíl landsins. Þetta er Porsche Cayenne, aldeilis fínn jepplingur og nóg að gera - fólk lætur sig hafa allt að þriggja tíma bið um helgar eftir þessum tiltekna bíl. Athygli mína vakti hins vegar númerið á bílnum: ANUSIA. Fyrst varð ég steinhissa og hálfhneykslaður, en datt svo í hug að maðurinn væri með eitthvert statement gagnvart Skagamönnum í fótbolta. Þegar betur er að gáð er Anusia kvennafn í einhverjum löndum, e.t.v. Póllandi og víðar og hugsanlega á þessi maður dóttur eða konu sem heitir þetta. Svona getur maður verið fáfróður og tilbúinn til að hneykslast að óþörfu.

Hvernig stendur á því að yfirleitt þegar einhver tilkynnir að hann sé að hætta í einhverju kemur í ljós að það átti einmitt að fara að bjóða viðkomandi betri kjör á einn eða annan hátt?

Snillingur (6) átti mótmæli gærdagsins: „Af hverju þarf að vera fiskur í dag, það var kjöt í gær"!

Bendi að lokum á nýtt útlit kórsíðunnar minnar og nýjar myndir, ásamt reglulegum tíðindum af starfseminni.

mánudagur, september 12, 2005

Wok the wok 

Það er komið útburðarvæl í harða diskinn og aldrei að vita nema maður nái ekki fleiri færslum. Myndavélin fór í viðgerð í dag og eitthvað hlýtur að bila í viðbót.

Á leið heim úr vinnu heyrði ég í útvarpi að einhver var opinberlega að varpa fram hugmyndinni um uppþurrkun Skerjafjarðar og var sá víst ekki endilega að hugsa sér íbúðabyggð á botninum heldur útivistar- og íþróttasvæði, t.d. golfvelli og slíkt. Ég gekk ekki alveg svona langt með notkunina, en var nú búinn að stinga upp á þessu samt. Gott ef einhver pólitísk ungliðasamtök voru ekki með einhverjar svona hugmyndir líka.

Sem ég ók heim heyrði ég útvarpsmann fara ófögrum orðum um nýju Hringbraut og í því er hann mælir þau orð kemur fullorðin frú á japansdós brunandi á móti mér og annarri umferð á vesturleið. Ég vék sem aðrir og sá hvar henni tókst að koma sér inn á Rauðarárstíg giftursamlega... Þetta er ekkert grín fyrir suma að þurfa stundum að beygja í eina átt til þess að komast í hina o.s.frv.

Á títtnefndri heimleið nálgaðist ég nautakjöt því að í kvöld hófst sá merki áfangi að fjölskyldan fær framvegis að borða það sem viðkomandi kokki dettur í hug að elda, en ekki bara eitthvað af fimmréttaseðli þeim sem er lægsti samnefnarinn. Og í tilefni dagsins vígði ég wokpönnuna góðu með glimrandi afleiðingum sem allir gerðu sér að góðu.

Geta lesendur nefnt mér 1-2 lög sem væri gott og gagnlegt að kunna á nikku. Þar er ég að hugsa um einföld lög eins og t.d. Vals úr Guðföður, eða eitthvað alþekkt sem gæti gert sig á dragspil (lítið).

fimmtudagur, september 08, 2005

Allt á floti 

Aumingja Mogginn klúðraði einhverjum mesta fréttadegi sínum í seinni tíð með „bilun í prentsmiðju." Ég held ég fari nú nærri um að menn þar á bæ hafi hreinlega ekki vatni haldið af geðshræringu yfir Davíðsmálum og því hafi allt farið á flot í prentsal með þessum leiðu afleiðingum.

Þetta útspil karlsins gæti allt eins haft talsverð áhrif á stöðu mína hér í litla samfélaginu sem nú gengur víst undir heitinu Himnaríki eftir að Davíð var uppfærður úr tölu jarðneskra í gær. Hvað veit ég nema hann hafi alltaf dreymt um að dúlla sér við harmonikkuleik og muni eftirleiðis leiða söng og skemmtan á hverfishátíðum. Eitthvað sagðist hann ætla rækta sinn listræna garð ef ég hef tekið rétt eftir.

Ég brast í jákvæðnikast í gær og sá ljósa punkta alls staðar, meira að segja bensínhækkunin varð jákvæð. Nú er maður miklu sneggri að dæla á tankinn en nokkru sinni fyrr.

Verkskil hjá mér á morgun og mikið verður gaman að fá eitthvað annað að hugsa um og dreyma en aksjónir, djobb, obbdjekta, keyrslur og allt það flókna undraverk sem mínir menn smíða til afnota í verslunarrekstri. Þó er bót í máli að næsta verk hefst samstundis og það fyrra klárast.

mánudagur, september 05, 2005

Hvalræði 

Ég var að karpa við félaga minn af Derby-póstlistanum um hvalveiðar, enda ýmislegt sem ber á góma á þeim ágæta vettvangi. Alltaf gaman að fá fólk til að segja sér hvers vegna það er svona harðvítuglega á móti hvalveiðum. Jafnvel til þeir sem gamna sér við að veiða fisk og kvelja um stund, sleppa honum síðan á ný og endurtaka leikinn. Svo getur viðkomandi fól verið andsnúið hvalveiðum. Hvílíkt stuð.

Það var hverfishátíð sl. laugardag og að vanda birtist fulltrúi framkvæmdanefndar síðdegis og bað mig um að mæta með nikkuna skömmu síðar. Sennilega hef ég einu sinni opnað nikkutöskuna síðan á síðustu hátíð. Ég varð ekki var við pólitíkusa að þessu sinni, en þarna náði ég að spila fyrir Andreu eins og til að þakka fyrir allan sönginn hennar gegnum tíðina. Jú, og eitthvað vel á annað hundrað aðra grillgesti.

Verst að ég kann ekkert að spila nema helstu rútubílaslagarana í C, og fáein hefðbundin norræn nikkulög. Nú verð ég að setjast við og kynna mér í þaula keltneska músíkarfinn og læra að auki haug af frönskum slögurum frá 3. og 4. áratug sl. aldar. Með þetta í farteskinu væri garanterað að ég yrði aldrei beðinn aftur. „Farðu, sveiattan, burt."! Annars fínt framtak þessi hátíð alltaf hreint.

föstudagur, september 02, 2005

Varnamaðurinn 

Nei. Ég gleymdi ekki errinu.

Eitt margra hlutverka minna á lífsleiðinni var að vera almannavarnamaður. Þetta var um það bil sem ég hætti að vera alvöruvarnarmaður. Þá var ég kennari, búsettur í nágrenni skólans míns og þar með sæmilega til þess fallinn að sinna neyðarmóttöku í skólanum, t.d. ef upp kæmi eldgos á Suðurnesjum. Ég fór á námskeið, fékk skírteini og leiðbeiningamöppu, fínan útivistargalla og íþróttatösku. Aldrei kom til þess að á mig reyndi í hlutverkinu, en gallann hef ég notað vel og lengi, m.a. í hlutverki leiðsögumanns og jólasveins, og taskan er mesta þing. Í öðrum löndum hefði ég hugsanlega fengið riffil og hjálm til að teljast liðtækur almannavarnamaður.

Hörmungarnar í New Orleans nota sumir til að ráðast á tiltekna ráðamenn en þær hafa sannarlega afhjúpað bresti í samfélagi sem sumir vilja hafa að fyrirmynd. New Orleans er ekki dæmigerð borg í USA, 67% svartir, og 43% ólæsi, en rómuð fyrir gott mannlíf að mörgu leyti. Ekki þekki ég til neyðarvarna í Louisiana en að einhverju leyti fólust þær í því að fylkisstjórinn eggjaði mannskapinn til að særa fellibylinn burt með bænahaldi, en manni heyrist þetta aðallega hafa verið eitthvað á borð við: „Komið ykkur burt þið sem það getið." Og ekki gátu allir, áttu kannski ekki bíl eða peninga fyrir bensíni.

Aðalfréttirnar
núna snúast um gripdeildir og óöld, menn stelandi og skjótandi hist og her, og björgunarliðið komið með 007 réttindi - löggan hætt og farin. Minna fjallað um ástandið í hjálparstarfinu enda bæta menn böl þar sem víðar með því að benda á eitthvað annað. Þegar hægt er að sýna á öllum stöðvum einhverja krimma að nappa græjum eða vatni þarf ekki að velta fyrir sér hvert peningarnir fóru sem skornir voru af fjárveitingu til styrkingar varnargarða undanfarin ár, eða hvar þyrlurnar væru sem hefðu getað verið á hamfarasvæðunum NÚNA.

Jæja, ég sá að Bush hafði komist í golf í gær svo að þetta getur nú ekki verið eins slæmt og menn vilja meina eða hvað? Annars staðar las ég um að menn hefðu verið settir í að verja „GAP" og ég hélt að þar væri um að ræða eitthvert skarð í varnargarð, en það var þá fatabúðin góðkunna. Þingið þeirra er nú búið að lofa fjárveitingu til aðstoðar - jafnvirði tveggja vikna kostnaðar við úthaldið í Írak.

Ég er feginn að hafa aldrei þurft að standa grár fyrir járnum yfir einhverjum Sandgerðingi eða Kebblara í fjöldahjálparskýli. Hins vegar var það nú reyndar Grindvíkingur sem setti á mig þennan marblett þarna til á upphandleggnum sl. mánudag - örugglega minn fallegasti marblettur um árabil, svo fallegur raunar að ég gerði mér ferð til að gefa blóð svo að fleiri fengju að njóta. Listaverk.

Kettir 

Kúlívúlívú, Belladonna, Kisa, Litli karlinn, Friðfinnur og Kolfinnur. Þarna eru saman komnir aðalkettirnir í mínu lífi. Sá til vinstri er einmitt Litli karlinn, sem varð stærsti köttur og sennilega heimskasti sem ég átti með samleið.

Líklega hef ég aldrei haft frumkvæði að því að eignast kött og meirihluti ofangreindra hefur einfaldlega troðið sér inn á mann, annað hvort með því að mæta einn daginn og gerast heimilisfastur eða þá að þeir fylgdu með húsnæði. Ég er ákafur kattavinur.

Nú stend ég hins vegar í því að beita neitunarvaldi gegn því að fá kött á heimilið og má hafa mig allan við. Aðallega bendi ég á þá skuldbindingu sem fylgir því að halda kött eða gæludýr, óþrifnað og slíkt, en einnig að maður sé þá alltaf í tómu tjóni með gæslu/umsjón ef ætlunin er að fara af bæ.

Þegar Friðfinnur var á heimilinu fór ég eitt sinn burt í viku, og samdi við blaðburðardreng nokkurn (sem nú stjórnar sjónvarpsþáttum) um að gefa mat og drykk, en Friðfinnur hafði inn-/útgönguleið og stjórnaði sínum ferðum sjálfur. Þegar ég kom heim var kötturinn illa leikinn og blóðslettur á veggjum, enda höfðu greinilega hinir og þessir kettir uppgötvað matarkistuna sem var í boði. Friðfinnur var ekki mikill bógur í slagsmálum. Hann var mjálmlaus.

Iðulega endaði kattahaldið í mínu lífi með leiðindum, ótímabærum dauða vegna slysa eða annars, aðskilnaði vegna flutninga og þess háttar, og hugsanlega er þetta meginástæða tregðunnar. Er ég vondur gaur að standa svona gegn þessu?

fimmtudagur, september 01, 2005

Mávar og Litháar 

Jú, það er ekki nóg með að ofangreindir hópar rími heldur virðast þeir í sama þrepi virðingarstigans hjá tilteknum Íslendingum. Iss, hver er ekki sífellt að rekast á Litháa sem koma hingað til að halda framhjá og droppa við í Póllandi til að kaupa þungt sprútt til að lepja í rólegheitum með viðhaldinu. Ekkert óeðlilegt eða bogið við það, nei. „Víst", segir Jóhann sýsl, „og ég þarf ekki einu sinni að sanna það - þetta eru eintómir bófar og hyski."

Svolítið er ég hissa á því að ekki sé enn kominn á laggirnar íslenskur lagaflækjuþáttur fyrir sjónvarp. Við erum með týpurnar á fullu í kerfinu: Feðginin Örn Clausen og Guðrúnu Sesselju (smákrimmaverjur), Ragnar Aðal og Sigríði (andkerfisverjur), Svein Andra með Schäferinn og einhverja svo umdeilda dómaraskarfa - take your pick! Þetta er rakið.

Ragnar gæti tekið að sér að verja mávana. Gísli Marteinn er nefnilega að verða búinn að mála sig út í eitthvert málefnalegt horn gagnvart mér með því að vilja skjóta máva og setja flugvöll út á Löngusker. Annað sem ég hef heyrt frá honum er alltof almennt moð eitthvað: blabla börn, blabla strætó, bla jeppar - en raunar viðurkenni ég að nenna lítið að hlusta á manninn fyrir það hvað hann er leiðinlegur - afsakið. Karlinn ekki búinn að opna heimasíðu - ha! En svona tegundafordómar gagnvart fuglum eru ólíðandi. Að vilja ekki máva við Tjörnina! Það mætti eins banna norðaustanátt og koma upp meinvindaeyði.

Annars held ég að U.m.f. Ragnan ætli sér heimsyfirráð og hyggist byrja á Íslandi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?